Fjárveitingar til Rannsóknasjóðs
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Í fsp. hv. 6. þm. Vesturl. var spurt um árin til og með 1989. Miðað við þann tíma er samdráttur í framlögum til Rannsóknasjóðs 29,9%.
    Í fréttatilkynningu Rannsóknaráðs ríkisins, sem hv. þm. vitnaði til í seinni ræðu sinni og ég vissi ekki að væri undirstaða fsp. ( DS: Hún var það ekki.) Var það ekki --- en í fréttatilkynningu sem hv. 6. þm. Vesturl. vitnaði í er hins vegar miðað við árið 1990. Ef það er gert er samdráttartalan í raunframlögum til Rannsóknasjóðs 38,8%, ef ég man rétt.
    Ég vil loks taka undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. að það nægir ekki til að átta sig á heildarstöðu rannsókna-, þróunar- og vísindastarfsemi í landinu að einblína á Rannsóknaráð ríkisins og Rannsóknasjóð. Þar verður að líta mikið víðar. Það er eitt af verkefnum þeirrar samstarfsnefndar sem núna fjallar um vísinda- og tæknistefnu Íslendinga að fara betur yfir talnagrunn vísindarannsókna og þróunarstarfsemi hér á landi vegna þess að það eru margir fleiri aðilar sem þarna koma við sögu en Rannsóknaráð og Rannsóknasjóður. Það er t.d. Háskóli Íslands, fjölmargar rannsóknastofnanir á vegum hins opinbera og það eru loks fyrirtækin í landinu sem hafa í mjög vaxandi mæli komið inn með fjármuni til rannsókna- og þróunarverkefna sem ekki var sinnt áður.