Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Tillaga sú sem hér liggur fyrir um vegáætlun fyrir árin 1989--1992 er afbrigðileg. Samkvæmt vegalögum er gert ráð fyrir að vegáætlun sé tekin til endurskoðunar á tveggja ára fresti. Ný vegáætlun fyrir árin 1989--1992 var afgreidd hér á hinu háa Alþingi þann 20. maí sl. og ekki gert ráð fyrir því skv. vegalögum að það þyrfti að taka þá vegáætlun til athugunar eða neinna breytinga hér á Alþingi fyrr en á næsta þingi, þ.e. á Alþingi 1990--91. Þessi tillaga sem hér liggur fyrir er samt sem áður flutt og til þess að fá fram breytingar. Þær breytingar eru allar til niðurskurðar, allar í þá átt að draga saman útgjöld til vegagerðar, að draga saman eða fella niður framkvæmdir sem Alþingi hafði ákveðið 20. maí sl. að skyldi vinna á árinu 1990. Þetta er gert þrátt fyrir það að hæstv. samgrh. lýsti því yfir við umræður um vegáætlun á síðasta Alþingi að árið 1989 yrði sérstakt í framkvæmdum varðandi vegagerð að því leyti að þar yrði um niðurskurð að ræða. Þá var um verulegan niðurskurð að ræða, ef ég man rétt um 682 millj. kr. frá því sem gert hafði verið ráð fyrir og frá því sem markaðir tekjustofnar Vegagerðar ríkisins gáfu tilefni til. Því var þá lýst yfir að sá niðurskurður skyldi ekki standa nema það hið eina ár. Og það var skipt hverri krónu sem áætlað var að inn kæmi skv. tekjustofnum Vegagerðarinnar í þeirri áætlunartillögu sem þá lá fyrir.
    Nú er hins vegar komið annað hljóð í hæstv. ráðherra og það hefur auðvitað verið öllum ljóst frá því að fjárlög voru afgreidd að ekki yrði hjá því komist að breyta þeirri áætlun sem samþykkt var hér á Alþingi þann 20. maí. Með fjárlagaafgreiðslu samþykkti hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðar hér á hinu háa Alþingi að skerða útgjöld til vegamála um sem svaraði 675 millj. kr. Með því niðurskurðarátaki sem hæstv. ríkisstjórn stefnir nú að í tengslum við fjáraukalög fyrir 1990 er enn gert ráð fyrir að
skera niður fé til vegamála um 78 millj. kr. Mér reiknast svo til að samtals séu þetta um 753 millj. kr. og skal ekki deila við hæstv. ráðherra um það þó að hann segði þær 754. Það skiptir ekki máli.
    En það skiptir vitaskuld máli að þurfa að standa að því verki að skera niður vegaframkvæmdir sem Alþingi hefur ákveðið fyrir tæplega ári að skyldu unnar á þessu ári og fólkið í landinu sem býr við þessa vegi verður að sætta sig við að þær vegaframkvæmdir sem ákveðnar voru með vegáætlun fyrir tæplega ári komist ekki allar fram. Þetta er sú staðreynd sem fyrir liggur og skal ég ekki ráðast að hæstv. ríkisstjórn fyrir að að hún stefni að því að draga saman útgjöld ríkissjóðs. En það er nokkuð harkalega að verki staðið þegar ráðist er að hinum brýnustu viðfangsefnum, svo sem vegaframkvæmdum, í stað þess að leitast við að gera einhverjar ráðstafanir í sambandi við rekstur ýmissa stofnana ríkisins og þó einkanlega hjá hæstv. ráðherrum sjálfum í aðalskrifstofum ráðuneytanna. Enn er þar um að ræða aukningu á útgjöldum, hjá mörgum þeirra sem mér

a.m.k. sýnist að hægt hefði verið að komast hjá. En það er ekkert uppi á teningnum að þar skuli skera niður. Það er of sársaukafullt fyrir ráðherrana sjálfa því það hittir ýmsa meðreiðarsveina þeirra sem þeir hafa raðað þar á jötuna.
