Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Eins og fram kom á fundi í neðri deild hér fyrr í dag stóð til, og hv. forseti deildarinnar Árni Gunnarsson hafði fallist á það, að hér færi fram utandagskrárumræða að beiðni minni.
    Ég vil þakka honum fyrir góðar undirtektir. Ég dreg alls ekki í efa réttmæti úrskurðar hans um að slík umræða geti farið fram í deild. Það varð hins vegar að samkomulagi vegna athugasemda sem komu fram að þessar umræður færu fram í sameinuðu þingi. Ég vil líka þakka hæstv. forseta sameinaðs þings fyrir að hafa brugðist vel við því.
    Ég taldi að þessi umræða gæti ekki beðið. Tilefni þess að ég fer fram á hana í dag er sjónvarpsviðtal sem fram fór við hæstv. menntmrh. í gær þar sem hann var að gera grein fyrir þeim samningum sem hann hafði gert við Sturlu Kristjánsson, að vísu með atbeina fjmrh., og var inntur eftir þeim athugasemdum sem ríkislögmaður hefur gert við þennan samning.
    Fjvn. hefur að undanförnu, nokkuð langan tíma, kannað embættisfærslu hæstv. menntmrh., og reyndar hæstv. fjmrh. Beinist sú könnun að því hvaða heimildir liggi að baki þeirri ákvörðun hæstv. menntmrh. að ljúka máli Sturlu Kristjánssonar, fyrrv. fræðslustjóra í Norðurlandi eystra, með sérstökum samningi dagsettum 13. des. 1988. Í þeim samningi segir, með leyfi forseta:
    ,,Menntmrh. Svavar Gestsson og Sturla Kristjánsson, fyrrv. fræðslustjóri í Norðurlandi eystra, gera með sér eftirfarandi samkomulag:
    1. Menntmrh. sér til þess að áfrýjun dóms bæjarþings Reykjavíkur frá 8. apríl 1988 í máli Sturlu gegn fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs verði dregin til baka. Unað verði við þá niðurstöðu héraðsdóms að uppsögn Sturlu hafi verið ólögmæt.
    2. Með hliðsjón af 3. málsgr. 11. gr., sbr. 2. málsgr. 9. gr. laga nr. 38/1954 greiðir ráðherra Sturlu skaðabætur auk sérstakra miskabóta samtals að
fjárhæð 2,2 millj. kr. auk málskostnaðar að skaðlausu.
    3. Menntmrh. hefur í dag gefið Sturlu Kristjánssyni kost á að taka á ný við fyrra starfi sínu sem fræðslustjóri Norðurlands eystra, en þiggja að öðrum kosti styrk til námsdvalar erlendis í tvö ár. Styrkur þessi nemi fræðslustjóralaunum þann tíma. Sturla Kristjánsson þiggur hér með hinn síðari kost.
    4. Með samkomulagi þessu er deila málsaðila endanlega útkljáð með fullum sáttum. Skal Sturla í engu gjalda hennar í framtíðinni gagnvart ráðuneytinu og njóta trausts, sannmælis og fyllsta réttar í samræmi við embættisgengi við hugsanlega starfsumsókn á sviði fræðslumála í framtíðinni.``
    Undir samkomulagið rita Sturla Kristjánsson, Svavar Gestsson og Ólafur Ragnar Grímsson.
