Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég ætla aðeins með örfáum orðum að gera athugasemd við endurtekna fullyrðingu hæstv. fjmrh. um það að ríkislögmaður hafi haft rangt fyrir sér, eins og hann orðar það, og hafi tapað málinu. Það liggur hér fyrir að ríkislögmaður hefur komið að þessu máli með tvennum hætti, annars vegar með álitsgerð um málsmeðferð og hins vegar með málflutningsrökum fyrir dómi. Hann hefur lagt til við ráðherra að þeir greiði ekki úr ríkissjóði umfram það sem undirréttur kvað á um. Og ég hygg að það sé nokkuð langsótt að reyna að halda því fram að þar sé ranglega lagt til um málsmeðferð. Og ríkislögmaður leggur til að málinu sé áfrýjað og það er gert og hann leggur til að málið sé ekki tekið úr höndum Hæstaréttar. Og ég hygg að það séu fáir sem gerist skoðanabræður hæstv. fjmrh. um það að þar sé ranglega farið að eða ranglega gerðar tillögur um málsmeðferð.
    Ríkislögmaður ber fram málflutningsástæður sínar fyrir dómi. Þær eru að ákveðnum hluta viðurkenndar fyrir undirrétti, að öðrum hluta ekki. En við búum við það réttarkerfi að málum má áfrýja til æðra dómstigs og það er ekki fyrr en úrskurður Hæstaréttar liggur fyrir sem dómskerfið hefur kveðið upp úr um það hverjar af málsástæðum ríkislögmanns voru gildar og hverjar ekki. En hæstv. fjmrh. kaus að koma í veg fyrir að þessi niðurstaða fengist. Hann hafði eitthvað að fela, hann hafði einhverju að leyna. Hann vildi koma í veg fyrir að æðsta dómsvald landsins segði sitt um málsástæður ríkislögmanns. Það er auðvitað ástæða fyrir því hversu veikburða hann er hér í þessari umræðu í dag.