Utanríkismál
Föstudaginn 30. mars 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Ég flyt hér skýrslu um starfsemi þingmannasamtaka Norður-Atlantshafsbandalagsins fyrir árið 1989 fyrir hönd sendinefndar Alþingis hjá samtökunum, en nefndina skipuðu sem aðalmenn Guðmundur H. Garðarsson, Jóhann Einvarðsson og Karl Steinar Guðnason, og sem varamenn Salome Þorkelsdóttir og Ingi Björn Albertsson.
    Virðulegi forseti. Þetta er í fyrsta sinn frá því að fulltrúar Alþingis tóku fyrst þátt í þessum störfum, sem var árið 1955, sem skrifleg skýrsla er lögð fram á hinu háa Alþingi. Af því tilefni finnst mér viðeigandi að fjalla nokkuð ítarlegar um þetta mál en ella.
    Ég mun í sambandi við þessa skýrslu og á grundvelli hennar einkanlega fjalla um eftirfarandi atriði:
    Í fyrsta lagi mun ég rifja upp aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu árið 1949. Í öðru lagi mun ég ræða um Norður-Atlantshafsþingið, almennt um starfsemi þingsins, um skipulag, stjórn og framkvæmdastjórn og einnig um þátttöku fulltrúa Alþingis í störfum þingsins. Þá mun ég, virðulegi forseti, fjalla nokkuð um einstaka liði í starfsemi þingsins 1989 og einnig vil ég vekja athygli hv. þm. á því að með skýrslunni fylgir Atlantshafssáttmálinn og starfsreglur þingsins.
    Þá mun ég, virðulegi forseti, í ræðu minni víkja nokkuð að einstökum efnisatriðum sem lúta að þessu máli eða eru því tengd, sérstaklega með tilliti til þróunar mála og stöðu Atlantshafsbandalagsríkjanna við breyttar aðstæður.
    Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um gerðist Ísland aðili að Atlantshafsbandalaginu árið 1949. Ég mun ekki ræða í einstökum atriðum aðdraganda þess að Ísland gerðist aðili að þessu bandalagi, en minni á það að
árið 1949 þegar Ísland sótti um aðild var að völdum á Íslandi samstjórn Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar, en utanríkisráðherra var á þessum tíma Bjarni Benediktsson.
    Í janúar árið 1949 var óskað eftir aðild Íslendinga að þeim viðræðum sem áttu sér stað á milli lýðræðisríkja Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna og Kanada um hugsanlega stofnun varnar- og öryggisbandalags. Og hinn 18. mars 1949 var Íslandi formlega boðin þátttaka að þessum samtökum af ríkisstjórnum þeirra landa sem unnu að stofnun bandalagsins, en þau voru Bandaríkin, Belgía, Bretland, Frakkland, Holland, Kanada, Lúxemborg og Noregur.
    Í framhaldi þessara viðræðna lagði ríkisstjórnin hinn 28. mars 1949 fram á Alþingi till. til þál. um þátttöku Íslands í Norður-Atlantshafssamningi. Tillagan var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gerast stofnaðili fyrir Íslands hönd að Norður-Atlantshafssamningi þeim sem fulltrúar

Bandaríkjanna, Belgíu, Bretlands, Frakklands, Hollands, Kanada, Lúxemborgar og Noregs hafa orðið ásáttir um og prentaður er sem fylgiskjal með ályktun þessari.``
    Í inngangsorðum samningsins segir, með leyfi forseta:
    ,,Aðilar samnings þessa lýsa yfir að nýju tryggð sinni við markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna og ósk sinni um að lifa í friði við allar þjóðir og allar ríkisstjórnir.
    Þeir eru staðráðnir í því að varðveita frelsi þjóða sinna, sameiginlega arfleifð þeirra og menningu er hvíla á meginreglum lýðræðis, einstaklingsfrelsi og lögum og rétti.``
    Þar segir enn fremur, með leyfi forseta:
    ,,Þeir hafa ákveðið að taka höndum saman um sameiginlegar varnir og varðveislu friðar og öryggis.``
    Í athugasemdum við þáltill. er því lýst að undanfarna mánuði, þ.e. í byrjun mars 1949, hafi lýðræðisþjóðirnar við norðanvert Atlantshaf unnið að samningsgerð sín á milli til að tryggja frið og velmegun á þessum slóðum með þeim hætti að stofna til samtaka, slíkra sem ráðgerð eru í 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Að lokinni síðari umræðu fyrir nákvæmlega 41 ári, þann 30. mars 1949, var tillagan samþykkt að viðhöfðu nafnakalli með 37 atkvæðum gegn 13 þannig að við Íslendingar getum horft á það sem sögulegan atburð að nú eru 41 ár liðin frá því að Íslendingar tóku þátt í þessu samstarfi sérstaklega með tilliti til þeirrar niðurstöðu sem við horfum nú á í dag, þ.e. annars vegar velmegun og frið í Vestur-Evrópu og hins vegar þá staðreynd að þjóðir Austur-Evrópu eru allar að brjótast undan því oki sem Atlantshafsbandalagið var stofnað m.a. til þess að koma í veg fyrir að gengi yfir aðrar þjóðir Evrópu.
    Í framhaldi af þessari samþykkt Alþingis undirrituðu utanríkisráðherrar þeirra 12 ríkja, sem að framan er greint frá, þann 4. apríl 1949 Atlantshafssáttmálann í Washington en hann birtist, eins og ég gat um áðan, sem fskj. I með þessari skýrslu.
