Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir að hér er um viðamikið mál að ræða og þau málefni sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á eru kannski ekki þau málefni sem ég hafði í huga í þessu tilfelli. Ástæðan fyrir þessari fsp. er mín eigin persónulega reynsla af samskiptum við RLR, bæði hvað varðar innbrot í fyrirtæki sem ég veit um og eins þjófnað sem ég hef orðið sjálfur fyrir. Ég hef bæði kallað Rannsóknarlögreglu ríkisins á staðinn þegar um innbrot hefur verið að ræða og ég hef farið upp í RLR og kært þjófnað í nokkur skipti, því miður. Í öllum tilfellum hefur ekkert verið gert í málinu, ekki nokkur skapaður hlutur. Það er tekin skýrsla. Málinu er að sjálfsögðu, eins og ráðherra gat um, vísað í tiltekna deild en síðan skeður ekki neitt. Það er ekki aflað neinna gagna. Það er ekki talað við kóng eða prest varðandi þessi mál. ( Gripið fram í: Hvað þá þjóf.) Hvað þá þjóf, og það þó að þetta væri fyrir þegnana í landinu. Þess vegna er kannski spurning og efni í næstu fsp.: Til hvers er yfir höfuð verið að ætlast til að fólk tilkynni um svona glæpi? Á fólk nokkuð að vera að kæra yfirleitt? Það er kannski meginspurningin. Það er boðskapurinn úti í þjóðfélagið: Verið ekkert að eyða tíma í það að fara inn í RLR og kæra svona brot. Það verður ekkert gert með þau. Þau eru sett í það sem kallað er salt. Ég hvet því hæstv. ráðherra til þess að líta á þessi mál. Þó ég geri mér grein fyrir að RLR sé fáliðuð þá nær þetta ekki nokkurri átt.