Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Tilefni þessarar umræðu utan dagskrár í dag er, eins og fram hefur komið, þau ummæli sem hæstv. menntmrh. viðhafði í fréttatíma sjónvarpsins í gærkvöldi þar sem hann varði ákvarðanir sínar og hæstv. fjmrh. varðandi mál Sturlu Kristjánssonar með því að þar væri gengið í slóð fyrrv. menntmrh., hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar. Rangfærslur hæstv. ráðherra í þessu viðtali voru með þeim hætti að hjá því varð ekki komist að vekja á þeim athygli hér í þessum umræðum. Í tengslum við þetta mál þykir mér rétt að komi hér fram að innan fjvn. hefur formaður fjvn., hv. 5. þm. Vestf. sem hér er því miður ekki viðstaddur, lýst því hvað eftir annað á fundum um meira en eins árs skeið að hann hefði óskað eftir greinargerð frá fjmrn. þar sem fram kæmi álit ríkislögmanns á þessu máli. Formaður fjvn. hefur skýrt frá því ítrekað á fundum að með ólíkindalegum hætti hefði þessi ósk hans til hæstv. fjmrh. verið hunsuð. Það kemur síðan fram í þeirri greinargerð sem loks er send fjvn. með bréfi þann 6. mars sl. að ríkislögmaður hafði sent hæstv. fjmrh. greinargerð um þetta mál þann 19. maí sl. Þá greinargerð hefur fjvn. ekki enn fengið. Það er vitnað til hluta af þeirri greinargerð í minnisblaði ríkislögmanns sem hér liggur fyrir og er nú komið í hendur fjölmiðla. En hina fyrri og eiginlegu greinargerð lögmannsins til fjmrh. hefur fjvn. ekki séð enn þann dag í dag.
    Hér sagði hæstv. fjmrh. í umræðum um þingsköp að sjálfsagt væri að birta öll gögn þessa máls. Ég leyfi mér því að óska eftir því að þessi greinargerð ríkislögmanns, sem send er hæstv. fjmrh. þann 19. maí sl., verði einnig send til fjvn.
    Fjvn. hefur þetta mál til meðferðar í tengslum við fjáraukalög 1988, vegna þess að þar kemur fram aukafjárveiting sem er til þess að fullnægja fjárhagslegum hluta þess samkomulags sem gert var við Sturlu Kristjánsson
undir lok árs 1988. Og það hafði verið sammæli með okkur fjárveitinganefndarmönnum, bæði í meiri hl. og minni hl., og ég tala hér að sjálfsögðu sem minnihlutamaður í nefndinni, að láta ekki þessi gögn af hendi við fjölmiðla fyrr en málið hefði fengið afgreiðslu í nefndinni. Eftir að afgreiðsla nefndarinnar lægi fyrir hér á hv. Alþingi væru þessi gögn engum leyndarmál og væru að sjálfsögðu til birtingar. Því miður hafa þessi gögn eigi að síður farið út og viðbrögð voru með þeim hætti sem fram komu af hálfu hæstv. menntmrh. í gærkvöldi og eru tilefni þessarar umræðu.
    Um þetta mál má auðvitað margt segja. Það er hægt að skipta þessu máli Sturlu Kristjánssonar að minnsta kosti í þrennt. Í fyrsta lagi brottvikningu hans úr starfi og þau mál sem því tengjast. Í öðru lagi meðferð dómstóla á þessu máli, þ.e. bæjarþings Reykjavíkur. Og í þriðja lagi ákvörðun hæstv. núv. menntmrh. og fjmrh. um að taka þetta mál út úr Hæstarétti og gera um það sérstakt samkomulag við Sturlu Kristjánsson. Það er sá þáttur málsins sem hér

er til umræðu.
    Um fyrsta þátt málsins ætla ég ekki að segja neitt og ekki gerast dómari í máli Sturlu Kristjánssonar eða þeim orsökum sem leiddu til brottvikningar hans. Það mál fór fyrir dómstóla og hefði betur gengið þá slóð til enda.
