Utanríkismál
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Skýrsla sú um utanríkismál sem ég legg nú fyrir Alþingi er hin önnur í röðinni frá því ég tók við starfi utanrrh. 28. sept. 1988. Á því 18 mánaða tímabili sem liðið er síðan hefur íslenska þjóðin orðið vitni að heimssögulegum viðburðum sem ekki eiga sér hliðstæðu frá stofnun lýðveldis á Íslandi. Ég hef af þessum sökum talið það forréttindi að fá að þjóna í þessu starfi og taka þátt í þeim örlagaríku pólitísku breytingum sem átt hafa sér stað á vettvangi alþjóðamála í okkar heimshluta á þessu tímabili.
    Hið stórbrotna umrót sem nú einkennir ástandið í alþjóðamálum veldur því að vestræn ríki standa nú víðast hvar frammi fyrir nýjum og áður óþekktum úrlausnarefnum. Breyttir tímar krefjast hugkvæmni og sveigjanleika við mótun sjálfstæðrar utanríkisstefnu. Fyrir fámennar þjóðir sem tryggja vilja lífsafkomu sína í skjóli frjálsra viðskipta og friðsamlegrar samvinnu á alþjóðavettvangi er sérstaklega mikilvægt að hafa vökult auga með þróun mála og nýta til hins ýtrasta þau nýju tækifæri sem kunna að opnast á sviði pólitískrar og efnahagslegrar samvinnu. Á þeim óvissutímum sem nú fara í hönd hef ég því talið mikilvægt að Íslendingar sýndu áfram gætni en árvekni á sviði utanríkismála.
    Að hluta til má vafalaust skýra mörg þeirra viðfangsefna sem við blasa á vettvangi utanríkismála í ljósi hinnar sérkennilegu þversagnar stöðugleikans sem mjög setur svip sinn á umræður um alþjóðamál um þessar mundir. Um nærfellt hálfrar aldar skeið hafa vestræn ríki átt þeirri gæfu að fagna að búa við frið og stöðugleika sem vart á sér hliðstæðu í sögu Evrópu. Stöðugleiki kalda
stríðsins var þó sérstæður að því leyti að hann byggði á djúpstæðri gagnkvæmri tortryggni austur og vesturs sem leiddi til háskalegustu hernaðaruppbyggingar í manna minnum. Á næsta ótrúlega skömmum tíma hefur nú dæmið snúist við. Kalda stríðið svonefnt hefur runnið sitt skeið. Tekist hefur að efla traust þar sem áður ríkti gagnkvæm tortryggni. Reistar hafa verið skorður við vígbúnaðarkapphlaupinu og samningar um stórfelldan niðurskurð vígbúnaðar á meginlandi Evrópu eru í augsýn.
    Sú þíða sem nú ræður ríkjum í samskiptum austurs og vesturs hefur vakið vonir um nýja og betri tíma. Horfast verður hins vegar í augu við að hjöðnun kalda stríðsins hefur einnig leyst úr læðingi öfl sem vakið hafa óvissu um framtíðina, hinar skýru og einföldu markalínur kalda stríðsins hafa skyndilega gliðnað án þess að enn hafi unnist tími til að raða þeim brotum á ný í heillega mynd. Á þeim tíma sem fram undan er hlýtur það þess vegna að verða höfuðviðfangsefni vestrænna ríkja að sjá til þess að stöðugleika í samskiptum ríkja verði ekki teflt í tvísýnu.
    Orð mín ber að sjálfsögðu ekki að skilja sem svo að mér sé á nokkurn hátt eftirsjá í pólitískri kyrrstöðu kalda stríðsins, þvert á móti. Hið nýja upprennandi tímabil slökunar og samvinnu vekur vonir um varanlegan frið, byggðan á gagnkvæmri virðingu fyrir

fullveldi ríkja frekar en á stálsins stoðum. Full ástæða er hins vegar til að árétta að aukin bjartsýni um betri tíð dregur síður en svo úr nauðsyn þess fyrir Íslendinga að gæta eðlilegrar fyrirhyggju í málum sem varða lífshagsmuni þjóðarinnar.
    Í skýrslu minni til Alþingis hef ég leitast við að gera grein fyrir þeim margslungnu breytingum sem gengið hafa yfir seinustu 12 mánuði og meta áhrif þeirra á íslensk utanríkismál. Þar sem framtíð Evrópu er enn að mörgu leyti þoku hulin er vissulega við ramman reip að draga í þessu efni. Ég hef engu að síður talið óhjákvæmilegt að Íslendingar gerðu sér far um að meta stöðu landsins í ljósi breyttra kringumstæðna. Leyfi ég mér að vonast til þess að skýrslan geti stuðlað að upplýstri og frjórri umræðu um það efni hér á Alþingi.
    Ég tel ekki ástæðu til að rekja hér í smáatriðum það sem fram kemur í skýrslunni en bendi á að í inngangi eru dregin saman nokkur helstu atriðin. Í máli mínu hér á eftir mun ég því einungis fjalla nánar um nokkra afmarkaða efnisþætti skýrslunnar. Fyrst vil ég víkja nokkrum orðum að ástandinu í Sovétríkjunum og ríkjum Mið- og Austur-Evrópu.
    Ég hygg að ekki sé ofmælt að hræringar þær sem nýlega hafa skekið pólitískt landslag Evrópu eigi sér einkum tvennar skýringar. Á ég þar annars vegar við þá atburði sem gerst hafa innan Sovétríkjanna sjálfra og í kjölfar þeirra í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, hins vegar þær tilraunir sem nú eru í fullum gangi meðal ríkja Evrópubandalagsins til að koma á sameiginlegum innri markaði. Aðdráttarafl Evrópubandalagsins í því skyni og nauðsyn annarra ríkja álfunnar á að laga sig að þeim verður seint ofmetið.
    Í skýrslu minni hef ég af ástæðum sem ættu að vera augljósar kosið að gera ítarlega grein fyrir ástandinu í Sovétríkjunum og ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Hrun kommúnismans hefur átt sér stað með skjótari hætti en flesta óraði fyrir. Enginn vafi leikur á að hin öru umskipti innan Sovétríkjanna eiga sér fyrst og fremst efnahagslegar orsakir. Forustuliði Sovétríkjanna hefur um árabil verið ljóst að miðstýring efnahagskerfisins hefur gersamlega brugðist með þeim afleiðingum að bilið hefur stöðugt breikkað
milli Sovétríkjanna og vestrænna ríkja á efnahagssviðinu. Valið hefur því staðið á milli þess að varpa úreltum kennisetningum marx-leninisma í efnahagsmálum fyrir róða eða horfast í augu við áframhaldandi hnignun og einangrun í alþjóðasamstarfi.
    Tilraun til endurreisnar efnahagslífs í Sovétríkjunum, kennt við perestrojku, hefur þó enn sem komið er ekki skilað tilætluðum árangri. Flestum ber raunar saman um, þ.e. efnahagssérfræðingum sem um þetta hafa fjallað, að áfram verði á brattann að sækja. Geri efnahagsbati ekki vart við sig áður en langt um líður benda líkur til að perestrojkan sjálf kunni að vera í hættu. Yfirlýsingar sovéskra leiðtoga að undanförnu bera hins vegar með sér að þeir hafi

nú í hyggju að stíga skrefið til fulls í átt til róttækari breytinga. Stefnt er t.d. að endurskipulagningu verðlagskerfisins, sem margoft hefur verið frestað á undanförnum árum, og samdrætti í framlögum til varnarmála. Fyrr í þessari viku tók Gorbatsjov Sovétforseti einnig af tvímæli um að beina yrði sovéska efnahagskerfinu á braut markaðshagkerfis að vestrænni fyrirmynd.
    Sovétleiðtoginn virðist hafa áttað sig flestum betur á því að efnahagslegar úrbætur eru orðin tóm nema þær séu studdar pólitískum umbótum í lýðræðisátt. Umtalsverð valddreifing hefur átt sér stað og hafa þingmót þjóðarfulltrúa og Æðstaráðið axlað æ meiri ábyrgð á kostnað valdaeinokunar Kommúnistaflokksins. Ákvörðun Æðstaráðsins fyrr í þessum mánuði um að fella niður 6. gr. sovésku stjórnarskrárinnar sem kvað á um óskorað alræði Kommúnistaflokksins kemur auk þess vafalítið til með að marka stóran áfanga í átt til aukins frjálsræðis innan Sovétríkjanna.
    Einu vildi ég þó vekja sérstaka athygli á, en það er að aukin valddreifing frá Kommúnistaflokknum til annarra valdastofnana hefur haldist í hendur við skipulagða valdasamsöfnun forsetaembættisins í höndum Gorbatsjovs. En auk þess að geta valið lykilmenn í embætti getur forsetinn nú samkvæmt nýjum lagaákvæðum sett neyðarlög og stjórnað með tilskipunum. Vafalítið á sá efnahagsvandi sem Sovétmenn standa frammi fyrir sinn þátt í því að fulltrúaþingið samþykkti hin auknu völd forsetanum til handa. Aðgerðir Sovétmanna gagnvart Litáum að undanförnu kunna þó einnig að gefa nokkra mynd af því hvernig forsetinn hyggst beita hinum nýju völdum.
    Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að vaxandi þjóðerniserjur innan Sovétríkjanna eru stærsta vandamál Gorbatsjovs ásamt með þeim efnahagsvanda sem Sovétríkin standa frammi fyrir. Ég vil nefna fáein dæmi: Sunnan Kákasusfjalla geysa illvígar deilur Armena og Azera. Í Asíulýðveldunum hafa Úzbekar tekist á við Meskít-Tyrki auk þess sem óeirðir hafa blossað upp í Kasakstan, í Túrkmenistan, í Tadzhíkístan og í Kirgísíu. Í Úkraínu og Hvíta-Rússlandi njóta þjóðfrelsishreyfingar öflugs stuðnings og innan Moldavíu hafa vaknað vonir um hugsanlega endursameiningu Rúmeníu. Ástandið er því afar eldfimt og má lítið út af bera til þess að Sovétríkin liðist ekki í sundur.
    Ég hef áður lýst því yfir að ég tel það skipta afar miklu máli fyrir þróun mála í Evrópu í náinni framtíð hvort Gorbatsjov tekst að ljúka yfirlýstu ætlunarverki sínu. Versnandi lífskjör eða ófriður innan Sovétríkjanna gæti auðveldlega orðið til að magna upp spennu og spilla þeim árangri sem náðst hefur að undanförnu í samskiptum ríkja austurs og vesturs. Það kemur því ekki á óvart að ríki Atlantshafsbandalagsins skuli ítrekað hafa lýst þeim vilja sínum að efla efnahagsleg samskipti við ríkin í austri og leggja sitt af mörkum til að pólitískt umrót innan landamæra þeirra ógni þrátt fyrir allt ekki nauðsynlegum stöðugleika.

