Fjáraukalög 1989
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh., sem hér var að ljúka ræðu sinni og mæla fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 111/1989, fjáraukalögum fyrir árið 1989, var að þessu sinni óvenju hógvær í sínum málflutningi. Hann talaði á lágu nótunum að þessu sinni og var hvergi nærri í essinu sínu og var ekki í sínum venjulega ham þegar hann er hér í þessum ræðustól að tala fyrir málum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Hæstv. fjmrh. var sem sé að kynna fyrir Alþingi hvernig niðurstaðan hefur orðið og útkoman úr fjármálastjórninni á hans fyrsta fjárlagaári. Það frv. sem hér liggur fyrir er dómur um fjármálastjórnina á árinu 1989 og með því frv. liggur fyrir niðurstaðan á því hvernig til hefur tekist af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh. á þessu ári, á árinu 1989.
    Hæstv. fjmrh. var miklu mynduglegri í málflutningi þegar hann mælti fyrir frv. til fjárlaga fyrir þetta ár hinn 10. nóv. 1988. Þá var hæstv. fjmrh. að mæla fyrir sínu fyrsta fjárlagafrv. og honum varð tíðrætt um að nú væru tímamót í fjármálum ríkisins og að fram undan væru tímamót í efnahagsmálum þjóðarinnar.
    Hæstv. ráðherra sagði m.a. í þeirri umræðu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við upphaf fjárlagagerðar nýrrar ríkisstjórnar blasti við að halli ríkissjóðs yrði verulegur á næsta ári að óbreyttum tekjum og þeim útgjaldaáformum sem lágu fyrir í Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Ríkisstjórnin setti sér í upphafi það markmið að samþykkja fjárlög með afgangi. Þetta var talið nauðsynlegt til að vinna gegn þenslu og stuðla að lækkun verðbólgu og lækkun vaxta. Til að ná slíku markmiði var nauðsynlegt að skera niður fyrirliggjandi útgjaldaáform og afla ríkissjóði aukinna tekna.``
    Enn fremur segir í framhaldi af þessu í ræðu hæstv. ráðherra að nauðsynlegt sé, til þess að koma í veg fyrir aukningu viðskiptahallans og til þess að unnt sé að ná niður verðbólgu og lækkun vaxta, að reka ríkissjóð með afgangi á næsta ári, þ.e. á árinu 1989.
    Hæstv. ráðherra sagði enn í þessari ræðu sinni þann 10. nóv. 1988, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjárlagafrv. fyrir árið 1989 markast annars vegar af þeim aðstæðum sem hér hefur verið lýst og hins vegar af þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta og koma í veg fyrir aukinn viðskiptahalla á næsta ári þrátt fyrir samdrátt útflutningstekna. ... Ríkissjóður greiðir niður skuldir í stað þess að bæta við þær, eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Stórlega er dregið úr erlendum lántökum opinberra aðila.
    Meginatriði fjárlagafrv. fyrir árið 1989 er að með því er gerð tilraun til að snúa við blaðinu frá þeim hallarekstri sem einkennt hefur ríkissjóð á síðustu árum. Ætlunin er að snúa um 3 milljarða kr. halla á árinu 1988 í rúmlega 1 milljarðs kr. afgang á árinu 1989.``
    Enn segir hæstv. fjmrh. undir lok sinnar ræðu, með leyfi hæstv. forseta: ,,Það er þess vegna mjög brýnt að

Alþingi allt og ríkisstjórn sýni í reynd gott fordæmi. Verk okkar þurfa að endurspegla að við skjótum okkur ekki undan erfiðum ákvörðunum. Við verðum öll, Alþingi og þjóðin í heild, að horfa af fullri ábyrgð framan í þau vandamál sem við er að stríða í efnahagslífinu og í fjármálum ríkisins. ... Berum við gæfu til að snúa við óheillaþróun undanfarinna ára? Höfum við áræði og kraft til að takast á við erfið verkefni og hrinda í framkvæmd óþægilegum og sársaukafullum ákvörðunum?
