Utanríkismál
Föstudaginn 30. mars 1990


     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Það hefur komið í minn hlut að geta um þátttöku íslenskra þingmanna í þingi Sameinuðu þjóðanna sem var 44. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og var sett þann 19. sept. 1989. Það er svo að fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum gefur út skýrslu um þingstörfin. Sú skýrsla kom út í janúar sl. og var send þingmönnum og hefur borist þeim. Þar er gerð grein fyrir þátttöku Íslendinga í þingstörfum og afgreiðslu mála og gefið yfirlit um störf þingsins. Ég vísa því í þá skýrslu varðandi heildaryfirlit um málefni þingsins en mun í nokkrum orðum ræða þátttöku Alþingis í 44. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
    Þingið sátu að þessu sinni þingmennirnir Þorvaldur Garðar Kristjánsson, Margrét Frímannsdóttir og Jón Kristjánsson síðari hluta októbermánaðar og í seinni hópnum voru þingmennirnir Rannveig Guðmundsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir og Óskar Ólafsson varaþingmaður Borgfl. og sátu þau þingið fyrri hluta nóvembermánaðar en hvor hópur var vestra um þriggja vikna skeið.
    Árið 1988 varð sú breyting á þátttöku Alþingis í allsherjarþinginu að fulltrúar Alþingis eru nú algjörlega á þess vegum og Alþingi greiðir allan kostnað af för þeirra. Áður var það fyrirkomulag ríkjandi að utanrrn. greiddi þennan kostnað og þingmenn eða aðrir fulltrúar sem sátu á vegum þingflokkanna voru hluti af starfsliði fastanefndarinnar. Nú er ekki svo, hverjum og einum þingmanni er í sjálfsvald sett hvernig hann hagar sinni þátttöku sem áheyrnarfulltrúi og velur sjálfur málefni til að fylgjast með eftir áhugasviði og mati á mikilvægi mála. Eigi að síður voru fulltrúar fastanefndarinnar sendinefndum þingsins innan handar og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka þeim ágæta fyrirgreiðslu og samskipti þó um formlega skipulagningu starfsins hafi ekki verið að ræða af þeirra hálfu nú.
    Í afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1990 var gert ráð fyrir breytingu á þátttöku Alþingis í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og lækkun framlags til þessarar þátttöku um eina milljón króna. Formaður fjvn. ræddi þessi mál við 2. umr. fjárlaga, síðast nú fyrir jólin, og sagði þar svo með leyfi forseta:
    ,,Þá er einnig ástæða til að minna á að í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir nokkrum breytingum er varða setu alþingismanna á þingi Sameinuðu þjóðanna.
    Með afgreiðslum Alþingis á fjárlögum yfirstandandi árs var frá því gengið að Alþingi tæki við af utanrrn. greiðslu kostnaðar vegna þátttöku fulltrúa þingflokkanna á þingi Sameinuðu þjóðanna. Sú breyting hefur tvennt í för með sér: Í fyrsta lagi að Alþingi er óheimilt að greiða kostnað vegna annarra en alþingismanna er sækja þing Sameinuðu þjóðanna. Í öðru lagi að alþingismenn þeir sem sækja þing Sameinuðu þjóðanna eru ekki lengur starfsmenn utanrrn. og sendiráðs Íslands í New York heldur áheyrnarfulltrúar Alþingis á þingi Sameinuðu þjóðanna.

