Utandagskrárumræður í deildum
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Það var aðeins út af því sem hér hefur komið fram í þessari þingskapaumræðu að menn hafa látið að því liggja að upplýsingar, trúnaðarskjöl og annað hafi farið frá fjvn. til fjölmiðla. Ég vil skýra frá því hér að þetta mál er tengt fjáraukalögum fyrir árið 1988. Nefndin hefur rætt það mál og óskað eftir þeim upplýsingum sem nefndarmenn töldu sig þurfa að hafa í höndum til að fjalla um frv. í smáatriðum. M.a. var þetta mál eitt af þeim. Hins vegar veit ég ekki til þess að nokkur nefndarmaður á undanförnum dögum og vikum hafi verið með þetta mál í fjölmiðlum eða afhent nein slík gögn, enda væri um trúnaðarbrot að ræða ef svo væri. En því miður vill það oft við brenna að þegar fjölmiðlar fá einhver gögn sem tengjast fjvn. þá er það fullyrt af mörgum um leið að þar með sé fjvn. að láta af hendi vinnugögn sem hún hefur undir höndum. Þetta er alrangt og ég fullyrði fyrir hönd nefndarinnar allrar að svo hefur ekki verið í sambandi við þetta mál.
    Ég vil aðeins láta þetta koma fram, herra forseti, til að bera sakir af fjárveitinganefndarmönnum sem eiga ekki að liggja undir slíku.