Utanríkismál
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna þessara orða hv. þm. vill forseti upplýsa að grundvallarhugmyndin að þessari uppsetningu fundarins var einmitt byggð á virðingu fyrir lýðræði. Virðingu fyrir því að allir hv. fulltrúar stjórnmálaflokka fengju að tala hér í dag í fyrstu umferð. Síðan mun umræðan auðvitað halda áfram eins og hv. þm. kjósa. En hér var verið að reyna að forðast að tveir eða þrír hv. þm. sætu einir að umræðunni í dag og var talið lýðræðislegra að fulltrúar allra flokka fengju að tala. --- Ég bið hv. 3. þm. Reykv. að hafa biðlund, hann mun komast að hér. --- Sú er skýring á þessu fyrirkomulagi. Hún er langt frá því að vera ólýðræðisleg, auk þess sem hv. þm. er að sjálfsögðu kunnugt um að oftlega, þegar um er að ræða svo mikilvæg mál sem hér eru nú rædd, er samið um framvindu umræðu þannig að allir komist að. En hv. 3. þm. Reykv. hefur beðið um að tala um þingsköp, vænti ég.