    Embætti ríkislögmanns hefur sérstaklega fjallað um þetta samkomulag að beiðni fjvn. Í bréfi sem hann hefur ritað fjvn., sem heitir Minnisblað til aðstoðarmanns fjmrh. frá embætti ríkislögmanns, og er ritað að beiðni fjvn., dags. 27. febr. 1990, er ítarlegur rökstuðningur fyrir áliti ríkislögmanns. Þar kemur fram

--- það er reyndar embætti hans sem þessa umsögn gefur, því það er annar lögmaður sem ritar undir þetta með honum --- að ríkislögmaður hafi verið kvaddur til viðræðna við fjmrh. í nóvember og desember 1988, þ.e. fyrir og eftir samningsgerð menntmrh. við Sturlu. Síðan segir orðrétt: ,,Í þeim viðræðum var varað við niðurfellingu áfrýjunar málsins og gagnrýnd þau málalok sem fólust í gerð samkomulags menntmrh. og Sturlu.`` Niðurstaðan í greinargerð ríkislögmanns, sem er samtals upp á sex þéttskrifaðar blaðsíður, er ótvíræð. Ég skal aðeins víkja að niðurstöðu embættisins. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Afstaða embættisins er sú að þær málalyktir sem fólust í samkomulagi menntmrh. og Sturlu Kristjánssonar frá 22. nóv. 1988 verði að teljast afar óheppilegar. Fyrir því má telja ýmsar ástæður. Þessar eru þó helstar:
    Í fyrsta lagi er það mat embættisins að með gerð þessa samkomulags hafi stjórnvöld gengið fram hjá niðurstöðu dómsvaldsins í landinu í ágreiningsmáli sem lögum samkvæmt hafði verið lagt til endanlegs úrskurðar þeirrar greinar ríkisvaldsins. Með umræddu samkomulagi er þannig ekki aðeins felld niður áfrýjun dómsins til Hæstaréttar, heldur er einnig þeirri niðurstöðu sem fólst í dómi bæjarþingsins breytt með ýmsum hætti.
    Með sáttagerðinni tekur menntmrh. með samþykki fjmrh. að sér að breyta niðurstöðu dóms bæjarþings Reykjavíkur. Dómi, sem að teknu tilliti til eigin sakar Sturlu gerði ráð fyrir bótum honum til handa að fjárhæð 900.000 kr. (1.406.420 kr. með vöxtum til 7. des. 1988), er breytt á þá lund að auk þess skuli greiddar svokallaðar sérstakar miskabætur, þannig að skaðabætur verði samtals 2,2 millj. kr. Því ákvæði dómsins sem gerði ráð fyrir málskostnaðargreiðslum til Sturlu að fjárhæð 180.000 kr. er enn fremur breytt í greiðslu málskostnaðar ,,að skaðlausu``.
    Í 3. tölul. samkomulagsins kemur enn fremur fram að menntmrh. hefur gefið Sturlu kost á að taka á ný við starfi fræðslustjóra en þiggja ella styrk til námsdvalar erlendis í tvö ár er nemi fræðslustjóralaunum þann tíma.
    Þá er í 4. tölul. samkomulagsins yfirlýsing menntmrn. er felur í sér að Sturla hafi verið leystur frá störfum án saka. Þar segir m.a. að hann skuli njóta trausts gagnvart ráðuneytinu og fyllsta réttar við starfsumsókn á sviði fræðslumála í framtíðinni.``
    Síðan er í 2. tölul. frekari rökstuðningur fyrir þessari niðurstöðu ríkislögmanns. Ég skal ekki tefja tímann með því að lesa það. En niðurstaða ríkislögmanns er alveg ótvíræð í þessu máli.
    Hæstv. menntmrh. kom fram í sjónvarpi í gærkvöldi í fréttatíma og var þar spurður um framgöngu sína í þessu máli og álit ríkislögmanns. En fréttamaðurinn hafði lesið helstu drætti úr áliti ríkislögmanns áður en viðtalið við Svavar Gestsson, hæstv. menntmrh., fór fram. Hæstv. menntmrh. sagði: ,,Sverrir Hermannsson rak Sturlu Kristjánsson með fyrirvaralausum og harkalegum hætti, eins og segir í dómi bæjarþings, á sínum tíma. Á það sjónarmið féllst

Birgir Ísl. Gunnarsson, menntmrh. á undan mér, með því að hann gerði tveggja ára samning við Sturlu Kristjánsson um fræðslustjóralaun full ásamt yfirtíð, þannig að það var greinilegt að Birgir var sammála því að framkoma Sverris var ruddaskapur. Niðurstaðan verður sú að ég treysti mér ekki til að ganga gegn þeim anda sem Birgir Ísleifur vann í. Og hann skrifaði Sturlu Kristjánssyni bréf 23. nóv. 1988 um þetta mál, sem þú hefur í höndum líka, þar sem hann staðfestir þetta samkomulag Sturlu um tveggja ára kaup. Þannig að ég vísa þessum ummælum hans Gunnlaugs Claessen ríkislögmanns, sem er enginn dómari í þessu landi, algerlega á bug.``
    Síðar í viðtalinu segir hæstv. menntmrh., þegar hann svarar eftirfarandi spurningu fréttamanns:
    ,,Hvað segir þú almennt um þessa niðurstöðu ríkislögmanns, vísar þú þessu áliti lögfræðingsins algerlega á bug, eða hvað?
