Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Hreggviður Jónsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að draga úr því að það mál sem nú er tekið til umræðu sé mikilsvert. Það má öllum ljóst vera að það hefur mikið fordæmisgildi og er auðvitað nauðsynlegt að ræða það.
    Hins vegar hafði ég farið fram á það við hæstv. forseta að tekið yrði til umræðu utan dagskrár málefni Byggingarsjóðs ríkisins, sem ekki er síður mikilvægt mál. Ég hefði talið eðlilegt að sú umræða færi fram á undan þeirri sem nú er fyrirhuguð því það er ekki síður mikilvægt fyrir þúsundir manna í landinu að rætt sé um Byggingarsjóð ríkisins. Hef ég því óskað eftir því við hæstv. forseta að sú umræða fari fram fyrst eða þá í síðasta lagi, eins og um var talað fyrst, kl. 2 á morgun.
    Það er auðvitað mjög mikilsvert að slík málefni séu ekki tekin fram fyrir í utandagskrárumræðu, þó það séu stærri þingflokkar sem biðja um það. Ég óska eftir því að tekið verði tillit til þess í þessu sambandi. Vænti ég nú svars hæstv. forseta.