Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Í ræðu sinni vék hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson nokkuð ítarlega að þeirri álitsgerð sem ríkislögmaður sendi til fjvn. og afhent var fjölmiðlum í gær og fjallað um í sjónvarpi og útvarpi í gærkvöldi og blöðum í morgun. Af þessu tilefni er óhjákvæmilegt að ég lýsi hér í nokkru ástæðum þess að ég tók þá ákvörðun að það væri andstætt hagsmunum ríkisins að áfrýja málinu áfram til Hæstaréttar.
    Ég sannfærðist um það eftir ítarlega athugun á málinu að hagsmunum ríkissjóðs, hagsmunum ríkisins hvað snertir starfsmannahald og aga í fjármálum ríkisins væri ekki vel þjónað með því að áfrýja til Hæstaréttar. Mun ég gera nokkra grein fyrir þeim rökum hér.
    Sú ákvörðun mín helgaðist m.a. af því að þegar ég kom að þessu máli lágu fyrir ítarlegar upplýsingar úr ríkisreikningi fyrir árið 1986 þannig að hægt var að bera saman nákvæmlega hver var sök fræðslustjórans í Norðurlandi eystra samanborið við aðra embættismenn hjá ríkinu. Er rétt að minna á það hér, eins og kemur fram í greinargerð ríkislögmanns, að annað af tveimur meginatriðum sem þáv. menntmrh. Sverrir Hermannsson og síðan fjmrn. í málarekstrinum gaf fræðslustjóranum Sturlu Kristjánssyni að sök var að hann hefði farið fram úr heimildum í fjárlögum í eyðslu embættisins.
    Ég vil í upphafi minna á það, sem mér finnst sumir gleyma í þessum efnum, að þegar þetta mál komst á dagskrá og fræðslustjórinn var rekinn úr embætti voru fræðslustjórarnir ekki ríkisstarfsmenn í venjulegum skilningi þess orðs. Fræðslustjórarnir voru ráðnir af menntmrn. og hlutaðeigandi sveitarfélögum samkvæmt 14. gr. grunnskólalaganna og störfuðu í umboði sveitarfélaganna og menntmrn. Þeir voru sameiginlegir fulltrúar sveitarfélaga og ríkis. Það er auðvitað einn veigamikill þáttur í þessu máli að menntmrh. vék þessum sameiginlega fulltrúa sveitarfélaganna og ríkisins úr embætti án þess að hafa
um það nokkurt samráð við sveitarfélögin í viðkomandi umdæmi, þrátt fyrir það að hann mátti vita af gögnum í menntmrn. að fræðslustjórinn hafði starfað í mjög náinni samvinnu við sveitarstjórnarmenn í Norðurlandi eystra.
    Í álitsgerð ríkislögmanns sem birt var í gær kemur það skýrt fram eins og ég vék að að fyrsti meginþátturinn í málflutningi ríkisins gegn Sturlu Kristjánssyni var að hann hefði vísvitandi, eins og segir í greinargerð ríkislögmanns, haft fjárlög að engu. Með öðrum orðum að hann hefði farið í fjárgreiðslum sínum og rekstri fram úr heimildum fjárlaga. Og það kemur reyndar fram hvað eftir annað í málflutningi fyrir undirrétti að þetta er gert að öðru meginatriðinu og er reyndar það sem helst snýr að fjmrn. í þessum efnum. Hitt meginatriðið snýr að samskiptum fræðslustjórans við yfirmann sinn, menntmrh.
    Það er líka mikilvægt að menn átti sig á því að í

bæjarþingi Reykjavíkur, í undirrétti, féll dómur. Ríkisvaldið tapaði í úrskurði dómstólsins. Sá málflutningur sem ríkislögmaður hafði uppi fyrir hönd ríkisins fékk þann úrskurð af hálfu dómarans að ríkislögmaður tapaði málinu í undirrétti. Ríkislögmaður kom til fjmrn. eftir að dómur hafði fallið með þá niðurstöðu að það álit sem ríkislögmaður hafði fært fyrirrennara mínum um að málið yrði unnið í undirrétti, reyndist rangt. Ríkislögmaður reyndist hafa haft rangt fyrir sér í málinu. Það var sá veruleiki sem ráðherrann stóð frammi fyrir. Það er auðvitað skiljanlegt og eðlilegt að það hafi með nokkru snert viðhorf ríkislögmanns í þessu máli að hann tapaði málinu fyrir undirrétti.
