Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 03. apríl 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Eftir að hafa rætt þetta mál sem upp kom hérna á síðasta þingfundi nokkuð ítarlega, bæði í nefnd og meðal nefndarmanna í fjh.- og viðskn. Þá hefur meiri hl. a.m.k. orðið ásáttur um að leggja það til að orðalagið verði eins og það er í lagatextanum og draga þess vegna brtt. sem lögð var fram á fundi hér sl. miðvikudag til baka með þeim orðum að þarna sé ekki átt við það sem hv. þm. Halldór Blöndal var að lýsa hér yfir. Við höfum einnig farið yfir þetta með lögfræðingum. Ágreiningsmálið var það að í 4. gr. frv. segir ,,frá banka eða öðrum lánastofnunum án ríkisábyrgðar`` og túlkunin hjá hv. þm. Halldóri Blöndal var sú að án ríkisábyrgðar vísaði bæði til annarra lánastofnana og banka. En hinn rétti skilningur á að vera sá, svo að það sé alveg ótvírætt, að þarna er bara vísað til annarra lánastofnana með orðunum ,,án ríkisábyrgðar``. En tilgangur greinarinnar er sá að fiskeldisfyrirtæki fái ekki ríkisábyrgð að meira leyti en 50% af afurðalánum.
    Ég vildi geta um þetta í þessari umræðu, svo að það komi alveg skýrt fram hvað er átt við með lagatextanum og að það fari ekki á milli mála, og einnig hitt að við höfum fundið aukinn þrýsting frá fiskeldismönnum um það að ýta á með þetta frv. svo það geti orðið að lögum sem fyrst. Því legg ég til að tillaga sem ég flutti ásamt fleirum verði dregin til baka og sú brtt. sem Halldór Blöndal flutti við frv. verði felld þannig að textinn eins og hann var í frv. er það kom frá Nd. verði samþykktur.