Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. beinir til mín fsp. í tveimur liðum. Fyrri spurningin er: ,,Hve háa fjárhæð þarf ríkissjóður að endurgreiða fyrirtækjum í iðnaði vegna uppsafnaðs söluskatts af framleiðslu síðasta árs umfram þá fjármuni sem ætlaðir voru til þess samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum á sl. ári?``
    Svar við þessari spurningu er: 170 millj. kr., samkvæmt þeirri áætlun sem iðnrn. hefur gert. Þá er við það miðað að iðnaðinum hafi verið ætlaðar 100 millj. kr. af þeim 390 millj. kr. sem ég hygg að hafi verið í fjáraukalögum 1989 til að mæta þessum þörfum. Ég hygg að það muni vera fjárhæðin fremur en sú sem hv. þm. nefndi í sínu máli. Það er náttúrlega svo, eins og þingheimi er vel kunnugt, að frá og með upptöku virðisaukaskattsins um síðustu áramót heyrir uppsöfnun söluskatts í aðfangakostnaði iðnfyrirtækja sögunni til. Þess vegna var ekki gert ráð fyrir því í fjárlögunum 1990 að veitt yrði fé til endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti í iðnaði.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að þegar lögin um jöfnunargjald voru sett árið 1978 var rætt um það, og í umræðum um málið og í athugasemdum með frv. mun hafa verið að því vikið, að endurgreiða skyldi af því fé söluskatt sem safnaðist upp í framleiðslu iðnaðarvöru. En ég vil benda hv. fyrirspyrjanda á það að í lögunum sjálfum eru ekki slík ákvæði heldur eingöngu um það að hluta af gjaldinu skuli varið til iðnþróunar, mig minnir að það sé í 5. gr. laganna, ég hef þau ekki við hendina. ( FrS: 3. gr.) 3. gr. laganna, þar er þetta ákvæði orðað á þessa leið nokkurn veginn.
    Það er svo rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að í fjárlögunum fyrir árið 1990 er gert ráð fyrir því að jöfnunargjaldið, sem nú er 5% á innfluttar iðnaðarvörur, falli niður frá miðju þessu ári, þótt ekki hafi verið um það flutt frv. Þetta tel ég að svari fyrri spurningu fyrirspyrjanda.
    Við síðari spurningunni, hvernig þeim 500 millj. kr. verði varið sem samkvæmt fjárlögunum innheimtast af jöfnunargjaldi á þessu ári, er svarið að þeim verður varið eins og áður hefur tíðkast, þ.e. þær renna allar í ríkissjóð. Það hefur jafnan verið svo.
    Á það má benda að ríkissjóður leggur fram fé til iðnþróunar undir ýmsum greinum á árinu 1990. Ég vil líka benda hv. þm. á það að sú fjárhæð sem ætluð var til endurgreiðslu söluskatts vegna framleiðslu 1989, á fjáraukalögunum 1989, hefði, miðað við hina fyrri framkvæmd, komið á fjárlögum 1990. Þetta tvennt vildi ég nefna. Það er rétt hjá hv. þm. og ég hef af því áhyggjur að þarna skortir nokkuð á að unnt sé að fylgja þeim reglum sem gilt hafa undanfarin ár hvað varðar endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts af útflutningi liðins árs. Við þær erfiðu aðstæður sem nú eru í ríkisfjármálunum verður varla hjá því komist að fresta niðurfellingu jöfnunargjaldsins nokkra mánuði enn til þess að afla fjár svo hægt sé að mæta endurgreiðslu sem ekki var fé til fyrir. Ég tel þetta vera í samræmi við lögin um jöfnunargjaldið og ég

hef lagt fram tillögu um þetta efni í ríkisstjórninni. Ég bendi á að það krefst í sjálfu sér ekki lagabreytinga að öðru leyti en því að það kynni að þurfa til að koma breyting á fjáraukalagafrv. sem er til meðferðar í hv. Alþingi, eða heimild í síðari fjáraukalögum á árinu.