Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegur forseti. Ég skal takmarka mál mitt mjög. Hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur þegar gert grein fyrir hvar þetta mál er statt í fjvn. Ég vil taka undir þau orð hans að mér þykir mjög miður að það skuli hafa farið út í fjölmiðla áður en ákvarðanir hafa verið teknar um hvernig það skuli afgreitt.
    Það hefur verið fjallað hér um álit ríkislögmanns á þessu títtnefnda Sturlumáli, sem svo hefur verið nefnt. Ég verð að segja að ýmislegt er í umræddri álitsgerð sem má ýmist gagnrýna eða mótmæla. T.d. má nefna þar sem fjallað er um forstöðumenn ríkisstofnana en gagnvart þeim gat þetta mál aldrei orðið fordæmisgefandi vegna þess að fræðsluskrifstofur urðu ekki ríkisstofnanir fyrr en um síðustu áramót. Fræðslustjórar á þeim tíma sem brottvikning Sturlu átti sér stað voru einnig starfsmenn sveitarstjórna og heyrðu líka undir fræðsluráð og það er öllum kunnugt. Sú fullyrðing að Sturla hafi vísvitandi haft fjárlög að engu stenst engan veginn, um það er öllum kunnugt sem með honum unnu, bæði kennurum, skólastjórum og fræðsluráði. Og það er einnig staðreynd að fræðsluumdæmið Norðurland eystra fór ekki meira fram úr fjárlögum og í fjölmörgum tilfellum minna en önnur fræðsluumdæmi. Því til sönnunar hef ég hér þingskjal frá síðasta þingi sem ber númerið 1163. Það er svar fjmrh. við fsp. frá hv. þm. Júlíusi Sólnes, um fjárreiður fræðslustjóraembætta landsins 1983--1988. Á því yfirliti sést glögglega að fræðsluumdæmið Norðurland eystra fór fram úr fjárlögum, það gerðu öll fræðsluumdæmin meira og minna, og mörg miklu meira en Norðurland eystra. Og þá voru sannarlega nóg dæmi til þess að skapa fordæmi um refsingu forstöðumanna sem sýndu fjárlagaóhlýðni á þessum árum, ef vilji hefði verið fyrir hendi, eins og sést á þeim blöðum sem dreift er núna á þessum fundi. Það er dálítið athyglisvert að fjármálastjórn ríkisins er með þeim hætti að flestir eða allir eru sekir um að fara fram yfir fjárlög. Og ekki er hægt að taka á neinum einum
fyrir dómstóli því allir eru jafnsekir. Hvers konar fjárlagagerð er það sem við búum við þegar það er ekki hægt að fara eftir fjárlögunum hvorki hvað varðar rekstur né framkvæmdir? Það þykir sjálfsagður hlutur að farið sé meira og minna fram yfir þau. Það getur ekki verið að það teljist raunhæf fjárlög sem ekki er með nokkru móti hægt að standa við á neinum vettvangi.
    Mér sýnist líka bréf þáv. hæstv. menntmrh. Birgis Ísleifs frá 23. sept. 1988 og það tilboð sem í því felst, og núv. menntmrh. hefur ekki treyst sér til að falla frá, benda til þess að undir það sé tekið sem kemur fram í dómsorði bæjarþings Reykjavíkur, þ.e. að frávikning stefnanda úr starfi hafi verið of harkaleg og fyrirvaralaus og ekki talin lögmæt í skilningi laga nr. 38/1954. Hins vegar má deila um þá aðgerð sem hæstv. núv. ráðherrar, menntmrh. og fjmrh., hafa farið út í og á sér fá eða engin fordæmi, að opinbert mál sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar sé dregið til

baka. Það tiltæki hefur gert málið tortryggilegt í augum almennings og sú málsmeðferð þjónar ekki hagsmunum ríkisvaldsins og enn síður hagsmunum Sturlu Kristjánssonar.