Utanríkismál
Föstudaginn 30. mars 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes):
    Hæstv. forseti. Skýrsla utanrrh. er bæði mikil og fróðleg og er hér um að ræða mikið viðfangsefni sem mörgum fleirum en alþingismönnum væri hollt að glugga í. Ég held að hér sé um að ræða mjög góða kennslubók, handbók sem segir frá helstu málefnum sem ber á góma í utanríkismálum Íslendinga fyrr og síðar.
    Mig langar þó til þess að taka þrjú viðfangsefni til sérstakrar meðferðar sem kannski ekki er svo mikið fjallað um í þessari skýrslu. Það eru í fyrsta lagi umhverfismálin, í öðru lagi Norðurlandasamstarfið og í þriðja lagi, sem að vísu er gerð allgóð grein fyrir í skýrslunni, væntanlegir EB-EFTA samningar.
    Hvað varðar umhverfismálin má segja að þau séu orðin nokkurs konar utanríkismál númer tvö, einfaldlega vegna þess að umhverfismálin eru í eðli sínu alþjóðleg. Það þarf ekki að hugsa sig lengi um þegar menn átta sig á því að t.d. hafstraumarnir umhverfis landið og lofthjúpurinn yfir Íslandi er á fleygiferð, hann stendur ekki kyrr yfir landinu þannig að hann er ekki einkamál okkar. Annað dæmi má taka, mengun sjávar í Norðursjó berst til Íslandsstranda og til fiskimiðanna í kringum Ísland á fjórum til sex árum. Umhverfismálin eru þar af leiðandi og hljóta í eðli sínu að vera alþjóðleg, enda á sér stað gífurlegt alþjóðlegt samstarf á þessu sviði. Því miður hafa Íslendingar lítt sinnt þessu samstarfi fram til þessa en hið nýja umhverfisráðuneyti hlýtur að vega og meta með hvaða hætti það tekur þátt í þessu samstarfi því að sjálfsögðu verðum við að hafa í huga að við erum lítil þjóð og ráðum ekki við að sinna öllum þeim fjölmörgu verkefnum sem blasa við á þessu sviði.
    Alþjóðlegt samstarf á sviði umhverfismála má segja að greinist í fimm meginþætti. Það er fyrst og fremst það samstarf sem hefur farið fram meðal Norðurlandanna. Síðan er það samstarf sem við verðum að eiga við Evrópubandalagsríkin. Þá er það samstarf sem EFTA-ríkin eiga með sér. Síðan í
stærra samhengi er samstarf innan Sameinuðu þjóðanna, þ.e. umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna og svo að lokum má nefna mjög víðtækt samstarf um umhverfismál sem á sér stað innan vébanda OECD-stofnunarinnar.
    Sem dæmi um alþjóðlega fundi sem hafa verið haldnir á síðustu vikum þar sem fjallað hefur verið um umhverfismál má nefna Norðursjávarráðstefnuna sem var haldin í Haag í byrjun þessa mánaðar. Þar hittust allir ráðherrar þeirra ríkja sem eru aðilar að Norðursjávarbandalaginu svokallaða. Þar fyrir utan komu sem áheyrnarfulltrúar ráðherrar annarra Evrópuríkja, og það var ánægjulegt að þarna mættu til leiks í fyrsta sinn fjórir ráðherrar Austur-Evrópuríkja til þess að taka þátt í þessum fundi.
    Á Norðursjávarráðstefnunni afhenti ég umhverfisráðherra Bretlands, hr. Christopher Patten, formlegt mótmælabréf vegna þeirra áforma bresku ríkisstjórnarinnar að reisa endurvinnslustöð fyrir

kjarnorkuúrgang við Dounreay á Norður-Skotlandi. Ég átti þess kost að ræða þetta mál sérstaklega við breska umhverfisráðherrann, sem að vísu fullvissaði mig um að það væru ekki nein áform um að veita byggingarleyfi fyrir slíkri stöð næstu sex árin. Engu að síður virka þessi áform mjög tortryggileg og hvað svo sem Bretar segja á alþjóðavettvangi um þetta hljótum við að verða að fylgjast mjög náið með framvindu þessa máls og reyna af öllum mætti að koma í veg fyrir að þessi stöð rísi.
