Utanríkismál
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil segja í upphafi ræðu minnar að það er í hæsta máta óviðeigandi að verið sé að flytja hér skýrslur sem eiga að vera marktækar vænti ég í þágu þessarar þjóðar kl. 25 mínútur yfir 10 að kvöldi. Hér er ekki einn einasti ráðherra viðstaddur og örfáir þingmenn. Ég held, hæstv. forseti, að ég óski eftir því að þessari umræðu verði frestað þangað til á morgun þar sem ég tel það eiginlega lágmarkskröfu að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir þegar skýrslur eru ræddar. Ég mótmæli því í nafni þingmanna og ég mótmæli því í nafni íslensku þjóðarinnar að um mál sem þetta skuli vera fjallað með þessum hætti. Það getur vel verið að hæstv. utanrrh. --- sem nú er mættur í salinn --- finnist þetta ekki mikils um vert en það er þá kannski tilefni til að efna til blaðamannafundar og ræða um það hvernig fjallað er um hin mikilsverðustu mál á Alþingi Íslendinga. Ég segi fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að ég læt ekki bjóða mér þetta og ég óska eftir svari frá forseta um það hvort ... ( Forseti: Vegna þessara orða hv. þm. vill forseti upplýsa að hér eru í húsinu 18 hv. þm. Mönnum er fyllilega ljóst að hér er fundur í sameinuðu þingi. Auðvitað verður hver að ráða því sjálfur hvort hann hyggst sitja fundinn eða ekki. Forseti er staðráðinn í að halda þessum fundi fram til kl. 12 eins og talað hefur verið um. Ef hv. 14. þm. Reykv. kýs að fresta máli sínu til morguns verður ekki á móti því haft en fundinum verður fram haldið eins og áætlað hafði verið.)
    Ég vil, virðulegi forseti, vekja athygli á því að þó að hv. þm. ýmsir, og hæstv. forseti hefur greinilega fallið fyrir því, álíti að það sé ekki með þeim fylgst og þeir geti hagað sér eins og þeim sýnist, þá vita Íslendingar það vel að hið háa Alþingi hefur ekki sinnt sínum störfum sem skyldi sem m.a. hefur komið fram í því að virðulegur forseti Nd. þurfti að senda hv. þm. þeirrar deildar tiltal í bréfi vegna þess hve þeir hafa rækt sín störf illa á hinu háa Alþingi. ( Gripið fram í: Stjórnarþingmenn.) Mig gildir einu hvort það hafa verið stjórnarþingmenn eða aðrir þingmenn, virðulegur forseti Nd. sá sig knúinn til þess að senda slíkt bréf. Ég minni
á það að hæstv. forsrh. var hér í dag. Hann kom inn á málefni NATO eða Atlantshafsbandalagsins í ræðu sinni. M.a. vék hann sérstaklega að Sjálfstfl. og þingmönnum Sjálfstfl., bæði núverandi og fyrrverandi. Ég hef ekki tækifæri til þess að láta hæstv. forsrh. hlýða á ræðu mína né þau mótmæli sem ég vil leyfa mér að koma á framfæri vegna þeirra ummæla sem hann viðhafði hér í dag. Ég spyr virðulegan forseta: Hvers virði er þingræði á Íslandi ef ekki er hægt að virða þær óskir að ráðherrar hlusti á ræður þingmanna í mikilsverðum málum? Virðulegur forseti getur keyrt það í gegn að menn sitji hér og tali yfir sjálfum sér til kl. 12 í nótt. En ég er ekki viss um að það muni auka á sóma Alþingis ef forseti gerir svo og verður ekki við þeirri beiðni sem ég hef hér fram fært.
    Ég mun, virðulegi forseti, ekki flytja mína ræðu í

dag. Ef virðulegur forseti vill standa við þau orð sem hann viðhafði áðan um að ég fengi að flytja skýrslu mína á morgun þá mun ég gera það. Og þá óska ég eftir því jafnframt, virðulegi forseti, að bæði hæstv. forsrh. og utanrrh. séu viðstaddir. ( Forseti: Forseti hlýtur að upplýsa það að í fyrsta skipti var samið við formenn þingflokka um framvindu þessarar umræðu sem nú fer fram. Það varð að eins konar heiðursmannasamkomulagi hvernig þessi umræða skyldi fara fram, bæði hvað varðaði tímalengd og annað. Við það samkomulag stóð hæstv. utanrrh. en þrír hv. þm. hafa brotið það samkomulag mjög illilega. Vitaskuld var það ljóst í allri þeirri umræðu að enginn gerði tilraun til að stöðva hv. þm. því hér er að sjálfsögðu frjáls ræðutími. En um það hafði vissulega verið samið að reyna að halda umræðunni innan þess ramma sem talað var um. Það var jafnframt samið um það að þessi umræða færi fram þar til um kl. 12, síðan yrði henni haldið áfram kl. 2 á morgun. Forseti sér enga ástæðu til þess að víkja frá þessu fyrirkomulagi. Til að auðvelda hv. þm. fundarsókn hér í kvöld var hringt til hvers einasta hv. þm. og honum tilkynnt að fundur hæfist kl. 9. Betur getur forseti ekki gert. En það er sjálfsagt að hv. 14. þm. Reykv. fresti ræðu sinni til morguns. Við því verður ekki amast, en fundinum verður að halda fram hér eins og áætlað hafði verið.)
    Já, virðulegur forseti, ég ætla í fyrsta lagi að gera mjög alvarlega athugasemd við það sem forseti hefur sagt. Það er ekki unnt að útfæra þingræði og lýðræðislega stjórnarhætti á grundvelli samninga um formsatriði. Það sem skiptir meginmáli fyrir þingræði og lýðræði eru hin efnislegu atriði málsins en ekki hvað einhverjir hv. þm., hv. formenn þingflokka né ráðherrar koma sér saman um. Þetta er grundvallaratriði. Þess vegna mótmæli ég þeim skilningi að það sé hægt að haga störfum þingsins út frá einhverjum samningum um formsatriði. Ég krefst þess að sú breyting verði á í störfum þingsins að efnisatriði verði látin ráða í þeim samningum.