Snjómokstur á Siglufjarðarleið
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þá lipurð sem forseti hefur sýnt að hliðra til þannig að þessi fsp. megi koma fyrir á dagskránni núna. Ég skal reyna að vera fljótur þannig að málinu ljúki fljótt af.
    Siglufjörður er einn af snjóþyngstu stöðum á landinu. Snjórinn hefur háð íbúum Siglufjarðar alla tíð við að fara frjálsir ferða sinna og hefur skapað einangrun umfram aðra íbúa á Norðurlandi vestra. Siglufjarðarskarð var langa tíð eina samgönguæðin landleiðina en þar var um 630 m háan fjallveg að fara og kostaði jafnan níu mánaða einangrun fyrir íbúana og bifreiðakost þeirra. Þá fóru að sjálfsögðu allir helstu flutningar á aðföngum um sjó.
    Umræða var um tíma mikil meðal Siglfirðinga að fá jarðgöng úr Hólsdal beint inn í Fljót en þau göng hefðu orðið eitthvað á annan kílómetra. Það er til heiðurs minningu Aage Schiöth lyfsala að ég minnist á að það var heitt baráttumál hans sem bæjarfulltrúa og borgara að þessi göng yrðu að veruleika en hann talaði því miður fyrir daufum eyrum á þeim tíma. Mun styttri göng voru gerð í Strákafjallið og langur vegur lagður úr Fljótum um Almenninga sem er að mestu leyti í bæjarlandi Siglfirðinga að göngunum Skagafjarðarmegin. Þessi leið er afar snjóþung og örðug á tíðum en nú fara helstu flutningar með aðföng fyrir bæjarbúa um þá leið. Það er því viðkvæmt mál fyrir Siglfirðinga alla og sérstaklega þau atvinnufyrirtæki sem standa að þessum flutningum og þau atvinnufyrirtæki sem eru háð því að fá vörur og koma þeim frá sér ef snjóþyngsli há þeim og einhver tregða er á því að ryðja snjónum í burtu. Það getur því hugsanlega varðað þá spurningu hvort mörg þessara fyrirtækja fái þrifist.
    Á Siglufirði er eftirlitsmaður Vegagerðarinnar og mokstursmaður til staðar en þeir fá ekki að fara af stað með mokstur samkvæmt mati á aðstæðum sem þeir hafa fyrir augum sjálfir heldur verða að bíða fyrirmæla úr öðru byggðarlagi og maður er svo sendur þaðan til að moka. Það leiðir því til spurningarinnar: ,,Er það heppilegt fyrirkomulag að snjómokstursmaður þurfi að fara yfir 80 km leið frá Sauðárkróki í Fljót til að ryðja snjóþyngsta kaflann á svæðinu út á Siglufjörð?`` Og um leið: ,,Er það rétt að snjómokstursmaður á Siglufirði megi ekki hefja mokstursaðgerðir fyrr en byrjað er að ryðja úr Fljótum í átt til Siglufjarðar?``
    Eftirfarandi ályktun var samþykkt af bæjarráði þann 8. mars sl.:
    ,,Bæjarráð Siglufjarðar skorar á samgönguráðherra að beita sér nú þegar fyrir því að tekinn verði upp snjómokstur á leiðinni Siglufjörður--Fljót alla virka daga, enda er hér um að ræða eitt sameiginlegt þjónustusvæði, t.d. varðandi heilsugæslu og atvinnumál. Jafnframt ítrekar bæjarráð fyrri kröfur um að mokstrinum verði stjórnað frá Siglufirði og ruðningstæki verði staðsett þar. Siglfirðingar sætta sig ekki lengur við lakari þjónustu en önnur þéttbýlissveitarfélög á Norðurlandi vestra njóta í

þessum efnum.``
    Síðan var samþykkt mun harðorðari samþykkt í bæjarstjórn. Þetta leiðir til 3. spurningar sem varðar tækjakost og er um það hvers vegna snjóblásari sé ekki staðsettur á Siglufirði.
    Mokstursdagar hafa verið þrír en meiningin var svo að fækka þeim niður í tvo og það leiðir til 4. spurningar: ,,Hver er hugsanlegur sparnaður ríkisins með því að fækka mokstursdögum um einn á viku á leiðinni Fljót--Siglufjörður?``