    Þessi síðasta athugasemd mín hlýtur hins vegar að leiða hugann að þeim atburðum sem nýlega hafa orðið í Litáen.
    Sem kunnugt er efndu Litáar hinn 20. febr. sl. til fyrri hluta fyrstu frjálsu kosninganna sem haldnar hafa verið í landinu frá því að það var innlimað eð ólöglegum hætti í Sovétríkin árið 1940. Í kjölfar seinni hluta kosninganna hinn 10. mars sl. lýsti hið nýkjörna þing yfir endurreisn lýðveldis í landinu þann 11. mars sl. Jafnframt lýsti þingið því yfir að stjórnarskrá Sovétríkjanna frá árinu 1977 og önnur sovésk lög væru þar með felld úr gildi.
    Viðbrögð Gorbatsjovs Sovétleiðtoga við sjálfstæðisyfirlýsingu Litáa voru hörð. Fyrir hönd Sovétstjórnarinnar neitaði hann að taka yfirlýsinguna gilda. Jafnframt var gripið til aðgerða sem virtust brjóta í bága við ítrekaðar yfirlýsingar Sovétleiðtogans um að vopnavaldi yrði ekki beitt. Skriðdrekum og brynvörðum flutningavögnum var beint til höfuðborgarinnar. Aðalbækistöðvar Kommúnistaflokksins í höfuðborginni Vilnius voru teknar herskildi, landamæravarsla var hert, litáískir borgarar sem höfðu yfirgefið sovéska herþjónustu voru handteknir.
    Í gær og í dag bendir ýmislegt hins vegar til þess að slakað hafi verið á spennu og dregið úr hættu á átökum sem gætu fyrr en varir spillt vonum um friðsamlega lausn með samningaviðræðum.
    Í gær sagði Landsbergis á fréttamannafundi í Vilnius að margt benti til þess að Sovétstjórnin vildi nú sýna meiri gætni, varkárni. Af hálfu
Sovétstjórnarinnar var því lýst yfir að þeir sem yfirgefið hefðu sovéska herinn yrðu ekki beittir refsingum. Af hálfu litáískra stjórnvalda var sagt að horfið væri frá áformum um herta landamæravörslu af þeirra hálfu og áformum um að koma á fót eigin landvarnarliði væri frestað.
    Varaforsætisráðherrann, Ozolas, lýsti því yfir að dagurinn í gær hefði verið mikill léttir og horfur á friðsamlegri lausn virtust nú betri. Landsbergis lýsti því yfir að úr því sem komið væri væri aðalatriðið að forðast ögrandi aðgerðir af beggja hálfu, orð og gerðir sem leitt gætu til árekstra. Aðalatriðið væri að hefja viðræður og samningaumleitanir þegar í stað.
    Þolinmæði, varúð, viðræður voru lykilorðin í fréttafrásögnum af löngu símtali Gorbatsjovs Sovétleiðtoga við Margréti Thatcher, forsætisráðherra Breta, í gær.
    Undanfarin dægur hafa forustumenn Litáa fyrst og fremst beint eftirfarandi tilmælum til ríkisstjórna á Vesturlöndum: Samningar eru aðalatriðið. Beita ber Sovétstjórnina þrýstingi til þess að leita friðsamlegra lausna, taka upp viðræður um lausn deilumála, vara við valdbeitingu og leggja áherslu á hversu mikið er í húfi fyrir alla aðila, Sovétríkin, Litáen, samskipti stórveldanna, afvopnunarsamningana og friðarferilinn í Evrópu.
    Viðbrögð ríkisstjórna á Vesturlöndum eiga það sameiginlegt að leggja höfuðáherslu á að forðast beri valdbeitingu og að stuðla beri að friðsamlegri lausn

deilumála með viðræðum og samningum. Aðalatriðin hljóta að vera að forðast af fremsta megni að magna árekstra, að gera ekkert sem gæti kallað blóðbað yfir litáísku þjóðina --- og þar með útilokað vonir allra góðra manna um friðsamlega lausn og framhald friðarferilsins í Evrópu.
    Áhersla hefur verið lögð á að forðast alla áreitni sem gæti gefið harðlínumönnum og hernaðaryfirvöldum í Sovétríkjunum átyllu til að láta til skarar skríða með vopnavaldi. Það er í samræmi við yfirlýsta stefnu Atlantshafsbandalagsríkjanna eins og hún birtist í yfirlýsingu utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins í Brussel í desember sl. Þar lýstu utanríkisráðherrarnir vilja sínum til að stuðla að lýðræðislegum og friðsamlegum breytingum í Mið- og Austur-Evrópu án þess að sækjast eftir einhliða pólitískum ávinningi. Sú stefna er ein meginforsenda þíðunnar í samskiptum Evrópuríkja, forsenda þess árangurs sem menn gera sér vonir um í afvopnunarmálum og forsenda þess árangurs sem lýðræðisbyltingin í Austur-Evrópu hefur þegar náð. Það er því mikið í húfi. Ég hef talið að þessi stefna Atlantshafsbandalagsríkjanna, eins og hún var mótuð á sínum tíma, sé hyggileg og best til þess fallin að stuðla að hagstæðri lausn fyrir Litáa og Eystrasaltsþjóðirnar.
    Þeir sem setja á oddinn kröfuna um formlega viðurkenningu Litáens þegar í stað eru vinsamlegast beðnir um að hugleiða eftirfarandi: Að hvaða gagni kæmi hún fyrir Litáa á þessu augnabliki? Til hvers mundi hún leiða? Það er ekkert launungarmál að af hálfu bandarískra stjórnvalda er litið svo á að með formlegri viðrkenningu af þeirra hálfu nú liti það svo út eftir á sem forseti Sovétríkjanna hefði orðið að láta undan síga fyrir þrýstingi frá Bandaríkjunum eða Atlantshafsbandalaginu. Við núverandi kringumstæður byði það heim hættunni á að Gorbatsjov yrði felldur frá völdum innan Sovétríkjanna og þar yrði um að ræða afturhvarf til fyrri stjórnarhátta, harðlínumenn og hernaðaryfirvöld tækju við og freistuðu þess að halda Sovétríkjunum saman með vopnavaldi með öllum þeim afleiðingum sem það hefði. Ég spyr enn: Hverjum yrði það að gagni? Að hvaða gagni kæmi það Litáum? Að hvaða gagni kæmi það hinum Eystrasaltsþjóðunum eða öðrum þeim þjóðum innan Sovétríkjanna sem ala í brjósti óskir um aukið sjálfsforræði? Vonin um það að þessum þjóðum verði að ósk sinni er því bundin að friðsamlegar lausnir finnist og að ekki komi til hernaðarátaka. Þess vegna er það viturleg stefna að forðast í hvívetna að magna árekstra en að halda uppi stöðugum þrýstingi á báða aðila um viðræður, samninga, friðsamlegar lausnir, í krafti þess hvað er í húfi fyrir alla sem hér eiga hlut að máli.
    Að því er varðar viðbrögð íslenskra stjórnvalda vil ég taka fram eftirfarandi: Þann 12. mars samþykkti Alþingi Íslendinga einróma með þáltill. að senda svohljóðandi heillaóskir til þjóðþings Litáa:
    ,,Alþingi ályktar að senda litáísku þjóðinni heillaóskir vegna sjálfstæðisyfirlýsingar Litáens sem

þjóðþingið samþykkti í gær.
    Alþingi telur að sjálfsforræði þjóða með lýðræðiskjörnum þingum sé grundvöllur frjálsra samskipta og stuðli að friði í heiminum.
    Alþingi fagnar því endurheimt sjálfstæðis Litáens og væntir góðrar samvinnu við lýðræðiskjörna fulltrúa þess.``
    Þann 23. mars kvaddi utanrrh. Íslands sendiherra Sovétríkjanna á Íslandi á sinn fund og fór þess á leit að hann kæmi eftirfarandi orðsendingu á framfæri við Shevardnadze utanríkisráðherra Sovétríkjanna:
    ,,Fyrir hönd íslenskra stjórnvalda skora ég á sovésk stjórnvöld að hefja þegar viðræður við fulltrúa réttkjörinna stjórnvalda í Litáen, án fyrirframskilyrða. Þvingunaraðgerðir af hálfu Sovétríkjanna í málefnum Litáens
mundu í einu vetvangi spilla þeim björtu vonum sem umbótaáætlun Gorbatsjovs forseta hefur vakið um varanlegan frið og öryggi í samskiptum þjóða í okkar heimshluta.``
    Á fundi utanríkisráðherra aðildarþjóða Evrópuráðsins í Lissabon 23.--24. mars tók ég upp málefni Litáen einn þriggja utanríkisráðherra, gerði þar rækilega grein fyrir viðhorfum og afstöðu íslenskra stjórnvalda og flutti áskorun til forseta Evrópuráðsins, Pineiro, utanríkisráðherra Portúgals, um að hann kæmi sjónarmiðum okkar á framfæri á fréttamannafundi að fundinum loknum sem hann og gerði.
    Á sameiginlegum fundi utanríkisráðherra aðildarríkja Evrópuráðs og utanríkisráðherra Varsjárbandalagsríkjanna þann 24. mars kom það í hlut danska utanríkisráðherrans fyrir hönd Norðurlandanna að flytja yfirlýsingu sem var efnislega samhljóða orðsendingu íslensku ríkisstjórnarinnar, þ.e. að gagnrýna valdbeitingu, að skora á Sovétstjórnina að taka upp viðræður, að forðast að stefna málum í óefni með valdbeitingu. Af hálfu Sovétríkjanna lýsti Kashlev varautanríkisráðherra því yfir fyrir hönd Shevardnadzes að beiting vopnavalds heyrði til liðinni tíð og til hennar yrði ekki gripið.
    Að því er varðar spurninguna um formlega viðurkenningu hafa þrjú Norðurlandanna, þ.e. Danmörk, Ísland og Noregur, lýst því yfir að þau hafi ekki afturkallað formlega viðurkenningu á sjálfstæði Litáens, sem veitt var árið 1921, sem og að þau hafi aldrei viðurkennt innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sovétríkin sem löglega athöfn, enda minnt á það að sovéska þingið sjálft hefur lýst Molotov-Ribbentrop-samninginn frá 1940 sem ólöglegan gjörning.
    Í tilefni af tillöguflutningi um formlega viðurkenningu á þessu stigi málsins af Íslands hálfu vil ég segja eftirfarandi: Þann 28. mars sl. átti sendinefnd frá Litáen, sem þá var stödd í Noregi, viðræður við sendiherra Íslands í Osló. Á þessum fundi afhenti sendinefndin sendiherra bréf til forseta Íslands frá Landsbergis, forseta Litáens. Forseti Íslands hefur þegar gefið út fréttatilkynningu þar sem skýrt er frá efni bréfsins en mun væntanlega síðar birta það í heild sinni. Formaður sendinefndarinnar þakkaði fyrir

þann stuðning sem Ísland hefði sýnt Litáen og þá sér í lagi símskeyti Alþingis sem hefði verið fyrstu viðbrögð frá erlendum ríkjum og verið mikill hvati fyrir þjóðþing þeirra og ríkisstjórn. Sömuleiðis hefði boðskapur frá ríkisstjórn Íslands frá 23. þ.m. verið mikils virði og komið á réttu augnabliki, enda verið á undan sams konar orðsendingum annarra vestrænna ríkja.
    Þess skal getið að formaður sendinefndar Litáa lét í ljós þá skoðun í viðræðum sínum við sendiherrann í Osló að í símskeyti frá Alþingi og í orðsendingu utanrrh. fælist --- samkvæmt þeirra skilningi --- viðurkenning af Íslands hálfu á Litáen sem sjálfstæðu ríki. Aðeins skorti formlega viðurkenningu á stjórn Litáens og formlegt skref um að taka upp diplómatískt samband.
    En eins og kunnugt er af öðrum tilvikum þá styðst Ísland við þá grundvallarreglu og hefð þjóðarréttar að viðurkenna ríki en ekki einstakar ríkisstjórnir.
    Af þessu tilefni árétta ég enn yfirlýsingu Landsbergis frá fréttamannafundi í gær í Vilnius um að á þessari stundu sé aðalatriðið að hvetja til viðræðna og samninga. Enn fremur minni ég á sameiginlega stefnuyfirlýsingu
Atlantshafsbandalagsríkjanna þess efnis að forðast að færa sér í nyt með pólitískan ávinning í huga erfiðleika Sovétstjórnarinnar og stuðla með öllum ráðum að lýðræðislegum og friðsamlegum breytingum í Mið- og Austur-Evrópu.
    Umrædd sendinefnd frá Litáen bar jafnframt fram þá beiðni frá Landsbergis forseta hvort íslensk stjórnvöld gætu boðið Reykjavík sem fundarstað hugsanlegra samninga. Sambærileg ósk var borin upp við Norðmenn og reyndar síðar í dag Dani en ekki önnur lönd að svo stöddu.
    Af því tilefni vil ég skýra frá svari utanrrh. sem þegar hefur verið sent Landsbergis forseta, að höfðu samráði við hæstv. forsrh., og hljóðar svo:
    ,,Sem svar við fyrirspurn, sem sendinefnd frá Litáen kom á framfæri við sendiherra Íslands í Osló í gær, vill ríkisstjórn Íslands taka fram eftirfarandi:
    Ríkisstjórn Íslands er reiðubúin til að annast milligöngu til að greiða fyrir friðsamlegri lausn deilunnar þannig að komið verði til móts við réttmætar óskir litáisku þjóðarinnar um frelsi og sjálfstæði. Ríkisstjórnin væri þess vegna reiðubúin, svo framarlega sem báðir aðilar óska eftir því, að bjóða Reykjavík sem fundarstað þar sem viðræður samningsaðila gætu farið fram.``
    Virðulegi forseti. Þrátt fyrir harkaleg viðbrögð Gorbatsjovs við sjálfstæðistilraunum Litáa verður því ekki neitað að lýðræðisþróunin í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu hefði ekki getað orðið án tilkomu Gorbatsjovs. Brezhnev-kenningin, sem svo hefur verið nefnd, en samkvæmt henni áskildu Sovétmenn sér rétt til að hafa bein afskipti af málefnum annarra ríkja Varsjárbandalagsins, heyrir nú sögunni til. Ræða Gorbatsjovs á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 1988 markaði ákveðin straumhvörf í þessu efni,