    Sturla Kristjánsson vann málið á því dómstigi þar sem úrskurður féll. Og það er mjög fróðlegt fyrir hv. alþm. að kynna sér gögn dómsmálsins, málflutningsgögnin og niðurstöður dómsins í málinu. Vegna þess að niðurstaða dómsins er sú að sá sem er dæmdur í málinu er fyrrv. menntmrh. Sverrir Hermannsson. Það kemur skýrt fram í niðurstöðum dómsins að lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var ekki framfylgt af hálfu þáv. menntmrh. og menntmrn. Eða eins og segir á bls. 115 í niðurstöðum dómsins, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í ljósi þeirrar meginreglu að starfsmanni sé fyrst vikið úr stöðu um stundarsakir, að sakir þær sem bornar eru á stefnanda voru ekki nýtilkomnar og að stefnandi var ekki sakaður um refsivert atferli, þykir aðferð ráðherra við frávikningu stefnanda úr starfi fræðslustjóra Norðurlands eystra hafa verið of harkaleg og fyrirvaralaus og verður ekki talin lögmæt í skilningi laga nr. 38/1954.``
    Eða með öðrum orðum: Niðurstaða bæjarþingsins er alveg ótvíræð, aðgerðir ráðherrans í málinu voru ekki lögmætar. Og þess vegna úrskurðaði bæjarþing að Sturlu Kristjánssyni bæri réttur til fébóta úr ríkissjóði. Það er síðan ítarlega rakið hvernig þáv. menntmrh. og yfirmenn menntmrn. fóru rangt að í samskiptum sínum við Sturlu Kristjánsson. Á fyrri síðum í dómskjölum bæjarþings rekur dómari mjög rækilega hvernig hann telur þáv. menntmrh. og yfirmenn menntmrn. hafa farið rangt að í þessu máli.
    Þegar ég kynnti mér þessar niðurstöður dómsins fannst mér augljóst að aðdragandi þessa máls, þær röngu aðferðir sem þáv. menntmrh. og menntmrn. hafði beitt í samskiptum sínum við þennan embættismann væri ekki rétta málið
til þess að heyja prófmál fyrir Hæstarétti Íslands. Ef ríkisvaldið ætlaði sér að sækja til Hæstaréttar úrskurð, sem það gæti síðan byggt á varðandi aðhald, bæði í starfsmannahaldi og fjármálum ríkisins, þá væri nauðsynlegt að viðkomandi ráðherrar og viðkomandi yfirmenn ráðuneyta hefðu uppfyllt öll ákvæði og skilyrði laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna áður en embættismanninum var vikið úr starfi, en létu ekki hanka sig á því að hafa ekki uppfyllt nein af þessum skilyrðum, eins og fram kemur í dómi bæjarþings.
