Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Aðeins örstutt og rétt til þess að undirstrika það eins og hér kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda áðan. Auðvitað var verið að gera kerfisbreytingar sem áttu að færa til áherslu í heilbrigðisþjónustunni. Hv. fyrirspyrjandi rakti það að þegar tilvísunarskyldan var felld niður hafi aðsókn og aðgengi sjúklinga færst mjög til og við a.m.k. álitið það í heilbrrn., og ég hygg að sú skoðun sé nú reyndar miklu víðar og jafnvel meðal sérfræðinganna sjálfra, að sérfræðiþjónustan sé nú e.t.v. í einhverjum tilfellum ofnotuð og einhverjum tilfellum nýtt sem heimilislæknaþjónusta eða heilsugæsluþjónusta sem ætti frekar að sækja þangað. Það er m.a. það sem við erum að gera með þessum skipulagsbreytingum og því sem reglugerðin átti að ná fram og það er auðvitað með því verið að færa til greiðslubyrði, eins og hér kom fram einnig hjá hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur. Hún nefndi hugmynd um fríkort, sem við höfum líka verið að skoða. Það er einmitt spurningin hvaða leið á að fara til þess að ná þessum markmiðum ef sett verður þak. Ég segi nú ,,ef`` því þessi mál eru í skoðun enn þá og við munum líta nánar á það hvaða leiðir verða farnar og til hvaða aðgerða verður gripið. Það er auðvitað fyrir hendi form gagnvart öldruðum og öryrkjum. Það var að vísu miðað við ákveðinn komufjölda áður en núna höfum við sett ákveðna krónutölu inn í reglugerðina.
    Svo langar mig aðeins að nefna að lokum að það að veita ókeypis aðgang að heilsugæslunni er auðvitað hugsað þannig að þangað geti allir sótt, einnig þeir sem eru með langvinna sjúkdóma. Það var mikið rætt, bæði við sérfræðingana og heimilis- og heilsugæslulæknana, og þeir töldu að það væri mögulegt, a.m.k. fyrir hluta af einstaklingum með langvinna sjúkdóma, að sækja sína þjónustu að einhverju leyti til heilsugæslustöðva. Nú dettur mér ekki í hug að segja að það sé hægt eingöngu og að sjálfsögðu eru sumir sjúklingar þannig settir að þeir hafi ekki gagn af því að fara á heilsugæslustöð en vafalaust gætu einhverjir
þeirra létt á sinni greiðslubyrði með því að fara á heilsugæslustöð í staðinn fyrir að fara til sérfræðings og þá án þess að greiða nokkuð fyrir það. Svo að þegar talað er um að það sé bara verið að færa til kostnað frá þeim sem annars vegar þurfa sjaldan á læknishjálp að halda, koma á heilsugæslustöð kannski einu sinni, tvisvar á ári og gera þeirra þjónustu ókeypis en flytja allan þungann yfir á þá sem eru með langvinna sjúkdóma, þá mótmæli ég því. Og ég leyfi mér að fullyrða, eftir viðtöl við læknana sjálfa, að þeir telji að með því að nota heilsugæsluna einnig, ég segi einnig en að sjálfsögðu ekki alfarið, væri hægt að létta þessa greiðslubyrði og færa þannig til þungann.