en í ræðunni hafnaði Sovétleiðtoginn beitingu hervalds í samskiptum sjálfstæðra og fullvalda ríkja.
    Síðan þá hefur atburðarásin verið ótrúlega hröð. Á aðeins fáeinum mánuðum hafa ríki Mið- og Austur-Evrópu risið upp eitt af öðru og hrundið af sér oki sovéska heimsveldisins. Lýðræðislegar kosningar í Austur-Þýskalandi og Ungverjalandi fyrr í þessum mánuði staðfesta það með óyggjandi hætti að ríki þessi munu eftirleiðis fara eigin leiðir.
    Í skýrslu minni fjalla ég sérstaklega um ástand og horfur í hverju og einu ríkja Austur-Evrópu. Ég læt nægja að vísa til þeirrar umfjöllunar en vil geta þess jafnframt að upplausn Varsjárbandalagsins sem sameinaðs afls í utanríkismálum muni vafalítið hafa afgerandi áhrif á öryggismál Evrópu í náinni framtíð. Einnig vil ég geta þess að þróunin í ríkjum þessum mun jafnframt hafa áhrif á sviði viðskipta og efnahagssamvinnu. Raunar má færa rök fyrir því að hún hafi þegar breytt grundvallarforsendum allra samskipta Evrópubandalagsins við þau, bæði beint og einnig fyrir tilstilli þeirra sjálfra.
    Virðulegi forseti. Þá vildi ég næst víkja máli mínu að samningaumleitunum EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið.
    Spyrja má hvað það er sem gerir evrópskt efnahagssvæði að aðdráttarafli fyrir Ísland, efnahagssvæði sem nær til 19 ríkja og 350 milljóna íbúa. Þessu er best svarað með því að horfa á stöðu Íslands ef við Íslendingar sættum því hlutskipti að lenda utan þeirrar þróunar sem nú virðist óumflýjanleg í Evrópu. Umfangsmikið samstarf á sér nú stað í þá veru að mynda eina markaðsheild fyrir Vestur-Evrópuríkin. Komi ekki til virk þátttaka Íslands við mótun þeirrar markaðsheildar án aðildar að bandalaginu er enginn vafi á því að viðskiptakjör okkar í framtíðinni yrðu mun lakari gagnvart þeim ríkjum sem nú taka við u.þ.b. 70% af vöruútflutningi okkar. Ber þar auðvitað hæst að fá viðurkenningu á grundvallarreglunni um fríverslun með fiskafurðir sem eru í reynd okkar iðnaðarafurðir.
    En myndun evrópsks efnahagssvæðis nær ekki eingöngu til viðskipta, hvort sem það er varðandi vöru eða þjónustu. Samstarfið nær einnig til þátttöku á frjálsum vinnumarkaði með nauðsynlegum fyrirvörum varðandi okkar viðkvæma vinnumarkað, um rétt til menntunar í öllum aðildarríkjum á gagnkvæmum grundvelli, rétt til þátttöku í sameiginlegum rannsókna- og vísindaverkefnum, rétt til samvinnu við úrlausn vandamála á sviði umhverfismála og nauðsyn þess að tryggja þátttökurétt í samningum um félagsleg réttindi svo að nokkuð sé nefnt. Markmiðið er að EFTA-ríkin, ríkisborgarar þeirra og fyrirtæki innan þeirra, njóti á sem flestum sviðum fulls jafnræðis í samskiptum við aðila í ríkjum Evrópubandalagsins.
    Könnunarviðræðurnar á sl. ári sem ég flutti skýrslu um hér á Alþingi í nóvember sl., og nú undirbúningsviðræðurnar sem staðið hafa yfir frá miðjum janúar, hafa miðað að því að leggja grunn að formlegum samningaviðræðum. Þessum undirbúningsviðræðum lauk 20. mars sl.

Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins er nú að ganga frá samningsumboði til ráðs bandalagsins sem fjalla mun um það á næstu vikum, en búist er við að samningsumboð liggi fyrir eftir mánaðarlegan ráðsfund bandalagsins í byrjun maí og eigi síðar en í júní.
    Undirbúningsviðræðurnar fóru þannig fram að hver vinnuhópur um sig fór yfir löggjöf Evrópubandalagsins á sínu sviði og sameiginlega athuguðu fulltrúar EFTA-ríkjanna og Evrópubandalags hvaða löggjöf væri viðeigandi og koma ætti til greina í samning um evrópskt efnahagssvæði. Vegna umfangsmikillar yfirferðar var komið á ýmsum undirnefndum til að skoða einstök atriði löggjafar. Íslensku fulltrúarnir sem tóku þátt í þessu starfi voru fulltrúar allra ráðuneyta og margra undirstofnana þeirra, enda ná atriðin sem fjallað var um sem hluta af EES-samningi meira og minna til alls Stjórnarráðsins. Verkefni fulltrúanna var það að bera saman íslenska löggjöf og löggjöf Evrópubandalagsins.
    Við þessa yfirferð hefur ýmislegt komið í ljós. Á mörgum sviðum er íslensk löggjöf, sem í flestum tilvikum er samnorræn, ekki ósvipuð núgildandi löggjöf Evrópubandalagsins en á öðrum sviðum er íslensk löggjöf ekki til eða hún er löngu úrelt. Verkefnið fram undan er að taka samanburðinn sem gerður hefur verið og meta hvort einhverjum erfiðleikum er bundið að setja ný lög eða endurbæta núgildandi löggjöf fyrir ársbyrjun 1993 þegar fyrirhugað er að samningurinn um sameiginlegt evrópskt efnahagssvæði taki gildi. Fram undan er því pólitískt mat á einstökum atriðum þeirrar vinnu sem nú þegar hefur verið framkvæmd. Markmiðið er að í samningnum verði eins fáar undanþágur og mögulegt er, eða eingöngu þær sem réttlætast af grundvallarhagsmunum þjóða. Aðlögunartíma er hins vegar hægt að semja um fyrir fleiri atriði.
    Niðurstöður stjórnarnefndarinnar hafa verið kynntar þingmönnum Evrópustefnunefndar ásamt sýnishorni af samanburði löggjafar Íslands og Evrópubandalagsins en fyrir valinu varð matvælalöggjöfin og löggjöf um hættuleg efni. Talsmenn einstakra vinnuhópa hafa haldið fundi í samráðsnefnd
hagsmunaaðila og stjórnvalda, sem komið var á fót á sl. ári, þar sem farið hefur verið yfir samanburð í hverjum málaflokki.
    Til undirbúnings samningaviðræðum verður að fara yfir hvert atriði þar sem talið er að um vandamál kunni að vera að ræða með hliðsjón af umsögnum Stjórnarráðs og hagsmunaaðila. Jafnframt þessu þarf að undirbúa þýðingu á samningnum sem talið er að geti orðið allt að 11.000 prentaðar síður. Þetta er umfangsmikið verk sem tekur tíma að undirbúa svo vel sé. Ég geng út frá því að hv. Alþingi sé sammála mér í því að samningur sem muni hafa lagagildi hérlendis verði ekki lagður fyrir Alþingi Íslendinga nema á móðurmáli voru.
    Virðulegur forseti. Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, sagði í ræðu sinni í Strasbourg 1989 að samstarf EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins gæti byggst á svokölluðu ,,tveggja

stoða kerfi``. Átti hann þá við að EFTA-ríkin styrktu sitt samstarf innbyrðis þannig að innan evrópska efnahagssvæðisins væru tvær stoðir, annars vegar EFTA og hins vegar Evrópubandalagið, og á milli þeirra yrði byggð samstarfsbrú.
    EFTA-ríkin eru ekki tilbúin að stofnsetja einhvers konar ,,mini-EB`` við hliðina á Evrópubandalaginu. Þau hafa hins vegar lýst sig reiðubúin að tala ,,einni röddu`` þegar reglur evrópska efnahagssvæðisins eru ákveðnar. Þannig verður hvor aðili í raun með eitt atkvæði í fyrirhuguðu ráði hins evrópska efnahagssvæðis.
    Kröfur Evrópubandalagins eru skýrastar í könnunar- og undirbúningsviðræðunum um tveggja stoða lausn þegar rætt er um skipulag eftirlits með fullnustu á sameiginlegum reglum svæðisins. Í því sambandi hefur framkvæmdastjórnin lýst því yfir að hún hafi ekki áhuga á að tvöfalda það eftirlitskerfi sem er til staðar innan Evrópubandalagsins með því að setja upp nýtt kerfi fyrir eftirlit á EES-reglum. Evrópubandalagið leggur því til að hvor aðili um sig sjái um eftirlit innan síns svæðis en sett verði upp sameiginleg nefnd til að fjalla um mál hvors aðila um sig eftir því sem við á.
    En hvers konar samstarf erum við að tala um á evrópska efnahagssvæðinu? Við höfum áhuga á að taka þátt í efnahagslegu samstarfi Evrópuþjóða. Það samstarf sem stefnt er að er víðfeðmt samstarf sjálfstæðra þjóða. Til þess að koma á einum markaði taka ríkin á sig þær skyldur að framfylgja ákveðnum meginreglum um frelsi í viðskiptum og að samræma löggjöf sína, þannig að viðskiptareglur verði þær sömu í öllum aðildarríkjunum að evrópska efnahagssvæðinu. Slíkt samstarf kallar á stjórnun á samstarfinu. Það þarf að taka ákvarðanir um nýjar reglur og framkvæma það eftirlit með því að reglunum sé framfylgt. Einnig þarf að gæta þess að þær séu túlkaðar á sama hátt í öllum ríkjum sem aðild eiga að samningunum um efnahagssvæðið.
    Tilgangurinn með samstarfi á evrópska efnahagssvæðinu er sá að þar gildi að mestu leyti sömu efnisreglur og fyrir hendi eru um vörur, þjónustu og fjármagn innan Evrópubandalagsins. Hins vegar er það skýr og ákveðin stefna EFTA-ríkjanna og reyndar Evrópubandalagsins líka að sjálfræðis aðilanna verði gætt í hvívetna. Í umræðum hérlendis um yfirþjóðlegt vald hefur verið ruglað saman annars vegar hvað það er sem felst í inngöngu í Evrópubandalagið og hins vegar í aðild að evrópska efnahagssvæðinu. Misskilningurinn hefur jafnvel gengið svo langt að menn eru að velta sér upp úr framtíðarhugmyndum Evrópusinna innan bandalagsins um aukið pólitískt samstarf innan bandalagsins og jafnvel bandaríki Evrópu, í sama mund og þeir vara við ,,yfirþjóðlegu`` valdi á evrópska efnahagssvæðinu.
    Þessar hugmyndir eru góðar og gildar þar sem þær eiga við, en þær eiga ekki skylt við það samstarf um evrópskt efnahagssvæði sem nú er stefnt að með samstarfssamningi EFTA og Evrópubandalagsins. Hér er fremur um að ræða vald sem nefna mætti

