Staða íslensks ullariðnaðar
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson):
    Hæstv. forseti. Þar sem iðnrh. kom með nýjan flöt á málinu sé ég mig knúinn til að segja hér örfá orð.
    Hann talar réttilega um það að spuninn, bandframleiðslan sé grundvöllurinn að þessu öllu og hann beri að tryggja. Þetta er rétt. En jafnmikilvægt og kannski enn þá mikilvægara, og það veit ég að hann skilur, er hinn endinn, þ.e. markaðssetningin. Og ég tel reyndar að eins og það er nauðsynlegt að við stöndum saman að öflugu fyrirtæki í grunninum, þ.e. spunanum og garnframleiðslunni, sé okkur jafnnauðsynlegt að öflug fyrirtæki, sem búa yfir mikilli reynslu og hefð, sjái um markaðssetninguna líka. Það væri því illa farið ef hluti af þessari lausn væri að dreifa þeim kröftum.