Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja það skýrt að ég tel að afla þurfi fjár til þess að standa við þær reglur sem gilt hafa um endurgreiðslu söluskatts vegna útflutnings á árinu 1989. Enda hef ég, eins og fram kom áðan, lagt fram um það tillögu. Hitt er annað að ég er ekki samþykkur því sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, 1. þm. Reykv., að það mál þurfi að fá aðra meðferð en ég greindi frá hér áðan. Enda minnist ég þess ekki að nokkrum orðum hafi verið að því vikið þegar þetta mál var afgreitt hér við fjárlagaafgreiðsluna.
    Kjarni málsins er þessi: Ekki hefur verið lögð fram tillaga um breytingu á lögum um jöfnunargjaldið. Þau standa því óbreytt. Það er ekki lagaskylda að greiða af því fé, það er ekki binding, eins og hv. þm. er kunnugt, heldur hefur það jafnan verið gert með sjálfstæðum útgjaldaákvörðunum. Þess vegna er það sú eina ákvörðun sem taka þarf, að ákveða um útgjöld í því skyni sem efni standa til og menn skilja að búið hafi að baki jöfnunargjaldslögunum á sínum tíma.
    Hitt er svo annað mál að hér er ekki um það að ræða að menn hafi brotið á einhverjum eða einhverju eða brotið gert samkomulag eða skuldbindingar ríkisins. Við erum að fást við umþóttun frá einu skattkerfi til annars. Það er eðlilegt að upp komi mál eins og þetta þegar um það er að ræða. Við erum að hverfa frá söluskattskerfinu yfir til virðisaukaskattskerfis. Við ræðum nú tengsl okkar við viðskiptabandalögin í Evrópu á ýmsa lund. Það mun áreiðanlega ríkja á því skilningur að svona hlutir geti þurft nokkurn aðlögunartíma. Það er það sem við ræðum og við erum hér að bregðast við breyttum aðstæðum, nýjum upplýsingum. Að því er ekki minnkun, heldur þvert á móti eðlilegt og nauðsynlegt að taka þá á því máli eins og efni standa til.