samþjóðlegt vald en yfirþjóðlegt. Eða hvernig líta hugmyndirnar út um stjórnun og eftirlit innan evrópska efnahagssvæðisins?
    Tökum fyrst ákvarðanatökuferil. Aðilar eru sammála um að allar ákvarðanir um reglur evrópska efnahagssvæðisins séu teknar samhljóða í hinu sameiginlega ráði svæðisins. Hvað þýðir það? Hver aðili samningsins, en það eru öll aðildarríki EFTA og Evrópubandalagið, geta beitt neitunarvaldi. Reglurnar taka ekki gildi innan evrópska efnahagssvæðisins ef öll ríkin hafa ekki samþykkt þær. Það er hins vegar annað mál hvort undantekningar verða heimilar fyrir einstök ríki í einhverjum tilfellum. Nánari útfærsla á þessum reglum er samningsatriði en grundvöllurinn er skýr, þ.e. hver aðili heldur sínu sjálfræði.
    Við þekkjum kostina af því að tillaga um reglur sé ekki samþykkt nema með öllum greiddum atkvæðum eins og reglan er innan EFTA. En hverjir eru gallarnir? Við tökum ákveðna hættu á því að ekki náist samkomulag um vissar reglur sem hefur í för með sér að á sumum sviðum mundu mismunandi reglur gilda innan evrópska efnahagssvæðisins, en slíkt ósamræmi stríðir gegn markmiðum samstarfsins. Það er því ljóst að allir aðilar verða að vinna markvisst að því að ná samkomulagi í slíku kerfi og jafnframt verður að beita miklum aga til þess að kerfið verði skilvirkt. Við verðum að sýna fram á að sjálfræðið sé þess virði að því sé haldið.
    Lítum þá á eftirlitið. Það er hagur okkar allra að samningsaðilarnir fullnægi samningsskuldbindingum sínum og að reglunum sé framfylgt á sama hátt í öllum aðildarríkjunum því ávallt komum við að sama markmiðinu, samræmdu kerfi. Almennt eftirlit með því að aðildarríkin uppfylli skyldur sínar, þ.e. setji lög og reglur í samræmi við EB-reglur, hlýtur að einhverju leyti að verða að vera í höndum sameiginlegra stofnana til þess að samræmis sé gætt. Hins vegar eru margir þættir eftirlitsins, sérstaklega þeir sem snúa að einstaklingum og fyrirtækjum, sem hægt er að hafa eftirlit með í aðildarríkjunum sjálfum. EFTA-ríkin hafa lýst því yfir að fullnustan á eftirlitinu eigi að vera í höndum innlendra stofnana. Skipulagið á eftirlitinu hefur ekki verið útfært nánar á þessu stigi. Hins vegar er það ljóst að svo lengi sem fullnustan á eftirlitinu gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum er í höndum innlendra aðila er ekki hægt að tala þar um yfirþjóðlegt vald.
    Til þess að gera eftirlitið virkt og til þess að samræming sé tryggð verðum við að hafa túlkun reglnanna á einni hendi. Í undirbúningsviðræðum um evrópskt efnahagssvæði hafa aðilar verið sammála um að nauðsynlegt sé að setja upp einn sameiginlegan dómstól sem sker úr um deilumál og túlkun reglna, þar sem sæti eigi dómarar frá öllum EFTA-ríkjum og Evrópubandalaginu. Til þess að samræmd túlkun á EES-reglum sé tryggð innan allra aðildarríkja evrópska efnahagssvæðisins verða dómstólar í aðildarríkjunum því að fara eftir niðurstöðum dómstólsins um túlkun reglna. Þeir ákveða hins vegar sjálfir hvort viðkomandi reglum verði beitt. EFTA-ríkin hafa bent

á að skoða þurfi stjórnarskrár einstakra EFTA-ríkja nánar í þessu sambandi. Útfærslan á þeim reglum verður síðan samningsatriði.
    Virðulegi forseti. Utanríkisráðherra Dana, Uffe Ellemann-Jensen, hefur vakið athygli nýlega með því að lýsa skoðunum sínum á stöðu viðræðna EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið. Hann hefur tekið sér fyrir hendur að ráðleggja öðrum Norðurlandaþjóðum að sækja þegar um aðild að bandalaginu, að raða sér upp í biðröðina. Þær ábendingar sem danski utanríkisráðherrann lætur frá sér fara um að EFTA-ríkjunum beri að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og að þær væntingar sem EFTA-ríkin hafa haft um núverandi viðræður varðandi evrópskt efnahagssvæði sé ekki hægt að uppfylla, þessar yfirlýsingar hins danska ráðherra ganga þvert á allar yfirlýsingar ráðamanna Evrópubandalagsins, hvort sem um er að ræða framkvæmdastjórn þess sem undirbýr nú umboð að formlegum viðræðum við EFTA-ríkin eða ráðherraráð Evrópubandalagsins sem samþykkti fyrir aðeins þremur mánuðum, eða 18. des. sl., að stefnt skyldi að samningaviðræðum við EFTA-ríkin að undangengnum þeim undirbúningsviðræðum sem nú hafa staðið yfir.
    Á sameiginlegum ráðherrafundi EFTA-ríkjanna og ráðherra Evrópubandalagsins 19. des. var þessi stefna samþykkt af báðum aðilum. Og fjarri fór því að það væri að heyra á danska utanríkisráðherranum á þeirri stundu að hann hefði aðra skoðun en allir aðrir utanrríkisráðherrar bandalagsins á þeirri stundu. Þvert á móti lýsti hann yfir eindreginni ánægju sinni með framgang könnunar- og undirbúningsviðræðnanna og lýsti þeirri von sinni að ekki skorti á pólitískan vilja til þess að fylgja þessum undirbúningi eftir með formlegum samningaviðræðum og kvaðst vera helsti talsmaður þess að þessir samningar tækjust til þess að tryggja hag annarra Norðurlandaþjóða.
    Eða hvernig ber nú að líta á yfirlýsingar danska utanríkisráðherrans? Hefur orðið einhver grundvallarbreyting síðan í lok desember á stöðu mála sem gerir það að verkum að eðlilegt sé fyrir þann ráðherra í Evrópubandalaginu sem hefur hvað nánast samstarf við hin fjögur norrænu EFTA-ríki að hlaupa nú út undan sér með hvatvíslegum yfirlýsingum sem koma bæði EFTA-ríkjunum og talsmönnum Evrópubandalagsins í opna skjöldu? Svarið við þessari spurningu er einfaldlega nei. Það hefur engin breyting orðið á þróun mála sem gerir það að verkum að á þessu stigi eigi að bregða út af þeirri ákvörðun sem tekin var sameiginlega í desember sl. og hefur verið áréttuð síðan af báðum aðilum. Fyrir liggur margyfirlýst stefna Evrópubandalagsins að það sé ekki ætlunin að taka nein ný ríki inn í Evrópubandalagið á næstu árum. Það liggur jafnframt fyrir að þegar sótt er um aðild hlýtur umfjöllun um slíka umsókn að taka mörg ár, allt að átta ár ef miða á við reynslu Íra, svo tekið sé dæmi. Það liggur einnig fyrir að stjórn Evrópubandalagins hefur nýlega hafnað því að taka fyrir á næstunni aðildarumsóknir Tyrklands og Austurríkis sem fyrir eru í biðröðinni. Hvers vegna er

þessi afstaða bandalagsins svo afdráttarlaus? Og ég má bæta við: Hvernig stendur á því að Austurríki, þrátt fyrir að það hefur lagt fram sína aðildarumsókn, áréttar að það muni fylgja fast eftir samstarfinu við EFTA-ríkin? Svarið er einfalt. Þeir gera ráð fyrir að ná sameiginlegum niðurstöðum eftir þeirri leið miklu fyrr, þ.e. snemma á næsta ári, miklu fyrr en þeir gætu gert sér vonir um að aðildarumsókn skilaði þeim.
    Það er út af fyrir sig auðskilið hvers vegna Evrópubandalagið hefur markað þá stefnu að styrkja betur skipulag sitt, ná tökum á öllum þeim þáttum sem verið er að undirbúa, til þess að innri markaðurinn komist á í lok ársins 1992. Evrópubandalagið telur þar af leiðandi útilokað að taka við nýjum
aðildarríkjum á næstu árum þar sem það mundi hafa í för með sér verulega röskun á því samræmingarstarfi sem nú er unnið að. Frans Andriessen, fulltrúi framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins sem fer með utanríkismál og ber af hálfu bandalagsins faglega ábyrgð á viðræðum EFTA-ríkjanna við EB, lét hafa það eftir sér nú fyrir skömmu, orðrétt, að ,,aðild nýrra ríkja mundi stofna í hættu þeirri vinnu sem nú væri verið að vinna að í sambandi við innri markaðinn``.
    Þetta var áréttað af Delors, forseta framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, þegar ég ræddi við hann fyrir nokkrum dögum í Lissabon og bar undir hann ummæli danska utanríkisráðherrans. Svar Delors var efnislega þetta:
    Það stendur allt sem við höfum skuldbundið okkur til að gera. Það er ekki stefna Evrópubandalagsins að taka upp sérsamninga við einstök ríki. Allar tímaáætlanir eru óbreyttar. Við höfum boðið upp á samninga við EFTA og það stendur. Þróunin í Austur-Evrópu hefur ekki reytt því, sameining Þýskalands hefur ekki breytt því og Austurríki getur ekki vænst sérstakrar hraðferðar.
    Hann staðfesti enn fremur það sem hann hafði áður sagt opinberlega í athyglisverðri ræðu á þessum sameiginlega utanríkisráðherrafundi í Lissabon þar sem hann sagði orðrétt að danska utanríkisráðherranum áheyrandi: ,,Þrátt fyrir fyrirsjáanleg vandamál munu formlegar samningaviðræður við EFTA-ríkin án vafa byrja á þessu ári.``
    En hvernig horfa þessar yfirlýsingar danska utanríkisráðherrans við gagnvart okkur Íslendingum? Við höfum ákveðið að sækja ekki um aðild að Evrópubandalaginu. Væri einhver fótur fyrir fullyrðingum danska utanríkisráðherrans sem leiddi til þess að önnur Norðurlönd en Ísland legðu
inn aðildarumsókn liggur það nánast fyrir að hætt yrði við þær viðræður sem nú standa yfir. Þar með ættum við Íslendingar þess ekki kost að eiga aðild að sameiginlegu evrópsku efnahagssvæði. Þetta þýðir einfaldlega að við þyrftum að sækja einir á báti til Evrópubandalagsins um öll þau veigamiklu mál sem fjallað hefur verið um í viðræðum um evrópskt efnahagssvæði. Það sér hver maður sem kynnt hefur sér hið gífurlega umfang þessa máls að Evrópubandalagið er ekki í aðstöðu til að ræða

