Utanríkismál
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Ragnhildur Helgadóttir (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég heyri að frú forseti nefnir að einhverjir þingmenn hafi brotið eitthvert samkomulag með lengd á ræðum sínum. Það voru engin nöfn nefnd í því sambandi. Ég veit að ég hef talað alllengi hér í kvöld enda talaði ég um skýrslu Evrópuráðsins sem hefur nýlega lokið einhverju sögulegasta starfsári sínu í 40 ár. Ég sleppti því vegna tímalengdarinnar að tala um stefnu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu og viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins. Ég á þó sæti í þeirri nefnd og hefði þurft að ræða það. Síðan segir hæstv. forseti að þingmenn hafi brotið eitthvert samkomulag. Mér er mætavel kunnugt um það að hæstv. forseti gerði áætlun og við sáum áætlun. Mér datt ekki í hug annað en að sá mínútufjöldi sem var nefndur á því blaði væri einhvers konar ágiskun til að byrja með frá hæstv. forseta því neðst á blaðinu stóð: Annars fer lengd umræðunnar eftir áhuga þingmanna.
    Ég vil leyfa mér eftirleiðis að óska þess, ef slíkt samkomulag er gert og ég stend hér í ræðustól og er að fara fram yfir einhvern samkomulagstíma, að mér verði þá a.m.k. sagt frá því. Forseti slái þá í bjöllu sína og segi mér af því ef ég er að brjóta eitthvert samkomulag. Ég hef ekki minnsta áhuga á því að brjóta neitt samkomulag, hvorki það sem ég hef sjálf gert né heldur það sem formenn þingflokka kunna að hafa gert fyrir mína hönd. Það er ekki von að formaður þingflokks sjálfstæðismanna hafi getað sagt okkur það því hann er alls ekki á þingfundi núna. Ég veit ekki einu sinni hvort hann er í bænum, ég held ekki. En hæstv. forseti hefði þá getað skýrt okkur frá því hvernig þessi mál stóðu. Ég greindi hæstv. forseta frá því í dag að ég þyrfti, auk skýrslunnar, að ræða fleiri atriði úr skýrslu hæstv. utanrrh. Ég vísa á bug ásökun um brot á samkomulagi.