    Það er einnig eftirtektarvert að þegar fjárlög voru afgreidd fyrir þetta ár flutti hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., Páll Pétursson, tillögu um það að heimila að ríkissjóður keypti til viðbótar við það sem áður hafði tíðkast 500 eintök af dagblöðunum. Það er ekki verið að sjá í peningana þegar verið er að verja þeim til slíkra hluta, þegar verið er að kaupa af hálfu ríkisins dagblöð sem helst engir aðrir vilja kaupa og fáir vilja lesa. Samt sem áður var samþykkt að heimila hæstv. ríkisstjórn að kaupa 500 eintök af dagblöðum til viðbótar við þau 250 sem áður höfðu verið keypt. Þetta er gert þrátt fyrir þá miklu styrki sem veittir höfðu verið til útgáfu dagblaðanna af hálfu ríkissjóðs á öðrum stað í fjárlögunum. Ég hygg að þessi 500 eintök kosti eigi minna en svona 30 millj. kr. ( JK: Vill enginn lesa Moggann?) Jú, Mogginn þarf ekki á þessu að halda. Mogginn er vitaskuld keyptur eins og önnur dagblöð af hálfu ríkisins, en Morgunblaðið þarf ekki á því að halda, hv. þm. Jón Kristjánsson, að ríkissjóður sé að kaupa einhvern tiltekinn fjölda af Morgunblaðinu. Morgunblaðið hefur nógan markað og DV hefur líka nógan markað. Þessi tvö dagblöð þurfa ekki á þessu að halda þannig að það eru einhver önnur dagblöð, kannski þau sem standa hv. þm. Jóni Kristjánssyni nær sem þarna er verið að hugsa um. ( PP: Næst.) Já, kannski næst, hv. formaður þingflokks Framsfl. Þar talaði forustumaður þess hv. þm. sem hér var að grípa fram í fyrir mér, sá hinn sami og beitti sér fyrir því hér á hinu háa Alþingi við afgreiðslu fjárlaga að auka útgjöld ríkissjóðs með þessum hætti til þess að einhver þau dagblöð sem standa þessum hv. þm. nærri verði keypt af ríkinu hvort sem einhverjir vilja lesa þau eða ekki. Hv. þm. ætti ekki að vera að kasta steinum að Morgunblaðinu eða lesendum Morgunblaðsins. Ríkissjóður þarf ekki að leggja fram fé til þess að Morgunblaðið sé keypt, það hefur sinn markað og það hefur sína lesendur. Það eru einhver önnur blöð sem þurfa á
þessu að halda. Það eru einhver önnur blöð sem krefjast þess að svo sómakærir hv. alþm. eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 3. þm. Austurl. telja það bara sjálfsagt mál að auka útgjöld ríkissjóðs eins og hver vill hafa til þess að tryggja að einhverjir kaupi þau blöð. Ég skal svo láta þessum orðaskiptum við hv. 3. þm. Austurl. lokið, enda er hægt að taka þá umræðu við annað tækifæri en um vegáætlun.
    En þetta sýnir hvar áherslur hæstv. ríkisstjórnar liggja. Það er ekki verið að huga að því að spara peninga þegar um er að ræða málefni sem snerta rekstur, kannski rekstur á fyrirtækjum sem annast pólitíska blaðaútgáfu eins og hér var vikið að og ekki verið að huga að því að draga saman útgjöld þegar það snertir rekstur á aðalskrifstofum hæstv. ráðherra sjálfra. En það er gengið harkalega í það að draga

saman útgjöld ríkisins og skera niður útgjöld til hinna nauðsynlegustu verkefna svo sem í vegamálum og ýmsum öðrum framkvæmdum þrátt fyrir að Alþingi hafi afgreitt og samþykkt í sundurgreindri áætlun hvað skuli gert í vegamálum, hvað skuli unnið á árinu 1990. Þetta er bara ekkert að marka þegar hæstv. ríkisstjórn þarf að draga saman fé og spara peninga til þess að geta látið meiri peninga í flokksblöðin sín eða til gæðinganna sinna á skrifstofum ráðherranna. Það er málið. Það er þetta sem fyrir liggur.