samtímis aðildarumsóknir tveggja, þriggja ríkja til viðbótar við þær umsóknir sem fyrir liggja auk þess að taka upp tvíhliða viðræður um sérsamninga. Vandinn eða öllu heldur gallinn við yfirlýsingar danska utanríkisráðherrans er því sá að hann hefur einfaldlega ekki rökstutt fullyrðingar sínar. Hann skilur eftir hálfkveðna vísu sem veldur ruglingi og skapar óréttmætar efasemdir um stöðu þeirra viðræðna sem nú standa yfir og hefur þess vegna orðið til þess að skaða málstað þessara fjögurra Norðurlanda sem að viðræðunum standa.
    Virðulegi forseti. Sú þróun sem á sér stað í Evrópu er þrátt fyrir allt aðeins hluti af alþjóðasamstarfi sem unnið er að á öðrum vígstöðvum einnig. Þær viðræður sem nú hafa staðið yfir á fjórða ár innan GATT, alþjóðasamkomulagsins um viðskipti og tolla, og nefnast Uruguay-lotan hafa það að markmiði að lækka tollmúra og draga úr viðskiptahindrunum milli allra ríkja og þar með að auka flæði vöru og þjónustu milli landa. Sú þróun eflir nánari samtryggingu milli þjóða (er eyðir tortryggni), eykur almenna hagsæld og skapar grundvöll að bættum samskiptum þjóða í milli.
    Til marks um það hve milliríkjaviðskipti eru orðin mikilvæg vil ég nefna að heildarverðmæti vöruviðskipta milli landa á árinu 1988 námu 2880 milljörðum bandaríkjadala sem nam 14% aukningu frá árinu 1987. Iðnaðarvörur voru 1750 milljarðar dala, landbúnaðarvörur 390 milljarðar dala og viðskipti með hráefni og fleira 370 milljarðar dala. Að magni til nam aukning á útflutningsviðskiptum á vörum 8,5% samanborið við 5,5% fyrir árið 1987. Það er gríðarlega ör aukning í alþjóðaviðskiptum og það er burðarás hagvaxtar í hinu alþjóðlega viðskiptakerfi.
    Erfitt er að spá um niðurstöðu Uruguay-viðræðnanna á þessu stigi en þó ljóst að þeim verður ekki fram haldið eftir næstu áramót. Það er stefnt að lokafundi í desember nk. og mun árangur mótast m.a. af eftirfarandi þáttum:
    1. Hvort viðunandi lausn næst um aukið frjálsræði í landbúnaðarviðskiptum landa á milli jafnframt því að dregið verði úr vernd og styrkjum til þessarar greinar.
    2. Hvort mönnum muni takast að lækka eða í sumum tilvikum afnema tolla með öllu. Markmiðið hefur verið að ná fram þriðjungs lækkun tolla en samkomulag um aðferðir er enn ekki fengið.
    3. Hvort unnt verði að fella niður margvíslegar takmarkanir og viðskiptahindranir sem ná m.a. til skoðunar á vörum, upprunareglna, reglna um innflutning svo og um skatta og gjöld sem ekki er hægt að flokka undir tolla.
    4. Enn fremur hvort lausn finnist á meðferð vöru sem framleidd er úr hráefnum úr náttúruauðlindum, þar á meðal er fiskur og fiskafurðir. Ekkert hefur miðað áfram um tollalækkunaraðferðir þar sem Evrópubandalagið er ekki tilbúið til samkomulags um fisk og fiskafurðir nema, eins og þeir orða það, allir þættir sem eru sérstakir fyrir þessar afurðir og hafa áhrif á viðskipti verði dregnir inn í umræðurnar. Hér á Evrópubandalagið einfaldlega við aðgang
að fiskveiðilögsögu strandríkja, en bandalagið hefur

ítrekað þessa afstöðu sína fram á seinustu stund.
    5. Þá er spurning hvort tekst að leysa úr togstreitu milli þróunarlanda annars vegar og helstu iðnríkja hins vegar um meðferð á vefnaðarvörum en hingað til hafa sérsamningar gilt til að koma í veg fyrir offramboð á vefnaðarvörum í iðnríkjum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku.
    6. Þá er einnig spurning hvort möguleiki er á samkomulagi um hugverk í viðskiptum, þar á meðal einkaleyfisréttindi, en það er mjög algengt að þróunarríki noti einkaleyfi frá iðnríkjunum án heimilda.
    Auk framangreindra þátta er verið að endurskipuleggja lög og reglur GATT og kveða á um markvissari aðgerðir stofnunarinnar til þess að taka á vanefndum einstakra ríkja við ákvæði samkomulagsins. Jafnframt er stefnt að því að þjónustuviðskipti falli framvegis undir GATT-samkomulagið.
    Eins og fram kemur í ofangreindri upptalningu er í mörg horn að líta. Heildarniðurstaða samninganna mun ráðast af þeirri málamiðlun sem fæst á einstökum sviðum með því að eitt heildarmat sé lagt á samningsstöðuna. Eitt grundvallarspursmál í þessum samningum er hvort þau ríki sem framleiða bestu vöruna fyrir sem minnstan tilkostnað fái verulega aukið frelsi til viðskipta. Í þessum viðræðum gefst okkur tækifæri til að semja um lækkun tolla hjá ríkjum sem við höfum ekki fríverslunarsamninga við, svo sem Bandaríkin, Japan og ríki í Suðaustur-Asíu gegn því að við lækkum tolla á einhverjum af útflutningsvörum þeirra.
    Eins og fram kemur í skýrslunni hefur þróun utanríkisviðskipta okkar Íslendinga verið okkur hagstæð undanfarin tvö ár og var vöruviðskiptajöfnuður hagstæður um 7,7 milljarða á árinu 1989. Vöruútflutningurinn jókst um 4% en innflutningur dróst saman um 7%. Hins vegar var viðskiptajöfnuður óhagstæður um 4 milljarða sem stafar af óhagstæðum þjónustujöfnuði þar sem mestu skiptir hinn miklu þungi vaxtagreiðslna af erlendum lánum. Þetta er þó miklu betri útkoma en árið áður þegar viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 12 milljarða kr.
    Útflutningsverðmæti sjávarafurða var rúmlega 70% af heildarvöruútflutningsverðmætinu sem er örlítil samdráttur frá því í fyrra. Útflutningur iðnaðarvara nam 25% sem er aukning frá árinu 1988 og stafar af auknum útflutningi á áli og kísiljárni. Talsverð aukning varð á útflutningi frystra fiskflaka en þau eru okkar mikilvægasta útflutningsvara. Voru alls flutt út 109 þús. tonn. Samdráttur varð í útflutningi á saltfiski sem aðallega stafar af minni útflutningi til Portúgals vegna birgðasöfnunar og verðlagsþróunar þar. Útflutningur á ferskum fiski heldur áfram að aukast og voru flutt út 112 þús. tonn árið 1989 sem er 7% magnaukning frá fyrra ári. Nálægt 90% af þessum útflutningi fer til Bretlands og Þýskalands. Útflutningur á fiskimjöli dróst saman um fjórðung, m.a. vegna þess hve loðnuveiðar hófust seint á síðustu haustvertíð. Mestur hluti fiskimjölsins var seldur til

Bretlands, Póllands og Finnlands.
    Evrópubandalagið er langsamlega stærsti markaður fyrir íslenskar útflutningsafurðir sem fyrr og fóru tæplega 57% af heildarvöruútflutningnum þangað. Þetta hlutfall er svipað og undanfarin ár. Útflutningur til EFTA-ríkjanna var um 11% og hefur aukist frá síðasta ári, einkum vegna aukins útflutnings á loðnumjöli. Útflutningur til Bandaríkjanna jókst á síðasta ári eftir mikinn samdrátt undanfarin 4--5 ár. Var útflutningur til Bandaríkjanna um 14% af heildarútflutningi og voru Bandaríkin í öðru sæti yfir stærstu kaupendur íslenskra útflutningsafurða á eftir Bretum. Samdráttur var í útflutningi til Japans sem stafar af minni útflutningi á heilfrystum karfa. Undanfarin ár hafa viðskiptin við Austur-Evrópu farið síminnkandi. Sem hlutfall af heildarviðskiptum árið 1985 t.d. var hlutfall viðskiptanna við Austur-Evrópu um 8% af heildarviðskiptum en á síðasta ári var þetta hlutfall komið niður í 5% og innflutningur þaðan hins vegar 6,5% af heildinni. Langþýðingarmesti markaðurinn er í Sovétríkjunum innan Austur-Evrópu, en þangað fóru 2 / 3 hlutar af útflutningnum til Austur-Evrópu.
    Á síðasta ári ákváðu EFTA-ríkin að taka upp fríverslun með fiskafurðir og gildistaka þeirrar ákvörðunar er 1. júlí á þessu ári. Þetta þýðir í reynd að farið verður með sjávarafurðir í viðskiptum við EFTA-ríkin eins og um iðnaðarvörur væri að ræða. Þáltill. um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda nauðsynlegar breytingar á stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu mun verða lögð fyrir Alþingi á næstunni. Þessi ákvörðun EFTA-ríkjanna hefur jafnframt skapað samstöðu meðal þeirra um að krefjast þess í viðræðum við Evrópubandalagið um evrópskt efnahagssvæði að fríverslun með fisk verði komið á milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins.
    Virðulegi forseti. Þá vil ég fara nokkrum orðum um pólitíska samvinnu og samstarf ríkja á sviði afvopnunarmála. Eins og ég hef áður vikið að eru góðar líkur á að takast megi að yfirvinna þá óeðlilegu skiptingu Evrópu sem varað hefur frá stríðslokum, en náist samkomulag um sameiningu þýsku ríkjanna á þessu ári verður stórum áfanga náð í því efni.
    Spurningin um sameiningu þýsku ríkjanna kom fljótlega upp eftir að Berlínarmúrinn féll á sl. hausti og landamæri voru opnuð þann 9. nóv. sl. Þegar í sama mánuði lagði Kohl, kanslari Vestur-Þýskalands, fram áætlun í tíu liðum sem gerði ráð fyrir hægfara þróun ríkjanna í átt til sameiningar. Atburðarásin hefur hins vegar orðið öll önnur og flest bendir til að sameining ríkjanna verði að veruleika á mun skemmri tíma. Margir samverkandi þættir hafa valdið þessum umskiptum. Meðal þeirra sem mestu skipta er hinn mikli fólksflótti frá Austur-Þýskalandi og öðrum Austur-Evrópuríkjum og gífurlegur efnahagsvandi Austur-Þýskalands.
    Greinilegt er að mikill meiri hluti þýsku þjóðarinnar beggja vegna landamæra er hlynntur sameiningu þýsku ríkjanna. Nú þegar fjölflokkakerfi hefur verið komið á í Austur-Þýskalandi og

lýðræðislega kjörin ríkisstjórn tekur senn við völdum fer væntanlega í hönd sá tími að teknar verði ákvarðanir sem lúta að því hvernig að sameiningu verður staðið. Gjaldmiðilssamband er nú þegar í farvatninu og miðað er að því að taka upp notkun vestur-þýska marksins í austurhluta landsins.
    Með hvaða hætti staðið verður að sameiningu Þýskalands er að sjálfsögðu undir Þjóðverjum komið. Málið er þó töluvert flókið þegar kemur að utanríkis- og öryggismálum, enda á Vestur-Þýskaland aðild að Atlantshafsbandalaginu en Austur-Þýskaland að Varsjárbandalaginu.
    Til að finna sameiginlega lausn á þeim málum sem lúta að utanríkis- og öryggismálum var nýlega ákveðið að koma á nefnd þýsku ríkjanna beggja sem og fjórveldanna, Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Sovétríkjanna. Nefndin sem kom saman til fyrsta fundar 14. mars sl. mun hafa samráð við önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sem og önnur ríki. Þá mun Pólland taka þátt í fundum nefndarinnar þegar fjallað verður um austurlandamærin.
    Hlutverk nefndarinnar lýtur ekki hvað síst að tveimur meginatriðum: Í fyrsta lagi staða sameinaðs Þýskalands í öryggiskerfi Evrópu. Í öðru lagi er nauðsynlegt að samningar takist með Þjóðverjum og Pólverjum þannig að þeir síðarnefndu hafi enga ástæðu til að vefengja viðurkenningu Þýskalands á landamærum Póllands.
    Það er fagnaðarefni að sameining Þýskalands er í augsýn. Skipting landsins hefur alla tíð verið óeðlileg og löngu kominn tími til að henni verði aflétt. Fall kommúnismans í Austur-Þýskalandi hefur nú gert hana mögulega og það er Þjóðverja sjálfra að ákveða með hvaða hætti henni verði komið á. Sameining Þýskalands snertir hins vegar einnig hagsmuni annarra ríkja í Evrópu, hvort sem er í vestri eða austri. Það er því nauðsynlegt að finna viðunandi lausnir í þeim málum er lúta að öðrum ríkjum sem allir geta við unað.
    Sameining þýsku ríkjanna mun vafalaust verða í brennidepli í Evrópu á næstu mánuðum. Hafa ber þó hugfast að tilraunir til að yfirvinna tvískiptingu Evrópu fara nú fram á miklu breiðari grundvelli. Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, sem ber ensku skammstöfunina CSCE, þar sem 33 Evrópuríki eiga aðild auk Bandaríkjanna og Kanada, þjónar sem áður afar mikilvægu hlutverki. Á árinu verða haldnir þrír sérfræðingafundir ráðstefnunnar og má geta þess að einn þeirra, svokallað efnahagssamvinnuþing, stendur nú yfir þessa dagana í Bonn.
    Ætla má að mikilvægi CSCE innan evrópskrar samvinnu muni aukast á næstu árum eftir því sem samskipti ríkja austurs og vesturs verða frjálsari og opnari eins og vonir standa til. Jafnframt getur ekki hjá því farið að eðli og markmið ráðstefnunnar sjálfrar taki ákveðnum breytingum. Nýlega hefur skotið upp hugmyndum um að settar verði á fót sérstakar stofnanir á vegum ráðstefnunnar sem hefðu m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd samþykkta hennar, bæði að því er varðar afvopnunarmál og hinn

