Rannsóknir og vísindastarfsemi
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Fyrst er spurt: ,,Hve margt starfsfólk í Stjórnarráðinu annast málefni er varða rannsóknir og vísindastarfsemi í þjóðfélaginu?`` Í öðru lagi: ,,Hve margt starfsfólk hefur slíkt hlutverk að meginviðfangsefni?``
    Svarið við þessum tveimur spurningum er þetta: Mörg ráðuneyta Stjórnarráðsins fara með yfirstjórn stofnana sem stunda vísindarannsóknir eða þróunarstörf. Þannig heyra t.d. rannsóknastofnanir atvinnuveganna undir fagráðuneyti hver á sínu sviði og rannsóknir eru stundaðar við ýmsar stofnanir sem falla undir heilbr.- og trmrn. og félmrn., svo dæmi séu tekin. Jafnvel í ráðuneytum sem ekki hafa slíkar stofnanir á sínum snærum er fengist við mál sem mjög varða hag og skilyrði vísindastarfsemi. Dæmi slíks eru utanrrn. sem vinnur að gerð fjölþjóðlegra samninga um vísindasamstarf og Fjárlaga- og hagsýslustofnun sem fer höndum um fjárlagatillögur til hvers konar rannsóknastarfsemi á vegum ríkisins.
    Af þessu leiðir að fjölmargir starfsmenn víðs vegar um Stjórnarráðið koma með einhverjum hætti að málefnum sem varða rannsóknir og vísindastarfsemi í þjóðfélaginu. Jafnframt er mjög erfitt að ætla á um fjölda þeirra með nokkurri nákvæmni. Eðli málsins samkvæmt eru verkefni af þessu tagi fyrirferðarmest í menntmrn. þar sem flestar þær stofnanir sem fást við grunnrannsóknir, þar á meðal Háskóli Íslands, starfa á stjórnsýslusviði þess. Einnig eru þar Vísindaráð og Rannsóknaráð ríksins sem hafa miðlæga stöðu í heildarskipulagi vísinda- og rannsóknamála. Jafnvel í menntmrn. mundi þó torvelt að finna starfsfólk sem eingöngu fæst við mál er tengjast vísindarannsóknum. Málefni vísindastofnana falla einkum undir háskóla- og menningarmálaskrifstofu ráðuneytisins. Má með nokkrum rétti telja að einn starfsmaður hafi meginviðfangsefni sín á þessu sviði. Nefna má einnig að á skólamálaskrifstofu
menntmrn. er unnið að margvíslegum rannsóknar- og þróunarverkefnum sem sum hver tengjast rannsóknastarfsemi á sviði uppeldis- og kennslufræði. Ekki mun í öðrum ráðuneytum um að ræða starfsfólk er sinnir vísindatengdum málefnum sem meginviðfangsefni.
    Til þess að svara fsp. hv. 6. þm. Reykv. skrifaði ráðuneytið öllum ráðuneytum bréf hinn 16. mars 1990 og svör bárust frá þeim flestum eða öllum. Félmrn. svaraði með bréfi dags. 22. mars 1990 og þar segir: ,,Enginn starfsmaður hefur það verkefni eingöngu að annast málefni er varða rannsóknir og vísindastarfsemi í þjóðfélaginu. Það er hins vegar ljóst að í stofnunum sem heyra undir félmrn., sem er auðvitað sinnt í ráðuneytinu, fara fram rannsóknir og má þar nefna Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Vinnueftirlit ríkisins.``
    Iðnrn. svaraði með bréfi dags. 20. mars 1990 og þar segir að þrír starfsmenn hafi að litlum hluta tengst við aðila og stofnanir sem annast rannsóknir og vísindastarfsemi. Þær stofnanir sem nefndar eru eru

Orkustofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Iðntæknistofnun Íslands, Norræni iðnaðarsjóðurinn og EVREKA-verkefnið, sem er reyndar einnig sinnt í menntmrn. Og í því sambandi dettur mér í hug að skjóta því hér inn í að auðvitað eru sumir stjórnsýsluþættir þessa, eins og t.d. EVREKA-verkefnisins, annars staðar en í ráðuneytinu þó þeir gætu verið í ráðuneytinu. Rannsóknaráð ríkisins annast í raun og veru aðild okkar að EVREKA-verkefninu svo dæmi sé nefnt og það mætti nefna fleiri slík dæmi.