    Fjárlagafrv. fyrir árið 1989 felur í sér tilraun til að svara þeim spurningum. Í því felst alvarleg viðleitni til þess að tryggja íslenskri þjóð á næstu árum betri lífskjör og traustari efnahag.``
    Svo sem fram kemur í þessum tilvitnuðu orðum í ræðu hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1989 skorti ekki að hæstv. ráðherra lýsti því yfir fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar að nú væri ætlunin að snúa við blaðinu í fjármálum ríkisins, nú væri nauðsynlegt að taka á í fjármálum ríkisins, taka erfiðar ákvarðanir með aukinni skattheimtu annars vegar og auknum niðurskurði útgjalda hins vegar til þess að koma á jafnvægi í fjármálum ríkisins. Nú þyrfti að hafa áræði og kjark til þess að fylgja eftir þessari stefnu og hæstv. fjmrh., eins og fram kom í hinum tilvitnuðu orðum, hét á Alþingi, fjvn., samráðherra sína og jafnvel Ríkisendurskoðun að tryggja það með sér að sú yrði raunin til þess að ná fram því sem hann kallaði nýjum grundvelli fyrir efnahagsstarfsemina á Íslandi.
    Þetta var sá boðskapur sem lá að baki frv. til fjárlaga fyrir árið 1989 og þetta var sá boðskapur sem hæstv. ráðherra útmálaði hér úr þessum ræðustóli þann 10. nóv. þegar hann fylgdi fjárlagafrv. úr hlaði, og þessum boðskap var í raun tekið af hálfu Alþingis á þann hátt að Alþingi stóð ekki að því að spilla þessum ásetningi. Alþingi afgreiddi fjárlög, fjvn. og Alþingi afgreiddi fjárlög með þeim hætti að þar var gert ráð fyrir verulegum tekjuafgangi. Frv. eins og það var lagt fram fól að vísu í sér að þar var gert ráð fyrir tekjuafgangi sem var 1100--1200 millj. kr. en fjárlög voru afgreidd á þann
hátt að tekjuafgangur var 636 millj. kr. Alþingi greip því ekki fram fyrir hendur hæstv. ríkisstjórnar né hæstv. fjmrh. Alþingi varð við áskorun hæstv. ráðherra og afgreiddi fjárlög á þann hátt að gera mátti ráð fyrir að unnt yrði að standa við þau markmið sem hæstv. ráðherra hafði sett sér.
    Nú er komið annað hljóð í strokkinn og það hefur verið það á undanförnum mánuðum, allmörgum. Nú lýsir hæstv. ráðherra því yfir hvernig þessi áform hafi mistekist og að ýmsar aðstæður hafi orðið til þess að ekki hafi verið hægt að standa við þessi áform. Hæstv. ráðherra er sem sé að lýsa því yfir, óvenjulega beygður hér í þessum ræðustól, að ekki hafi tekist að standa við þau áform sem hann hafi sett og hæstv. ríkisstjórn hafði sett í fjármálum ríkisins þegar hún var mynduð. Hann er sem sé að lýsa því yfir að fjármálastjórnin hjá hæstv. ríkisstjórn, hjá hæstv. fjmrh. sjálfum, hafi mistekist á árinu 1989. Og það er

ekki furða þó að hæstv. ráðherra sé beygðari þegar hann er að mæla fyrir þessu frv. en hann oftast er þegar hann er hér í þessum ræðustól.
    Hæstv. fjmrh. á þakkir skilið fyrir það að hann flutti snemma á þessu þingi frv. til fjáraukalaga fyrir þetta umrædda ár, árið 1989. Það fjáraukalagafrv., sem fól í sér útgjaldaauka ríkissjóðs úr 76,4 milljörðum upp í 86 milljarða eða um 8 1 / 2 milljarð, var afgreitt skömmu fyrir jól og þá var því enn lýst yfir af hálfu hæstv. fjmrh. ... Ég sé það nú að hæstv. fjmrh. er að halda flokksfund í sínum þingflokki ( Fjmrh.: Nei.) þó að hann sé kannski ekki aðili að þingflokknum, en hann er að halda fund í flokknum og ræða við sína menn í stað þess að sitja hér til þess að hlýða á mál manna. Ég hefði kosið að ekki yrði nema einn fundur haldinn hér í þessum sal í senn. --- Hæstv. ráðherra lýsti því yfir við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir jól að þá væri fengin lokaniðurstaða í útgjöld ríkisins fyrir árið 1989. Og hann var þráspurður um það hvort ekki mætti vænta þess að útgjöld ríkisins héldu áfram að aukast þrátt fyrir að með fjáraukalögum í desember væri búið að auka heimildir fyrir útgjöldum ríkissjóðs um 8 1 / 2 milljarð. Hæstv. ráðherra taldi að ekki yrði um meiri útgjöld af hálfu ríkissjóðs að ræða en þá voru fengnar heimildir fyrir. Hann taldi sem sé og ítrekaði það að sér væri raunar ekki heimilt að auka útgjöld ríkisins meira en fjáraukalögin hefðu gefið heimildir fyrir.
    Þetta fór enn á annan veg. Þessar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. reyndust einnig markleysa. Í því frv. sem hér liggur fyrir sést að enn hafa útgjöld ríkissjóðs verið aukin frá fjáraukalögum sem samþykkt voru hinn 20. des. sl. um tæpar 1100 millj. kr. Það voru sem sé drjúg verkin hjá hæstv. fjmrh. dagana á milli jóla og nýárs. Aðeins á þeim dögum kom hann því í verk að auka útgjöld ríkissjóðs umfram heimildir sem nam 1073 millj. kr.
    Það var því ekkert einkennilegt þó að hæstv. fjmrh. væri með lágmæltasta móti þegar hann mælti fyrir frv. hér áðan. Niðurstaðan úr fjárlagadæminu á síðasta ári er því þessi að útgjöld hafa aukist um 9,6 milljarða kr. frá því sem fjárlög gerðu ráð fyrir, en tekjur höfðu aukist um 2,9 milljarða kr. frá því sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Og í stað þess að tekjuafgangur væri á fjárlögunum, sem var 636 millj. kr., varð halli yfir 6 milljarðar kr. Þetta er niðurstaðan. Og þetta er dómurinn um fjármálastjórn þessa hæstv. ráðherra á hans fyrsta heila fjárlagaári.
    Hæstv. ráðherra setti sér vissulega góð markmið þegar hann kom og mælti fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1989 héðan úr þessum ræðustóli eins og til var vitnað hér í upphafi máls míns. Og hæstv. ráðherra talaði af býsna miklu steigurlæti um að það þyrfti áræði til þess að leggja fram frv. sem táknaði það að þessum markmiðum ætti að ná og það þyrfti kjark til að fylgja því eftir frá einum mánuði til annars að framkvæmd fjárlaga og ríkisfjármála yrði með þeim hætti að þessi markmið næðust. Það fór hins vegar svo að eftir að Alþingi hafði verið slitið sl. vor, þá þurfti ekki nema örfáar vikur til að breyta þessu

dæmi, dæmi sem sýndi í fjárlögunum hagnað á rekstri ríkisins um 636 millj., í halla upp á 4--5 milljarða kr. Og niðurstaðan liggur sem sé hér fyrir. Hún táknar halla sem er yfir 6 milljarðar kr.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara ofan í einstök atriði í þessari hrakfallasögu hæstv. fjmrh. Hæstv. ráðherra er að skjóta sér á bak við það að þróun í efnahagsmálum hafi orðið öðruvísi en hann hafi gert ráð fyrir þegar lagt var upp með fjárlagafrv. haustið 1988. Hann sagði hér í ræðu sinni áðan, með leyfi hæstv. forseta, ég held að ég hafi tekið það rétt eftir honum:
    ,,Í fyrsta lagi þróaðist verðlag, laun og gengi með öðrum hætti en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Og í öðru lagi voru lagðar kvaðir á ríkissjóð í tengslum við kjarasamninga vorið 1989.``
    Ég hlýt að rifja það upp fyrir hæstv. fjmrh. að í umræðum um fjárlagafrv. fyrir þetta ár, þ.e. árið 1989, var ítrekað vakin á því athygli að forsendur fjárlaganna væru í lausu lofti, bæði að því er varðaði laun, verðlag og gengi. Og ef fjárlögin væru afgreidd með þeim hætti væru þau í rauninni óvenjulega ótraust, nálguðust það að vera marklaust plagg.
