Utandagskrárumræður í deildum
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson):
    Vegna þeirrar umræðu sem nú fer hér fram vill forseti taka fram eftirfarandi: Hann sagði í upphafi fundarins að það væri algjör undantekning að utandagskrárumræða færi fram í deildum þingsins, það tók hann mjög skýrt fram. Það var hins vegar svo að þegar hv. 2. þm. Reykv. ræddi við forseta í morgun og óskaði eftir þessari utandagskrárumræðu þá greindi hann forseta frá því að hann hefði rætt málið við hæstv. menntmrh. sem hefði samþykkt utandagskrárumræðuna. Hv. 2. þm. Reykv. færði mjög gild rök fyrir því að hann þyrfti að bera af sér sakir vegna upplýsinga sem fram hefðu komið í þessu tiltekna máli, upplýsinga sem mér skilst að hefðu átt að vera trúnaðarmál. Af þeim sökum taldi forseti eðlilegt að verða við þessari beiðni og biðst ekki afsökunar á því að hafa orðið við henni.
    Hins vegar mun forseti í framhaldi af þeirri þingskapaumræðu sem hér hefur farið fram og þeim óskum, sem fram hafa komið, fresta fundi nokkra stund, í tíu til fimmtán mínútur, ræða við forseta um það hvort hér sé hægt að boða þegar í stað til fundar í Sþ. og hefja þessa utandagskrárumræðu þar.