Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Aðeins til glöggvunar og til upprifjunar þessa máls sem hv. 2. þm. Vesturl. taldi auðleyst er rétt að minna á að vandamálið sem hér er um að ræða er allt frá 1983 svo að það er kannski ekki að furða þó að ekki hafi tekist að leysa það frá því það komst í þennan farveg í janúarmánuði sl. En þá hlýt ég að minna á að á fjárlögum þessa árs er ekki ein einasta króna til að leysa þetta mál og það er náttúrlega hluti í þessu efni. Hitt er það að þegar málið ber að með þessum hætti, eins og hér varð, er það fyrsta sem athugað er hvernig leigumarkaður í Stykkishólmi er. Það var leitað til bæjaryfirvalda, eins og kom fram í svari við fsp. líklega í febrúarmánuði sl. og utandagskrárumræðu sem varð í janúar um þetta efni, og það húsnæði sem þá stóð til boða reyndist ekki uppfylla þau skilyrði sem sett eru í þessu sambandi. Það hefur borist tilboð um hús til sölu í þessu sambandi sem ekki er hægt að leysa af þeim ástæðum sem hér eru augljóslega fyrir hendi. Þess vegna eru leigumálin eini kosturinn og þetta sem hér er sérstaklega til umræðu varðandi þessa fsp. er kostur sem verið er að athuga en hins vegar tekur þennan tíma. Ég skil mætavel óþol manna í því sambandi að ekki hefur tekist að leysa málið, en til þess að hægt sé að taka afstöðu til þessa tilboðs er óhjákvæmilegt að taka þennan tíma til athugunar eins og ég áðan gat um.