    Við undirskrift samningsins flutti Bjarni Benediktsson, þáv. utanrrh., ræðu þar sem hann komst m.a. svo að orði, með leyfi forseta:
    ,,Að vísu er það rétt sem ég áðan sagði að aðilar þessa samnings eru ólíkir um margt. En það er einnig margt sem sameinar okkur traustum böndum. Sama hættan ógnar okkur öllum í þeim heimi sem við lifum í. Þar sem fjarlægðirnar eru horfnar er það áreiðanlegt að annaðhvort njóta allir friðar --- eða enginn. Sömu upplausnaröflin eru hvarvetna að sinni ömurlegu iðju. Alls staðar ásaka þau okkur, sem erum að vinna fyrir friðinn, um að vilja spilla honum. Þegar þessi samningur var ræddur á Alþingi Íslendinga reyndu þessi öfl með valdi að hindra hina fornhelgu stofnun í starfi sínu. Slíkt ofbeldi hefur aldrei fyrr verið reynt gegn hinu þúsund ára gamla Alþingi Íslendinga. Sá afvegaleiddi hópur, sem þetta reyndi, þóttist með köllum sínum vera að hrópa á frið. Þetta framferði, að

kasta grjóti með höndunum en hrópa á frið með vörunum, er hvorki í samræmi við arfleifð Íslendinga né vestræna menningu. Allir vitum við hvar slíkir hættir eiga upptök sín. Heiminum stafar sannarlega ekki meiri hætta nú af öðru en þessu hugarfari.``
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vísa í þessi orð Bjarna Benediktssonar sem töluð voru fyrir nákvæmlega 41 ári þar sem ég veit að það mun vart finnast einn einasti hv. alþm. sem nú mundi neita því að þetta voru orð að sönnu. Ég veit að allir hv. alþm. geta tekið undir það, hvað sem líður skoðanamun á liðnum árum, að Atlantshafsbandalagið og ríki bandalagsins hafa skilað þeirri niðurstöðu sem að var stefnt. Enda kom það fram í ræðu Havels, forseta Tékkóslóvakíu, fyrir skömmu þar sem hann sagði m.a. að án tilvistar Atlantshafsbandalagsins hefði sú þróun aldrei orðið í Austur-Evrópu sem raun ber vitni um.
    Að lokum minni ég á það í sambandi við þessa upprifjun, virðulegi forseti, að af hálfu ríkisstjórnar þeirrar sem sat að völdum á Íslandi 1949 höfðu auk Bjarna Benediktssonar unnið sérstaklega að undirbúningi að þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu með þeim hætti er að framan greinir þeir Emil Jónsson fyrir hönd Alþfl. og Eysteinn Jónsson fyrir Framsfl.
    Vík ég þá, virðulegi forseti, nokkuð máli mínu að Norður-Atlantshafsþinginu.
    Hvað er Norður-Atlantshafsþingið? Í þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsþjóðanna eru þingmenn frá öllum aðildarríkjum bandalagsins, en samtökin eru vettvangur þar sem þingmenn frá Norður-Ameríku og Evrópu koma saman til að ráðgast um mál er varða sameiginlega hagsmuni.
    Þingmannasamtökin voru stofnuð árið 1955, en fram til ársins 1966 gengu þau undir nafninu ,,Þingmannaráðstefna NATO``. Nú nefnast þau Norður-Atlantshafsþingið. Hlutverk þess er að efla samstarf og skilning með þjóðum bandalagsins, stuðla að því að sjónarmið bandalagsins séu höfð til hliðsjónar við lagasetningu og loks að hvetja til samstöðu um málefni bandalagsins á þjóðþingum bandalagsríkjanna.
    Enda þótt samtökin séu með öllu óháð Atlantshafsbandalaginu eru þau tengiliður milli þingmanna og bandalagsins. Á ársfundum og öðrum fundum samtakanna flytja ýmsir af æðstu embættismönnum NATO mál sitt, og við slík tækifæri eru málefni bandalagsins grandskoðuð og rædd í smáatriðum. Venjulega kemur framkvæmdastjóri NATO á ársfundi samtakanna og situr þar fyrir svörum.
    Á Norður-Atlantshafsþinginu eiga sæti 188 fulltrúar. Þjóðþing aðildarríkjanna tilnefna fulltrúa sína í samræmi við samþykkt þar um og vísast til þess í fskj. II um starfsreglur þingsins. Ráðherrar eða aðrir sem eiga beina aðild að ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar í samtökunum. Fulltrúatala aðildarríkjanna er í hlutfalli við mannfjölda.
    Innan þingsins starfa fimm fastanefndir, þ.e. efnahagsmálanefnd, félagsmálanefnd, varnar- og

öryggismálanefnd, stjórnmálanefnd og vísinda- og tæknimálanefnd. Að loknum ársfundum starfa þessar nefndir sérstaklega á milli funda.
    Norður-Atlantshafsþingið kemur saman til allsherjarfundar einu sinni eða tvisvar á ári og er venjan að efna til sérstaks vorþings og haustþings en haustþingið er aðalfundartími samtakanna.
    Starfsemi samtakanna hefur verið efld á seinni árum og gegnir það nú veigamiklu hlutverki í samskiptum þjóðþinga og lýðræðishreyfinga Sovétríkjanna og annarra Austur-Evrópuríkja sem ég mun víkja að hér nokkuð á eftir. Ég tel sérstaka ástæðu til þess í beinu framhaldi af ræðu hæstv. forsrh. sem hann flutti hér í gær í sambandi við þátttöku einstakra flokka í störfum á alþjóðavettvangi þar sem við getum átt hlut að máli til að stuðla að auknu öryggi og friði í heiminum. Fyrstu fulltrúar Alþingis í þessum samtökum árið 1955 af hálfu Íslands voru Björn Fr. Björnsson, Guðmundur Í. Guðmundsson og Jóhann Hafstein.
    Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar hafa fulltrúar Alþingis á fundum Norður-Atlantshafsþingsins frá upphafi verið tilnefndir af þeim flokkum sem stóðu að samþykkt Alþingis um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu í mars 1949, en þeir voru sem fyrr er frá greint Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. Starfsemi þingmannasamtakanna var í byrjun í frekar lauslegu formi. Mest áhersla var lögð á að upplýsa þingmenn um framkvæmd öryggis- og varnarmála NATO og stöðu þessara mála gagnvart vígbúnaði Sovétríkjanna. Með tímanum urðu
samskipti ríkjanna og þar með þingmanna einstakra NATO-ríkja nánari. Samstarf á sviði efnahagsmála og vísinda hefur aukist. Þá er meiri áhersla lögð á að ná til borgara einstakra ríkja Atlantshafsbandalagsins um málefni þess og viðkomandi ríkja. Við þetta verða helstu nefndir þingsins mun virkari og má segja að þær ásamt helstu undirnefndum og vinnuhópum um einstök verkefni séu starfandi allt árið um kring. Haldnir eru reglulegir nefndafundir þar sem ítarleg umræða fer fram um þýðingarmestu þætti í starfsemi bandalagsins sem og önnur þau atriði er geta haft áhrif á stöðu Atlantshafsbandalagsins og einstakra ríkja innan þess.
