Staða íslensks ullariðnaðar
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. spyr hvað ríkisstjórnin hyggist gera til að tryggja stöðu íslensks ullariðnaðar. Hann nefndi réttilega í inngangi sínum að spurningunni að vandann mætti rekja til breytinga sem urðu á starfskjörum útflutningsgreina almennt og ullariðnaðarins sérstaklega á árunum fram til 1988. Þess vegna tel ég ástæðu til að nefna að ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu fyrst og fremst stutt ullariðnaðinn með stefnu sinni að því leyti að búa iðnaðinum og öðrum greinum almenn rekstrarskilyrði sem geti risið undir viðunandi afkomu. Hún hefur beitt sér fyrir lækkun raungengis frá því haustið 1988 og er nú svo komið að raungengi íslensku krónunnar er 15--20% lægra en það var árið 1988. Í þessu felst að sjálfsögðu mjög mikil bót fyrir ullariðnaðinn eins og aðrar útflutnings- og samkeppnisgreinar. Það er áfram viðleitni stjórnarinnar að freista þess að skapa með almennum hætti rekstrarskilyrði fyrir ullariðnaðinn eins og aðrar greinar.
    Það var líka hárrétt hjá þingmanninum að vitna til þess, sem fram kemur í ágætri grein Gylfa Þ. Gíslasonar í Morgunblaðinu í gær, að það rís sambúðarvandi milli iðnaðar og sjávarútvegs þegar tekjur og skilyrði sjávarútvegsins sveiflast. Þar er líka annar sambúðarvandi, sem er af varanlegum toga, nefnilega sá að fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind, fiskstofnunum í hafinu í kringum landið er ekki greitt neitt gjald. Kæmi veiðigjald fyrir mundu starfsskilyrðin jafnast og auðveldara væri að tryggja hæfilega sambúð þessara mikilvægu greina. Um þetta er ég þingmanninum sammála og þakka honum fyrir að taka það hér fram til umræðunnar.
    Að öðru leyti vildi ég láta það koma fram að fyrir utan þessar almennu aðgerðir beitti ríkisstjórnin sér fyrir því haustið 1988 að veita ákveðnu fjárframlagi til ullariðnaðarins, 40 millj. kr. Helmingur fjárins kom til greiðslu 1988 en hinn helmingurinn 1989, að meiri hluta til í hlutfalli við
útflutning fyrirtækjanna, en nokkru fé var varið til markaðsátaks fyrir smærri útflytjendur. Á árinu 1989 voru líka veitt víkjandi lán að fjárhæð 82,5 millj. til sameiginlegs markaðsfyrirtækis Hildu hf. og Álafoss hf. í Bandaríkjunum eftir að markaðsfyrirtæki þessara aðila höfðu verið sameinuð. Þá var veitt sérstaklega víkjandi lán til Álafoss vegna markaðsstarfsemi í Evrópu að fjárhæð 27,5 millj. Þá var keypt af Álafossi Hekluhúsið á Akureyri fyrir tæpar 60 millj. Samtals er hér um að ræða fjárframlög eða eignayfirtöku, sem aflétti skuldum af þessum fyrirtækjum, um 209 millj. kr., þar af vegna endurskipulagningar Álafoss um 128 millj.
    Því miður reyndust þessar aðgerðir þrátt fyrir mjög batnandi almenn rekstrarskilyrði ekki nægja til þess að koma Álafossi á viðunandi grundvöll. Við glímum nú enn við þann vanda að rekstrarafkoma liðins árs var lakari en menn höfðu spáð og eignastaða fyrirtækisins er enn ótraust. Það er unnið að lausn þessa vanda, m.a. á vegum iðnrn., fjmrn. og forsrn. Þar hefur verið

bent á nokkra valkosti sem nú eru kannaðir í viðræðum við lánardrottna og við fyrirtækið sjálft, reyndar einnig við þau tvö bæjarfélög sem eiga mest undir því að viðgangur Álafoss sé góður, þ.e. Mosfellsbæ og Akureyri, og við verkalýðsfélögin sem þar eiga hlut að máli. Þetta er erfitt viðfangsefni, ekki síst af því að sá bati sem næst með hagræðingu og markaðssókn er seinn að koma fram. Hann kemur ekki fram fyrr en hálfu öðru ári eða tveimur eftir að menn hafa hafist handa. Vandinn er að tryggja fyrirtækinu starfsfé þar til árangurinn kemur í ljós.
    Ég ætla ekki að fullyrða um niðurstöðu í þessu efni en fullvissa þingmanninn um það að það er tekið á þessu máli af mikilli alvöru og niðurstöðu að vænta á næstunni.