Utanríkismál
Föstudaginn 30. mars 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Hv. 12. þm. Reykv. hefur fyrr í umræðunni fjallað um meginefni þessarar skýrslu hæstv. utanrrh. um utanríkismál. Eins og vænta mátti hefur umræðan nokkuð einkennst af þeim ótrúlegu og jákvæðu breytingum sem átt hafa sér stað í okkar heimshluta á sl. ári. Ég ætla hins vegar aðallega að fara nokkrum orðum um einn afmarkaðan þátt skýrslu hæstv. utanrrh. sem reyndar er ekki fyrirferðarmikill sé litið á umfang hennar og umfjöllun um flesta aðra málaflokka.
    Kaflinn um þróunarsamvinnu er knappur og alveg í stíl við fjárveitingar ríkisstjórnar Íslands til þessa málaflokks, en í öfugu hlutfalli við þau vandamál og verkefni sem við blasa í þróunarlöndunum.
    Á 44. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðasta haust gerðist sá sögulegi atburður að meðal ályktana sem samþykktar voru var alþjóðasamningur um réttindi barna. Það er í mínum huga mjög mikilvægt að slíkur samningur skuli undirritaður, að viðurkennt skuli með formlegum hætti að börn skuli hafa tiltekin réttindi og þau skuli virt. Hins vegar er á honum sá galli eins og öðrum slíkum sáttmálum Sameinuðu þjóðanna, hvort sem þeir snerta almenn mannréttindi eða t.d. réttindi kvenna, að barnasáttmálinn gefur ekkert endanlegt svar um það hvernig á málum skuli tekið.
    Í barnasáttmálanum er að finna ýmis mikilvæg atriði. Eflaust finnst mörgum Íslendingum þau ekki snerta okkur beint ef miðað er við kjör og aðstæður sem börn í öðrum heimshlutum búa við. Barnasáttmálinn gefur okkur þó tilefni til að huga að okkar eigin málum og hvernig við sem teljumst til einnar af ríkustu þjóðum heimsins búum að börnum hér á landi og hvort við erum reiðubúin til þess að veita börnum annars staðar í heiminum hlutdeild í þeim auðæfum sem við eigum. Framlög okkar Íslendinga til þróunarsamvinnu og þróunaraðstoðar yfirleitt eru vitaskuld til skammar fyrir okkur.
    Ég tel rétt að minna á það að árið 1985 samþykkti Alþingi ályktun þess efnis að auka reglubundin framlög hins opinbera til þróunarsamvinnu þannig að því marki yrði náð að veita 0,7% af þjóðarframleiðslu til þróunarsamvinnu á næstu sjö árum. Þessi einróma samþykkt Alþingis hefur margsinnis verið brotin og það er dapurlegt og í raun ófyrirgefanlegt að sjá yfirlitið um opinber framlög OECD-landa til þróunarsamvinnu á árinu 1988. Yfirlitið er birt sem fskj. með skýrslu utanrrh. og sýnir að af OECD-löndunum leggja Íslendingar langminnst af sinni þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar. Meðaltal framlaga OECD-landanna er 0,36% en Íslendingar leggja aðeins til 0,05% þetta árið.
    Ég minntist áðan á börnin og barnasáttmálann og tel að vart sé hægt að minnast á þróunaraðstoð án þess að minnast á kjör barna sem fæðast í þriðja heiminum. Við vitum að verkefnin þar eru óþrjótandi og til að tryggja framtíð þess fólks sem þar býr verðum við að leggja okkar af mörkum til þess að

bæta hag systra okkar og bræðra sem þar fæðast. Við vitum líka að verkefnin eru ekki einungis fjárfrek heldur líka tímafrek. Tímafrek eru þau einkum fyrir þá sök að þau eiga að miða að því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Aðeins með því móti að íbúar í þróunarlöndunum verði sjálfbjarga getum við vænst þess að lifa í betri og réttlátari heimi en nú.
    Um þessar mundir er ekki vitað hversu margar milljónir ungbarna deyja vegna sýkingar af völdum mengaðs drykkjarvatns á ári hverju, en sýking af völdum þess er tíðasta dánarorsök ungbarna í þriðja heiminum. Aðrar staðreyndir blasa við. Talið er að um 900 millj. manna séu ólæsir, 600 millj. atvinnulausir og aðrar 600 millj. eru vannærðar eða búa við hungur. Þetta eru ógnvekjandi staðreyndir, ekki síst með tilliti til þeirra auðæfa og óheftrar neyslu sem daglegt líf iðnríkjanna einkennist af. Í iðnríkjunum lætur nærri að konur séu eini framfærandi eins þriðja hluta allra fjölskyldna. Í þróunarlöndunum eru 2 / 3 hlutar allra fjölskyldna á framfæri kvenna. Það er því ljóst að hjálp til kvenna í þróunarlöndunum er hjálp sem nær til margra einstaklinga, ekki síst barnanna sem ég hef gert að umtalsefni hér í máli mínu.
    Í Afríku standa konur fyrir um 80% allra búa og um það bil 60% í Suður-Ameríku. Karlarnir eru oft langdvölum fjarri heimilunum við launavinnu eða jafnvel atvinnulausir. Það eru því konurnar sem sjá um allan daglegan rekstur. Vinnudagur þeirra er oft æðilangur, þær þurfa að ganga margra kílómetra leið eftir vatni og nota 5--7 stundir á degi hverjum til þess að þreskja og mala korn fyrir fjölskyldur sínar.
    Á vegum Sameinuðu þjóðanna starfar sérstakur sjóður, UNIFEM, sem hefur það hlutverk að aðstoða konur í Suður-Ameríku, Asíu og Afríku við ýmiss konar þróunarstörf. Sjóðurinn var stofnaður árið 1976 í upphafi kvennaáratugarins og hefur megináherslan verið lögð á að veita úr honum lán fremur en styrki. Reynslan af starfsemi sjóðsins hefur verið sú að konurnar geta nánast undantekningarlaust staðið í skilum. Yfirleitt er ekki um miklar fjárhæðir að ræða en þær geta þó valdið straumhvörfum í lífi kvennanna og fjölskyldna þeirra. Þannig hefur UNIFEM nú aðstoðað konur í nokkrum þorpum Gambíu við að koma upp einföldum myllum þar sem verkin sem áður tóku 5-7 stundir á degi
hverjum taka nú 5 mínútur. Sá tími sem afgangs verður þegar konurnar hafa fengið slík tæki í hendurnar, t.d. vatnsdælur eða myllur, nýtist þeim til fjölbreytilegra annarra starfa, t.d. framleiðslu matvæla, sauma, vefnaðar auk þess sem tími gefst til að njóta fræðslu um ýmis mikilvæg málefni, svo sem heilbrigði, getnaðarvarnir, meðferð matvæla og fleira.
    Virðulegur forseti. Ég hef farið hér nokkrum orðum um þróunaraðstoð sem sérstaklega er beint að konum. Ástæður þess eru ljósar en ég vildi sérstaklega minnast á UNIFEM-sjóðinn. Hann fær ekki fastar fjárveitingar frá Sameinuðu þjóðunum, heldur renna til hans styrkir frá ýmsum aðildarlöndum og félagasamtökum af ýmsu tagi. Hér á landi hafa nú verið stofnuð sérstök samtök til styrktar þessum sjóði.

    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, svo og þau lönd sem fremst standa í þróunaraðstoð, og hafa lagt metnað sinn í hana, eru að gera sér æ betri grein fyrir því hve mikilvægt er að beina aðstoðinni til kvenna. Ég hlýt að skora á hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnina alla að huga betur að málefnum þróunarlandanna við undirbúning næstu fjárlaga og leggja meiri áherslu á þá þætti þar sem konur eru beinir þátttakendur þannig að fjármagnið nýtist sem best. Við verðum að taka myndarlegt skref í þá átt að reyna að standa við einróma samþykkt Alþingis frá árinu 1985. Þrátt fyrir tímabundin vandkvæði í efnahagslífi okkar erum við í hópi þeirra þjóða sem eru vel aflögufærar. Okkur ber því að leggja okkar skerf til þróunaraðstoðar, til þeirra sem þarfnast og óska hennar.
    Það kemur ekki á óvart að nokkuð hefur verið fjallað um málefni Austur- og Mið-Evrópu í þessari umræðu. Í málflutningi sumra hefur mér þótt örla á tilhneigingu til einföldunar og virðist sem ekki hafi allir getað losað sig undan þeim hugsunarhætti sem einkennt hefur samskipti risaveldanna fram á allra síðustu ár. Auðvitað eru breytingarnar í Austur-Evrópu og Mið-Evrópu í lýðræðisátt mjög jákvæðar en málflutningurinn virðist í einstaka tilfellum ganga út á að hlakka yfir óförum annarra í fullvissu um að eigið kerfi sé það eina rétta og best fyrir alla. Ég vil minna á að alls staðar þar sem einræði og miðstýring eru einkennandi fyrir stjórnarhættina hefur fólkið risið upp og krafist réttar síns án tillits til þess hvaða hugmyndafræði stjórnarhættirnir hafa byggst á.
    Ég vil biðja hv. þm. að hugleiða og minnast dæma úr sögunni sem sýna að illa þenkjandi einstaklingar og valdahópar hvar í flokki sem þeir standa hafa aldrei reynst til farsældar fyrir fólkið.
    Þær breytingar sem nú hafa orðið og gengið svo hratt fyrir sig sem raun ber vitni eru tilkomnar fyrir kraft sem hefur blundað í fólkinu. Þrátt fyrir áralanga kúgun hefur ekki tekist að bæla niður frelsisþrá þess fólks sem varð til þess að greiða fyrir breyttum þjóðfélagsháttum. Sá kraftur, sem hefur rekið fólk í friðar- og umhverfishópum víða um heim áfram, er af sama toga. Það fólk hefur knúið valdhafa til að hvetja til afvopnunar og telja má víst að afvopnunarvilji forustumanna risaveldanna sé ekki hvað síst tilkominn vegna þrýstings frá slíkum hópum. Hér á norðurslóðum hefur sú krafa m.a. birst í kröfunni um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum og í höfunum í kring. Sú krafa er auðvitað aðeins lágmarkskrafa. Lokatakmarkið hlýtur að vera heimur án kjarnorkuvopna þar sem fólk sér börnum sínum borgið.
    Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns minntist ég á börn og samþykkta ályktun um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísland og önnur Norðurlönd voru meðal flutningslanda. Þessi samningur um réttindi barna er fyrsti alþjóðlegi bindandi samningurinn um réttindi barna og er hann afrakstur tíu ára starfs. Hann ber með sér að hann er málamiðlun en hann er þó spor í rétta átt.
    Í barnasáttmálanum er tekið fram að börn þurfa á

sérstakri vernd að halda og óskað er eftir stöðugri viðleitni í þá átt að bæta stöðu barna um allan heim. Ég hef þegar rætt nokkuð um kjör og aðbúnað barna í þriðja heiminum. Í máli hv. 12. þm. Reykv. í gær kom fram að börn eru beitt hrottalegri meðferð í Palestínu. Ísraelskir hermenn hafa deytt um 150 börn undir 16 ára aldri og hafa ísraelsk yfirvöld meinað öllum börnum í Palestínu að stunda nám í um það bil 18 mánuði. Viðleitni kennara til að kenna börnum í heimahúsum varðar við lög. Hér eru aðeins nefnd tvö dæmi en við vitum að allt of víða er pottur brotinn í málefnum barna.
    Ég bið hv. þm. að hugleiða við þessa umfjöllun um utanríkismálin að víða um heim alast börn upp við allsendis óviðunandi aðstæður og fjöldi barna hefur aldrei kynnst því sem við mundum kalla venjulegar aðstæður, venjulegt líf. Í umfjöllun um utanríkismál er gjarnan fjallað um svokölluð hefðbundin atriði eins og hernaðarbandalög og viðskiptasamninga. Við verðum að muna eftir börnunum sem eru framtíð mannkyns. Í því sambandi skulum við rifja upp og hugleiða afríska máltækið sem segir að við höfum ekki fengið jörðina að gjöf frá forfeðrum okkar heldur aðeins til varðveislu fyrir komandi kynslóðir. Íslendingar hafa mikið verk að vinna og geta gegnt mikilvægu hlutverki til
þess að hvetja til friðsamlegri heims þar sem borin er virðing fyrir fólkinu sem jörðina byggir og umhverfinu.