    Ég undirstrika þetta sérstaklega vegna þeirra ummæla hæstv. forsrh. hér í gær um það að sjálfstæðismenn væru ekki virkir þátttakendur í alþjóðasamstarfi. Virðulegi forseti. Ég var að segja að hæstv. forsrh. hafi sagt hér í ræðu í gær og beint þeim orðum sérstaklega til Sjálfstfl. og sjálfstæðismanna að þeir væru ekki virkir í alþjóðastarfi þar sem stefnt væri að því að koma á friði og öryggi í heiminum. Ég vil undirstrika það að m.a. með þátttöku okkar, aukinni þátttöku Íslands í þingmannasamtökum NATO, hefðu sjálfstæðismenn sem fyrr verið virkir þátttakendur á þeim vettvangi sem máli skiptir. (Gripið fram í.) Það er gott að hæstv. forsrh. skuli nú vera upplýstur um þetta. Það er greinilegt að hann fylgist ekki nægilega vel með. Ég skil það þess vegna vel að hann skuli fagna því að

hann skuli loksins hafa áttað sig á þessu.
    Nýjasta dæmið, hæstv. forsrh., svo að ég beini nú orðum mínum til þín og veki athygli hæstv. ráðherra á því sem segir í skýrslu þingmanna Alþingis sem eru í NATO-samtökunum, er sérstök umfjöllun undirnefnda um ný viðhorf í afvopnunarmálum. Þá hefur á sl. tveimur árum mikil umfjöllun átt sér stað um þróun mála í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu. Efnt hefur verið til funda með sérfræðingum í þessum málum. Þá hafa fulltrúar þingmannasamtakanna farið til Prag, Búdapest, Varsjár og Moskvu og nú nýlega hefur einn hv. þm., Karl Steinar Guðnason, verið á fundi í Sofiu í Búlgaríu. Þar hafa viðræður átt sér stað við fulltrúa þjóðþinga þeirra landa sem um ræðir um gagnkvæm samskipti milli vestrænna og austrænna þingmanna í þeim tilgangi að tryggja frið og öryggi í heiminum. Þetta vil ég undirstrika alveg sérstaklega vegna mikillar vinnu og þátttöku okkar á þessum vettvangi eftir því sem fjárhagsástæður hafa leyft.
    Þá vil ég einnig skýra frá því, virðulegi forseti, að upphaf þessara samskipta var boð þingmannasamtakanna til þáv. aðstoðarutanríkisráðherra Ungverjalands, Gyula Horn, um að hann kæmi á fund þingsins sem haldið var í Hamborg í nóvember 1988 og flytti þar ræðu um þróun mála í Ungverjalandi. Gyula Horn, sem nú er utanríkisráðherra Ungverjalands, þáði boðið. Þar flutti hann ræðu sem vakti mikla athygli í Evrópu og má segja að með því hafi ísinn verið brotinn í stjórnmálalegum samskiptum NATO-ríkjanna annars vegar og Austur-Evrópuríkjanna hins vegar. Ég undirstrika að ég tala hér um stjórnmálaleg samskipti þessara þjóða. Síðan hafa þingmannasendinefndir farið austur á bóginn og 14. og 15. febr. sl. var haldinn í Brussel sameiginlegur fundur stjórnmála- og öryggis- og varnarmálanefnda Atlantshafsríkjanna annars vegar og fulltrúa fulltrúaþings Sovétríkjanna hins vegar um aukin samskipti þingmanna NATO-ríkjanna og Sovétríkjanna. Stjórnarnefnd þingmannasambandsins leggur áherslu á að jákvæðar viðræður við þessa aðila styrki umbótaöfl viðkomandi ríkja og þar með batnandi friðarhorfur.
    Eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, voru núverandi fulltrúar Alþingis á Norður-Atlantshafsþinginu tilnefndir af þingflokkum Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. Fór sú tilnefning fram 1987 og eru þeir sem hér segir: Guðmundur H. Garðarsson, Sjálfstfl., Jóhann Einvarðsson, Framsfl., og Karl Steinar Guðnason, Alþfl. ,og varamaður Salome Þorkelsdóttir, en í ársbyrjun 1988 tilnefndi Borgfl. Inga Björn Albertsson sem sinn fulltrúa og varamann.
    Í samræmi við samþykktir þingsins skiptu aðalmenn með sér verkum sem hér segir: Formaður Guðmundur H. Garðarsson, varaformaður Jóhann Einvarðsson og ritari Karl Steinar Guðnason. Í samræmi við þetta tók Guðmundur H. Garðarsson sæti aðalmanns í stjórnarnefnd þingsins en varamaður hans er Jóhann Einvarðsson. Ritari nefndarinnar er Aðalheiður Birgisdóttir.

    Samkvæmt samþykktum þingsins geta fullrúar aðildarþjóða tekið þátt í öllum nefndum þess í samræmi við vilja og ákvörðun viðkomandi sendinefnda. Vegna smæðar hefur Ísland þó aðeins fullan atkvæðisrétt í þrem nefndum auk stjórnarnefndar. Hið sama gildir um Lúxemborg.
    Sendinefndin ákvað þátttöku í nefndum sem hér segir: Í stjórnmálanefnd Jóhann Einvarðsson, félagsmálanefnd Karl Steinar Guðnason, vísindanefnd Salome Þorkelsdóttir, varnar- og öryggismálanefnd Guðmundur H. Garðarsson og Ingi Björn Albertsson. Jóhann Einvarðsson og Karl Steinar Guðnason hafa auk þess tekið þátt í störfum undirnefnda þeirra fastanefnda sem þeir eru fulltrúar í og var Jóhann kjörinn skýrsluhöfundur undirnefndar stjórnmálanefndar í sambandi við öryggis- og varnarmál sem ég mun víkja nánar að.
    Í stjórn Atlantshafsþings 1988--1990 sitja síðan fulltrúar hinna einstöku þjóða í samræmi við það sem segir í starfsreglum, en forseti þingsins er Patrick Duffy, þingmaður í Englandi sem er jafnaðarmaður.
    Ég vil, virðulegi forseti, í örstuttu máli geta um nokkur þau efni sem þingið fjallar um til þess að gefa hv. þingmönnum gleggri eða betri hugmynd um það hvað felst í störfum Norður-Atlantshafsþingsins. Nefni ég sem dæmi nokkuð úr starfsemi 1989.
    Unnið er að því að fjalla um samstarf í varnarmálum og var það gert í sérstakri undirnefnd í varnar- og öryggismálum. M.a. fór það þannig fram að þingmenn mættu á fundum, fóru síðan í ferðalög þar sem þeir kynntu sér þessi mál nánar innan NATO-ríkjanna.
    Þá var lögð sérstök vinna í það af hálfu efnahagsmálanefndar að fjalla um viðskiptatengsl Atlantshafsríkjanna en það hefur verið gert í gegnum árin.
    Þá var starfandi undirnefnd sem skyldi fjalla um og gera tillögur um leiðir til traustvekjandi aðgerða í öryggismálum. Var Jóhann Einvarðsson tilnefndur sérstakur fulltrúi þar og tók hann saman skýrslu og gerði tillögur fyrir hönd nefndarinnar um þetta efni.
