Byggingarsjóður ríkisins
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég frábið mér nú slíkan málflutning sem fram kom hér hjá hv. síðasta ræðumanni. Hvað meinar hv. ræðumaður með því að ég sé að taka fólk út úr biðröðinni? Ég óska bara eftir að hv. þm. skýri sitt mál. Það er ekki félmrh. sem úthlutar lánum úr Byggingarsjóði ríkisins. Það er Húsnæðisstofnun og húsnæðismálastjórn. Og ef þar er um einhverjar flýtingar á lánum að ræða, af hverju er það? Er þá ekki verið að taka fólk út úr biðraðakerfinu sem er í neyð að bíða eftir lánum af því að þarna raðar fólk sér í biðröðina sem ekki þarf á lánum að halda og tefur fyrir að þeir sem eru í neyð fái sín lán? Ég hef ekki nokkur einustu áhrif á það hvort þessar flýtingar eigi sér stað eða ekki. Þetta er fyrst og fremst málefni húsnæðismálastjórnar. Mér er kunnugt um að hún hefur í mjög sérstökum tilfellum breytt tímasetningum á afgreiðslu umsókna um lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Það hefur einkum verið gert þegar umsækjendur eða aðrir í fjölskyldu umsækjenda hafa átt við alvarleg veikindi að stríða og húsnæði umsækjenda hefur ekki hentað samkvæmt læknisvottorði. Ég aflaði mér upplýsinga um þetta fyrir stuttu þegar ég heyrði að slíkt væri eitthvað í gangi hjá húsnæðismálastjórn. Þetta var skýringin sem mér var gefin. Á þeim tíma sem þetta kerfi hefur verið í gangi er ég upplýst um að um 300 flýtingar hafi átt sér stað. En að segja að ég sé að taka fólk fram fyrir í biðröðinni, því vísa ég gjörsamlega á bug. Og það húsnæðiskerfi sem hv. þm. nefndi sem hann vildi koma á á sínum tíma var meingallað og hefði engan vanda leyst.
    Ég ítreka það og segi það aftur að fyrir það mikla fjármagn sem við verjum til húsnæðismála, 13 milljarða kr., er hægt að koma skikkan á húsnæðismálin í landinu ef því væri skynsamlega varið og það tel ég að sé gegnum þessar tvær leiðir sem ég nefndi, húsbréfakerfið og að efla félagslega íbúðakerfið.