    Í tillögum fjvn. nú er enn gert ráð fyrir nokkrum breytingum. Í tillögunum er lagt til að viðfangsefnið Þátttaka þingmanna í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna lækki um 1 millj. kr. og er við það miðað að dvalartími fulltrúa þingflokkanna á þingi Sameinuðu þjóðanna styttist af þeim sökum úr þremur vikum í tvær og að heimsóknirnar eigi sér stað á þeim tíma þegar þjóðarleiðtogar flytja ræður sínar á þingi Sameinuðu þjóðanna og ríkust ástæða er fyrir alþingismenn að fylgjast með málflutningi þar en ekki eftir að þessum ræðum lýkur eins og tíðkast hefur til þessa.``
    Því er ekki að leyna að þessi afgreiðsla hefur orðið mér við nánari umhugsun nokkur ráðgáta, hvernig tilkynning um hana ber að. Ákvörðun um tilhögun þátttöku Alþingis í þessum alþjóðasamskiptum á að vera í höndum forseta þingsins og formanna þingflokka og vera má að þeir hafi verið með í undirbúningi þessarar ákvörðunar fjvn. sem kynnt var við þessa umræðu. Ég tel ekkert við það að athuga að endurmeta alþjóðleg samskipti Alþingis en ég tel að heppilegra væri að taka öll þau samskipti í heild til endurskoðunar. Engar skýringar hafa komið fram á því hvers vegna er dregið úr þátttöku Alþingis í þingi Sameinuðu þjóðanna frekar en öðrum alþjóðasamskiptum.
    Einnig orkar tvímælis að binda það fastmælum að þessi þátttaka eigi eingöngu að vera í því fólgin að hlusta á þjóðhöfðingja og leiðtoga einstakra ríkja flytja ræður í allsherjarþinginu. Skynsamlegra væri að þingmenn hefðu val um það hvort þeir velja þann kost, sem vissulega getur verið áhugavert, eða hvort þeir vilja fylgjast með störfum nefnda þingsins sem ekki er síður áhugavert og gefur að mörgu leyti fyllri mynd af vinnubrögðum hversdagsins í þessari risavöxnu alþjóðastofnun.
    Ég tel þessa áheyrn á allsherjarþinginu nauðsynlega fyrir þingmenn ekki síður en önnur alþjóðasamskipti. Hún er einn þáttur í þá mynd sem nauðsynlegt er að gera sér af alþjóðamálum á tímum þegar þessi samskipti fara vaxandi. Þær raddir heyrast vissulega að allsherjarþingið sé ekki mikils virði, það sé kjaftasamkoma og er það mjög í raun í stíl við þá umræðu sem við þekkjum um Norðurlandaráð og viðlíka stofnanir. Vissulega eru störf þingsins viðamikil og
þung í vöfum. Þingið er samkoma 150 þjóða, aðeins örfáar þjóðir heims eiga þar ekki aðild. Hægt er að gera sér í hugarlund stærð þessarar stofnunar sem hér er um að ræða. Hitt er þó staðreynd að þetta er eini umræðuvettvangurinn þar sem nær allar þjóðir heims mætast og hér eru vandamál heimsins rædd þó ákvörðunarvaldið vanti.
    Þingmenn lítillar þjóðar eins og okkar með vaxandi alþjóðleg samskipti og erfiðar ákvarðanatökur í þeim efnum þurfa að fylgjast með á þessum vettvangi. Það er ómetanleg reynsla en auðvitað verður þessi þátttaka að þræða hinn gullna meðalveg í kostnaðarlegu tilliti.
    Við Íslendingar skulum þó vera minnugir þess að einmitt á þessum vettvangi höfum við mikil áhrif til

heilla við stefnumótun í hafréttarmálum og við mótun hafréttarsáttmálans á sínum tíma. Það eitt ætti að nægja til þess að undirstrika mikilvægi Sameinuðu þjóðanna fyrir smáþjóð eins og Íslendinga.
    Starf 44. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna bar svip af slaknandi spennu milli stórveldanna. Af þeim sökum var óvenju mikil ró í fyrstu nefnd sem fjallar um afvopnunarmál og ræður sendifulltrúanna þar einkenndust af því. Af þeim sökum beindist athygli meira að öðrum vandamálum sem hrjá mannkyn. Má þar nefna mengun umhverfisins og stöðu þriðja heims ríkja, eiturlyfjavandamálið og önnur vandamál svo sem heilbrigðisvandamál og þá einkum hættuna á útbreiðslu alnæmis sem er ein af þeim plágum sem ógna heimsbyggðinni.