    Þá hefur verið mikið unnið að því að leggja fram og skipuleggja upplýsingar um varnar- og öryggismál þannig að þær væru aðgengilegar borgurum NATO-ríkjanna.
    Þá hefur mikil vinna verið lögð í það á árinu 1989 að fjalla um málefni Austur-Evrópu, eins og ég gat um áðan, og m.a. hafa verið farnar margar þingmannaferðir þarna austur fyrir og einnig hafa þingmenn frá þessum ríkjum komið á fundi þingmannasambandsins sem ég gat um og mun rekja hér nokkru nánar á eftir.
    Þá gerðist sá sögulegi atburður að 3.--7. júlí fóru fulltrúar þingmannasambandsins í heimsókn til Sovétríkjanna í boð Æðstaráðsins. Forseti ásamt nokkrum stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra þingsins tókust þessa ferð á hendur sem var hin merkasta. Af plöggum sem við höfum um þessa ferð og upplýsingum frá fundum fer það ekki á milli mála að þessi fundur hefur orðið sögulegur í þeim skilningi

að með því hefur skapast gagnkvæmt traust á milli þessara aðila sem kemur fram í því sem ég rek hér nokkru nánar.
    Dagana 5.--10. okt. 1989 var haustþing samtakanna haldið í Róm. Þar voru að venju tekin til umfjöllunar þau mál sem efst voru á baugi hjá Atlantshafsríkjunum. Einnig var áberandi umræða um þróun mála í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Það sem vakti kannski helst athygli var að til þingsins var boðið Vladimir Lobov, æðsta hershöfðingja sovéska herráðsins, en hann er jafnframt þingmaður á fulltrúaþingi Sovétríkjanna í Mosku og á sæti í Æðstaráði Sovétríkjanna. Vladimir Lobov og yfirhershöfðingi NATO-herjanna, John Galvin, fluttu ræður í öryggis- og varnarmálanefnd þingmannasamtakanna. Hr. Lobov rakti mjög ítarlega hvernig ástand og horfur væru í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu og lagði áherslu á það að málum væri þannig komið í þessum hluta heims að það væri lífsspursmál að meiri opnun skapaðist á milli Austur-Evrópu annars vegar og Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku hins vegar. Máli hans var mjög vel tekið. Í umræðunum var einnig rætt um afvopnunarmál, sérstaklega af hálfu íslensku fulltrúanna, en í öryggis- og varnarmálanefnd þingsins eiga sæti, eins og ég gat um áðan, Ingi Björn Albertsson og Guðmundur H. Garðarsson. Við lögðum sérstaka áherslu á og fjölluðum um að það þyrfti að framkvæma afvopnun á höfunum.
    Í því sambandi undirstrikuðum við stefnu núv. ríkisstjórnar í þessum efnum. Beindum við máli okkar til beggja hershöfðingjanna. Skoðanir okkar fengu sæmilegar undirtektir, en þó verður það að segjast eins og er að yfirhershöfðingi NATO-ríkjanna lagði áherslu á og taldi að þetta þyrfti allt að ræða, þ.e. afvopnunarmálin, á breiðum og almennum grundvelli á sama tíma sem Vladimir Lobov lýsti sig reiðubúinn til þess af hálfu Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins að fjalla um afvopnun á höfunum sérstaklega. Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara frekar út í þá umræðu en vek athygli á að hún fór þar fram.
    Síðan var í nóvember 1989 sameiginlegur fundur þingmanna frá ríkjum þessara bandalaga haldinn í Bonn í Þýskalandi þar sem þessum viðræðum og umræðum var fram haldið. Þá var einnig, eins og ég gat um áðan, haldinn fundur í stjórnmála- og varnar- og öryggismálanefnd í Brussel í febrúar sl. þar sem mættir voru fjórir þingmenn frá fulltrúaþingi Sovétríkjanna, en þrír þeirra eiga einnig sæti í Æðstaráði þess. Þeirra á meðal var Valeríj Fallin sem er helsti sérfræðingur Sovétríkjanna í Þýskalandsmálum.
    Ég mun nú, virðulegi forseti, stikla á stóru í skýrslu sendinefndar Alþingis í þingmannasamtökum NATO. Ég vil síðan fá að víkja hér örlítið að nokkrum atriðum sem lúta að þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu með tilliti til þess hvaða áherslur ég tel þingmenn í flestum NATO-ríkjanna hafa í þessu efni.
    Þar sem nú eru liðin 41 ár frá því að Ísland gerðist

aðili að Atlantshafsbandalaginu og með tilliti til þess sem er að gerast núna í Evrópu er full ástæða til að koma hér nokkuð inn á þau atriði sem eru helst í
umræðunni innan þingmannasamtaka NATO með þeim hætti sem þau birtast formanni sendinefndarinnar. Þetta er mjög mikilvægt með tilliti til þess að menn átti sig á þeirri stöðubreytingu sem hugsanlega kann að vera í þessum efnum, en ég vek athygli á eftirfarandi og rifja þá nokkuð upp forsögu þess að Atlantshafsbandalagið var stofnað.
    Það sem hefur gerst frá því að bandalagið var stofnað og vekur auðvitað upp spurningarnar hvar við erum stödd er að hrun kommúnismans, hrun sósíalismans í Austur-Evrópu, þ.e. fall einræðisstjórnanna sem voru á sínum tíma ógnun við frelsi og sjálfstæði fólksins á meginlandi Evrópu og bjó við lýðræðislega stjórnarhætti, er ekki til staðar með sama hætti og þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað árið 1949. Þetta er staðreynd. En frelsi þessara þjóða er ekki enn að fullu tryggt þótt hugmyndafræði kommúnismans hafi beðið skipbrot. Það er mikið verk óunnið í þeim efnum að tryggja frið og öryggi í heiminum og byggja upp lýðræði og þingræði í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Fram undan er áratuga verk við að byggja upp lýðræðislega stjórnarhætti og þingræði í hinum fyrri kommúnistaríkjum Austur-Evrópu og þá alveg sérstaklega í Sovétríkjunum. Þróun mála í Litáen og neikvæð afstaða valdhafanna í Moskvu til sjálfstæðisyfirlýsingar Litáa sýna að þrátt fyrir jákvæðan vilja ákveðinna valdamanna í Sovétríkjunum og alls almennings í Rússlandi vantar mikið á það að þessir aðilar viðurkenni grundvallaratriði lýðræðislegra stjórnarhátta sem er fólgið í sjálfsákvörðunarrétti þjóða og einstaklinga í eigin málum. Stórveldið Sovétríkin, þ.e. ríkjasamband undir forustu Rússa, er enn til staðar í Austur-Evrópu. Þetta er staðreynd sem allir menn sem þekkja til alþjóðamála viðurkenna.