    Þá átti ég þess kost að sitja mjög mikla umhverfismálaráðstefnu sem var haldin í Kanada fyrir skömmu. Þangað fór ég í þeim tilgangi að eiga tvíhliða viðræður við embættismenn kanadíska umhverfisráðuneytisins sem höfðu óskað sérstaklega eftir því að ná sambandi við íslenska umhverfisráðuneytið vegna ýmissa verkefna- og rannsóknasviða sem þeir hafa áhuga á að eiga samstarf við okkur um. M.a. kom þar fram, sem er athyglisvert og kannski áhugavert fyrir náttúruverndarsinna, að Kanadamenn hafa miklar áhyggjur af vissum farfuglategundum sem eru sameiginlegar báðum löndunum. Tóku þeir sem dæmi stuttnefjuna sem er í mikilli útrýmingarhættu í Kanada en hún er þekktur fugl hér á landi. Þeir óskuðu eftir samstarfi um rannsóknir á stuttnefju og sömuleiðis komu þeir inn á möguleika á því að það yrði gerður tvíhliða samningur milli landanna um að vernda votlendi í báðum löndunum til þess að þessi fugl geti þrifist.
    Annað sem við ræddum var hugmynd um alþjóðlega rannsóknamiðstöð í Reykjavík sem beitti sér fyrir rannsóknum á umhverfi Norður-Atlantshafsins. Það mál hefur nokkuð verið í deiglunni sem eitt af þeim verkefnum sem hið nýja umhverfisráðuneyti hefur verið að vinna að. Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi kom með þessa hugmynd til íslenskra stjórnvalda og tókum við henni strax vel. Hefur markvisst verið unnið að því að kanna hvort þetta sé raunhæft og með hvaða hætti slík stöð gæti risið í Reykjavík. Umhverfisráðherra skipaði fyrir síðustu áramót nefnd til þess að fjalla sérstaklega um þetta mál og skilaði nefndin áfangaskýrslu nýverið sem var tekin til umræðu á fundi sem var haldinn í gær. Þann fund sátu fjölmargir vísindamenn ásamt fulltrúum bandaríska sendiráðsins í Reykjavík, svo og fulltrúar umhverfisráðuneytisins. Þar var
samþykkt að rétt væri að halda þessu máli áfram og leita til fleiri landa um þátttöku í þessu verkefni. Embættismenn umhverfisráðuneytisins í Kanada lýstu áhuga sínum á þessu verkefni og fyrstu viðbrögð þeirra voru mjög jákvæð. Hugmyndin er því að leita nú eftir viðhorfum og viðbrögðum Breta og svo því næst Norðmanna og Dana í þessu sambandi.
    Á ráðstefnunni í Vancouver átti ég viðtal við dr. Mostafa K. Tolba sem er framkvæmdastjóri umhverfismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hann lýsti yfir mikilli ánægju sinni yfir því að stofnað skuli hafa verið umhverfisráðuneyti á Íslandi og bauð okkur velkomna til samstarfs í umhverfismálastofnuninni.

Mér þótti afar athyglisvert að dr. Tolba lýsti því viðhorfi sínu til Norðurlandanna að framlag Norðurlanda á sviði umhverfismála væri talið afar mikilvægt innan vébanda umhverfismálastofnunarinnar. Það hefði þó veikt rödd Norðurlandanna að Ísland var ekki með í þeim hóp. Dr. Tolba taldi því að með þátttöku Íslands í þessu samstarfi mundi rödd Norðurlandanna styrkjast og hlutverk þeirra í umhverfismálasamstarfi Sameinuðu þjóðanna þar með einnig.
    Í ágústmánuði n.k. verður fundur stjórnarnefndar umhverfismálastofnunarinnar haldinn í Nairobi og þar verða væntanlega í fyrsta sinn teknar til umræðu hugmyndir um umhverfismálasáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna. Rétt er að rifja það upp að hæstv. utanrrh. kom einmitt inn á þá hugmynd í ræðu sem hann flutti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust.
