Rannsóknir og vísindastarfsemi
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það hefur verið einkenni á íslenska stjórnkerfinu að menn hafa reynt að leysa verkefni úti í stofnunum frekar en að bæta við starfsmönnum í ráðuneytum. Þannig man ég t.d. eftir því þegar ég kom til starfa í Stjórnarráðinu fyrir nokkrum árum, í viðskrn., að þar var t.d. enginn starfsmaður sem sinnti bankamálum eingöngu. Það var litið svo á að það væri verkefni ráðuneytisins sem slíks. Bankamál komu auðvitað inn á borð margra embættismanna en enginn starfsmaður ráðuneytisins sinnti þeim eingöngu. Og það var lögð áhersla á að Seðlabankinn hefði þarna mikilvægu hlutverki að gegna. Menn geta svo deilt um það hvernig hann hefur rækt það, en þetta var stefnan, stjórnsýslustefnan.
    Það er alveg það sama að segja um vísinda- og rannsóknamálin, að auðvitað hefur menntmrn. á undanförnum árum lagt á það áherslu að koma sem mestu af þessum verkefnum af sér yfir á aðra, einnig stjórnsýsluverkefnum eins og kostur hefur verið. Þar nefni ég auðvitað Rannsóknaráð ríkisins. Þar nefni ég Háskóla Íslands. Þar nefni ég Vísindaráð og gæti talið upp fleiri slíkar stofnanir. Það er auðvitað ekki stefna ráðuneytisins að taka þessi verkefni inn í ráðuneytið í stórum stíl, eins og hv. 2. þm. Reykv. benti hér á áðan. Enda hygg ég að ekki hafi heldur falist í orðum hv. 6. þm. Reykv. að svo ætti að vera, að það ætti að fara að marka vísindastefnu í einstökum atriðum og stýra framkvæmd hennar í ráðuneytinu sjálfu. Þannig á auðvitað ekki að standa að hlutunum.
    Hitt er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv. að aðstæður ráðuneytisins til að sinna þessum stofnunum og verkefnum þeirra almennt hafa verið of veikar eins og menn þekkja. Í raun og veru má segja að aðstaða ráðuneytanna til að sinna stefnumörkun og þróunarverkefnum yfirleitt hefur verið ákaflega léleg. Þess
vegna höfum við farið í það í menntmrn. með skipulegum hætti að setja út úr ráðuneytinu skriffinnskuverkefni af margvíslegum toga, m.a. fyrir öll skólastigin, til að skapa aðstæður fyrir stefnumótunarvinnu ásamt þeim stofnunum og aðilum sem með viðkomandi mál hafa að gera á hverju sviði.