Byggingarsjóður ríkisins
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Í síðustu viku barst svar frá félmrh. við fsp. minni um Byggingarsjóð ríkisins og þakka ég hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar. Þær upplýsingar sem þar komu fram eru skuggalegar. Það liggur ljóst fyrir af svari hæstv. félmrh. að 8636 umsóknir liggja enn þá óafgreiddar hjá Byggingarsjóði ríkisins og þau mál varða væntanlega um 25 þúsund manns. Þær upphæðir sem hér er um að tefla eru 21 milljarður. Það er ekki nokkur vafi á því að húsbyggjendur hafa miklar áhyggjur af þessu máli. Þeir bíða eftir því að þeir fái lán sín og hafa á meðan orðið að taka dýr lán í bankakerfinu með erfiða greiðslubyrði og sumir hafa jafnvel orðið gjaldþrota út af þeirri bið sem þeir hafa þurft að þola og aðrir eiga í miklum fjárhagslegum erfiðleikum.
    Húsnæðismálin hér minna frekar á ungverska rapsódíu en nokkuð annað og gæti það jafnast á við mál eins og þau eru og hafa verið afgreidd í þeim löndum þar sem menn verða að bíða eftir íbúðum árum saman og eru sumir horfnir af þessari jörð áður en þeir fá svar við því.
    Hrært hefur verið í núverandi húsnæðiskerfi með þeim hætti að mjög hefur verið gengið á rétt þeirra sem byggja sjálfir. Ég minni á að húsnæðisbæturnar hafa verið felldar niður og teknar upp vaxtabætur sem þeir sem byggja sjálfir hafa orðið að gjalda fyrir og þurfa nú að standa undir verulega auknum kostnaði í viðbót við það sem áður var þrátt fyrir það að þeir hafi lagt út í byggingar með það í huga að þeir fengju húsnæðisbætur eins og verið hafði um nokkurn tíma.
    Ég vil í þessu sambandi ítreka að húsnæðismál hér á Íslandi eru mun brýnni en nokkurs staðar annars staðar og sú sjálfseignastefna sem hefur verið í húsnæðismálum er einstök í sinni röð og hefur þýtt það að fólk hefur verið sjálfstæðara og óháðara stjórnvöldum. Nú er vegið að þessari stefnu með stefnu núverandi ríkisstjórnar í húsnæðismálum. Og það hlýtur að vera svo að þingmenn taki sig saman um að bæta úr þessum málum með tillögum hér á þingi og hjálpa ríkisstjórninni til þess að standa við loforð um húsnæðislán.
    Ég spyr hæstv. félmrh.: Hvað ætla hæstv. félmrh. og ríkisstjórn Íslands að gera í málefnum Byggingarsjóðs ríkisins? Hvers mega þeir 25 þúsund einstaklingar vænta sem áætla má að tilheyri þeim fjölskyldum sem bíða eftir svörum við þessum 8634 umsóknum um húsnæðislán? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í lánamálefnum þessa fólks? Hve mörg ár geta menn átt von á að bíða eftir húsnæðisláni? Eru það þrjú ár, eru það fimm ár eða eru það sjö ár? Að lokum: Hvað veldur því að hæstv. félmrh. er sífellt að mismuna fólki og taka fram yfir aðra í röðinni?