    Fulltrúaþingið í Moskvu hefur enn ekki öðlast sambærileg völd um málefni Sovétríkjanna við þau sem þjóðþing vestrænna lýðræðisþjóða hafa í viðkomandi ríkjum. Þótt formlegt alræði eins flokks, þ.e. Kommúnistaflokks Sovétríkjanna, á sviði stjórnmála, en þá minni ég á að sá flokkur telur um 8 millj. manna, af um 260 millj. manna þjóð, hafi verið afnumið ráða hinir gömlu valdhafar öllu um þróun mála. Og við skulum líta nokkru nánar á stöðu þeirra.
    1. Allir helstu valdamenn Sovétríkjanna öðluðust völd sín á grundvelli þátttöku sinnar í Kommúnistaflokki Sovétríkjanna.
    2. Valdakerfið er enn byggt upp á hinum upprunalega grundvelli með nokkrum áherslubreytingum stjórnskipulega séð, svo sem með frjálsari kosningum þingmanna á fulltrúaþingið og einnig sérstakri kosningu forseta.
    3. Hafa verður í huga að svokallaðar fjölflokkakosningar í Sovétríkjunum eru með allt öðrum hætti en tíðkast í vestrænum lýðræðisríkjum.
    Ég rifja upp og minni á að í kosningum til

fulltrúaþingsins voru 80% allra frambjóðenda félagar í Kommúnistaflokki Sovétríkjanna. Hið miðstýrða vald er enn hjá félögunum ef svo mætti að orði komast. Hins vegar, og það skal undirstrikað, hefur sú meginbreyting átt sér stað sem miklu máli skiptir, og mestu, að Rússar viðurkenna að aðferðir sósíalismans, hið miðstýrða hagkerfi, tryggi fólkinu ekki hagsæld. Þeir vita að hinn frjálsi markaðsbúskapur felur í sér einu leiðina til aukinnar hagsældar, framfara og betri lífskjara, þ.e. efnahagslegt frelsi er grundvallarforsenda þess að fólk geti lifað hamingjusömu lífi. Það er lykilatriði.
    Valdhafarnir í Moskvu hafa hins vegar enn ekki, þrátt fyrir yfirlýstan vilja, viðurkennt í verki að efnahagslegt og stjórnmálalegt frelsi fari saman ef árangur á að nást sem tryggir sjálfsögð grundvallarmannréttindi. Vonandi á þetta eftir að þróast með þeim hætti sem við höfum reynslu af í vestrænum ríkjum. Það er greinilegur vilji þeirra, margra valdamanna Sovétríkjanna, að svo verði.
    4. Þá vil ég koma að fjórða atriðinu sem virðist vera feimnismál hjá sumum að fjalla um og viðurkenna en er staðreynd sem ekki verður fram hjá gengið hvers svo sem við kynnum að óska okkur í þeim efnum. Það hefur enn ekki átt sér stað í reynd umtalsverður niðurskurður á vopnabúnaði Sovétríkjanna. Minnkandi herafli þeirra í Austur-Evrópuríkjunum er af hinu góða. Yfirlýstur jákvæður vilji á sviði afvopnunarmála einnig. Fækkun kjarnorkuvopna sömuleiðis. Hins vegar á sér enn stað stöðug framleiðsla kjarnorkuknúinna kafbáta sem er mjög alvarlegt mál, sérstaklega fyrir okkur Íslendinga sem leggjum áherslu á afvopnun í höfunum. Samkvæmt því sem næst verður komist og sérfræðingar NATO segja munu Sovétmenn ljúka við smíði eins slíks kafbáts á mánuði og kostar hver fleiri milljarða króna.
    5. Völd og styrkur sovéska hersins er enn sem fyrr mikill innan sovéska ríkjasambandsins. Margir af æðstu mönnum sovéska hersins eiga sæti á fulltrúaþinginu og hafa þar gífurlega mikil áhrif. Þetta eru atriði sem er nauðsynlegt að hv. þingmenn hafi í huga þegar verið er að fjalla um þessi mál.
    6. Ég vek athygli á því að í embættismannakerfi Sovétríkjanna hefur ekki orðið nein umtalsverð breyting með þeim hætti sem búast mætti við í lýðræðislegri þróun. Enn sitja þar að völdum menn sem voru tilnefndir eða skipaðir í valdatíð gömlu einræðisherranna.
    Þessi og ótal fleiri atriði þeim skyld verða menn að hafa í huga þegar fjallað er um þróunina á sviði varnar- og öryggismála í heiminum og við Íslendingar sérstaklega sem aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Yfirlýstur vilji um aukið frelsi og sjálfstæði fólkinu til handa er eitt, en framkvæmd þessara mála er annað. Neikvæð afstaða valdhafanna í Moskvu til sjálfstæðisyfirlýsingar Litáa boðar því miður ekki gott og er í fullu ósamræmi við yfirlýsta stefnu Gorbatsjovs um aukið frelsi. Ber að harma það. En sú harka sem kemur fram í afstöðu Rússa til þessa litla

Eystrasaltsríkis ætti ekki að koma neinum á óvart sem fylgst hefur með heimsmálum og þekkir eitthvað til sögunnar.
    Við verðum að líta til þess sögulega hver staða Sovétríkjanna og Rússlands til umheimsins er. Pétur mikli, fyrstur Rússa, gerði sér grein fyrir að Rússland þyrfti að hafa opið hlið að höfum í vestri, þ.e. höfum er liggja að Evrópu. Eystrasaltsríkin voru hliðin að sjónum í vesturátt. Að hans mati þurfti að tryggja hafnir á þessu svæði. Stalín tryggði Rússum þessa aðstöðu með innlimun þessara ríkja í seinni heimsstyrjöldinni. Það var ekki gert með samningum. Hins vegar voru hundruð þúsunda Letta, Litáa og Eistlendinga fluttir nauðungarflutningum frá heimahögum sínum til Síberíu. Í staðinn tóku Rússar sér bólfestu í þessum löndum. Markmiðið var að blandast þessum litlu, fámennu þjóðum með þeim hætti að við brottflutning mikils fjölda íbúanna og blóðblöndun við þá sem eftir voru mundu þessi ríki smátt og smátt verða hluti af hinu stóra Rússlandi. Því er nú svo komið að í þessum ríkjum eru íbúar af rússneskum uppruna um eða yfir 40% í Lettlandi, í Litáen munu þeir vera um 20--30% og í Eistlandi 20--25%.