    Samgrn. svaraði með bréfi dags. 20. mars og telur í raun og veru ekki fram nein sérstök verkefni á sviði rannsókna- og vísindastarfsemi. Það er bersýnilegt að sum ráðuneytin hafa reyndar misskilið fyrirspurnina, eins og verið sé að spyrja um það hvort stundaðar séu rannsóknir og vísindastarfsemi í ráðuneytunum, mætti með miklum velvilja kannski til sanns vegar færa, en það er örugglega ekki meining hv. þm. að leita eftir slíku. ( GA: Þetta er alvarlegur misskilningur að mati hæstv. ráðherra.) Ja, þetta er alvarlegur misskilningur en pínulítið spaugilegur líka, ég verð að viðurkenna það.
    Hinn 21. mars svaraði iðnrn. þessari fsp. og segir að rannsóknir og vísindastarfsemi séu betur komin hjá öðrum stofnunum en viðskrn., svo ég nefni dæmi, ég vona að hæstv. iðnrh. hafi heyrt þetta svar. Já, ég nefndi þarna viðskrn. Og heilbr.- og trmrn. vitnar til þeirra stofnana sem það er auðvitað að sinna og margar sinna vísinda- og rannsóknarverkefnum.
    Fjárlaga- og hagsýslustofnun vitnar til þess að ráðuneytið hafi afskipti af mörgum rannsóknastofnunum í tengslum við fjárlagagerð.
    Utanrrn. vitnar til undirbúnings að samningum og samstarfi við erlend ríki og þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi á sviði rannsókna og vísinda. Reyndar fer utanrrn. aðeins með það starf að takmörkuðu leyti þar sem menntmrn. fer með UNESCO-málin sem vissulega eru þáttur í hinni almennu stefnu á þessu sviði. Okkur barst svar frá Hagstofu Íslands, sömuleiðis frá forsrn. og frá landbrn. og mun ég koma þessum svörum öllum til hv. þm. til fróðleiks og glöggvunar á svari við þessari fsp.
    Að lokum spyr hv. þm.: ,,Telur menntmrh. þörf á því að fjölga þeim sem sinna þessu mikilvæga hlutverki innan Stjórnarráðsins eða skipuleggja verksvið þeirra er nú annast þessi málefni þannig að þeim gefist meiri tími til verkefna sem varða rannsóknir og vísindastarfsemi?``
    Þegar svara á þriðja tölulið fsp. er þess fyrst að geta að efling vísindastofnananna sjálfra, bæði að mannafla og öðrum föngum, yrði væntanlega talin eiga að ganga fyrir fjölgun stjórnsýslustarfsmanna á þessu sviði. Sú hefur reyndar líka verið afstaða Alþingis. Alþingi hefur, að því er fjárveitingar varðar, lagt áherslu frekar á aðrar stofnanir en ráðuneytin sjálf í þessu efni. Ljóst er þó að miðað við núverandi aðstæður er störfum að stefnumörkun og skipulagsþróun í vísindamálum mjög þröngur stakkur skorinn í Stjórnarráðinu, m.a. í menntmrn. Hef ég þá

skoðun að mikilvægt sé að vinna að því að bæta þar úr eftir því sem unnt er án þess að heildarfjöldi starfsmanna aukist.
    Ég vil í þessu sambandi geta þess að við höfum unnið að viðamiklum skipulagsbreytingum í menntmrn. þar sem fjölmörgum skriffinnskuverkefnum hefur verið ýtt út af borði ráðuneytisins til þess fyrst og fremst að skapa svigrúm fyrir stefnumótunar- og þróunarvinnu af margvíslegum toga. Ég geri mér vonir um að þegar því ferli er lokið muni háskóla- og menningarmálaskrifstofan geta sinnt þessum málum, vísinda- og þróunarstarfsemi, mikið betur en hún hefur gert. Það er satt að segja ekki vansalaust hvernig þessi mál hafa verið rekin í ráðuneytinu á undanförnum árum, sem stafar auðvitað ekki af viljaleysi manna eða skilningsleysi, heldur því að það fólk sem þarna vinnur er yfirhlaðið daglegum verkefnum sem erfitt er að komast yfir.