Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mér sýnist á látbragði manna hér í deildinni að það sé hugmynd formanns fjh.- og viðskn. að reyna að setja einhver orð núna niður á pappír sem brtt. við 4. gr. Það er þó komið í ljós að hann hefur tekið mark á þeim ummælum sem ég viðhafði á síðasta fundi þó hann léti öðruvísi þá.
    Nú sætti ég mig illa við að lagatextinn sé saminn á einhverjum hlaupum í deildinni. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Ég óska eftir því að þetta mál sé tekið af dagskrá og ég óska eftir því að stjórnarandstaðan fái svigrúm til að skoða hinn nýja lagatexta varðandi ríkisábyrgðina. Sá texti var nokkuð óljós eins og hann kom áðan úr munni formanns fjh.- og viðskn. Ég náði alls ekki hvaða merkingu orðalagið hafði eins og mér fannst hann tala. Ég óska eftir því í fullkominni vinsemd að við fáum að vinna að þessu máli eðlilega. Það er ekki verið að tefja neitt.
    Það er kannski nauðsynlegt að fá hæstv. fjmrh. hér í deildina til þess að hann geti sagt sitt orð um það hvernig hann vilji standa að málinu. Ég held það sé alveg óhjákvæmilegt. Það var samkomulag um það á síðasta fundi að boðað yrði til fundar í fjh.- og viðskn. Þeim fundi mátti ekki fresta. Sá fundur átti að vera kl. 1 og þó var málið óundirbúið af meiri hl. nefndarinnar. Þeim stjórnarandstöðuþingmanni sem mætti var hálft í hvoru, ég vil segja misboðið með því að þetta var auðvitað gabbfundur.