Fjáraukalög 1989
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 111/1989 og er efnisþátturinn fjáraukalög fyrir árið 1989. Í frv. er leitað heimilda Alþingis fyrir endanlegu greiðsluuppgjöri fyrir ríkissjóð fyrir árið 1989, niðurstöðutölum um endanlegar greiðslur úr ríkissjóði umfram þær heimildir sem veittar hafa verið í fjárlögum og fjáraukalögum fyrir árið 1989.
    Ég vil hér í upphafi rifja það upp að frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1989 var lagt fyrir Alþingi 1. nóv. sl. Því fylgdi ítarleg greinargerð um framvindu ríkisfjármála á árinu 1989 og þær heimildir sem óskað var eftir að yrðu samþykktar umfram fjárlög fyrir árið 1989. Einnig vil ég vekja athygli á því að fyrir Alþingi liggur skýrsla um ríkisfjármál og framkvæmd lánsfjáráætlunar fyrir árið 1989.
    Vegna þessara gagna sem ég hef rakið hér er ekki nauðsynlegt að fara mörgum orðum um afkomu ríkissjóðs og þróun ríkisfjármála árið 1989, enda hefur þegar farið fram ítarleg umræða um það mál hér á Alþingi. Ég vil þess vegna nota tíma minn til þess að víkja sérstaklega að þeim frávikum sem urðu frá niðurstöðum fjárlaga að viðbættum fjáraukalögum fyrir árið 1989 og endanlegum greiðslum úr ríkissjóði á árinu 1989.
    Þegar fjárlög fyrir árið 1989 voru afgreidd frá Alþingi ríkti mikil óvissa um framvindu efnahagsmála á árinu 1989. Þegar líða tók á fjárlagaárið var ljóst að ýmsar forsendur fjárlaganna mundu ekki standast og ljóst var að heimildir fjárlaga mundu ekki nægja til að mæta þeim skuldbindingum sem stofnað var til. Í því skyni var lagt fyrir Alþingi frv. til fjáraukalaga sem afgreitt var sem lög 22. des. sl.
    Samkvæmt niðurstöðutölum laganna var gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs mundu verða um 8,5 milljörðum kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir en á móti var áætlað að tekjur ríkissjóðs mundi aukast um nálega 3 milljarða kr. miðað við áætlun fjárlaga þannig að afkoma ríkissjóðs versnaði um tæplega 5,5 milljarða kr. miðað við fjárlög. Nú liggur fyrir endanlegt greiðsluuppgjör vegna A-hluta ríkissjóðs fyrir árið 1989 og samkvæmt því versnaði afkoma ríkissjóðs enn frekar eða um ríflega 1,2 milljarða frá því sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjáraukalaganna fyrir árið 1989. Endanlegar greiðslur úr ríkissjóði urðu um 1,1 milljarði kr. hærri en gert var ráð fyrir.
    Þessi munur sem menn hafa nú nokkuð tekið til umræðu áður hér á Alþingi felst einkum í því að þegar upp var staðið reyndust greiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins vera um 176 millj. kr. meiri en áætlað var og vaxtagjöld ríkisins 190 millj. kr. meiri en áætlað var. Einnig fór rekstur framhaldsskóla 150 millj. kr. fram úr áætlun og stofnanir dómsmrn. 160 millj. kr. Loks var viðhalds- og stofnkostnaður um 240 millj. kr. hærri sem aðallega má rekja til fasteignakaupa samkvæmt heimildum í 6. gr. fjárlaga. Skýrist sá munur af

annarri framsetningu á eignakaupum í ríkisreikningi en í fjárlögum. Í fjárlögum eru útborganirnar á árinu eingöngu færðar til gjalda, en í ríkisreikningi eru fasteignakaup hins vegar að fullu gjaldfærð á kaupárinu og á móti eru bókuð tekin lán. Að teknu tilliti til þess eru greiðslur vegna fasteignakaupa í samræmi við fjárlög.
    Ég mun nú víkja örfáum orðum að þeim frávikum sem koma fram hjá hverju ráðuneyti fyrir sig.
    Hvað forsrn. varðar vegur þyngst 2 millj. kr. kostnaðarauki við undirbúning og stofnun umhvrn. og 3,7 millj. kr. vegna heimsókna erlendra þjóðhöfðingja.
    Hvað menntmrn. snertir vegur þyngst rekstrarkostnaður framhaldsskóla og sérskóla og veldur þar mestu að þegar upp var staðið var kostnaður vegna verkfalls kennara í vor meiri en reiknað var með vegna þess að kostnaður við að bæta nemendum upp tapaðan námstíma með aukinni kennslu á haustönn reyndist meiri en hægt var að gera sér grein fyrir í nóvember- og desembermánuði. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því að áætlanir um rekstur grunnskólanna stóðust algjörlega þannig að ekki þarf að sækja um heimildir vegna þeirra.