mannlega þátt, ekki hvað síst mannréttindamál. Líklegt er að þessi og aðrir hugmyndir um framtíð stofnunarinnar verði ofarlega á blaði á sérstökum leiðtogafundi þessara 35 ríkja sem efnt verður til seint á þessu ári.
    Þegar litið er til pólitískra samskipta austurs og vesturs virðist full ástæða til að ætla að runnið sé upp nýtt tímabil slökunar og samvinnu. Hernaðarlega ríkir hins vegar enn það ástand sem varð til vegna kalda stríðsins þar til samningaviðræður sem nú eru í gangi hafa skilað árangri og þær munu hafa afgerandi mikilvægi til þess að festa hina stjórnmálalegu þíðu í sessi.
    Viðræður hinna aðildarríkja ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, þ.e. ríkjanna sem fjalla um traustvekjandi aðgerðir, eru beint framhald Stokkhólmsráðstefnunnar frá 1986 enda stundum kenndar við hana og einfaldlega skammstafaðar sem Stokkhólmur II. Viðræðurnar snúast fyrst og fremst um traustvekjandi aðgerðir á hernaðarsviðinu en ekki eiginlegan niðurskurð herja eða afvopnun. Þær hafa því allt sl. ár verið nokkuð í skugga viðræðna þeirra 23 ríkja sem eiga aðild að hernaðarbandalögunum tveimur. Það er hins vegar alveg ljóst að niðurstaða þessara viðræðna hefur mikla þýðingu fyrir samskipti austurs og vesturs og vonir standa til að ljúka megi áfangaviðræðum á þessu ári.
    Mikill og almennur pólitískur vilji er fyrir því innan bandalaganna beggja að ljúka fyrsta samningi um niðurskurð hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu á þessu ári og undirrita hann með formlegum hætti á leiðtogafundi ráðstefnuríkjanna um samvinnu og öryggi Evrópu, þessara 35 ríkja, seinna á árinu. Jafnframt fjölgar þeim ráðamönnum sem vilja þegar að loknum fyrsta samningi hefja viðræður um þann næsta, áfanga II, og hafa sumir nefnt hið nýja upprennandi tímabil ,,afvopnunarkapphlaupið``.
    Vonir standa nú til að CFE-samningur verði tilbúinn til undirskriftar á þjóðarleiðtogafundi á hausti komanda, í öllu falli fyrir árslok, eins og ákveðið var á Ottawa-fundi utanríkisráðherra ríkjanna 23 fyrir skemmstu, enda varð þar almennt samkomulag um að fylgja eftir frumkvæði Bandaríkjaforseta um niðurskurð herliðs risaveldanna sem staðsett er í níu ríkjum á miðju meginlandi Evrópu. Samkomulagið felur í sér að Bandaríkin og Sovétríkin fái að hafa í hæsta lagi 195 þúsund manna herlið á svæðinu, hvort ríki um sig, en í Evrópu hafi Bandaríkin að auki 30 þúsund manna herlið utan miðsvæðis.
    Verulegur árangur hefur náðst í viðræðum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í Genf um niðurskurð langdrægra kjarnavopna á þessu ári eða snemma á næsta ári. Slíkt samkomulag, svokallað START-samkomulag, mundi hafa í för með sér allt að helmings fækkun ákveðinna tegunda langdrægra kjarnavopna risaveldanna.
    Hvað efnavopn varðar ríkir nokkur bjartsýni um að afvopnunarráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Genf um allsherjarbann undir ströngu eftirliti við framleiðslu, birgðasöfnun og notkun efnavopna eigi eftir að bera

ávöxt fyrr en síðar. Ákvörðun Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um að stuðla að því að flýta viðræðunum í Genf eins og framast er kostur er sérstakt ánægjuefni. Utanríkisráðherrar ríkjanna gáfu út sérstaka yfirlýsingu um efnavopn á fundi sínum í Moskvu í febrúar sl. Yfirlýsingin er til vitnis um að ríkin hafa nálgast hvort annað í mörgum ágreiningsefnum. Samkomulag er um að eftir að samningur um allsherjarbann hefur tekið gildi muni ríkin tvö útrýma efnavopnabirgðum sínum á átta árum og að fullu og öllu á næstu tveimur árum þar á eftir, svo framarlega sem öll ríki sem hafa efnavopn í fórum sínum, og þá er einkum vísað til ýmissa þróunarlanda, hafi þá staðfest samninginn með undirskrift sinni.
    Þegar á heildina er litið virðist óhætt að fullyrða að allt frá stríðslokum hafi bjartsýni um árangur á sviði afvopnunar aldrei verið meiri en nú þrátt fyrir allt né heldur stuðst við jafnraunhæfa möguleika og nú.
    Það leiðir af hnattstöðu Íslands að sé eitthvert svið afvopnunar sem skiptir Íslendinga meira máli en önnur, þá sé það afvopnun á höfunum. Hagsmunir okkar Íslendinga á því sviði eru svo augljósir að þeir þarfnast varla ítarlegrar skilgreiningar. Kjarni hagsmuna okkar á sviði afvopnunarmála lýtur bersýnilega að því að stuðla að hernaðarlegum stöðugleika og samdrætti í vígbúnaði norðurhafa ásamt því að draga úr slysahættu vegna kjarnorkuvígbúnaðar og þeim skaðlegu afleiðingum sem af þeim getur stafað fyrir lífríki sjávar.
    Í pólitískum umræðum innan Atlantshafsbandalagsins á sl. ári höfðum við Íslendingar frumkvæði að því að beina athyglinni að traustvekjandi aðgerðum og takmörkun vígbúnaðar á höfunum. Á leiðtogafundi Altantshafsbandalagsins í lok maímánaðar gerðum við formlega grein fyrir áhuga Íslands á þessum málaflokki og fluttum tillögu um að bandalagið kannaði með kerfisbundnum hætti hvernig skynsamlegt væri að standa að samningum um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar á höfum. Ísland varð þannig fyrst aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins til þess að lýsa formlega yfir stuðningi við að afvopnunarviðræður næðu til vígbúnaðar í höfum með meira afgerandi hætti en nú er raunin. Síðan hafa æ fleiri bandalagsríki sýnt málinu áhuga með þeim afleiðingum að aukinni athygli hefur verið beint að þessum málaflokki innan bandalagsins og á öðrum vettvangi að undanförnu.
    Málflutningur Íslendinga hefur í meginatriðum byggt á því að stefna bæri að samningaviðræðum um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar, sem næðu einnig til hafsvæða, að loknum viðræðum um fækkun hefðbundinna vopna í Evrópu sem vonir standa til að um verði samið á þessu ári. Á það hefur verið lögð áhersla að í ljósi þess að gera má ráð fyrir að samningar takist nú á þessu ári sé nauðsynlegt að hefja athuganir og umræðu innan bandalagsins nú þegar, enda væri hér um að ræða málaflokk sem næði til vígbúnaðar sem ekki hefði verið á dagskrá nema að mjög litlu leyti fyrr. Þar sem aðstæður á höfunum

væru gerólíkar aðstæðum á landi væri tímabært að hefja vandlega kerfisbundna athugun á helstu kostum nú þegar.
    Afstaða Íslendinga er í fullu samræmi við þá stefnu um takmörkun vígbúnaðar og afvopnun sem Atlantshafsbandalagið samþykkti á sl. ári og þá forgangsröð verkefna sem þá var ákveðin. Samræmd stefna bandalagsins gerði ráð fyrir því að árangur í samningum um hefðbundin vopn í Evrópu gerði kleift að beina athyglinni að frekari fækkun á sviði taktískra kjarnavopna sem og hefðbundinna vopna. Þess er að vænta að á þessu ári takist samningar um afvopnun hefðbundinna vopna sem og START-samningar. Þegar þeir samningar eru í höfn er
röðin komin að öðru og þá að okkar mati að samningagerð um traustvekjandi aðgerðir og afvopnun á höfunum.
    Það er einkum þrennt sem gerir það að verkum að aðstæður á höfum úti eru aðrar en á landi. Í fyrsta lagi eru Atlantshafsbandalagsríkin mun háðari höfunum en Sovétríkin sem eru fyrst og fremst landveldi. Norður-Atlantshafið tengir Bandaríkin og Kanada við Vestur-Evrópu. Flutningaleiðirnar yfir hafið þjóna því svipuðum tilgangi fyrir Atlantshafsbandalagið og vega- og járnbrautakerfi fyrir Sovétríkin. Afleiðing þessara landfræðilegu staðreynda er sú að Atlantshafsbandalaginu er nauðsyn að halda uppi herstyrk sem tryggt getur flutningaleiðir milli Norður-Ameríku og Evrópu við hvaða skilyrði sem er.
    Í öðru lagi eru höfin alþjóðleg og markast ekki af landamærum líkt og ríki. Flotum er frjálst að sigla nánast hvar sem er og hvenær sem er um heimshöfin án afskipta annarra. Þótt sjóherir verði að fara eftir alþjóðlegum siglingareglum eins og önnur skip skerðir það ekki rétt þeirra til frjálsra siglinga. Frelsi til siglinga um höfin er aldagömul hefð sem á sér djúpar rætur í hugum manna og er nauðsynlegt að taka tillit til þegar rætt er um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar á höfunum.
    Í þriðja lagi ber að hafa í huga hversu hreyfanlegir sjóherir eru. Þeir geta athafnað sig um öll heimsins höf og eru ekki bundnir við ákveðin svæði. Landheri og flugheri er ekki hægt að flytja frá einu svæði til annars á viðlíka hátt og sjóheri. Hinir fyrrnefndu þurfa mikinn viðbúnað og tímafrekan til þess að svo geti orðið og flugherir þurfa sérstakar bækistöðar. Sjóherir eru hins vegar hannaðir þannig að þeir geta með litlum fyrirvara fært sig frá einum stað til annars og þurfa ekki bækistöðvar í landi. Þeir eru því ekki bundnir svæðum líkt og annar herstyrkur.
    Í fjórða lagi er sannprófun samninga um sjóheri að mörgu leyti erfiðari viðfangs en á landi. Hér er höfuðatriðið kafbátar, sem eru í reynd þess eðlis, að enginn einn þáttur vígbúnaðar er jafnerfiður viðfangs þegar um sannprófun og eftirlit er að ræða. Þeir eru hannaðir á þann veg að þess er sérstaklega gætt að gera eftirlit með athöfnum þeirra eins erfitt og kostur er. Takmörkun á fjölda þeirra er engum vanda bundin en sannprófun á því hvaða vopn þeir bera eða á starfsemi þeirra er nokkuð sem aðeins verður leyst

