Utanríkismál
Föstudaginn 30. mars 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með hv. 3. þm. Vesturl. að það er mikilvægt að Íslendingar taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Dæmi sem hann nefndi þar máli sínu til stuðnings eru dæmi um hversu mikilvægt það getur verið að við höfum áhrif á ályktanir sem okkur varða og ber því að fylgjast vel með öllu því sem gerist á alþjóðlegum vettvangi.
    Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs hér er fyrst og fremst sú að ég taldi ástæðu til þess að gera grein fyrir viðræðum sem áttu sér stað í gær milli starfsmanna framkvæmdastjórnar Efnahagsbandalagsins og íslenskra embættismanna varðandi samskipti Íslands og Efnahagsbandalagsins, en þessar viðræður fóru fram í sjútvrn. fimmtudaginn 29. mars 1990, þ.e. í gær. Til þessa fundar komu þrír starfsmenn framkvæmdastjórnar Efnahagsbandalagsins, þeir Henrik Schmiegelow og Ole Tougard frá GG-14 sem er sjávarútvegsdeildin, og Tomas Abadia frá GG-1 sem er utanríkisdeild Efnahagsbandalagsins. Þessir menn komu hér til óformlegra viðræðna við íslenska embættismenn úr sjútvrn. og utanrrn. um undirbúning að mögulegri heimsókn Manuel Marins, þess framkvæmdastjóra Efnahagsbandalagsins sem fer með sjávarútvegsmál, en heimsókn hans er fyrirhuguð í maí n.k.
    Í upphafi þessa fundar var farið yfir gamalkunnug sjónarmið hvors aðila um sig, um forsögu fríverslunarsamninganna og þróun mála síðustu tvo áratugi. Í þessum viðræðum kom skýrt fram að grundvallarforsendur Efnahagsbandalagsins eru aðrar en Íslands þar sem Efnahagsbandalagið telur að gegn frekari viðskiptaívilnunum fyrir íslenskar sjávarafurðir verði að koma tilslakanir af Íslands hálfu innan sjávarútvegsgeirans, þ.e. veiðiheimildir. Af Íslands hálfu var bent á að líta yrði á viðskipti með sjávarafurðir í samhengi við heildarsamskipti Efnahagsbandalagsins og Íslands. Gegn viðskiptaívilnunum fyrir sjávarafurðir gætu komið samsvarandi viðskiptaívilnanir af Íslands hálfu
á öðrum sviðum innan ramma fríverslunarsamningsins frá 1972. Af Íslands hálfu var hreyft þeirri hugmynd að hugsanlega mætti gera fiskveiðisamning milli Íslands og Efnahagsbandalagsins er byggði m.a. á möguleika á skiptum á jafngildum veiðiheimildum í litlum mæli. Samhliða því yrði að gera tvíhliða samkomulag um lækkun eða afnám tolla í bandalaginu á íslenskum sjávarafurðum gegn lækkun eða afnámi fjáröflunartolla af iðnaðarvörum bandalagsins við innflutning til Íslands. Af hálfu bandalagsins kom fram að enda þótt æskilegt væri að gera samning um sjávarútvegsmál er m.a. grundvallaðist á skiptum á jafngildum veiðiheimildum væri ekki af hálfu bandalagsins unnt að líta svo á að slíkur samningur mundi greiða fyrir frekari viðskiptaívilnunum fyrir íslenskar sjávarafurðir. Bandalagið liti ekki á gerð slíks samnings sem eftirgjöf af Íslands hálfu. Fyrir frekari viðskiptaívilnanir fyrir íslenskar sjávarafurðir yrðu að koma tilslakanir á sjávarútvegssviðinu í formi

fiskveiðiheimilda til handa bandalaginu.
    Fram kom að vegna þess að EFTA-ríkin hafa sett fram kröfu um fríverslun með sjávarafurðir munu þessi mál koma upp í viðræðum Efnahagsbandalagsins og EFTA-ríkjanna um EES. Bandalagið mun í þeim viðræðum setja fram gagnkröfu um fiskveiðiréttindi. Þar verður þetta mál hins vegar rætt í víðara samhengi þar sem markmiðið er að ná jafnvægi milli heildarhagsmuna EFTA-ríkjanna annars vegar og Evrópubandalagsins hins vegar.
    Ég taldi rétt, virðulegur forseti, að gera Alþingi Íslendinga grein fyrir þessum fundi vegna þeirrar miklu umræðu sem farið hefur fram hér á Alþingi um samskiptin við Efnahagsbandalagið. Það hefur verið og er stefna Íslendinga að aðskilja þessi mál, þ.e. viðskiptasviðið annars vegar og sjávarútvegssviðið hins vegar. Við höfum á hinn bóginn talið nauðsynlegt að kanna vel og rækilega með hvaða hætti samningur á sjávarútvegssviðinu, sem væri algert jafnvægi í og jafnræði milli Efnahagsbandalagsins annars vegar og Íslands hins vegar, gæti orðið til þess að liðka fyrir samkomulagi um tollaafnám og lækkun tolla. Það hefur komið fram í viðræðum við marga aðila, m.a. marga ráðherra aðildarþjóðanna, að mikill vilji væri fyrir því að greiða úr þeim flækjum sem hafa verið í samskiptum Íslands og Efnahagsbandalagsins. Einhver opnun á því sviði gæti mjög greitt fyrir úrlausn mála. Í þessum viðræðum kemur fram að a.m.k. enn sem komið er er engin breyting á afstöðu Efnahagsbandalagsins. Það er því ljóst að ekki verður gengið til formlegra tvíhliða viðræðna við Efnahagsbandalagið af Íslands hálfu nema uppi á borðinu sé sú krafa Efnahagsbandalagsins að fyrir viðskiptaívilnanir, eins og það er kallað, komi fiskveiðiréttindi Efnahagsbandalaginu til handa frá Íslandi. Það hefur verið stefna Íslendinga að taka ekki upp slíkar viðræður nema ljóst væri að sú krafa væri ekki á borðinu. Það hefur því að mínu mati verið fullkannað hvort rétt sé að taka upp slíkar formlegar viðræður nú.
    Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu halda áfram að ræða við einstaka aðila innan Efnahagsbandalagsins og aðildarþjóða þess um málefni Íslendinga í þeirri von að geta breytt þeirri stefnu sem þarna er. Það er hins vegar ljóst að við hljótum að leggja mjög ríka áherslu á að koma fram sjónarmiðum okkar í þeim
viðræðum sem fara fram milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Efnahagsbandalagsríkjanna hins vegar. Ég vænti þess að þær viðræður geti leitt til þess að bandalagið breyti um stefnu í þessu lífshagsmunamáli Íslendinga. Ég taldi nauðsynlegt að gera Alþingi grein fyrir þessum fundi. Það er
jafnframt nauðsynlegt að sú skýra afstaða sem kom fram hjá þeim embættismönnum sem ég hef hér nefnt liggi fyrir, m.a. vegna fyrirhugaðs fundar forsrh. í Brussel í næsta mánuði. En þar hljótum við að leggja enn á ný áherslu á að Efnahagsbandalagið breyti um stefnu að því er þetta varðar.
    Þetta var aðalerindi mitt hér í ræðustól, virðulegur forseti. Vænti ég þess að þessar upplýsingar komi að

gagni í þeim umræðum sem hér fara fram.