    Hæstv. ráðherra sagði að á árinu 1990 mundi verða svipað fé til vegamála og verið hefur á undanförnum árum og vitnaði til töflu á bls. 5 í grg. tillögunnar. Það sést þó þar að þetta fé er minna en var á síðasta ári og miklu minna en var á árinu 1988. Ég undrast það sannast sagna að svo virðist samkvæmt þessari töflu að upphæðin hafi verið enn þá lægri en þetta á árinu 1987 því að svo vill til að árið 1987 var metár í framkvæmdum vegamála hér á landi að því er varðar slitlagsframkvæmdir. Þá var lagt bundið slitlag á vegi sem nam alls 305 km. Það var met í framkvæmdum hér á landi á einu ári. Það hefur verið vel á haldið það ár, ég segi það hefur sannarlega verið vel haldið á málum það ár ef rétt er að féð hafi verið minnst í það heila tekið en samt tókst að ná toppárangri í vegaframkvæmdum eins og þetta sýnir. Þá voru lögð bundin slitlög alls 305 km hér á landi.
    Á árinu 1988 var þetta verulega lægra eða 254 km og á árinu 1989 voru ný bundin slitlög aðeins 158 km eða rúmlega helmingur af því sem var á árinu 1987. Þá var hæstv. samgrh. Steingrímur J. Sigfússon kominn í sinn stól. En það stefnir sem sé í það miðað við niðurskurðaráætlanir hæstv. ríkisstjórnar að árið 1990 verði þetta enn minna. Það er ekki hægt að sundurgreina það nákvæmlega miðað við að það er eftir að fjalla um skiptingu á þessum niðurskurðaráætlunum hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar á Alþingi og í fjvn. en það má gera ráð fyrir því að slitlagsframkvæmdir verði einhvers staðar á bilinu 100--150 km. Þetta er nú þróunin sem við blasir í þessum þætti mála og er auðvitað í samræmi við að það er sífellt verið að höggva í það fé sem hér er til umráða.
    Ég hefði áhuga á að fá vitneskju um það hjá hæstv. samgrh. hvort flatur niðurskurður sem boðaður er á framkvæmdafé í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990, um 2%, eigi að hitta framkvæmdafé Vegagerðarinnar ofan á þann niðurskurð sem hér er boðaður. Ef þessi niðurskurður um 2% hittir framkvæmdafé Vegagerðarinnar er þar um verulegar fjárhæðir að tefla. Ef á að taka hann t.d. af öllu fé Vegagerðarinnar er um 90--100 millj. að ræða þannig að það skiptir máli hvort á að taka þetta fé til viðbótar af Vegagerðinni ofan á þann niðurskurð sem er boðaður skv. þessari tillögu og skv. fjárlögum.
    Nú eru skýringarnar á þessum flata niðurskurði á fé til opinberra framkvæmda þær að við gerð kjarasamninga hægi verðbólgan á sér umfram það sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Það náðist sem sagt nýr efnahagsgrunnur sem var á lægri nótum

en hæstv. ríkisstjórn hafði lagt upp með við afgreiðslu fjárlaga og það þýðir að opinberar framkvæmdir verða ódýrari og þess vegna á að vera hægt að ná sparnaði.
