Byggingarsjóður ríkisins
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegur forseti. Mér þótti leitt að heyra ræðu hv. 11. þm. Reykn. og þær staðhæfingar sem hann var með og raunar sé ég ekki beinan tilgang með þessari utandagskrárumræðu. Húsnæðismálin hafa oft verið hér á dagskrá og síðast var fyrirspurn fyrir nokkrum vikum að mig minnir frá þessum hv. þm. þar sem öllum þessum spurningum sem hann lagði fram var svarað. Það er ekkert nýtt sem fram hefur komið. Við vitum um þessa biðröð og við vitum að þetta er mikið vandamál sem það kerfi sem sett var á 1986 hefur leitt yfir okkur. Og ég verð að segja það að núna fyrst er verið að koma einhverri skikkan á þessi mál. Það kerfi sem nú hefur verið lögfest og á grunn sinn að verulegu leyti að rekja til hugmynda sem við þingmenn Borgfl. lögðum fram á sínum tíma um húsbréf og húsbanka kemur til með að minnka verulega fjárþörf í fasteignaviðskiptum. Ég held að við séum að snúa örinni á réttan pól og þeir fjármunir sem við höfum varið á undanförnum árum til þessa málaflokks komi til með að minnka og meira verði til ráðstöfunar til annarra nytsamalegri þarfa.
    Ástæðan fyrir því að ég stend hérna upp er eins og ég sagði í upphafi þær óréttmætu ásaknir sem hv. þm. bar á hæstv. félmrh. um það að hann hafi á einn eða annan hátt verið að skipta sér af lánveitingum úr Húsnæðisstofnun. Ég held að svona yfirlýsingar geri það eitt að rýra traust manna á þingmönnum. Ég held að það sé alveg öruggt að félmrh. komi ekki til með að hafa á einn eða annan hátt áhrif á ákvarðanir stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins.