Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ég þakka það að fá að segja hér örfá orð í lokin. Mér urðu það mikil vonbrigði hvernig hæstv. samgrh. talaði nú síðast. Mér heyrist á hans málflutningi að það sé í raun og veru búið að afskrifa Óshlíð sem sérstakt verkefni, það er komið inn í almennu verkefnin. Væru veittar 13 millj. á ári tæki það svona 25 ár að koma Óshlíðinni í það lag sem Vegagerðin gerði ráð fyrir á sínum tíma, það tæki 25 ár, hæstv. ráðherra. Og guð hjálpi þeim hæstv. ráðherrum sem ætla að bjóða Bolvíkingum og vegfarendum um Óshlíð upp á slíkt. Það er út í hött og þá kemur það í ljós að þá framkvæmd sem átti að verða fyrst, á þeirri leið sem var hættulegust, á að skilja eftir. (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka, forseti. Það er svo sjaldan sem ég tala að það er allt í lagi að tala örstutt í viðbót. En ég undirstrika það að með þessu ráðslagi eru forustumenn í stjórnmálum og þá hæstv. ríkisstjórn í reynd að afskrifa Óshlíðina frá Ó-vegakerfinu og skilja hana eftir óleysta eins og mál horfa nú og því verður harðlega mótmælt, ekki bara hér á Alþingi, það mun gerast heima í héraði líka.