    Það sem hefur gerst á þessum árum er að Rússland hefur náð algjörum undirtökum í efnahagslífi þessara landa. Þeir eru eignaraðilar að öllum stærstu fyrirtækjum þessara ríkja í gegnum ríkisfyrirtæki. Þeir hafa raunverulega atvinnu- og efnahagsleg yfirráð yfir þessaum þjóðum. Algjör. Í kringum 1940--1941 voru svo til engir Rússar í þessum löndum.
    Þetta rifja ég upp til að minna okkur á það að stórveldið Rússland, sem hingað til hefur verið og er enn nefnt Sovétríkin, er enn til staðar. Þetta stórveldi mun eftir sem áður leggja áherslu á að verja og vernda sína hagsmuni, ekki hvað síst í varnar- og öryggismálum og einnig í efnahagsmálum. Þess vegna vilja Rússar ekki veita Litáum frelsi og sjálfstæði. Þetta er þeirra stórveldapólitík í nýrri útfærslu. Það breytir hins vegar ekki því að valdhafarnir í Moskvu eru opnari og þeir viðurkenna að þeir verði að líta frekar til lýðræðislegra samskiptahátta. En þeir eru sem fyrr Rússar, nútímastórveldi.
    Í umfjöllun utanríkismála duga ekki draumórar eða óskhyggja. Í þeim efnum gildir raunsæi samfara nauðsynlegri þekkingu á forsögu mála og stöðu sinnar þjóðar. Þetta á sérstaklega við hvað áhrærir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og stöðu Atlantshafsbandalagsins í framtíðinni. Það vill svo til að þegar þessi umræða er hér í dag, þ.e. 30. mars, eru nákvæmlega 41 ár síðan Íslendingar samþykktu aðild sína að Atlantshafsbandalaginu. Þess vegna finnst mér fullt tilefni til að rifja upp og leggja áherslu á að sá sögulegi atburður hefur átt sér stað að ég geri varla ráð fyrir að einn einasti hv. þm. standi upp í dag og mótmæli því að það hafi verið rétt og mikið heillaspor þegar Ísland gerðist aðili að þessu bandalagi. (Gripið fram í.) Enginn hv. þm. hefur enn staðið upp og mótmælt því. Að vísu, hæstv. utanrrh., það er rétt að einn hv. alþýðubandalagsþingmaður, Hjörleifur

Guttormsson, tilkynnti það ( Utanrrh.: Já.) að hann hefði lagt fram tillögu á fundi í utanrmn. um að endurskoða ætti varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna ( Utanrrh.: Um úrsögn.) með það að markmiði að það leiddi til úrsagnar eftir 18 mánuði í samræmi við ákvæði þessa samnings, ef ég man rétt. En hv. þm. hefur ekki enn treyst sér til þess, og ég er ekki að skora á hann að gera það, né neinn úr Alþb. að standa hér upp og lýsa því yfir á þessari sögulegu stundu, 30. mars 1990, að það hafi verið rangt að Íslendingar skyldu ganga inn í
bandalagið. ( Landbrh.: Það er einn hérna tilbúinn til þess.) Ég ætla ekki að leggja hæstv. samgrh. orð í munn en verði honum að góðu ef hann hefur geð í sér til þess eftir það sem gerst hefur í Austur-Evrópu á sl. 41 ári. Það má lesa nú eftir fyrrum alþýðubandalagsmenn, meira að segja í Morgunblaðinu, greinar þar sem þeir skýra frá ferðum sínum til Tékkóslóvakíu, svo sem einn fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans gerði, þar sem hún sagði m.a., ef ég man það orðrétt, að þegar hún ræddi við vini sína og fjölskyldur þeirra sagði fólkið grátklökkt: ,,Þessir áratugir ófrelsis, nauðungar og skorts verða aldrei bættir. Þessum glötuðu árum úr ævi okkar verður aldrei skilað.`` Og það þarf náttúrlega ekki að ræða það við hæstv. samgrh., hann kannski kann ekki þá sögu eða vill ekki muna hana, að þeim 20--30 þúsundum manna sem hurfu sporlaust í Tékkóslóvakíu á árunum 1948--1951 verður aldrei skilað eftur til sinna aðstandenda. Þetta er kannski það sem hæstv. samgrh. ætlar að fara að rifja hér upp á eftir.
    Þess vegna vil ég minna á það að NATO-ríkin hafa með þessari gjörð sinni, að mynda þetta bandalag, tryggt frið í heiminum, þ.e. í þeim hluta heims sem við búum í og stuðlað einnig að meiri friði í öðrum heimshlutum. Þetta er söguleg staðreynd. Friðurinn hefur verið tryggður og hann mun verða tryggður áfram ef bandalag sem Atlantshafsbandalagið heldur áfram störfum sem ég er fullviss um. Þetta bandalag hlýtur að starfa um ófyrirsjáanlega framtíð, hvað sem líður því sem hæstv. forsrh. sagði í gær þar sem hann var með efasemdir um það og varpaði fram þeirri spurningu hvort tímar Varsjárbandalagsins og Atlantshafsbandalagsins væru nú ekki senn liðnir. Ég tala ekki fyrir hönd sendinefndarinnar þegar ég segi það, heldur er þetta mín skoðun, að þar hafi hæstv. forsrh. ekki haft lög að mæla nema síður væri og þar hafi hann sýnt mikla skammsýni eða þekkingarleysi á þróun þessara mála.
    Austur-Evrópuríkin hafa síðan sjálf, hæstv. samgrh., á síðustu mánuðum hrist af sér það ok, kúgun, sem NATO-ríkin sameinuðust gegn. Aðvörunarorð þáv. utanríkisráðherra, Bjarna Benediktssonar, árið 1949 um að sama hættan ógnaði okkur öllum í þeim heimi sem við lifum í voru orð að sönnu. Ég segi, því miður fyrir þjóðir Austur-Evrópu sem lifðu undir harðstjórn sósíalismans, valdhafanna í Kreml og útsendara þeirra í ríkisstjórnum þessara landa.
