Utandagskrárumræður í deildum
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson):
    Vegna þeirrar þingskapaumræðu sem hér varð áðan --- og hefði forseti gjarnan kosið að hv. 2. þm. Vestf. væri nú í salnum --- vill forseti geta þess að utandagskrárumræða í deildum er að öllu leyti eðlileg og heimil. Réttur þingmanna að þessu leyti er m.a. tryggður í 54. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins. Hyggst nú forseti lesa hana:
    ,,Heimilt er hverjum alþingismanni að bera upp sérhvert almennt mál í þeirri þingdeild sem hann á sæti í, ef hún leyfir það, og beiðast um það skýrslu ráðherra.``
    Forseti verður að líta svo til að beiðni hv. 2. þm. Reykv. hafi verið um munnlega skýrslu ráðherra í þessu máli. Þar með er það gulltryggt með stjórnarskrá lýðveldisins að umræða utan dagskrár var heimil og er heimil, þótt reynt hafi verið að koma í veg fyrir umræður í deildum. Það eru nýir siðir að koma í veg fyrir utandagskrárumræður í deildum með nýjum þingsköpum. Utandagskrárumræður hafa að mestum hluta til farið fram í Sþ. og vegna þeirra beiðna sem hér hafa komið fram frá hv. þingdeildarmönnum sem þátt tóku í þingskapaumræðunni um að öllum hv. þm. gefist kostur á að taka þátt í þessari umræðu hafa forsetar samþykkt að hér hefjist fundur í Sþ. kl. 3. En forseti Nd. hyggst hins vegar nýta tímann sem hann hefur og taka á dagskrá 4. dagskrármálið.