Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég hygg að í janúarmánuði hafi hv. þm. Eiður Guðnason lagt fram fsp. hér á þingi til hæstv. dómsmrh. um húsnæðisvandamál lögreglunnar í Stykkishólmi. Þeirri fsp. var svarað á þann veg að þau vandamál yrðu leyst allsnarlega og fögnuðu þingmenn Vesturl. því. Skömmu síðar eða 10. febr. birtist frétt í Dagblaðinu þess eðlis að vandi lögreglunnar í Stykkishólmi yrði leystur með því að setja þar upp einingahús og í framhaldi af því lagði ég fram fsp. þann 22. febr. um hvaðan slíkt einingahús kæmi og fékk þá það svar frá hæstv. dómsmrh. að verið væri að kanna tilboð sem hefði borist frá einingahúsaverksmiðju á Selfossi. Þetta gagnrýndi ég þá, sérstaklega í ljósi þess að í Stykkishólmi eru tvær verksmiðjur sem framleiða einingahús en við þær hafði ekkert verið talað. Í þeirri umræðu lét hæstv. dómsmrh. eftirfarandi orð falla í lok ræðu sinnar, með leyfi forseta:
    ,,En hvaðan einingahús kæmi, ef sá kostur verður framkvæmanlegur, get ég ekki séð að skipti neinu meginmáli í þessu efni frekar en öðrum.``
    Það skiptir verulegu máli í mínum huga og ég hygg í huga þingmanna Vesturl. hvaðan slíkt hús kemur. Á Vesturlandi er, eins og víðar, atvinnuvandamál á ferðinni og þegar hæstv. dómsmrh. boðar það að hann sé að skoða þann möguleika að versla við einingahúsaframleiðanda annars staðar á landinu þegar tveir framleiðendur eru á staðnum, þá staldra þingmenn Vesturl. eðlilega við og mætti eins spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann mundi una því að við snerum dæminu við og einingahúsaframleiðendur í Stykkishólmi færu að framleiða hús fyrir hið opinbera sem sett yrði upp á Selfossi.
    Hæstv. dómsmrh. greindi frá því að það væri verið að skoða þau tilboð sem ég hef hér minnst á. Í framhaldi af því hef ég leyft mér að leggja fram fsp. í þremur liðum á þskj. 765 og orðast hún svo, með leyfi forseta:
,,1. Hefur fengist niðurstaða í húsnæðismál lögreglunnar í Stykkishólmi?
    2. Hvaða afgreiðslu hefur tilboð einingahúsaverksmiðju á Selfossi um bráðabirgðahúsnæði handa lögreglunni hlotið, sbr. svar ráðherra við fsp. á þskj. 595 22. febr. sl.?
    3. Hefur verið leitað tilboða frá öðrum húsaverksmiðjum í ,,færanlegt einingahús``, t.d. frá heimamönnum? Ef svo er ekki, hvers vegna?``