Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég hef á tilfinningunni að a.m.k. nokkrir viðstaddra þingmanna séu ekki alveg með það á hreinu um hvað er verið að greiða atkvæði. Frv. það sem hér er verið að greiða atkvæði um snýr að ekknasköttum ríkisstjórnarinnar sem voru á lagðir í fyrra. Frv. gerir ráð fyrir að breyta þeim, fella þá niður og hverfa með þá skattheimtu í sama horf og áður var.
    Þó það sé vissulega á sinn hátt rökrétt hjá meiri hl. fjh.- og viðskn. að vísa þessum ekknaskatti heim til föðurhúsanna, þ.e. til ríkisstjórnarinnar, þá eru þessi mál ekki komin í það horf að viðunandi sé. Þeim verður að breyta. Þess vegna segi ég nei við frávísunartillögunni.