með mjög náinni samvinnu samningsaðila. Það verður ekki gert einhliða.
    Það er í ljósi þeirra landfræðilegu staðreynda, sem hér hefur verið getið, að í málflutningi Íslendinga hefur verið lögð á það áhersla að samningar sem taka til vígbúnaðar á höfunum verða að taka mið af því hversu ríki eru háð höfum í mismiklum mæli. Þá hafa Íslendingar jafnframt lagt á það áherslu að samningar verði að taka tillit til hinnar aldagömlu hefðar um frelsi til siglinga um úthöfin. Það er ekki í þágu íslenskra hagsmuna að samið verði um traustvekjandi aðgerðir á höfum sem brjóta gegn þeirri aldagömlu hefð.
    Þessar tvær forsendur móta ramma um þá stefnu sem hefur verið í mótun í utanrrn. á undanförnum mánuðum og hér er lýst. Þær veita ákveðna viðmiðun við það sem við teljum æskilegt á sviði traustvekjandi aðgerða og takmörkun vígbúnaðar á höfunum og hvað við teljum ekki æskilegt. Á grundvelli þeirra munum við vega og meta hugmyndir og tillögur. Þá er ljóst að sannprófunarmálin setja skorður við því sem raunhæft er að stuðla að.
    Traustvekjandi aðgerðir, eins og þær sem hafa verið viðfangsefni í samningaviðræðunum í Vín og sem samþykktar voru í Stokkhólmi 1986, miða að því að bæta sem mest upplýsingastreymi milli austurs og vesturs á hernaðarsviðinu og setja reglur um samskipti og starfsemi herja. Mismunurinn á hafi og landi gerir það að verkum að traustvekjandi aðgerðir sem eiga við um land henta ekki endilega í öllum tilvikum að því er varðar höfin. Þó má færa rök fyrir því að ýmsar þeirra aðgerða sem eiga við um landheri megi aðlaga aðstæðum á höfum úti. Þetta á t.d. við um tilkynningarskyldu fyrir meiri háttar flotaæfingar sem og skipti á skoðunarmönnum, eftirlitsmönnum við slíkar æfingar. Þá gæti það haft verulega þýðingu að semja um upplýsingaskipti um málefni sjóherja og að stofna til málþinga milli austurs og vesturs um flotavígbúnað. Aðgerðir sem þessar væru til þess fallnar að móta upphafið að samningum milli austurs og vesturs um traustvekjandi aðgerðir á höfum.
    Við teljum það hins vegar stríða gegn reynslunni um frelsi til siglinga um höfin að setja skorður við flotaæfingum. Við teljum jafnframt að traustvekjandi aðgerðir sem setja skorður við liðsflutningum vestrænna ríkja á norðurslóðir komi ekki til greina. Allmargar þeirra tillagna sem Sovétríkin hafa sett fram um traustvekjandi aðgerðir á höfunum hafa því miður verið því marki brenndar að setja einhliða skorður við starfsemi flota Atlantshafsbandalagsríkjanna.
    Traustvekjandi aðgerðir á höfunum hafa fram til þessa einkum beinst að því að koma í veg fyrir slys og hættuleg atvik. Þetta er eðlilegt, enda slysahætta á höfunum töluverð sem leiðir m.a. af því að landamæri eru engin til að skilja á milli herja. Verulegur árangur hefur náðst í viðleitni til að draga úr slysum og hættulegum atvikum á höfunum. Alþjóðlegar siglingareglur hafa verið mótaðar um langan aldur, ekki síst í þessu skyni. Samkomulag Bandaríkjanna og

Sovétríkjanna um atvik á höfunum frá 1972 hefur verið árangursríkt. Hliðstæðir tvíhliða samningar hafa nú verið gerðir milli Sovétríkjanna og Bretlands, Vestur-Þýskalands, Frakklands, Ítalíu og Kanada og samningar af hálfu Norðmanna eru í burðarliðnum. Á síðasta ári gerðu Bandaríkin og Sovétríkin nýtt samkomulag um aðgerðir til þess að koma í veg fyrir hættuleg atvik á hernaðarsviðinu. Samkomulagið nær einnig til hafsvæða og má líta á sem viðbót við samkomulagið frá 1972.
    Allar eru þessar aðgerðir mikilvægar til þess að koma í veg fyrir slysahættu á höfunum. En þær ná fyrst og fremst til atvika sem geta átt sér stað vegna samskipta sjóherja og annarra skipa á hafi en ekki til slysa sem eiga sér stað vegna bilana t.d. í vélbúnaði. Það er Íslendingum augljóst hagsmunamál að koma í veg fyrir slys af því tagi sem áttu sér stað undan ströndum Noregs á sl. ári vegna bilana í sovéskum kjarnorkukafbátum þremur talsins. Afleiðingar geislavirkni á fiskimið og markað Íslendinga þarf ekki að tíunda fyrir hv. alþm. eða öðrum Íslendingum.
    Í ræðu minni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í október vakti ég athygli á þessum vanda og lagði þá til að sem fyrsta skref yrði Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni falið að setja leiðbeinandi alþjóðareglur um kjarnaofna í skipum. Þá hafa Svíar sett fram hugmyndir um að styrkja sáttmálann um tilkynningar vegna kjarnorkuslysa, en hann var staðfestur af ríkisstjórninni í september sl. Á fundi norrænu utanríkisráðherranna í Turku í Finnlandi í febrúar sl. varð samkomulag um að fulltrúar Norðurlandanna hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni mundu vinna saman að framgangi þessara mála sem og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Þegar komið er að spurningunni um eiginlega takmörkun vígbúnaðar í norðurhöfum er það í mínum huga höfuðatriði að dregið verði úr kjarnorkuvígbúnaði. Takist START-samningar á þessu ári, eins og vonir standa til, má gera ráð fyrir verulegri fækkun kjarnavopna í eldflaugakafbátum og er það mikið fagnaðarefni. Ekki er þó enn ljóst hvort START-samningar fela í sér fækkun langdrægra stýriflauga búnum kjarnaoddum sem vissulega væri út frá öllum sjónarmiðum afar æskilegt. Þá eru þúsundir annarra kjarnavopna utan START-samninganna. Sú hugmynd að banna eða takmarka mjög mikið þessi kjarnavopn í sjóherjum ásamt langdrægum stýriflaugum hefur á undanförnum árum fengið verulegan meðbyr á alþjóðavettvangi, sérstaklega eftir að Paul Nitze, sem þá var aðalsamningamaður Bandaríkjanna í START-viðræðunum, hreyfði henni á sínum tíma. Það er ánægjuefni þegar fyrrum formaður bandarískra herráðsins, William Crowe aðmíráll, tekur undir þessar hugmyndir eins og hann gerði í heimsfrægu viðtali í byrjun þessa árs.
    Annar höfuðþáttur kjarnorkuvígbúnaðar á norðurslóðum eru kjarnaknúnir árásarkafbátar. Hér erum við komin að þeim þætti vígbúnaðar sem skiptir öryggi sjóleiðanna hvað mestu máli. Eins og kemur fram í þeirri skýrslu sem nú er til umræðu kann

niðurskurður og samdráttur í herafla Atlantshafsbandalagsins á meginlandi Evrópu að auka mikilvægi flutningaleiðanna frá Bandaríkjunum og Kanada. Ástæðan er þessi: Niðurskurður og flutningur herstyrks úr framvarðarstöðu í Mið-Evrópu felur í sér að dragi einhvern tíma til ófriðar í álfunni vegna árekstra á stjórnmálasviði muni það kalla á mikla liðsflutninga til fremstu víglínu. Sovétríkin gætu nýtt landleiðina í sína þágu en Atlantshafsbandalagið yrði að treysta á sjóleiðina framar öðru. Með öðrum orðum, niðurskurður herja í Mið-Evrópu felur í sér að mikilvægi liðsflutninga eykst og þar af leiðandi flutningaleiðanna yfir Atlantshafið þrátt fyrir að ófriðarlíkur séu miklu minni, sem betur fer, en áður. Þetta kann að hljóma sem þversögn en er það alls ekki. Ófriðarlíkur í Evrópu verða væntanlega miklu minni en áður en vopnuð átök verður hins vegar aldrei hægt að útiloka eins og sagan er e.t.v. ríkasti vitnisburðurinn um.
    Í kjölfar afvopnunarsamninga í Evrópu verður viðbúnaður til að tryggja öryggi þeirra ríkja sem aðild eiga að Atlantshafsbandalaginu mun minni en raun hefur verið fram til þessa. En spurningin er: Hvernig verður öryggi siglingaleiðanna best tryggt? Hin rökrétta leið til að tryggja og efla öryggi siglingaleiðanna með minni viðbúnaði, minni vopnabúnaði er greinilega sú að beina augunum að þeim herstyrk sem beina má gegn þeim, með öðrum orðum hinum kjarnorkuknúna árásarkafbátaflota Sovétríkjanna og leita leiða til að ná fram samdrætti á flotanum með samningum. Fækkun kjarnorkuknúinna árásarkafbáta í norðurhöfum samræmist jafnframt því markmiði að vernda umhverfi sjávar fyrir hættunni af stórfelldum mengunarslysum eða umhverfisslysum af völdum geislunar.
    Aukið mikilvægi flutningaleiðanna yfir Norður-Atlantshaf í kjölfar samninga um afvopnun varðandi hefðbundin vopn og takmörkun vígbúnaðar á norðurhöfum eru þannig engan veginn ósamrýmanlegir þættir. Öllu fremur er ein höfuðforsendan fyrir auknu öryggi flutningaleiðanna sú að samningar takist um takmörkun vígbúnaðar á höfunum sem nái til kjarnorkuknúinna árásarkafbáta.
    Sjóherir voru ekki á dagskrá í samningaviðræðum 23 ríkja bandalaganna beggja um hefðbundna afvopnun sem fara fram í Vín. Þeir koma hins vegar við sögu í samningaviðræðum þátttökuríkjanna 35 á ráðstefnu um traustvekjandi aðgerðir
sem einnig fara fram í Vín. Erindisbréf viðræðnanna, sem samþykkt var í Madrid 1983, sníður traustvekjandi aðgerðum á höfunum því miður nokkuð þröngan stakk þar sem einungis starfsemi sjóherja, sem beinlínis tengjast tilkynningarskyldum æfingum á landi, eru viðfangsefni þessara viðræðna.
    Formlegur tillöguflutningur á þessu stigi málsins getur því einungis verið innan ramma erindisbréfs Vínarviðræðnanna eins og kveðið var á um það í Madrid. Það þýðir þó ekki að málflutningur Íslendinga verði eingöngu miðaður við þær. Megináherslan verður lögð á að vinna hugmyndum um traustvekjandi

aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar á höfunum fylgi og stuðla að því að samningaviðræður nái til hafsvæðanna.
    Á vegum utanrrn. verður á þessu ári áfram unnið að stefnumótun á traustvekjandi aðgerðum á afvopnun á höfunum og miðað að því að vinna þeim hugmyndum fylgi innan Atlantshafsbandalagsins í tvíhliða viðræðum við aðildarríki og á öðrum vettvangi. Ekki er ólíklegt að eftir að gengið hefur verið frá samningum um hefðbundin vopn í Evrópu verði afvopnunarmálin tekin til athugunar í heild sinni, þar á meðal vígbúnaður á höfum.
    Virðulegi forseti. Þá vil ég víkja nokkrum orðum að varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu eru hornsteinar íslenskrar öryggis- og varnarmálastefnu enn í dag. Hernaðarlegt mikilvægi Íslands byggist á hnattstöðu landsins í Norður-Atlantshafi. Varnarliðið sem staðsett er á Keflavíkurflugvelli eða búnaður þess eykur hvorki né dregur úr hernaðarlegu mikilvægi landsins. Varnarliðið hefur hins vegar afgerandi áhrif á möguleika okkar til þess að fylgjast með hernaðarumsvifum umhverfis Ísland og bregðast tímanlega við atburðum eða þróun sem stofnað getur öryggi þjóðarinnar í hættu. Þetta eftirlitshlutverk varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli er mikilvægur hlekkur í eftirlits- og aðvörunarkerfi Atlantshafsbandalagsins og vörnum Íslands.
    Innan ramma þessa eftirlits með umferð flugvéla, skipa og kafbáta umhverfis Ísland fellur m.a. starfsemi sérstakrar öryggisdeildar sjóhersins eða svokallaðrar ,,Naval Security Group`` sem varð tilefni utandagskrárumræðu hér á Alþingi sl. mánudag. Af því tilefni ákvað ég að láta íslenska sérfræðinga og tæknimenn kanna sérstaklega hvort starfsemi umræddrar öryggisdeildar sjóhersins væri í samræmi við framangreint markmið. Niðurstöður þeirrar athugunar eru eftirfarandi:
    Deildin er hluti af starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Hún hefur starfað þar með vitund íslenskra stjórnvalda frá upphafi, frá árinu 1959. Starfsemi öryggisdeildarinnar var skoðuð af varnarmálaskrifstofu í fyrsta sinn árið 1985. Hlutverk þessarar deildar er að styðja starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, m.a. björgunaraðgerðir úr sjó, svo og að fylgjast með radíómerkjum sovéskra herflugvéla, skipa og kafbáta í nánd við landið og staðsetja með miðun. Deild þessi heyrir beint undir yfirherstjórn Atlantshafsflotans og er skipuð starfsmönnum sjóhersins en þar starfa engir borgaralegir starfsmenn. Þá hafa yfirmenn varnarliðsins fullvissað íslenska utanrrn. um það að sú starfsemi sem þar fari fram sé eingöngu til styrktar eftirlitshlutverki varnarliðsins auk þess sem hún getur miðað út og staðsett köll á alþjóðlegri neyðarbylgju. Það er undirstrikað af hálfu þeirra íslensku tæknimanna sem stöðina skoðuðu að enginn búnaður, hvorki loftnet né önnur tæki sem nota má til hlerana símaþjónustu eða skeytasendinga frá eða til Íslands né heldur innan lands er fyrir hendi