    Nú stemmir þetta ekki alveg við þau gögn sem við höfum fengið í hendurnar, til að mynda eins og frá er greint í þessari tillögu sem hér er til umræðu. Þar segir að verðlagsforsendur fyrir þeirri vegáætlun sem samþykkt var á Alþingi 20. maí sl. séu þær að reiknað var með að meðalvísitala vegagerðar fyrir árið 1990 yrði 4066 stig. Á hinn bóginn segir svo neðar í þessum kafla greinargerðarinnar, með leyfi hæstv. forseta: ,,Út frá ofangreindum forsendum`` --- þá er búið að rekja þær breytingar sem þegar eru orðnar frá meðaltali á síðasta ári --- ,,hefur meðaltalsvísitala vegagerðar fyrir árið 1990 verið áætluð 4300 stig`` eða 234 stigum hærri en lagt var upp með fyrir árið 1990 í afgreiðslu vegáætlunar þannig að það er sem sé komið í ljós, samkvæmt áliti hæstv. ráðherra sem flytur þessa tillögu, að vegagerðarvísitala hafi hækkað meira og sé orðin hærri á árinu 1990 en gert var ráð fyrir þegar vegáætlun var samþykkt. Og því leyfi ég mér að spyrja hvort sá flati niðurskurður um 2% sem gert er ráð fyrir að nái yfir allar opinberar framkvæmdir og fé til allra opinberra framkvæmda skv. fjáraukalögum fyrir árið 1990, hvort hann þrátt fyrir þetta eigi einnig að hitta vegagerðarframkvæmdir.
    Það er svo aftur annað mál að í sumum öðrum opinberum framkvæmdum höfum við í fjvn. þær upplýsingar að byggingarvísitala hafi þegar náð því stigi sem gert var ráð fyrir að hún yrði að meðaltali á árinu 1990 þegar fjárlög voru afgreidd, þrátt fyrir það að við höfum fengið þá hófsömu kjarasamninga sem gerðir voru í febrúarmánuði sl. Eitthvað er þetta allt saman einkennilegur málatilbúnaður af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og ákjósanlegt að fá svör við því þegar við fyrri umr. þessarar tillögu hvernig þetta skuli hitta framkvæmdir í vegmálum.
    Ég held að það sé ekki tilefni til þess að vera að fara ofan í þessi efni í öllu ítarlegra máli. Ég hlýt að lýsa því yfir að ég tel það afar óhyggilega að verki staðið hjá hæstv. samgrh. og hæstv. ríkisstjórn að boða miklar framkvæmdir í vegamálum eins og gert var við tillöguflutning við vegáætlunartillögu fyrir rúmu ári síðan, lögfesta skiptingu á því fé í hinum smæstu atriðum og sundurgreina það hvaða vegaframkvæmdir skyldi vinna og hverjar ekki á árinu 1990 og lofa þjóðinni því að þessi vegkafli yrði byggður upp og þessi framkvæmd skyldi unnin og lýsa því jafnframt yfir að það þyrfti enginn að óttast að við þetta yrði ekki staðið, þetta yrði allt saman gert. En koma svo örfáum mánuðum seinna með fjárlagafrv. sem kollvarpar þessum ákvörðunum og koma síðan með fjáraukalagafrv. sem dregur enn úr þeim möguleikum sem eru til þess að standa við þessar yfirlýsingar og þessar samþykktir Alþingis og verða svo hér undir sumarmál að koma upp í ræðustólinn til þess að biðja hv. Alþingi um að staðfesta þetta með niðurskurði á vegáætlun fyrir árið 1990. Þetta eru óheppileg vinnubrögð. Og ég hefði kosið að sjá framan í hæstv. ráðherra í öðru hlutverki,

hefði kosið að hann hefði komið hér og sagt: Ég stend við þær yfirlýsingar sem ég hef gefið og ætla mér að standa á því að sá þýðingarmikli þáttur í framkvæmdum hins opinbera sem eru vegaframkvæmdir fái að halda gildi sínu og ég vil beita mér fyrir því að sparnaður til þess að ná samdrætti í útgjöldum ríkisins komi annars staðar
fram, í rekstri aðalskrifstofa ráðherranna, í pólitískum fjárveitingum o.s.frv., en ekki að verja þetta allt saman og koma hingað til þess að biðja hv. Alþingi um það að skera niður þessar framkvæmdir. Ég hefði sannarlega kosið að hæstv. ráðherra hefði getað haldið á málum með þessum hætti, en ég ræð auðvitað ekki hans háttsemi eða hæstv. ríkisstjórnar. Og ég lýsi því að þetta er ekki þann veg að verki staðið sem ég tel að sé til eftirbreytni við stjórn landsins.