    Ef átti að leggja svo mikið upp úr úrskurði

Hæstaréttar í slíku agamáli gagnvart ríkiskerfinu í heild var það frumatriði að ráðherra og ráðuneyti hefðu undirbúið málið með þeim hætti að ekki væru neinir hnökrar á. Það var ekki gert í máli Sturlu Kristjánssonar, þvert á móti voru þessi lög brotin gagnvart embættismanninum, eins og skýrt kemur fram í gögnum bæjarþings Reykjavíkur. Þar að auki lét ég kanna hvernig umframútgjöld fræðslustjórans í Norðurlandi eystra væru í samanburði við aðra í ríkiskerfinu vegna þess að niðurstöður ríkisreikningsins fyrir 1986 lágu fyrir í aðgengilegu formi þegar ég kom í fjmrn. og hægt var að skoða málið í ljósi þess þó það væri ekki hægt á seinni hluta árs 1987 með jafnskýrum hætti. Sú athugun leiddi í ljós, eins og hæstv. menntmrh. nefndi hér, að ef borin eru saman fjárlögin og ríkisreikningurinn hvað snertir fræðslustjórana á landinu öllu reyndist fræðslustjórinn í Reykjavík fara meira umfram fjárlög, eða sem nemur 28,6%, en fræðslustjórinn í Norðurlandi eystra, Sturla Kristjánsson, sem fór 23,7%. Fræðslustjórinn í Reykjaneskjördæmi, nánast eins og fræðslustjórinn í Norðurlandi eystra, eða um 23,2% og fræðslustjórinn í Austurlandsumdæmi líka, 23,2%. Eða með öðrum orðum, það voru fjórir fræðslustjórar á árinu 1986 sem annaðhvort fóru jafnmikið eða meira fram úr fjárlögum en Sturla Kristjánsson.
    Og það er reyndar athyglisvert, eins og fram kemur á því súluriti sem ég hef látið útbúa hér, að meðaltal umframgreiðsla fyrir árið 1987 frá fjárlögum og þar til kemur að endanlegri niðurstöðu í ríkisreikningi er nokkurn veginn nákvæmlega sama tala og hjá fræðslustjóranum í Norðurlandskjördæmi eystra, Sturlu Kristjánssyni, eða 23%. Eða með öðrum orðum, hann var nokkurn veginn á því meðaltali sem ríkti í öllu ríkiskerfinu fyrir árið 1986. Og ég spyr: Átti þá að víkja úr embætti öllum þeim mikla fjölda, sem nemur kannski hundruðum, forsvarsmanna ríkisstofnana og deilda hjá ríkinu sem voru á þessu meðaltali eða fóru meira fram úr?
    Það er reyndar fróðlegt að skoða hver var umframeyðsla ýmissa stofnana í dómstólakerfinu á þessu sama ári. Ríkissaksóknari fór t.d. 31,9% fram úr þegar Sturla Kristjánsson fór 23,7% fram úr. Og Hæstiréttur, sem átti að dæma Sturlu Kristjánsson fyrir að fara umfram fjárlagaheimildir, hafði sjálfur farið 40,1% fram úr fjárlagaheimildum á árinu 1986. Var þá álitlegt að byggja þá meginkröfu fyrir Hæstarétti að Sturla Kristjánsson skyldi dæmdur fyrir það að hafa farið 23,7% fram úr fjárlögum þegar sjálfur æðsti dómstóll landsins hafði farið 40,1% umfram fjárlög?
    Það má kannski geta þess hér, svona meira til gamans en að ég ætli að leggja út af því, að á þessu sama ári þegar Sturla Kristjánsson sem fræðslustjóri Norðurlandskjördæmis eystra fór 23,7% fram úr fjárlögum fór embætti ríkislögmanns 109% fram úr fjárlögum. Embætti ríkislögmanns fór fjórum sinnum meira fram úr fjárlögum en embætti fræðslustjórans í Norðurlandskjördæmi eystra. Engu að síður segir ríkislögmaður í áliti sínu til fjvn. að það hindri aga í fjárhagsstjórn ríkisins að Hæstiréttur skyldi ekki vera

látinn dæma Sturlu Kristjánsson fyrir að fara 23,7% fram úr fjárlögum.
    Alþingi sjálft, þingmönnum til fróðleiks, fór 19,2% fram úr fjárlögum á þessu sama ári.
    Það var mér þess vegna ljóst að þótt að það væri mjög slæmt að fræðslustjórinn í Norðurlandskjördæmi eystra færi fram úr fjárlögum, eins og það er yfirleitt og við erum að reyna að ráða bót á því með margvíslegri endurskipulagningu í ríkisrekstrinum, þá var hann þar í hópi fjölmargra starfsmanna ríkisins, þar sem helmingurinn af öðrum fræðslustjórum sat við sama borð og hann. Og það sem meira var, sumir af stjórnendum æðstu réttarfarsstofnananna í landinu höfðu farið meira fram úr fjárlögum en fræðslustjórinn.