innan stöðvarinnar, enda samræmist það ekki íslenskum lögum.
    Af þessu má ráða að hér er um eðlilega starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli að ræða í þágu öryggis og varna landsins. Öllum staðhæfingum um ólöglega og óréttmæta starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og öryggisdeildar sjóhersins er því vísað á bug sem órökstuddum að lokinni rækilegri skoðun. Enda skal það áréttað að í þeim blaðagreinum, sem vitnað var til um þetta efni, var því hvergi haldið fram að slíkar njósnir væru stundaðar hér á Íslandi.
    Vil ég þá víkja að öðru meginhlutverki varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli en það er eftirlit með sjóflutningaleiðum yfir Norður-Atlantshaf. Hernaðarlegt mikilvægi Íslands ræðst ekki hvað síst af mikilvægi þessara flutningaleiða, eins og ég hef áður vikið að, en þær eru lífæð bandalagsþjóðanna. Niðurskurður og samdráttur í herafla Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja munu auka mikilvægi liðsaukaflutninganna á hættu- og ófriðartímum. Hernaðarlegt mikilvægi Íslands mun þá væntanlega aukast að sama skapi hvort sem oss líkar betur eða verr, svo og þýðingarmikið hlutverk eftirlitsstöðvar. Takist samningar um afvopnun, eins og vonir standa til, og enn fremur um vígbúnaðareftirlit á höfunum aukast jafnframt líkur á því að Ísland muni gegna lykilhlutverki í framtíðinni sem miðstöð eftirlits með framkvæmd afvopnunarsamninga á höfunum. Það mundi aftur gera þörfina fyrir byggingu varaflugvallar við íslenska flugumsjónarsvæðið enn brýnni en ella.
    Virðulegi forseti. Íslenskir aðalverktakar voru stofnaðir árið 1954 í framhaldi af samkomulagi Íslendinga og Bandaríkjamanna um að íslenskur verktaki taki við hlutverki bandaríska verktakafyrirtækisins sem þá var samningsaðili við varnarliðið um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Stofnaðilar Íslenskra aðalverktaka voru ríkissjóður með 25% eignaraðild, Sameinaðir verktakar með 50% og Reginn hf. með 25%. Félagsstjórn var skipuð einum fulltrúa ríkisins, tveimur fulltrúum Sameinaðra verktaka og einum fulltrúa Regins hf.
    Í tíð núv. ríkisstjórnar hefur verið unnið að breytingum á stjórn og eignaraðild að Aðalverktökum. Eðli fyrirtækisins og einokunaraðstaða, sem það nýtur í skjóli ríkisvaldsins, gerir eðlilegt að stjórnvöld hafi meiri áhrif á stjórn fyrirtækisins en verið hefur. Íslenskir aðalverktakar eru í raun grundvallaðir á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna en öll meðferð samningsins af Íslands hálfu er á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Fyrir aðalfund félagsins á síðasta ári var gert samkomulag við meðeigendur ríkisins um að fjölgað yrði í stjórn félagsins um einn og að fulltrúar ríkisins yrðu eftirleiðis tveir af fimm. Jafnframt var þá lýst vilja stjórnvalda til að breyta eignarhlutföllum í félaginu þannig að ríkisvaldið eignaðist meiri hluta. Í desember sl. náðist samkomulag þar sem Sameinaðir verktakar og Reginn hf. lýsa sig reiðubúna að ganga til samninga sem leiði til meirihlutaeignar ríkisins. Að þessum samningum er

nú unnið og við það miðað að samningsgerð verði lokið fyrir aðalfund félagsins á þessu ári. Það ber að undirstrika að eingöngu er um viljayfirlýsingu að ræða frá meðeigendum ríkisins um að ganga til samninga um það meginatriði að ríkið eignist meiri hlutann en ekki skuldbindingu um að ná þessum samningum. Samningaviðræður ganga eðlilega en það er ekki tímabært að skýra frá einstökum atriðum þeirra. Það mun koma í ljós á næstu vikum hvort samningar nást en á þessu stigi má segja að hófleg bjartsýni sé um að samningar náist þannig að viðunandi sé fyrir alla aðila.
    Ég hef þegar gert grein fyrir varaflugvallarmálinu við ólík og mörg tækifæri hér á Alþingi og sé því ekki ástæðu til þess að fjalla um það sérstaklega nú.
    Ég vil þá víkja nokkrum orðum, virðulegi forseti, að norrænni samvinnu. Í kjölfar Norðurlandaráðsþings í Reykjavík nýlega spunnust líflegar umræður um tilgang og eðli norrænnar samvinnu og vil ég gera þeim málum nokkur skil.
    Ef til vill er ekki tekið of djúpt í árinni þó sagt sé að norræn samvinna sé að nokkru leyti að verða íslenskri stjórnsýslu í ráðuneytunum ofviða. Sé gagnrýni sú, sem fram hefur komið varðandi samvinnu þessa, dregin saman virðist mér menn einkum benda á eftirtalin atriði:
    1. Markmiðin eru ekki nógu skýr og því er örðugt að byggja rökréttan grundvöll forgangsverkefna.
    2. Þrátt fyrir almennan vilja til norræns samstarfs, sem er óvefengjanlegur, þá tekur samvinnan ekki til ýmissa stórmála og framkvæmd samnorrænna ákvarðana er oft og tíðum slök í löndunum sjálfum.
    3. Ákvæðið um samhljóða niðurstöðu við ákvarðanatöku takmarkar starfsemina þótt hún hafi sína kosti. Það hefur síðan áhrif á það hvaða mál eru tekin til meðferðar og tefur stundum framgang mála.
    Þetta kemur m.a. fram í skýrslu sem norræna ráðherranefndin hefur látið hagsýslusérfræðinga semja um hvernig virkja megi samstarfið betur og gera það skilvirkara. Er nú unnið að því að kanna leiðir til úrbóta samkvæmt ábendingum höfunda. Umfang norrænnar samvinnu er afar mikið sem sést á eftirfarandi:
    Það eru starfandi 18 ráðherranenfndir, 19 embættismannanefndir, skrifstofa ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn með 90 starfsmenn, 70 stofnanir, þar af 35 sem hafa á að skipa föstu starfsliði, um 150 vinnu- og úttektarhópar og þar að auki fjöldi samstarfsverkefna.
    Niðurstöður norrænu fjárlaganna fyrir árið 1990, sem fylgja skýrslu minni til Alþingis, fskj. 4, eru um 700 millj. danskar kr. sem svara til rúmlega 6 1 / 2 milljarðs íslenskra króna. Af þessari upphæð greiða Íslendingar einungis 1% og er gert ráð fyrir 58 millj. kr. framlagi á fjárlögum utanrrn. á þessu ári undir liðnum Alþjóðastofnanir til þess.
    Nú má spyrja: Skila þessir fjármunir sér aftur til okkar og þá hvernig? Á því leikur ekki hinn minnsti vafi að þetta eina prósent skilar sér margfalt og að oft skili framlagið sér í beinu hlutfalli við fjölda

landanna, þ.e. að ,,deilt sé í með fimm``.
    Þegar rætt er um kostnað Íslendinga af hinu norræna samstarfi er þó ekki einvörðungu að telja fram þetta eina prósent norrænu fjárlaganna. Skrifstofa samstarfsráðherra Norðurlanda (skrifstofa Norðurlandamála) er vistuð í utanrrn. og til reksturs hennar eru áætlaðar 10,8 millj. á fjárlögum. Íslendingar eiga fulltrúa í embættismannanefndum og fjölmörgum undirnefndum og af því hlýst kostnaður bæði við undirbúning, úrvinnslu, svo og verulegur ferðakostnaður sem og kostnaður vegna vinnutaps vegna langra ferða.
    Ekki er unnt að slá tölu á hve mörg ársverk eru unnin hér í þágu norræns samstarfs innan ráðuneyta og ríkisstofnana. Það fer að sjálfsögðu eftir hvaða nefndir er um að ræða og hversu virkir menn eru en telja má að verulegur
kostnaður sé fólginn í þáttöku Íslendinga í norrænu samstarfi sem ekki er tíundaður í fjárlögum.
    Eins og áður var getið um hefur norræna ráðherranefndin tekið sér tak í ljósi skýrslunnar ,,Effektivisering i Nordisk Ministerrad`` sem kom út á sl. ári. Þegar hin norrænu fjárlög ársins 1990 voru samþykkt í Maríuhöfn 14. nóv. sl. var jafnframt stigið mikilvægt skref sem íslenski samstarfsráðherrann talaði fyrir og þegar frá líður hlýtur að verka til hagræðingar og skynsamlegs brúks norræns fjár. Þar er átt við að sú regla sem gilt hefur undanfarin ár um 3% sjálfvirka aukningu norrænu fjárlaganna, sem í gildi hefur verið í nokkur ár, var afnumin og hækkun fjárlaga í framtíðinni verður háð strangari úttekt á verðleikum þeirra verkefna, viðfangsefna og starfsemi sem upp á er stungið. Það eru vonir bundnar við að með nýrri og breyttri fjárlagagerð verði unnt að breyta forgangsröð verkefna þannig að fjármagn nýtist betur og gangi til þeirra verkefna sem brýnust þykja hverju sinni, eru með öðrum orðum í takt við tímann. Af þessu leiðir, ef að líkum lætur, að minni áhersla verður lögð á samnorrænar stofnanir og uppi hafa verið ráðagerðir um að fækka þeim, þótt það hafi sætt harðri gagnrýni úr ýmsum
áttum, en þess í stað verði ráðist í tímabundin samstarfsverkefni sem brýn þörf er fyrir.
    Ljóst er að þótt margt sé vel gert þá má ýmislegt fara betur í framkvæmd norræns samstarfs. Til þess að svo verði þarf pólitískan kjark og e.t.v. markvissari fjármálastjórn. Allt um það er samstaða ótvíræð meðal Norðurlandaþjóðanna allra um nauðsyn norræns samstarfs ríkisstjórna landanna fimm og þjóðþinga og ekkert bendir til annars en að norræn samvinna verði eftir sem áður einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu.
    Virðulegi forseti. Á einum stað stendur skrifað í góðri bók að hinir síðustu skuli verða fyrstir og hinir fyrstu síðastir. Það er því af ráðnum hug sem ég hef kosið að víkja síðast í þessari ræðu minni að þeim þætti utanríkisstefnunnar sem fyrstur kemur á lista yfir einstök atriði utanríkismála í málefnasamningi núv. ríkisstjórnar, en það er aðstoð og samvinna við þróunarríki.

    Ég vil rifja það hér upp, enn einu sinni, að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti fyrir meira en aldarfjórðungi þau tilmæli til betur megandi þjóða heims að þær verðu sem svarar einum hundraðshluta af þjóðarframleiðslu til aðstoðar við þær þjóðir sem fátækastar eru. Alþingi ályktaði um málið árið 1985, en enn sem komið er hefur lítið farið fyrir efndum. Eins og fram kemur í fskj. 8 með skýrslu minni eru Íslendingar berir að því að vera neðstir á lista aðildarríkja OECD hvað varðar framlög til þróunarsamvinnu þar sem við eyddum einungis um 0,05% af þjóðarframleiðslu til þessa málaflokks. Á þessu ári eru veittar á fjárlögum rúmlega 224 millj. kr. sem flokkast undir opinbera þróunaraðstoð. Þrátt fyrir að starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar hafi e.t.v. verið meiri og líflegri árið 1989 en nokkru sinni áður tel ég tímabært að Íslendingar girði sig í brók og geri alvöru úr heitstrengingum sínum um aukna samvinnu við fátækari þjóðir á suðurhveli jarðar.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.