    En nú, virðulegi forseti, rofar til. Við, friðarsinnar í öllum flokkum, sem erum alin upp í anda lýðræðis

og þingræðis, hljótum að fagna þeim viðhorfabreytingum sem orðið hafa í Sovétríkjunum og Austur-Evrópuríkjunum þrátt fyrir þá ágalla sem ég rifjaði hér upp áðan í sambandi við þróun mála í Sovétríkjunum. Við hljótum að fagna frjálsum kosningum og auknum mannréttindum í Tékkóslóvakíu, Póllandi, Ungverjalandi, Rúmeníu, Búlgaríu og Eystrasaltsríkjunum. Við skulum hins vegna gera okkur fulla og raunsæja grein fyrir því að enn hefur ekki orðið svipuð þróun í Sovétríkjunum. Þar með er ég ekki að segja að það skorti viljann hjá ýmsum valdhöfum og fólkinu sjálfu til að stíga enn frekari skref í átt til stjórnmálalegs frelsis en orðið er. En ákveðnar aðstæður takmarka þessa þróun, því miður, eins og ég hef hér nokkuð lýst fyrr í minni ræðu. Sovéska, gamla valdakerfið, öflugur her og stórveldahagsmunir 260 millj. manna þjóðar í víðlendu landi, sem teygir sig inn í tvær heimsálfur, er enn til staðar. Við, vestrænar þjóðir, lítum ekki á Sovétríkin sem óvini eða óvinveitta þjóð. Við höfum aldrei litið á íbúa Sovétríkjanna, fólkið, sem óvini okkar nema síður sé. Það voru fyrrverandi valdhafar, kommúnistarnir, sem litu á okkur, vestrænar þjóðir, sem fjandmenn sína. Við vorum í þeirra augum þegnar auðvaldsríkjanna. Við vorum arðræningjarnir sem kúguðu fólkið og arðrændu það! Samkvæmt kenningum Leníns var það eitt meginhlutverk kommúnista og sósíalista að frelsa hina arðrændu og efna til stéttastríðs og það var gert í austri og vestri. Í austri voru ríkin brotin undir Sovétríkin, eins og ég hef getið um hér áður og hv. þingmenn þekkja af sögunni, en í vestri var kynt undir átökunum í verkalýðshreyfingu Vestur-Evrópu og barist gegn Atlantshafsbandalaginu hvar sem því varð við komið. Allt hefur þetta mistekist svo sem dæmi sanna. Í Austur-Evrópu er lýðræði og þingræði að hefja innreið sína til þess að unnt sé að endurreisa mannlega virðingu og tryggja sjálfsögð mannréttindi. Þar þarf að bæta hag fólksins og lífsafkomu. Í vestrænum ríkjum er fólkið frjálst og lífskjör allgóð. Þar ríkir góður friður milli manna og stétta eins og því verður viðkomið í mannlegu samfélagi. Af þessu má sjá að NATO-ríkin fóru með friði og það er enn meginmarkmið þessara ríkja.
    Nú vaknar spurningin: Er Atlantshafsbandalagið orðið óþarft vegna þeirrar þróunar sem hefur orðið síðustu missirin í Evrópu og þar með í Sovétríkjunum? Ég svara fyrir mitt leyti, og það er sá skilningur sem ég legg í ræður og tillögur þeirra þingmanna NATO-ríkjanna sem mynda þingmannasamtök NATO að svo sé ekki, en breyttar aðstæður krefjast breyttra áherslna. Við skulum líta nokkuð á þær.
    Að mati þeirra sem eru í þingmannasamtökum NATO fer það ekki á milli mála að það er þeirra álit að leggja skuli mun meiri áherslu á stjórnmálalegt samstarf innan NATO-ríkjanna. Einnig er lögð sérstök áhersla á það að tekið verði upp mjög náið samstarf við þjóðþing Austur-Evrópu og Sovétríkin um þróun lýðræðislegra stjórnarhátta í þessum ríkjum.

Þingmannasamtök NATO hafa boðið þessum þjóðþingum það sérstaklega að þingmenn frá NATO-ríkjunum færu til Austur-Evrópu til þess að vinna að þessum málum. Þá var það mat og tillögur þingmannasamtakanna að dregið verði úr hernaðarumsvifum, afvopnun verði hraðað og samningum flýtt í þeim efnum. Einnig er það áhersluatriði þingmannasamtakanna að eyða skuli kjarnorkuvopnum. Það er grundvallarskoðun þeirra sem mynda þingmannasamtök NATO að NATO-ríkin sem samtök verði sem ein heild, bæði í viðræðum við Austur-Evrópuríkin og í samstarfi við ýmsar aðrar þjóðir, bæði á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála og vísindamála, sem og með frekari þróun á sviði varnar- og öryggismála í huga.
    Ef árangur á að nást í afvopnunarmálum verða samningar þar um að vera á breiðum grundvelli, þ.e. á milli Atlantshafsbandalagsins annars vegar og Varsjárbandalagsins hins vegar. Þá ber einnig að hafa í huga að enn er ekki
séð fyrir um þróun mála í lýðræðisátt í Sovétríkjunum. Í þeim efnum ríkir ákveðin óvissa og við þessar aðstæður þarf ekki að ræða það að veikja samstöðu NATO-ríkjanna með því að fjalla um það á þann hátt að til greina komi að leysa þau samtök upp. Samstarf á sviði öryggis- og varnarmála, sem og á öðrum sviðum er lúta að samskiptum ríkja á milli, er flókið viðfangsefni sem tengist mati á lengritímaþróun þessara mála, bæði á vesturhveli jarðar, sem og í heiminum í heild.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég undirstrika eftirfarandi: Í fyrsta lagi skulum við hafa það í huga sem fulltrúar smáríkis að stórveldin, Bandaríkin og Sovétríkin, eru enn til staðar í okkar hluta heims. Hið þriðja, sameinað Þýskaland, er í fæðingu. Málshátturinn segir að mannlegt eðli sé samt við sig. Hið sama gildir um stórveldi eins og sagan hefur sýnt og sannað. Þótt friðvænlegar horfi nú í heiminum eru þessi fjölmennu ríki til staðar með sín vandamál og hagsmuni sem oft og tíðum ná langt út fyrir landamæri þeirra. Við skulum vona að þessi ríki leysi hagsmunaágreining sinn með friðsamlegum hætti. Í því felst von okkar og alls mannkynsins um frið í heiminum.
    Vandi smáþjóða er ætíð mikill í samskiptum við stórþjóðir. Við höfum góða reynslu af samstarfi okkar í varnar- og öryggismálum við stórveldi NATO-ríkjanna. Sovétríkin hafa verið ógnvaldur, þetta hafa núverandi valdamenn Sovétríkjanna viðurkennt. Núverandi valdhafar í Moskvu, Gorbatsjov og félagar hans, eiga eftir að sýna enn betur og sanna að þeir hafa vald yfir atburðarásinni innan Sovétríkjanna. Þá fyrst, þegar Rússar hafa náð tökum á því að útfæra lýðræðislega stjórnarhætti og efnahagslegar framfarir á grundvelli markaðsbúskapar í Rússlandi, hafa þeir vald yfir því að geta tryggt öðrum þjóðum að þær geti búið í friði og öryggi um ókomna framtíð.
