Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um breytingu á þál. um vegáætlun fyrir árin 1989--1992. Þetta er 465. mál sameinaðs þings á þskj. 811.
    Vegáætlun fyrir árin 1989--1992 var samþykkt hér á Alþingi í maímánuði sl. Þar var mörkuð sú stefna að árið 1990 skyldu markaðir tekjustofnar til vegamála nýttir til fulls, þ.e. að bensíngjald og þungaskattur yrðu hækkuð að því marki sem lög um fjáröflun til vegamála heimiluðu. Þar var einnig sett fram spá um bensínsölu sem gerði ráð fyrir 2% aukningu á árinu 1989 og 1,6% á árinu 1990.
    Nú hefur það skeð að bensínsala árið 1989 varð minni en áætlað var eða um 166 millj. lítrar og ekki er talið líklegt að reikna megi með neinni umtalsverðri aukningu á árinu 1990. Reiknað er nú með 167 millj. lítra sölu á þessu ári eða tæpum 4 millj. lítra minna en var við afgreiðslu vegáætlunar sl. vor.
    Í ljósi efnahagslegrar stöðu nú og með tilliti til þeirra markmiða sem sett voru m.a. við gerð kjarasamninga í byrjun þessa árs hefur ekki þótt fært að hækka á þessu ári gjaldstofna til samræmis við byggingarvísitölu. Einnig ber að geta þess að ákveðið var um mitt sl. ár að hafa bensíngjald á blýlausu bensíni nokkru lægra en á öðru bensíni til að örva sölu þess.
    Af þessum orsökum öllum sem hér er lýst verða markaðar tekjur á árinu 1990, eins og ákveðið hefur verið að beita þeim, mun lægri en áætlað var við afgreiðslu vegáætlunarinnar. Verður því ekki komist hjá því að lækka
gjaldahlið áætlunarinnar til samræmis við þetta þar sem öllum útgjöldum var skipt á verkefnaliði og útgjöldum til nýrra framkvæmda skipt á einstök verkefni. Verður ekki komist hjá því að taka vegáætlun fyrir árið 1990 að nýju til formlegrar meðferðar á Alþingi og því er þessi tillaga flutt.
    Niðurstöðutölur vegáætlunar fyrir árið 1990 voru 5250 millj. kr. en verða 4496 millj. kr. samkvæmt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Heildarlækkun er því 754 millj. kr. Þessi lækkun hefur það í för með sér að nánast allir liðir áætlunarinnar lækka með þeirri undantekningu þó að liðurinn Vetrarviðhald er óbreyttur frá því sem er í gildandi vegáætlun. Miðað við tíðarfar það sem af er árinu og snjóþyngsli um mestallt land þykir ekki fært að lækka fjárveitingu til þessa verkefnis og er hún því óbreytt. Þvert á móti gæti orðið um fjárvöntun að ræða ef tíð verður óhagstæð áfram. Nokkrir litlir liðir í áætluninni eru einnig óbreyttir en allir aðrir lækka.
    Gert er ráð fyrir að fjárveiting í stjórn og undirbúning lækki um 34 millj. kr., sumarviðhald um 163 millj. kr., til nýrra þjóðvega um 421 millj. kr., til brúargerða 28 millj. kr., til sýsluvega um 40 millj. kr. og til þjóðvega í þéttbýli um 60 millj. kr. Liðurinn Til fjallvega o.fl. lækkar um 3 millj. kr. og liðurinn Til tilrauna um 5 millj. kr.
    Hér á undan var tillagan borin saman við gildandi

vegáætlun fyrir árið 1990. Sé tillagan hins vegar borin saman við árið 1989 verður niðurstaðan nokkuð önnur. Veturinn 1989 var óvenju snjóþungur víða um land og setti það mark sitt á útgjöld til vegamála það ár. Heildarkostnaður við vetrarþjónustu á árinu 1989 varð 527 millj. kr. og hefur kostnaðurinn aldrei áður orðið svo mikill. Aukafjárveiting, að upphæð 100 millj. kr., var fengin í fjáraukalögum síðla árs 1989 til að sjá fyrir þessum mikla kostnaði. Sé fjárveiting samkvæmt tillögunni borin saman við þetta er um að ræða lækkun á þessum lið, hátt í 200 millj. kr. á verðlagi 1990. Þessi lækkun samsvarar að mestu leyti þeirri lækkun á heildarútgjöldum til vegamála sem er milli áranna.
