Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hefur beint til mín hér fsp. sem hann hefur gert rækilega grein fyrir og tengist reglugerðarbreytingu sem átti sér stað um miðjan febrúar sl. eftir allítarlegar athuganir á skipulagsbreytingum varðandi greiðsluþátttöku einstaklinga vegna lyfja- og læknishjálpar.
    Reglugerðir þær, sem tóku gildi 15. febr. sl. um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í læknishjálp og um greiðslu almannatrygginga í lyfjakostnaði, innibáru róttækar skipulagsbreytingar varðandi lyf og læknishjálp utan sjúkrahúsa. Meginmarkmiðið með þessum aðgerðum var í fyrsta lagi að tryggja fagleg samskipti milli heilsugæslulækna, heimilislækna og sérfræðinga. Í öðru lagi að meginreglan verði sú að samskipti sjúklings og læknis hefjist hjá heilsugæslulækni eða heimilislækni. Í þriðja lagi að samskiptum sjúklinga við heilsugæslu- og heimilislækna verði í auknum mæli beint inn á opnunartíma heilsugæslustöðva. Í fjórða lagi að sjúklingur greiði lægra gjald fyrir lyf ef ávísað er á ódýrasta lyf með sama virka efninu. Og í fimmta lagi að draga úr útgjöldum sjúkratrygginga.
    Nú eru reglugerðir þessar sex vikna gamlar og því nokkur reynsla komin á framkvæmd þeirra. Helstu umkvörtunarefni, sem ráðuneytinu hafa borist vegna þessara reglugerða, eru í fyrsta lagi að með sérstöku gjaldi á rannsóknir og röntgengreiningu, sem eru 300 kr. fyrir hverja komu og 100 kr. hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, hefur orðið nokkur hækkun á greiðslubyrði hjá þeim sem hafa langvinna sjúkdóma og þarfnast reglulegs eftirlits af hálfu sérfræðinga, eins og reyndar hv. fyrirspyrjandi rakti mjög ítarlega áðan. Aftur á móti er ekki mikið kvartað yfir hækkun á greiðslu fyrir hverja komu til sérfræðings á göngudeild, slysadeild og bráðamóttöku, þó að þar sé að vísu um verulega hækkun í prósentum að ræða, úr 630 kr. í 900 kr. Enda er sú hækkun, þegar yfir lengra tímabil er litið eða aftur til ársins 1984, mjög sambærileg við
hækkun framfærsluvísitölunnar á þessu sama tímabili. Hér er að vísu um mikla prósentuhækkun að ræða á þessum upphæðum nú en í sjálfu sér ekki breyting á formi, áður höfðu þessir einstaklingar þurft að greiða þetta gjald fyrir heimsókn til sérfræðingsins.
    Í öðru lagi berast kvartanir frá sjúkrahúsum um að framkvæmdin við innheimtu á rannsóknar- og röntgengjaldinu sé mjög erfið og kalli á aukinn mannafla við innheimtuna. Sum sjúkrahúsin halda því fram að tekjurnar af innheimtunni muni ekki standa undir kostnaði við innheimtuna. Þetta finnst mér að vísu með ólíkindum ef ekki er hægt að hafa það skipulag á varðandi eftirlit á stofnunum að hægt sé að koma þessu fyrir, en alla vega hefur þetta komið mjög fram í viðræðum við viðkomandi aðila.
    Komið hefur í ljós að innheimtan á rannsóknar- og röntgengjaldinu er mjög mismunandi eftir stofnunum. Það hefur leitt til þess að kostnaður einstaklinga

verður mismunandi eftir því hvaða göngudeildir eða hvaða sjúkrahús þeir sækja.
    Í þriðja lagi hafa borist kvartanir frá Læknafélagi Reykjavíkur yfir framkvæmdinni á innheimtu göngudeildargjaldsins, rannsóknar- og röntgengjaldsins á sjúkrahúsunum. Sum sjúkrahúsin innheimta ekki göngudeildargjaldið á einstökum deildum sjúkrahúsanna. Í bréfi sem ráðuneytinu hefur borist frá stjórn Læknafélagsins segir að stjórnin geti ekki fallist á að einstaka stofnanir eða deildir felli niður gjaldtöku þannig að sjúklingum með ákveðna sjúkdóma sé mismunað eftir því hvort þeir leita sérfræðihjálpar á göngudeild eða á stofu sérfræðings og áskilur stjórnin sér rétt til þess að grípa til viðeigandi aðgerða ef þetta verði ekki leiðrétt.