    Í ljósi þessara talna og í ljósi þeirra raka sem komu fram í niðurstöðum dómsins í undirrétti taldi ég það mikla vogun fyrir ríkið að áfrýja málinu til Hæstaréttar, máli sem ríkislögmaður hafði tapað í undirrétti, í þeirri trú að málið kynni að vinnast fyrir Hæstarétti. Ríkislögmaður hafði því miður reynst hafa rangt fyrir sér varðandi niðurstöður undirréttar og ég mat það þannig að ekki væru svo yfirgnæfandi líkur á því að hann hefði þá rétt fyrir sér varðandi Hæstarétt að rétt væri að áfrýja málinu, sérstaklega í ljósi þess að það var borðleggjandi að í þeim málarekstri yrði, fyrst niðurstöðurnar úr ríkisreikningi 1986 lágu fyrir þegar sá málflutningur færi fram, raktar mjög
ítarlega, hvernig stór hluti ríkiskerfisins, þar á meðal dómstólarnir í landinu að meðtöldum æðsta dómstólnum, höfðu farið mun meira fram úr fjárlögum en fræðslustjórinn í Norðurlandskjördæmi eystra.
    Þess vegna tók ég þá ákvörðun í þágu hagsmuna ríkisins að áfrýja ekki til Hæstaréttar.
    Sturla Kristjánsson hefði hins vegar vel getað áfrýjað til Hæstaréttar. ( Gripið fram í: Málinu hafði verið áfrýjað og var fyrir Hæstarétti.) Nei, málið hafði ekki verið tekið fyrir í Hæstarétti, það var búið að ákveða að áfrýja því. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt, það var búið að ákveða að áfrýja málinu til Hæstaréttar, það er auðvitað alveg rétt, en sá málflutningur hafði ekki farið fram í réttinum, rétturinn hafði ekki tekið til starfa og það er bara útúrsnúningur hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, ef hann heldur að það, að formlega hafði réttinum verið tilkynnt að þáv. fjmrh. ætlaði að áfrýja málinu, hindraði það að ég gæti sem fjmrh. ákveðið að hætta við þá málsókn. M.a. vegna þess, eins og hæstv. menntmrh. vék hér að áðan, að fyrsta grundvallarreglan í íslensku réttarfari er að leita sátta. Ég taldi það þjóna hagsmunum ríkisins betur í þessu máli ef hægt væri að finna sættir. Ef forsvarsmenn ríkisins vilja láta á það reyna fyrir æðsta dómstóli landsins hvort ráðherra eða ráðuneyti hefur rétt til að víkja embættismanni eða öðrum starfsmanni ríkisins úr starfi er frumskylda að í aðdraganda þess máls hafi verið viðhafðar réttar aðferðir. Það var ekki gert gagnvart Sturlu Kristjánssyni. Það kemur skýrt og afdráttarlaust fram í þessari lýsingu undirréttar á

aðdraganda málsins sem hv. þm. geta kynnt sér. Þess vegna var það að mínum dómi röng ákvörðun og rangt mat hjá ríkislögmanni að ætla að sækja til Hæstaréttar það sem tapaðist í undirrétti.
    Ég tel þess vegna mjög nauðsynlegt að hv. þm. geri sér grein fyrir því að dómur hafði fallið í þessu máli, í því máli hafði Sturla Kristjánsson unnið, ríkisvaldið tapað og málflutningur ríkislögmanns ekki fengið náð fyrir þeim dómi.
    Í öðru lagi var orðið ljóst af ítarlegri skoðun á ríkisreikningi fyrir árið 1986 að því fór víðs fjarri að Sturla Kristjánsson skæri sig nokkuð úr hvað snerti umframútgjöld samanborið við aðra fræðslustjóra eða önnur embætti í landinu. Þess vegna var það mjög hæpið að fara að gera mál Sturlu Kristjánssonar að afdrifaríku prófmáli fyrir Hæstarétti Íslands.