    Við hljótum auðvitað að vona að Rússum takist þetta. En það er langur tími, áratugir, þar til það kemur fyllilega í ljós. Á meðan svo er verða

NATO-ríkin að halda vöku sinni og styrkleika, bæði inn og út á við. NATO-ríkin geta látið margt gott af sér leiða í þá átt að efla lýðræði og þingræði í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum og flýtt fyrir þessari þróun. Í þeim efnum geta þingmannasamtök NATO látið margt gott af sér leiða. NATO-ríkin gera sér grein fyrir þessu. Þau hafa leitað eftir samstarfi við þingmannasamtök Austur-Evrópuríkjanna, svo sem fyrr hefur verið frá greint. Ég mun rekja það enn nánar í tengslum við þá þróun sem fram undan er.
    Á fundi þingmannasamtakanna, þ.e. stjórnmálanefndar og varnar- og öryggismálanefndar, í Brussel í febrúar var ákveðið að efla enn frekar samstarfið við þingmenn í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Á fundinum var, eins og ég gat um áðan, m.a. helsti sérfræðingur Sovétríkjanna í Þýskalandsmálum, Valeríj Fallin. Hann lagði sérstaka áherslu á það að NATO-ríkin og Varsjárbandalagsríkin fjölluðu um varnar- og öryggismál með lengri tíma makrmið í huga. Viðstaddir tóku undir þessa skoðun, en fulltrúar Alþingis á fundinum voru þeir Guðmundur H. Garðarsson og Jóhann Einvarðsson.
    Í framhaldi af þessum viðræðum, sem ég ætla ekki að rekja hér í smáatriðum til að lengja ekki of mikið umræðurnar, vil ég geta þess, virðulegi forseti, að fram undan er að sendinefndir þingmannasamtakanna muni fara til Austur-Evrópu og Sovétríkjanna á þessu ári. Þá mun væntanlega mæta á vorfundi samtakanna í París í maí utanríkisráðherra Sovétríkjanna og flytja þar ræðu um samskiptamál Atlantshafsbandalagsríkjanna og Varsjárbandalagsríkjanna. Þar mun einnig væntanlega mæta varnarmálaráðherra Vestur-Þýskalands, Gerhard Stoltenberg, og fjalla um varnar- og öryggismál út frá sjónarmiði NATO-ríkjanna.
    Það er, eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, mikið unnið að þessum málum og lögð áhersla á jákvætt samstarf og samskipti á sviði stjórnmála.
    Þá verður haldinn á næstunni hér í Reykjavík, dagana 6.--8. apríl, stjórnarfundur þingmannasambandsins en í stjórn þess eru um 35 manns. Þar mun verða fjallað um enn nánari samskipti við Austur-Evrópuríkin og einnig um innri mál Atlantshafsbandalagsins.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara frekar inn á skýrslu sendinefndar Alþingis hjá Atlantshafsþinginu en vil að lokum segja þetta:
    Fulltrúar þeirra flokka sem Alþingi hefur tilnefnt á þing Atlantshafsbandalagsins hafa verið mjög virkir í sínum störfum eftir því sem þeir hafa getað komið því við. Á það við um fulltrúa allra flokka og vil ég sérstaklega undirstrika það, þar sem Sjálfstfl. á ekki aðild að ríkisstjórn, að fulltrúar þess flokks í þessum samtökum hafa verið virkir með sama hætti og fulltrúar stjórnarflokkanna. Ég vil sérstaklega undirstrika þetta vegna þess sem fram kom hjá hæstv. forsrh. Það var rangt hjá hæstv. forsrh. þegar hann leyfði sér að segja það hér í ræðu í gær að við sjálfstæðismenn viðurkenndum ekki breytingar og tækjum ekki þátt í breytingum eða störfum sem

stefndu í friðarátt eða til betri tíma. Því miður talaði hæstv. forsrh. frekar óvarlega en ég ætla ekki að ræða það nú undir þessari skýrslu. Ég vil undirstrika það að fulltrúar Sjálfstfl., Alþfl. og Framsfl. í þessu þingmannasambandi hafa
unnið ötullega að þessum málum, sem og fulltrúi frjálslyndra. Þessir aðilar hafa lagt rækt við störf þingmannasamtakanna og látið þar mikið að sér kveða.
    Í tíð núverandi sendinefndar get ég m.a. nefnt mikilsvert framlag núv. formanns utanrmn. Alþingis, Jóhanns Einvarðssonar, í störfum undirnefndar er gert hefur ítarlega skýrslu og tillögur er leiði til traustvekjandi aðgerða í öryggismálum.
    Í varnar- og öryggismálanefnd og opnum fundum þingsins hefur hv. þm. Ingi Björn Albertsson m.a. lagt áherslu á í ræðum sínum að Atlantshafsbandalagið væri opnara gagnvart almenningi, m.a. með meira upplýsingastarfi. Þá hefur hann lagt áherslu á aukna afvopnun, sérstaklega í norðurhöfum. Sendinefndin öll hefur lagt áherslu á þetta atriði.
    Þá hafa aðrir sendinefndarmenn, þeir hv. þm. Salome Þorkelsdóttir og Karl Steinar Guðnason, verið virkir þátttakendur í nefndum og störfum þingsins.
    Að lokum, virðulegi forseti. Stjórnmálaþátturinn í starfsemi NATO-ríkjanna sem samtaka mun fá aukna þýðingu við breyttar aðstæður í þróun heimsmála í átt til varanlegri friðar. Þingmannasamtök NATO hafa verið virk í þessari þróun. Sendinefnd Alþingis í samtökunum hefur reynt að leggja sinn skerf af mörkum til að tryggja þetta háleita markmið. Hæstv. núverandi forseti Sþ. og varaforsetar hafa skilið þýðingu virkari þátttöku fulltrúa Alþingis í þessum samtökum. Hið sama má segja um afstöðu hæstv. utanrrh. Sendinefndin hefur vegna góðs skilnings þessara aðila getað tekið meiri og betri þátt í störfum Atlantshafsþingsins en áður var. Þetta er í samræmi við upprunalegan tilgang við stofnun NATO sem var að stuðla að friði og öryggi í heiminum með öllum ráðum. Í þeim efnum var og er Ísland virkur þátttakandi.