    Ef það er svo að Sturla Kristjánsson stæði svo vel að vígi í málinu að hann kynni að hafa verið sýknaður í Hæstarétti hafa hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. unnið skemmdarverk gegn þessum manni. Hann hefur þá ekki lengur færi á því að hreinsa mannorð sitt fyrir dómstólum. ( Menntmrh.: Sýknaður af hverju?) Sýknaður vegna þess að málinu hafði verið áfrýjað til Hæstaréttar. Það var að vísu í undirrétti fundið að málsmeðferð af hálfu fyrrv. menntmrh. en eigi að síður talið tilefni til að víkja Sturlu úr starfi um stundarsakir. Ég vil svo staðfesta að þetta mál var fyrir Hæstarétti. Samkvæmt því sem segir hér í skýrslu ríkislögmanns var það þingfest í Hæstarétti 3. okt. 1988, þannig að það eru engin tvímæli um að málið hafi verið komið til Hæstaréttar. Hæstv. fjmrh. talar um að það hafi verið andstætt hagsmunum ríkisins að áfrýja málinu áfram. Hvað er hæstv. ráðherra að tala um? Að áfrýja máli áfram, sem þegar hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, er þar til meðferðar og hefur þar verið þingfest. Svo kemur hæstv. ráðherra og segir hér: Það var andstætt einhverjum hagsmunum að áfrýja því áfram. Málið liggur þannig fyrir að þessir tveir hæstv. ráðherrar taka sig fram um það að taka mál þetta út úr dómstólum, út úr Hæstarétti. Niðurstaða bæjarþings liggur fyrir í dómi þeim sem gekk í málinu. Það er ekkert um það að villast að sá dómur liggur fyrir. En málið var komið til Hæstaréttar og það eru a.m.k. fá dæmi ef nokkur, að mál sem rekið er gegn ríkinu upphaflega og síðan áfrýjað til Hæstaréttar hafi verið tekið þaðan út af handhöfum framkvæmdarvaldsins meðan Hæstiréttur hefur málið til meðferðar. Ég hygg að þess séu a.m.k. fá dæmi ef nokkur, ég veit ekki um neitt.
    Það er svo aftur annað mál, að úr því að dómur bæjarþings Reykjavíkur var svo góður sem hæstv. fjmrh. vill hér láta í veðri vaka, að niðurstaða hans liggi fyrir, eins og hann sagði hér ítrekað í ræðu sinni og það er út af fyrir sig rétt, hvers vegna þurftu þá þessir hæstv. tveir ráðherrar að breyta niðurstöðu þess dóms? Úr því að Sturla Kristjánsson vann málið fyrir
bæjarþingi Reykjavíkur og sú niðurstaða liggur fyrir, hvers vegna þurftu þessir tveir hæstv. ráðherrar, hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh., að breyta niðurstöðu þess dóms í mörgum atriðum?
    Í fyrsta lagi var það gert, eins og hér var greinilega rakið í máli málshefjanda, með því að bætur sem greiddar yrðu úr ríkissjóði til Sturlu Kristjánssonar skyldu ekki vera 1.400.000 kr. heldur 2,2 millj. kr. Hvers vegna var þörf á þessu ef Sturla vann málið fyrir bæjarþingi Reykjavíkur og allt var í lagi af hans hálfu? Hvers vegna þurftu þá þessir tveir ráðherrar að ákveða það að greiða til viðbótar um 800.000 kr. úr ríkissjóði til Sturlu Kristjánssonar?