    Hvað utanrrn. snertir er þar um að ræða 12,8 millj. kr. og vegur þar þyngst greiðsla vegna Þróunarsamvinnustofnunar að fjárhæð 6 millj. kr. sem eru vegna hækkunar á gengi umfram forsendur fjárlaga og framlags frá fyrra ári vegna Alþjóðabarnahjálparstofnunarinnar. Þá urðu greiðslur vegna skrifstofu ráðherranefndar Norðurlandaráðs um 4 millj. kr. umfram heimildir og um 2,6 millj. kr. vegna ýmissa framlaga til alþjóðastofnana. Hvort tveggja skýrist að meginefni af hækkun á gengi umfram forsendur fjárlaga en einnig er um að ræða kostnað vegna veikindaforfalla hjá skrifstofu ráðherranefndar Norðurlandaráðs. Hvort tveggja eru óviðráðanlegar ástæður sem ekki var hægt að gera ráð fyrir á sínum tíma.
    Hvað snertir landbrn. er aðallega um að ræða halla á rekstri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og veiðistjóraembættis sem nemur 8,5 millj. kr. og Skógrækt ríkisins sem nemur 4 millj. kr. Í fjáraukalögum var sótt um viðbótarheimild fyrir Landgræðslu ríkisins að fjárhæð 8 millj. kr. en fyrir mistök féll sú heimild út í meðferð fjvn. Skýrist frávik í greiðslum til
stofnunarinnar í aðalatriðum af þessari greiðslu. Kostnaður við gæðamat á landbúnaðarvörum var 5 millj. kr. meiri en samkvæmt forsendum fjárlaga á að innheimta þá fjárhæð hjá vinnslustöðvunum. Þá fór rekstur búnaðarskólanna 5 millj. kr. fram úr áætlun. Á móti þessu vega óhafnar fjárveitingar, aðallega vegna jöfnunargjalds, þannig að greiðslustaða ráðuneytisins er jákvæð um tæpar 8 millj. kr.
    Hjá sjútvrn. er um að ræða rúmlega 90 millj. kr. umfram heimildir. Þar vega þyngst útgjöld vegna endurgreiðslu söluskatts í sjávarútvegi sem voru 83,7 millj. umfram heimildir, en framleiðslumagnið og útflutningurinn reyndust meiri en ljóst var í nóvember- og desembermánuði þegar gengið var frá

fjáraukalögunum hér á Alþingi.
    Hjá dóms- og kirkjumrn. er um að ræða 159 millj. kr. Af þeirri fjárhæð má rekja um 120 millj. kr. til embætta lögreglu og fógeta. Á móti þessu vegur að á árinu var gripið til harðra aðhaldsaðgerða sem hafa skilað verulega bættum árangri ef miðað er við fyrra ár. Af öðrum liðum má nefna að fangelsismál fóru 12,6 millj. kr. fram úr áætlun og löggæslukostnaður ýmiss konar 20 millj.
    Hvað félmrn. snertir fór rekstur stofnana fatlaðra 26 millj. kr. fram úr áætlun, en á móti því vega óhafnar fjárveitingar á öðrum rekstrarliðum.
    Hjá heilbr.- og trmrn. er um að ræða rúmar 207 millj. kr. Vegur þar þyngst aukin greiðsla til Tryggingastofnunar ríkisins vegna lífeyristryggingadeildar að fjárhæð 176 millj. kr. Þar er um að ræða enn frekari endurgreiðslu á skuld við vörslusjóð stofnunarinnar en áætlað var fyrir í fjáraukalögum. Þessar skuldir hafa safnast upp á undanförnum árum en koma nú til gjaldfærslu. Af öðrum liðum má nefna 27 millj. kr. uppgjörskostnað vegna kaupa á sneiðmyndatæki fyrir Borgarspítalann sem keypt var á árinu 1988 með vísun til heimildar í 6. gr. fjárlaga.
    Hvað fjmrn. snertir vega þar þyngst 185 millj. kr. vegna fasteignakaupa. Þessi munur skýrist, eins og ég gat um áðan, af annarri framsetningu á eignakaupum í ríkisreikningi en í fjárlögum. Þá urðu greiðslur vegna Ríkisábyrgðasjóðs 80 millj. kr. umfram fjárlög þar sem meiri ábyrgðir féllu á ríkissjóð en áætlað var. Af öðrum liðum má nefna 27 millj. kr. viðbótarútgjöld við rekstur Gjaldheimtunnar í Reykjavík en hún er kostuð af ríki að hálfu á móti Reykjavíkurborg.
    Hvað samgrn. snertir er um að ræða viðbótarheimild upp á rúmar 23 millj. kr. Þar vega þyngst greiðslur til Flugmálastjórnar og þátttaka í vaxtakostnaði af láni sem Arnarflugi var veitt árið 1985 með heimild í sérstökum lögum þar um.
    Hjá iðnrn. eru óhafnar fjárveitingar tæplega 50 millj. kr. og er nánari grein gerð fyrir málefnum ráðuneytisins í grg. með frv.
    Hjá viðskrn. eru um 70 millj. kr. vegna aukinna niðurgreiðslna umfram áætlanir.