    Segja má að umhverfismál hafi verið fyrirferðarmest í nefndarstarfinu á þessu allsherjarþingi en þau voru til umræðu í annarri nefnd. Það er sýnt að miðað við núverandi þróun í sambúð stórveldanna og slaknandi spennu verður næsti áratugur áratugur umhverfismála. Ætlunin er að Sameinuðu þjóðirnar gangist fyrir ráðstefnu um umhverfismál árið 1992 og hefur henni verið valinn staður í Brasilíu. Umræðurnar snerust m.a. um undirbúning þessarar ráðstefnu. Ræður fulltrúa hinna ýmsu þjóðríkja í annrri nefnd snerust auðvitað mjög um hin stóru umhverfisvandamál, eyðingu ósonlagsins, eyðingu regnskóga, gróðurhúsaáhrifin, súrt regn og áhrif mengunar á skóga, vötn og mannvirki og þar með sögulegar minjar og mengun hafsins.
    Athyglisverðasti þátturinn í þessum umræðum var kannski áherslumunur sem kom fram milli iðnríkjanna og þróunarríkja þriðja heimsins. Fram kom m.a. að ríki þriðja heimsins telja iðnríkin bera mikla ábyrgð á þeim hættum sem steðja að umhverfi mannsins og telja að stuðningur þeirra verði að koma til svo hægt verði að ná alþjóðlegri samstöðu um verndun umhverfisins. Fátækt og bjargarleysi leiða af sér umhverfisvandamál ekki síður en ofgnótt alls sem leitt hefur af sér stórfelld umhverfisvandamál í hinum ríku iðnríkjum. Fulltrúar þeir sem töluðu í annarri nefnd frá þriðja heims ríkjum undirstrikuðu þetta vandamál alveg sérstaklega, umhverfisvandamál allsleysisins.
    Ágreiningur þessi speglaðist í mismunandi áherslum um undirbúning umhverfismálaráðstefnunnar. Iðnríkin vilja ræða umhverfi og þróun samhangandi en þróunarríkin vilja halda þessum þáttum aðskildum. Þessi ágreiningur um grundvallaratriði setti mjög svip sinn á umræðurnar.
    Náskyld þessu er umræðan um skuldastöðu ríkja þriðja heimsins. Endurgreiðsla þessara skulda gerir hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari. Skuldsetning þessara ríkja tefur fyrir framþróun í þriðja heiminum og eykur bilið milli norðurs og suðurs.
    Það fer ekki hjá því fyrir fulltrúa sem situr þarna í fyrsta sinn, að heimsmyndin breytist nokkuð við að hlusta á umræður sem þessar og hin hefðbundna skipting sem hér er mest í umræðunni, skipting í þjóðir austurs og vesturs, hverfur nokkuð í skuggann fyrir þessari skiptingu heimsins í ríkar þjóðir og

fátækar þjóðir og það er ekkert áhorfsmál að við tilheyrum hinum ríku þjóðum. Vandamál okkar eru í rauninni dvergvaxin í alþjóðlegu samhengi.
    Þetta leiðir hugann að framlögum okkar Íslendinga til þróunarmála sem voru rædd hér m.a. Hæstv. utanrrh. kom inn á þau mál réttilega í tengslum við skýrslu sína á Alþingi í gær.
    Framlög aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna til þróunarstarfs á vegum stofnunarinnar voru afhent formlega á sérstökum fundi allsherjarþingsins á þeim tíma sem ég sat þar og kom það í minn hlut að afhenda framlag Íslands. Ég verð að viðurkenna það að ég gerði það ekki með miklu stolti fyrir okkar hönd. Framlögin hafa farið minnkandi í hlutfalli við þjóðarframleiðslu meðan nágrannar okkar á Norðurlöndum auka þau stöðugt þannig að þau nema nú miklum fjárhæðum. Það kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. í gær að framlögin eru nú 0,05% af þjóðarframleiðslu þrátt fyrir að takmarkið hafi verið sett við 1%.