Hvers vegna þurftu þeir líka að breyta ákvæðum og niðurstöðu dóms bæjarþings Reykjavíkur um málskostnað þannig að í stað þess að hámark málskostnaðar sem Sturla Kristjánsson fengi greiddan úr ríkissjóði væri 180.000 kr. skyldi hann fá greiddan málskostnað að fullu? Hvers vegna þurfti það úr því að niðurstaða bæjarþings Reykjavíkur og dómur undirréttar var svo góður og þessum starfsmanni í vil? Og hvers vegna þurfti þá að breyta því, sem hæstv. fyrrv. menntmrh., hv. 2. þm. Reykv. Birgir Ísl. Gunnarsson, hafði gert til þess að lægja öldur og til þess að koma með mannlegum hætti fram við þennan starfsmann, að ráða hann til tiltekinna rannsóknarstarfa á þeim launum sem þar áttu við, þ.e. lektorslaunum við Kennaraháskóla Íslands, að breyta því yfir í mun hærri laun? ( Menntmrh.: Það hafði Birgir gert.) Það hafði Birgir ekki gert. ( Menntmrh.: 23. september.) ( BÍG: Það er ekki rétt.) Það er ekki rétt. Þú getur fengið orðið á eftir, hæstv. menntmrh. En niðurstaða málsins er sú að hæstv. menntmrh. breytir ákvörðunum fyrrv. menntmrh. um launagreiðslur og um starfskjör. Og Sturla Kristjánsson velur að fara á fræðslustjóralaunum í tvö ár til námsdvalar erlendis í stað þess að áður hafði hann verið ráðinn til rannsóknarstarfa við Kennaraháskóla Íslands á mun lægri launum, þ.e. lektorslaunum.
    Niðurstaða þessa máls er vitaskuld sú að þessir tveir hæstv. ráðherrar sætta sig ekki við niðurstöðu bæjarþings Reykjavíkur, þ.e. undirréttardóm. Þeir sætta sig ekki við það að málið gangi áfram fyrir Hæstarétti, þeir taka málið þaðan út þó það hafi þar verið þingfest og þeir breyta niðurstöðu undirréttardóms í mörgum greinum starfsmanninum í vil en íslenska ríkinu í óhag, þannig að það kostar veruleg útgjöld af hálfu ríkissjóðs. Og það má kannski leiða að því líkur vegna þess að þetta mál, sem snertir fjáraukalög fyrir 1988 og eru til meðferðar í fjvn., að það hefur dregist, ég ætla um hálfs mánaðar skeið, að taka það lagafrv. til afgreiðslu innan nefndarinnar vegna þess að það hefur ekki enn komið fram nein tillaga frá meiri hl. fjvn. um þetta mál. Og kannski er það vegna þess að það vefst fyrir hv. meiri hl. í fjvn. með hvaða hætti þeir skuli taka á málinu og er það ekkert undarlegt. Vegna þess að hér er farið fram af hálfu framkvæmdarvaldsins, hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh., með þeim hætti sem er a.m.k. óvenjulegt ef ekki einsdæmi og án allra heimilda eins og þeirra er vandi, frá Alþingi Íslendinga. ( Forseti: Leyfist forseta að spyrja hv. ræðumann hvort mikið sé eftir af ræðu hans? Hér eru enn fjórir hv. þm. á mælendaskrá og þessari umræðu hlýtur að ljúka kl. hálf fimm.)
    Ef virðulegur forseti hefði eigi tekið til máls væri ég þegar kominn úr ræðustólnum. Ég hef lokið ræðu minni, skýrt mína afstöðu og greint frá því hvernig þetta mál stendur innan fjvn. eftir því sem það er hægt.
    Ég endurtek það aðeins að mér þykir miður að þetta mál og þessi gögn skyldu fara fyrir fjölmiðla á meðan fjvn. er að starfi og er með það sem

vinnugögn í sínum höndum. Einhver hefur ekki haft nægilega biðlund og hlaupið með það í fjölmiðla á meðan nefndin er að starfi. Þetta segi ég alveg jafnt þó ég skipi nú minni hl. fjvn. eins og ef ég hefði verið í meiri hl. En að öðru leyti er ekkert frekar um málið að segja af minni hálfu eða það sem hæstv. ráðherrar voru að reyna að rekja hér áðan.