    Framlög til nýrra framkvæmda og sumarviðhalds þjóðvega eru nánast hin sömu að verðgildi og urðu á síðasta ári og hefur þá verið tekið tillit til aukafjárveitingar til Ólafsfjarðarmúla, sem færist á árið 1989, sem ákveðin var með fjáraukalögum. Þessar upplýsingar koma skýrt fram í töflu sem birt er sem fylgiskjal með tillögunni og er á bls. 5 í þingskjalinu. Þar kemur skýrt fram í tveimur aftari dálkum þeirrar töflu að fjárveitingar til nýbygginga brúa og fjallavega annars vegar og sumarviðhalds hins vegar eru nánast hinar sömu í krónum talið á sambærilegu verðlagi milli áranna 1989 og 1990.
    Hér hefur verið gerð grein fyrir ástæðum til lækkunar tekna og gjalda vegáætlunar 1990. Þrátt fyrir þessa lækkun verða, eins og ég sagði áðan, útgjöld til framkvæmda á svipuðu róli og verið hefur nokkur undanfarin ár og sjá má í sömu heimild og ég vitnaði til, töflu á bls. 5 í þingskjalinu, þar sem sýnd eru framreiknuð framlög eða heildarútgjöld til vegamála samkvæmt fjárveitingum, og lánsfé, eins og þau hafa orðið á hverju ári frá árinu 1982 að telja. Þar eru allar upphæðir framreiknaðar til áætlaðs meðalverðlags ársins 1990, en það er áætlun Vegagerðarinnar að vegavísitala verði þá 4300 stig.
    Nú er öllum ljóst að þörfin fyrir framkvæmdir á þessu sviði samgöngumála er mjög mikil. Góðar vegasamgöngur eru raunar ein af undirstöðum þess að atvinnulíf og mannlíf í landinu nái að þróast með eðlilegum hætti á næstu árum og áratugum. Engir eiga þar meira í húfi en landsbyggðarmenn og ljóst er að
góðar samgöngur og áframhaldandi samgöngubætur eru nánast forsenda þess og undirstaða þess að atvinnulíf og mannlíf á landsbyggðinni eigi sér sambærilega þróunarmöguleika og gerist á helstu þéttbýlissvæðum landsins.
    Það ber því brýna nauðsyn til þess að komast út úr þeirri sjálfheldu sem fjármögnun þessa málaflokks hefur verið í um langt skeið, og til að vinna að því hef ég ákveðið að biðja þá flokka sem fulltrúa eiga hér á hinu háa Alþingi að tilnefna menn í nefnd sem vinni með samgrn. og Vegagerð ríkisins að því að skilgreina að nýju fjárhagslegan grundvöll fyrir langtímaáætlun um vegagerð. Nefndinni er einnig ætlað að vinna upp nýja tillögu að langtímaáætlun til næstu 12 ára og bréf mun berast þingflokkum og stjórnmálasamtökum sem fulltrúa eiga hér á hinu háa

Alþingi á næstu dögum með ósk um tilnefningu í slíka nefnd. Það er von mín að sú nefnd geti lokið störfum á þessu ári, helst með haustinu, þannig að ný stefnumörkun um framkvæmdir í vegagerð verði afgreidd á Alþingi næsta vetur. Hér yrði um sambærilega tilhögun hvað vinnu snertir að ræða og var á sínum tíma þegar Vegagerð ríkisins var falið með samþykkt hér á Alþingi að vinna tillögur að langtímaáætlun í samráði við sérstakan starfshóp skipaðan fulltrúum allra þingflokka.
    Virðulegi forseti. Ég hef þá ekki fleiri framsöguorð fyrir þessari till. til þál. um breytingu á þál. um vegáætlun fyrir árin 1989--1992 og leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. fjvn.