    Svo ég snúi mér aftur að þeim viðræðum sem ég átti við embættismenn kanadíska umhverfisráðuneytisins varð samkomulag okkar á milli um að við mundum eiga samstarf um mat á umhverfisáhrifum vegna álvera. Kanadamenn eru í svipaðri stöðu og við, þ.e. þeir hafa nýlega þurft að taka afstöðu til byggingar nýs álvers og hafa þar af leiðandi nýlega haft með höndum það verkefni að meta umhverfisáhrif frá slíku iðjuveri. Þeir höfðu mikinn áhuga á því að veita okkur upplýsingar um með hvaða hætti þeir höfðu staðið að slíku mati og sömuleiðis eiga við okkur samstarf á þessu sviði þannig að við létum þeim í té upplýsingar um það hvernig við mundum vinna slíkt mat á umhverfisáhrifum hugsanlegs og væntanlegs álvers.
    Fyrirhugaður er fundur umhverfisráðherra EFTA-landanna í Genf í næstu viku þar sem umhverfisráðherrarnir ætla að hittast og ræða um umhverfismál og stilla saman strengi sína áður en samningaviðræðurnar milli EFTA-landanna og Evrópubandalagslandanna hefjast væntanlega í maímánuði n.k.
    Síðan langar mig aðeins til að minna á umhverfismálaráðstefnuna sem verður haldin í Bergen 8.--16. maí nk. en það er gert ráð fyrir að þetta verði mesta umhverfismálaráðstefna sem hefur verið haldin í heiminum frá því að Stokkhólmsráðstefnan var haldin. Hv. 2. þm. Austurl. er kannski fróðastur um þá ráðstefnu. Ef ég man rétt sat hann ráðstefnuna sem var haldin 1972.
    Varðandi umhverfismálasamstarf Norðurlandanna þá hittast umhverfisráðherrar Norðurlandanna reglulega til þess að ráða sínum ráðum. Þeir hittust síðast á fundi í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Reykjavík, í lok febrúar og byrjun mars. Þar var m.a. tekin ákvörðun og undirritaður samningur um samnorrænt fjárfestingarfélag á sviði mengunarvarna en fyrirhugað er að það taki til starfa í næsta mánuði. Þessu fyrirtæki er ætlað að stuðla að umhverfisbótum í Austur-Evrópu. Það er hugmynd Norðurlandanna að með þessu geti Norðurlöndin boðið fram aðstoð til Austur-Evrópuríkjanna með þeim hætti að norræn

fyrirtæki geti gengið til samstarfs við fyrirtæki og ríkisverksmiðjur í Austur-Evrópulöndunum og aðstoðað við að koma upp mengunarvörnum. Fjárfestingarfélaginu er svo ætlað að styrkja slík verkefni annaðhvort með því að gerast aðili að verkefninu sem hluthafi eða með beinum styrkjum og/eða lánum.
    Þá langar mig að fjalla örlítið frekar um Norðurlandasamstarfið. Norðurlandasamstarfið stendur e.t.v. á krossgötum um þessar mundir. Í sambandi við 38. þing Norðurlandaráðs, sem var haldið í Reykjavík um síðustu mánaðamót eins og ég gat um áður, voru uppi miklar umræður og kom fram töluverð gagnrýni á starf Norðurlandaráðs. Höfðu ýmsir uppi hugmyndir um að þetta samstarf skilaði litlum árangri og væri fyrst og fremst mikið pappírsflóð og mikið kjaftaþing. Þessi gagnrýni heyrist nálega í hvert sinn sem Norðurlandaráðsþing fer fram. Það er eins og menn gleymi því að Norðurlandaráðsþingið er kannski ekki sá vettvangur þar sem verkefnin eru raunverulega unnin, heldur er Norðurlandaráðsþing einfaldlega þing þar sem þingmenn þjóðþinga allra Norðurlandanna koma saman til að ráða ráðum sínum, hittast og bera saman bækur sínar. Auðvitað hlýtur að fylgja því hefðbundið málæði og mikill pappír. En menn virðast gleyma því sem gerist þar á milli. Á milli Norðurlandaráðsþinganna er unnið hörðum höndum að alls konar verkefnum á sviði Norðurlandasamstarfsins sem minna fer fyrir. Það er minna fjallað um það opinberlega og þar eru störfin yfirleitt unnin í kyrrþey án þess að mikið brambolt sé í kringum þau. Auðvitað er margt af því sem er unnið að á vegum Norðurlandasamstarfsins ekki allt of markvisst eða skilar svo miklum árangri. Ansi er ég þó hræddur um að okkur brygði við ef við vöknuðum upp við það einn góðan veðurdag, kannski í næstu viku, að það væri búið að kippa til baka öllu
því sem Norðurlandasamstarfið hefur þó skilað okkur. Margir mundu vakna upp við vondan draum að þurfa allt í einu að sýna vegabréf þegar farið er til hinna Norðurlandanna, að það væri ekki lengur hægt að skreppa til Danmerkur og leita að vinnu. Svo maður tali nú ekki um að íslensk fjölskylda sem flyst til Danmerkur nýtur strax allra félagslegra réttinda eins og um Dani væri að ræða. Ef allt þetta væri tekið frá okkur í einu vetfangi er ég ansi hræddur um að okkur brygði mjög í brún. Þannig að ef þessi mál eru skoðuð af einhverri sanngirni er ekki nokkur vafi á því að Norðurlandasamstarfið hefur skilað okkur gífurlegum hagsmunum gegnum árin og að sjálfsögðu hlýtur Norðurlandasamstarfið áfram að vera einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu.