    Í þessari og síðustu viku hafa fulltrúar heilbrrn. haldið fundi með forstöðumönnum sjúkrahúsanna í Reykjavík, fulltrúum heimilislækna, einstökum sérfræðingum sem annast sjúklinga með langvinna sjúkdóma og þeim sérfræðingum sem ráðuneytið var í samvinnu við áður en reglugerðin var sett. Í ljósi þeirra viðræðna tel ég að um sé að ræða tvær leiðir sem koma til greina til þess að draga úr greiðslubyrði þeirra sjúklinga sem oft þurfa að leita læknis án þess að hverfa frá þeim meginmarkmiðum sem skipulagsbreytingarnar áttu að ná fram.
    Í fyrsta lagi er að setja almennt þak á greiðslur líkt og gert er fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, en þar er ákveðið þak eftir að þeir hafa greitt ákveðna upphæð innan almanaksársins, þ.e. að einstaklingur skuli aldrei greiða hærra en ákveðna upphæð á einu almanaksári fyrir sérfræðilæknishjálp, komu á göngudeild, slysadeild, bráðamótttökudeild og fyrir rannsóknir og röntgengreiningu. Allt verður þetta fellt þar inn undir.
    Í öðru lagi tel ég koma til greina að hætta innheimtu og greiðslum fyrir rannsóknir og röntgengreiningu, að falla frá því gjaldi sem tekið var upp sem nýtt gjald við reglugerðarsetninguna. Það mundi létta greiðslubyrði þeirra verulega sem þurfa á rannsóknum og röntgengreiningum að halda í tengslum við heimsóknir sínar á stofur sérfræðinga eða göngudeildir sjúkrahúsanna. Og eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda fer það mjög oft saman, kannski oftast, að menn þurfa að greiða í viðbót við 900 kr. fyrir annaðhvort rannsókn eða röntgengreiningu, kannski hvort tveggja, sem hækkar þá 900 kr. í 1200 eða 1500
kr. Það mundi einnig verða til þess að létta framkvæmdina á innheimtu þessa gjalds á sjúkrahúsunum. Með því yrði eitt samræmt gjald fyrir öll sjúkrahúsin og engin hætta á mismunun milli göngudeilda sjúkrahúsanna annars vegar og sérfræðilæknisstofa hins vegar.
    Næstu daga mun ákvörðun verða tekin um hvor þessara leiða verður valin. En áður en sú ákvörðun verður tekin munu fara fram um það frekari viðræður milli ráðuneytis og stjórnenda sjúkrahúsanna hvort ekki sé hægt að samræma gjaldið fyrir röntgen- og rannsóknir milli sjúkrahúsa og auðvelda framkvæmd

innheimtunnar. Eins og ég nefndi áðan finnst mér það nokkuð með ólíkindum ef ekki er hægt að koma því formi á. Það verður gert upp þessa dagana en því miður hefur ekki unnist tími til þess að ganga frá því endanlega í þessari viku.
    Herra forseti. Ég á aðeins eftir örfáar línur hér úr þessu svari. Að undanförnu hefur svokallaður ,,bestukaupalisti``, sem gefinn var út með reglugerðinni um greiðslur almannatrygginga í lyfjakostnaði, verið í endurskoðun. En á honum eiga að vera skráð ódýrustu lyf innan hvers lyfjaflokks með sama virka efninu. Ég tel rétt að nefna þetta aðeins vegna þess að auðvitað varðar þetta líka þessa sömu einstaklinga sem búa nú við hækkaða greiðslubyrði. Reglan er sú að ávísi læknar lyfi á ,,bestukaupalistanum`` þarf hinn sjúkratryggði að greiða 550 kr. fyrir hverja afgreiðslu, sem er óbreytt verð frá því sem verið hefur, en sé ávísað á lyf sem ekki er á listanum þarf hinn sjúkratryggði að greiða 750 kr. Með þessu var stefnt að því að fá lækna, lyfsala og lyfjanotendur til að taka höndum saman um að draga úr lyfjakostnaði. Þegar á framkvæmdina reyndi kom í ljós að nokkur lyf voru ekki á ,,bestukaupalistanum`` sem hefðu þó með réttu átt að vera þar, og voru sambærileg í verði og þau lyf sem á listanum voru. Því er nauðsynlegt að endurskoða listann með tilliti til þess og fer sú endurskoðun fram núna og mun taka gildi um næstu mánaðamót.