Fjáraukalög 1989
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frv. sem hér liggur fyrir. Þetta er annað frv. til fjáraukalaga sem kemur fram fyrir árið 1989 og má segja að sé lengi von á einum. Eftir er að fjalla um þetta frv. í fjvn. og eftir það gefst kostur á að fara ítarlegar út í umræður um það. Ég sagði að segja mætti að lengi sé von á einum og gæti hugsast að við ættum eftir að sjá fleiri eftirhreytur frá þessu ári þegar fjárlög voru lögð fram með tekjuafgangi, þegar hæstv. fjmrh. sagði er hann mælti fyrir fjárlagafrv. að þó að þróun verðlags, gengis og launa yrði önnur en frv. miðaði við mundi fjárlagafrv. ekki kollvarpast af þeim sökum vegna innbyrðis samhengis sem byggt væri inn í frv. En síðan segir í greinargerð um afkomu ríkissjóðs frá 20. febr. sl. að verðlag, laun og gengi hafi þróast með öðrum hætti en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga þannig að kaupmáttur launa og raungengi krónunnar lækkuðu meira en þar var miðað við og þá virðist þetta innbyggða samhengi ekki hafa dugað til því allt hefur ruglast. Og við sjáum það á þessu plaggi sem hér liggur fyrir að niðurstöður af ríkisbúskapnum eru í flestu aðrar en gengið var út frá.
    Ég vil minna á að hæstv. fjmrh. sagði þegar samningar voru gerðir á sl. ári að hann hefði ekki áhyggjur út af þeim útgjaldahækkunum sem yrðu vegna þeirra vegna þess að þær rúmuðust innan fjárlaganna. Nú hefur hann lýst yfir að töluverður hluti af þeim útgjaldahækkunum sem orðið hafa og eru fram yfir það sem fjárlög gerðu ráð fyrir sé einmitt vegna kjarasamninga á sl. ári. Hæstv. fjmrh. verður gjarnan tvísaga um þessi mál.
    Þetta frv. sem liggur fyrir sýnir okkur svo að ekki verður um villst að þau markmið sem sett voru með gerð fjárlaga fyrir árið 1989 náðust ekki. Ríkisstjórnin hefur ekki haft neina stjórn á fjármálunum og ræður ekki við þau. Og ég held að fáum detti í hug eftir að hafa skoðað niðurstöðurnar af
rekstri ríkissjóðs á síðasta ári að menn geti búist við því að fjármálastjórn yfirstandandi árs verði eitthvað styrkari og það tel ég miður því að slík stjórn bitnar á okkur, öllum landsmönnum.
    Tíminn hefur ekki farið vel með þær yfirlýsingar sem hæstv. fjmrh. hefur látið frá sér fara um nýjan grundvöll í efnahagsmálum, bæði í fjárlögum fyrir árið 1989 og eins fyrir fjárlög yfirstandandi árs. Við sjáum það á niðurstöðunni af rekstri ríkisins sem liggur fyrir á þessu plaggi sem við erum að fjalla um og við vitum það að þessi trausti hornsteinn efnahagsbúskaparins sem fjmrh. nefndi svo þegar hann lagði fjárlögin fram á sl. hausti er þegar að engu orðinn. Hann er molnaður og orðinn að sandi og ég er hrædd um að það þurfi að fara að finna einhvern nýjan grundvöll til að byggja á ef efnahagsstjórn á að verða með einhverjum sköpum í þessu landi.