    Svavar: Ég vísa því algerlega á bug. Ég tel enga ástæðu til þess að kippa sér upp við það vegna þess að hér hefur ekkert gerst annað en að ríkið borgar sínar sektir. Ríkið borgar þau laun sem Birgir var búinn að semja um við manninn og ríkið borgar manninum laun þann tíma sem málið er í dómi. Hér hafa engin undur gerst.``
    Í þessu viðtali er mjög hallað réttu máli svo ekki verður við það unað. Því er nauðsynlegt að ég geri grein fyrir mínum afskiptum af þessu máli.
    Fljótlega eftir að ég kom í menntmrn. réði ég, í samráði við fræðsluráð Norðurlands eystra, nýjan fræðslustjóra, Sigurð Hallmarsson, sem reyndist afar vel í því embætti. Lægði það vissulega þær öldur sem þarna voru enn á ferðinni. Þess var vissulega farið á leit að ég réði Sturlu aftur í embættið en ég hafnaði því. Jafnframt var það eindregin skoðun mín að dómur yrði að ganga í því máli sem þá var rekið fyrir bæjarþingi Reykjavíkur og Sturla Kristjánsson hafði höfðað gegn fjmrh. Hins vegar var ég mjög opinn fyrir eindregnum óskum ýmissa skólamanna fyrir norðan um að reynt yrði að nýta menntun Sturlu Kristjánssonar til annarra starfa í fræðslukerfinu. Eins og á stóð fannst mér það mannleg og eðlileg viðbrögð af minni hendi. Niðurstaðan var sú að Sturla tók að sér sérstakt verkefni fyrir ráðuneytið og Kennaraháskólann. Verkefnið fólst í því að kanna með hvaða hætti ákjósanlegt væri að standa að skipulagi og framkvæmd menntunar kennara samhliða starfi, einkum úti á landsbyggðinni. Þetta er brýnt og áhugavert verkefni sem áhugi hafði verið á í menntmrn. að hrinda af stað, og í Kennaraháskólanum líka, og hentaði vel Sturlu Kristjánssyni. Um þetta var undirritaður sérstakur samningur, dags. 1. okt. 1987, milli menntmrn., Kennaraháskóla Íslands og Sturlu Kristjánssonar. Launaflokkur var ákveðinn BHMR 145-7, sem er sambærilegur við lektorslaun við Kennaraháskóla Íslands. Að auki var umsamið að hann fengi greitt fyrir aukavinnu sem skyldi unnin vegna verkefnis síns sem næmi 40 stundum á mánuði. Þessi samningur átti að gilda í ár. Sem fræðslustjóri hafði Sturla verið í launaflokki 150-8 sem er mun

hærri flokkur og hafði haft fasta 35 tíma í eftirvinnu. Hann lækkaði því verulega í launum frá því að hann hafði verið fræðslustjóri og við það að taka við þessu nýja tímabundna verkefni.
    Dómur bæjarþings Reykjavíkur var kveðinn upp í þessu máli þann 8. apríl 1988. Þáv. hæstv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson tók ákvörðun um það að áfrýja þeim dómi til Hæstaréttar. Var það m.a. í samræmi við eindregið álit ríkislögmanns og tillögu hans. Ég var sammála þeirri niðurstöðu og taldi ekki annað koma til greina en að áfrýja. Hæstiréttur yrði að taka afstöðu til slíks grundvallardeilumáls.