    Þetta var auðvitað allt saman hárrétt og satt og þetta vissi vitaskuld hæstv. fjmrh. En hann vissi líka að það var satt sem ég hélt fram úr þessum ræðustóli að það var ógerlegt fyrir hæstv. ríkisstjórn að byggja á forsendum
sem hald væri í án þess að taka stefnu í efnahags- og atvinnumálum, stefnu sem ríkisstjórnin hafði ekki kjark til að taka áður en fjárlög voru afgreidd. Hæstv. ríkisstjórn hraktist síðan til þess, þegar leið á árið, að taka vissa stefnubreytingu í efnahagsmálum. Í fyrsta lagi með gerð nýrra kjarasamninga sem vitaskuld hafði áhrif á launaforsendur og verðlagsforsendur og enn fremur með því að breyta gengi krónunnar á þann hátt að nokkru minni hallarekstur yrði á útflutningsgreinum landsmanna en ella hefði orðið og varð til þess að hluti af útflutningsatvinnuvegunum og hluti af fyrirtækjum útflutnings- og undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar gat starfað áfram. Hluti fyrirtækjanna féll fyrir borð. Hluti fyrirtækjanna varð gjaldþrota. Og enn var það hluti fyrirtækjanna sem gat haldið áfram vegna þess að með sérstökum ráðstöfunum af hálfu millifærslusjóða og skuldbreytingarsjóða og af hálfu Hlutafjársjóðs var mögulegt að halda þessum fyrirtækjum gangandi. Það dugði þó hins vegar ekki fyrir öll fyrirtækin, því að sum þeirra féllu fram af brúninni.
    Í þessu birtist engin afdráttarlaus stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar heldur hraktist hún til þess að gera þessar breytingar og hefði verið betra að hæstv. ríkisstjórn hefði orðið við áskorunum okkar úr stjórnarandstöðunni fyrir áramótin 1988 og 1989, að taka alvarlega stefnubreytingu sem hefði orðið til þess að gera allar þessar hræringar léttbærari fyrir fólkið í landinu en raun varð á.
    Það er því ekkert einkennilegt þó að forsendur fjárlaganna hafi ekki staðist vegna þess að þær voru á sandi byggðar eins og margoft var hér vikið að af

minni hálfu og ýmissa annarra við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989.
    Ég ítreka það að ég tel ekki ástæðu til að fara hér ofan í einstök atriði. Ég legg meira upp úr því við þessa umræðu að það liggur nú endanlega fyrir að
þrátt fyrir óvenjulega digurbarkalegar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1989, yfirlýsingar um stefnubreytingu, yfirlýsingar um að nú skyldi lokið hallarekstri, nú skyldi tekið fyrir eyðslu og sukk í ríkiskerfinu, nú skyldi náð jafnvægi í fjármálum ríkisins, nú skyldi leggja nýjan grundvöll í efnahagsmálum landsmanna, hefur þetta allt farið á annan veg og jafnvel í sumum greinum á verri veg en áður. Þetta liggur nú fyrir með þessu fjáraukalagafrv. og ég tek því að sjálfsögðu ekki fagnandi því að það kemur niður á okkur öllum, íslenskri þjóð, en það er hryggileg niðurstaða af fyrsta fjárlagaári þessa hæstv. ráðherra.
    Ég mun svo vitaskuld taka til athugunar ýmsar einstakar greinar frv. og væntanlega ekki síður hv. meiri hl. fjvn. Við munum auðvitað allir sem þar eigum sæti taka til athugunar ýmsar greinar frv. og ræða þær e.t.v. frekar hér við síðari umræðu, en á þessu stigi sé ég ekki ástæðu til að fara út í þær í einstökum atriðum þó að sjálfsögðu sé þar af ýmsu að taka sem ástæða væri til að vekja athygli á.