    Þá má kannski ekki gleyma því að í þeirri stóru veröld efnahagsbandalaga sem virðist fram undan er mikið talað um frjálsræðin fjögur, þ.e. frjálsa fjármagnsflutninga milli landa, frjálsan flutning á þjónustu milli landa, frjálsan flutning á vörum og svo frjálsan flutning á fólki. Hugmyndir manna ganga út á það að almenningur í þeim löndum sem tengjast þessu efnahagssamstarfi, t.d. almenningur á Íslandi,

geti valið hvort hann kýs að kaupa bifreiðatryggingar sínar hjá vátryggingafyrirtæki í Portúgal eða Ítalíu ef honum þykir vátryggingakostnaðurinn hjá íslensku vátryggingafélögunum vera of hár. Sömuleiðis leiðir þetta væntanlega til þess að lokum að við getum haft sparireikningana okkar í hvaða banka sem er innan efnahagssvæðisins ef okkur þykir þjónusta íslensku bankanna lakleg. Þannig að þetta er kannski það sem við eigum eftir að horfa upp á þegar fram líða stundir.
    En þá kemur spurningin: Hafa þessar þjónustustofnanir í hinum stóra heimi nokkurn minnsta áhuga á því að sinna þessu litla þjóðfélagi hér uppi á norðurhjara veraldar? Ansi er ég hræddur um að það verði lítill áhugi t.d. hjá þýskum, enskum og frönskum bönkum að opna útibú á Íslandi.
    Ég sé fyrir mér að einu löndin sem hugsanlega mundu hafa áhuga á því að bjóða fram þjónustu sína hér á Íslandi eru hin Norðurlöndin og þá kannski fyrst og fremst Danmörk. Þess vegna er Norðurlandasamstarfið að sjálfsögðu mikilvægasta alþjóðlega samstarfið sem við eigum. Þetta eru frændþjóðir okkar og það eru þær sem eru líklegastar til þess að vilja eiga slík viðskipti við okkur sem menn sjá fyrir sér með þeim efnahagssamruna og því efnahagssamstarfi sem verður meðal Evrópuþjóðanna á næstunni.
    Í framhaldi af þessu er rétt að fjalla eilítið um væntanlegar samningaviðræður milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsríkjanna. Ég tel að það hafi verið unnið mikið þrekvirki á vegum hæstv. utanrrh. að leiða könnunarviðræðurnar þann hluta ársins í fyrra sem Ísland fór með formennsku fyrir EFTA-ríkjunum. En undir stjórn hæstv. utanrrh. komust þessi mál miklu lengra áfram en nokkurn hafði grunað þegar lagt var af stað í þessa för. Það er ekki nokkur vafi á því að þessar væntanlegu samningaviðræður og hvernig okkur mun farnast í þessu samstarfi er eitt mikilvægasta mál í allri sögu íslenskra utanríkismála til þessa. Við verðum því að hafa vakandi auga á því hver framvinda þessa máls verður.