    Þegar leið á haustið 1988 varð ljóst að enn væri ólokið störfum við það verkefni sem Sturla vann að. Ég féllst á að nauðsynlegt væri að hann gæti lokið því. Þess vegna ritaði ég honum svohljóðandi bréf þann 23. sept. 1988:
    ,,Með vísan til samtala yðar við menntamálaráðherra hefur menntamálaráðuneytið fallist á að framhald verði á rannsóknarverkefni um kennaramenntun í dreifbýli sem þér hafið unnið á vegum Kennaraháskóla Íslands frá 1. okt. 1987, sbr. samkomulag dags. sama dag. Er yður hér með boðið að vinna að ofangreindri rannsókn á næstu tveimur árum með sambærilegum
launakjörum og verið hefur. Ráðuneytið hefur ekkert við það að athuga að rannsóknarstarf yðar verði unnið við erlendan háskóla en um sérstakar greiðslur vegna námsdvalarinnar erlendis yrði ekki að ræða.``
    Stuttu síðar fór ríkisstjórnin frá og mínum afskiptum af þessu máli var þar með lokið.
    Af þessu sem ég hef hér rakið má sjá að því fer fjarri að hægt sé að skjóta sér á bak við mig þegar hæstv. menntmrh. reynir að verja sín eigin embættisafglöp. Raunar fór hann með vísvitandi ósannindi í sjónvarpsþætti í gærkvöldi vegna þess að hann hefur öll þessi gögn undir höndum sem ég hef hér rakið og lesið upp.
    Ég ætla að draga saman með örfáum orðum niðurstöður í þessu máli:
    1. Hæstv. menntmrh. og fjmrh. ákváðu að taka málið úr höndum Hæstaréttar þrátt fyrir eindregin andmæli ríkislögmanns. Ég hafði talið nauðsynlegt að dómur gengi í þessu máli.
    2. Hæstv. menntmrh. og fjmrh. ákváðu á sitt eindæmi að greiða sérstakar bætur til Sturlu að upphæð 2,2 millj. kr. Bæjarþing Reykjavíkur hafði dæmt honum 900 þús. kr. í bætur, sem með vöxtum þann 7. des. reiknuðust um 1,4 millj. kr. Þeir bættu því a.m.k. 800 þús. kr. ofan á hinar dæmdu bætur og það þótt niðurstaða í máli fyrir Hæstarétti lægi ekki enn fyrir og málið þar í fullum gangi. Ég taldi engar slíkar greiðslur koma til greina umfram dæmdar bætur.
    3. Hæstv. menntmrh. bauð Sturlu að taka aftur við sínu starfi sem fræðslustjóri. Ég hafði aldrei léð máls á því og tjáði Sturlu það á sínum tíma af fullri hreinskilni þannig að hann vissi fullkomlega minn hug í þessum efnum.
    4. Ég beitti mér fyrir því að Sturla var ráðinn til ákveðinna starfa, fyrst í eitt ár og síðan með

framlengingu í tvö ár. Launakjör voru mun lægri en laun fræðslustjórans. Hæstv. menntmrh. tók ákvörðun um að greiða Sturlu Kristjánssyni styrk til námsdvalar erlendis í tvö ár og skyldi styrkurinn nema fræðslustjóralaunum sem eru mun hærri laun en hér var um að ræða og áður hafði verið ákveðið.
    Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt að taka þetta mál hér upp strax í dag. Fjvn. mun auðvitað halda áfram rannsókn sinni og athugun á þessu máli og það mun koma hér til umræðu í heild þegar fjáraukalög fyrir árið 1988 verða afgreidd. Ég er þeirrar skoðunar að hér hafi átt sér stað stórfelld embættisafglöp hjá hæstv. menntmrh. með atbeina hæstv. fjmrh. Og auðvitað verður Alþingi að fjalla um það á hvern hátt bregðast skuli við því. Það mun væntanlega verða gert og fjvn. hlýtur að gera tillögu í þeim efnum þegar málið kemur hér til afgreiðslu frá henni. En það er ekki stórmannlegt, eins og hæstv. menntmrh. reyndi að gera í sjónvarpinu í gær, að skýla sér á bak við aðra í vörn fyrir sín eigin afglöp.