    Ég skal að vísu viðurkenna að það er í mörg horn að líta um opinber framlög en þó verðum við að endurmeta þróunarhjálp okkar á þann hátt að við séum virkilega í hópi þeirra sem vilja taka myndarlega á í þessum efnum. Til þess ber okkur siðferðileg skylda í ljósi þess að þjóðartekjur skipa okkur í hóp hinna ríku þjóða.
    Það ber vissulega að hafa gát á því að þessi framlög nýtist sem best til að hjálpa mönnum til að hjálpa sér sjálfir og bein aðstoð hefur skilað miklum
árangri. Alla þessa þætti ber að endurmeta í þeim tilgangi að efla okkar þróunaraðstoð.
    Það er viðurkennt að eiturlyfjavandamálið er alþjóðlegt vandamál. Það hefur verið viðurkennt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og þau voru eitt af stórmálum þessa þings. Forseti Kólumbíu hélt áhrifamikla ræðu í almennu umræðunum um þessi mál en þar sem við komum ekki fyrr en seinna þangað vestur hlýddum við ekki á þá ræðu. Hins vegar komu fram hjá fulltrúum þeirra ríkja þar sem eiturlyfjaframleiðslan á sér stað áhyggjur af afkomu þeirra bláfátæku bænda sem draga fram lífið við ræktun og ofurseldir veldi glæpaflokka sem stunda eiturlyfjasölu. Styrjöld við eiturlyfjahringana kippir lífsgrundvellinum undan þessu fólki. Þarna er alþjóðleg samstaða og samhjálp nauðsynleg, eins og á svo mörgum sviðum, ef takast á að vinna bug á þessari plágu sem brýtur þjóðirnar niður innan frá.
    Eins og fram kemur í skýrslu utanrrh. er ákveðið að áratuginn 1991--2000 tileinki Sameinuðu þjóðirnar baráttu gegn eiturlyfjum.
    Hér hefur verið stiklað á mjög stóru um það sem að okkar dómi voru stærstu málin á 44. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ég ætla ekki í þessum orðum að rekja öll þau mál sem þar voru rædd. Kemur þar einnig til að fulltrúar þingflokkanna sátu ekki á allsherjarþinginu nema tiltölulega skamman tíma og utan um heildarmálefni þingsins heldur fastanefndin þar með sínu starfsliði undir forystu Benedikts Gröndals sendiherra og starfslið utanrrn.

    Ég læt þetta því nægja. Þetta er aðeins tilraun til þess að flytja þinginu þann andblæ sem var á 44. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem einkenndist vissulega af slaknandi spennu milli stórvelda þó að þetta þing endaði vissulega á nokkuð dramatískum átökum en átökin í Rúmeníu og innrásin í Panama bárust þar inn á síðustu dögum þingsins. Þannig að þó að friðvænlegar horfi nú um sinn þá eru veður öll válynd, það sýndi sig um síðustu jól þegar þessir atburðir áttu sér stað.
    Það hefur komið fram að hæstv. utanrrh. ávarpaði þing Sameinuðu þjóðanna á þeim tíma sem almennar umræður leiðtoga voru í allsherjarþinginu. Það var mál manna þar vestra að hann hefði komið inn á stór mál og innleitt okkar sjónarmið vel í allsherjarþinginu og einkum lagt áherslu á t.d. umhverfismálin sem segja má að hafi verið mál málanna á allsherjarþinginu.
    Að lokum þakka ég aftur starfsmönnum utanrrn. og fastanefndinni, þeim sem við höfðum samskipti við á allsherjarþinginu og óska þeim velfarnaðar í sínum mikilvægu störfum. Okkar fámenna utanríkisþjónusta vinnur þar mjög gott starf því það er vissulega mikið verk að halda utan um allan þann fróðleik og koma til skila skýrslum um allar þær umræður sem fara fram í þessari stofnun.