    Fyrir hönd Borgfl. lýsi ég því yfir að við teljum sjálfsagt og eðlilegt að taka þátt í þessum viðræðum og ganga ótrauðir til leiks og kanna það til þrautar hvernig hagsmunum Íslendinga verður best borgið í þessu samstarfi og fara í þessar viðræður með opnum hug ásamt hinum EFTA-ríkjunum.
    Hjá stjórnarandstöðunni hefur heyrst sú skoðun að það eigi að blása á þessar viðræður og krefjast þess og heimta formlegar tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið, þannig sé hagsmunum Íslendinga best borgið. Ég held að þetta sé mikil tálsýn og alveg ótrúleg skammsýni af stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar að telja landslýð trú um það að á þessari stundu mundi það gagna okkur Íslendingum best að heimta tvíhliða viðræður við Evrópubandalagsríkin. Í besta falli fengjum við að tala við einhverja lágtsetta embættismenn í Brussel, sem ég hef áður bent á að tali eins og slitin grammófónsplata því þeir kunna ekki aðra setningu en þá að fyrir viðskiptalega

hagsmuni verði Evrópubandalagsríkin að fá veiðheimildir í íslenskri lögsögu. Annað kunna þeir ekki.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um það að við eigum miklu betri möguleika á því að ná auknum viðskiptalegum hagsmunum fyrir hönd Íslendinga án þess að þurfa að gefa neitt eftir í sambandi við veiðiheimildir í gegnum þær sameiginlegu viðræður sem nú fara í hönd á milli EFTA- og Evrópubandalagsríkjanna.
    Síðan er kannski spurningin hvort þessi hugmynd um sameiginlegt efnahagssvæði 18 ríkja Evrópu, þ.e. Evrópubandalagsríkjanna 12 og EFTA-ríkjanna 6, er ekki þegar orðin úrelt. Því með þeim breytingum sem hafa orðið í Austur-Evrópu hljóta menn að staldra við og sjá þessa hluti í miklu, miklu stærra samhengi. Ég er farinn að trúa því að við eigum eftir að lifa það og e.t.v. fyrr en nokkurn grunar að það muni skapast efnahagslegt samstarf, efnahagslegt bandalag allra Evrópuríkjanna frá Írlandi og Íslandi í vestri að Kyrrahafsströnd í austri, þ.e. yfir allt Rússland og Síberíu með. Hins vegar er ég ekki í nokkrum vafa um það að innan þessa stóra efnahagssvæðis Evrópu,
sem mætti kalla svo, hljóta að myndast alls konar bandalög og þá fyrst og fremst á sviði menningar og ýmissa annarra hagsmunamála sem tengja kannski önnur lönd innan Evrópu betur saman en ella. Sem dæmi má nefna Norðurlandasamstarfið. Í þessu samhengi má taka sem annað dæmi að Ítalía, Austurríki, Ungverjaland og Júgóslavía áforma að hefja sams konar samstarf sín á milli og gerist á vettvangi Norðurlandaráðs. Þau hafa þar af leiðandi leitað til norrænu ráðherranefndarinnar og óskað eftir því að fá að senda sendinefnd til Kaupmannahafnar til að eiga viðræður við fulltrúa og starfsmenn skrifstofu ráðherranefndarinnar til þess að læra af þeim og fræðast um Norðurlandasamstarfið. Það er hægt að hugsa sér mörg fleiri bandalög þessa eðlis og reyndar má minna á að Benelúxlöndin halda enn þá uppi mjög víðtæku samstarfi á sviði menningar og skólamála og á ýmsum öðrum sviðum, án tillits til þess að löndin þrjú eru aðilar að Evrópubandalaginu.
    Það verður því gaman að fylgjast með hver þróunin verður í Evrópu á næstu árum. Mér segir svo hugur um að þróunin geti orðið þannig að við sjáum fyrir okkur öflugt bandalag allra Evrópuþjóðanna eins og þær leggja sig, en innan þeirra muni síðan þróast samstarf á sviði menningar, skólamála og vísindamála meðal þjóðahópa sem eiga kannski sameiginlegan menningararf, skyld tungumál og ýmsa frændsemi sem gerir það að verkum að þær hljóta að starfa nánar saman en öll löndin sameiginlega í heild sinni. (Gripið fram í.) Ég var að tala um samstarf, efnahagslegt samstarf.