    Hjá Fjárlaga- og hagsýslustofnun eru rúmlega 178 millj. kr. vegna aukinna vaxtagreiðslna.
    Eins og þessi upptalning sýnir er hér um að ræða, hvað allar stærstu upphæðirnar snertir, niðurstöðu sem erfitt var að meta nákvæmlega í nóvember- og desembermánuði hver yrði endanleg vegna bæði gengisbreytinga og meiri kostnaðar sem féll á ríkissjóð af ýmsum ástæðum sem aðallega eru utanaðkomandi og ég hef hér rakið.
    Ef litið er til fjárstreymis milli A- og B-hluta ríkissjóðs árið 1989 kemur í ljós að tilfærslur til B-hluta fyrirtækja og sjóða urðu um 177 millj. kr. lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir en um 61 millj. kr. lægri en samkvæmt fjárlögum að viðbættum fjáraukalögunum fyrir árið 1989. Á hinn bóginn urðu skil B-hluta fyrirtækja í ríkissjóð talsvert lægri samkvæmt endanlegu greiðsluuppgjöri en fjárlög gerðu

ráð fyrir.
    Frávik hjá einstökum stofnunum urðu talsvert meiri en samtölur fyrir greiðslustreymi milli A- og B-hluta sýna. Stærsta frávikið til hækkunar varð hjá Ríkisábyrgðasjóði en greiðslur til sjóðsins urðu um 8 millj. kr. umfram fjárlög. Á móti vegur að greiðslur vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs urðu 70 millj. kr. lægri en áætlað var og greiðslur til Póst- og símamálastofnunarinnar 25 millj. kr. lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir og er það vegna minni skila ICAO-tekna en áætlað var í fjárlögum. Þá urðu greiðslur til Orkusjóðs um 49 millj. kr. lægri en fjárlög að viðbættum fjáraukalögum.
    Sex fyrirtækjum í B-hluta ríkissjóðs var ætlað að skila hagnaði af starfsemi sinni í ríkissjóð. Skil þessara fyrirtækja til A-hluta ríkissjóðs urðu um 582 millj. kr. lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir en um 98 millj. kr. hærri en samkvæmt áætlun fjárlaga að viðbættri áætlun laga nr. 111/1989.
    Stærsta frávik til lækkunar miðað við fjárlög varð hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins en skil fyrirtækisins urðu um 680 millj. kr. lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Stafar það einkum af því að sala á innlendum bjór varð hlutfallslega umtalsvert meiri en gert hafði verið ráð fyrir, en tekjur Áfengisverslunarinnar af sölu á innlendum bjór urðu minni en tekjurnar af sölu á erlendum bjór. Einnig var fallið frá áætlun fjárlaga um að hækka verð á áfengi og tóbaki umfram almennar verðlagshækkanir.
    Þá urðu skil sölu varnarliðseigna verulega lægri en áformað var eða sem nemur 31 millj. kr. Á móti þessu vegur að afkoma Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli fól það í sér að skil hennar í ríkissjóð urðu 127 millj. kr. hærri en upphaflega var áætlað og skil Flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli rúmlega 3 millj. kr. hærri en áætlað var.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir því hverjar eru helstu ástæður þess að nú er lagt til við Alþingi að veita heimildir fyrir um það bil milljarði umfram það sem gert var í fjáraukalögum sem hér voru samþykkt í desembermánuði. Það er út af fyrir sig eðlilegt að þingmenn kunni að spyrja hvers vegna ekki var hægt að gera ráð fyrir þessu í fjáraukalögum sem hér voru samþykkt í desembermánuði. Skýringarnar eru margþættar eins og ég hef hér rakið. Varðandi marga af þessum þáttum var ekki hægt fyrr en við lok ársins að áætla eða sjá nákvæmlega hver umframgjöldin kynnu að verða. Það hefði svo sem mátt vera með einhverja almenna upphæð í fjáraukalögunum til þess að ætla fyrir þessu en það var ekki kosið að fara inn á þá braut þegar fjáraukalög voru í fyrsta sinn lögð fyrir þing á yfirstandandi ári eftir 70 ára hlé. Ég tel þess vegna að mörgu leyti að þessi útkoma staðfesti að breytingarnar hafi á ýmsan hátt verið e.t.v. minni en gera mátti ráð fyrir ef litið er til þess að ekki var hægt að byggja á reynslu neinna undanfarinna ára hvað snertir mat annars vegar í nóvember og desember og hins vegar endanlegt uppgjör í árslok. Ég tel því að reynslan af

samþykkt fjáraukalaga í desember í fyrra og vinna fjvn. og fjmrn. að því máli í nóvembermánuði sé dýrmætt veganesti fyrir okkur á þessu ári þegar við reynum að stýra gerð fjáraukalaga að þeim markmiðum sem ég vænti að þingmenn séu sammála um að festa í sessi.
    Ég mælist svo til þess að að lokinni 1. umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. fjvn.