Grunnskóli
Miðvikudaginn 04. apríl 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Hér hefur hæstv. menntmrh. mælt fyrir frv. til laga um grunnskóla en hér er um að ræða frv. til allítarlegs lagabálks. Núgildandi lög um grunnskóla eru frá árinu 1974 og því orðin 16 ára gömul og vissulega kominn tími til að huga að endurskoðun þessara laga.
    Grunnskólalög leggja grundvöll að skólastarfi á skyldunámsstigi, þ.e. 7--16 ára eins og skyldunámið er nú. Þetta eru gríðarlega mikilvæg lög eins og liggur í augum uppi. Það er því mjög nauðsynlegt að vanda vel til verka við slíka lagasetningu og Alþingi verður að fá góðan tíma til athugunar á þessu frv. Ég var þess vegna mjög ánægður að heyra hæstv. menntmrh. segja það í sinni framsöguræðu að hann gerði alveg eins ráð fyrir því að þetta þing treysti sér ekki til að afgreiða þessi lög enda er tíminn nú orðinn svo naumur að það er útilokað að unnt verði að gera það að mínu mati. Hitt er annað mál að það er sjálfsagt að kanna það rækilega í menntmn. þessarar hv. deildar og taka út úr það sérstaka atriði sem hann mæltist sérstaklega til, þ.e. um skólaskyldu 6 ára barna.
    Umræða um skólamál hefur verið mikil undanfarin missiri. Það hafa vissulega komið fram ýmsar tillögur og hugmyndir um breytingar á grunnskólalögum en gagnrýni á skólastarf í okkar landi hefur þó ekki síður beinst að því að ekki hafi tekist að koma í framkvæmd ýmsum ákvæðum núgildandi grunnskólalaga. Innra starf skóla hefur einnig verið gagnrýnt. Ég nefni í því sambandi t.d. skýrslu OECD sem kom út fyrir nokkrum árum þar sem ýmis gagnrýni var sett fram á okkar skólastarf. Ýmsir aðrir hafa fjallað mikið um skólastarfið. Ég nefni t.d. Kennarasamband Íslands sem gaf út sérstaka skólastefnu fyrir örfáum árum síðan. Þar var sett fram stefna sem hægt er að taka undir í mörgum greinum.
    Aðdragandi þessa frv. er langur eins og rakið er í grg. með frv. Þar er m.a. vitnað til frv. og þáltill. sem þingmenn Sjálfstfl. hafa flutt á undanförnum
þingum. Ég vil sérstaklega í því sambandi nefna frv. sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og Þorsteinn Pálsson, ásamt þeim sem hér stendur hafa flutt um skólaskyldu 6 ára barna, lengingu daglegrar skólavistar barna, um forskóla og nákvæmari ákvæði um einkaskóla.
    Ég vil einnig nefna frv. sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir ásamt fleirum hefur flutt um aukna samvinnu foreldra og skóla. Og ég nefni einnig þáltill. sem flutt var á síðasta þingi um lengd skólaárs og samfelldan skóladag, en ég var 1. flm. að þeirri tillögu ásamt hv. þm. Þorsteini Pálssyni og Ragnhildi Helgadóttur. Þeirri þáltill. var vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Aðalatriði í frv. og tillögum sem sjálfstæðismenn hafa flutt á undanfarandi þingum eru eftirfarandi: Það er skólaskylda 6 ára barna, lenging daglegrar skólavistar barna, almenn heimild til forskóla fyrir 5 ára börn, nákvæmari ákvæði um einkaskóla, aukin samvinna foreldra og skóla, 9 mánaða skóli hjá öllum

og samfelldur skóladagur.
    Þessar tillögur hafa verið í samræmi við niðurstöður samstarfsnefndar ráðuneyta um fjölskyldumál sem skipuð var af hæstv. þáv. forsrh. Þorsteini Pálssyni. Í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun þeirrar ríkisstjórnar var ítarlega fjallað um fjölskyldumál og skipuð samstarfsnefnd ráðuneyta til að fylgja þeirri yfirlýsingu eftir. Sú nefnd skilaði svokallaðri áfangaskýrslu um skóla- og dagvistarmál og hefur sú skýrsla verið birt sem hluti af þskj., þ.e. fskj. með frv. sem lagt var fram í upphafi þessa þings á þskj. 27. Flest þau atriði sem fram hafa komið í okkar frv. hafa verið tekin upp í þetta frv.
    Í athugasemdum við lagafrv. hæstv. menntmrh. er greint frá undirbúningi þess eins og ég gat um áðan. Ég vil aðeins vekja athygli á því að þar segir að skömmu eftir að menntmrh. hafi lagt fram frv. til kynningar á Alþingi á sl. vori hafi það verið sent allmörgum aðilum til umsagnar. Síðan segir: ,,Þær umsagnir sem bárust fylgja frv. þessu.`` --- Það er nú ekki svo því umsagnirnar fylgja ekki frv. Ég vakti hins vegar athygli hæstv. menntmrh. á þessu og hann sendi mér þessar umsagnir og þakka ég honum fyrir það.
    Ég vil líka vekja athygli á því að það er annað sem vantar með þessu frv., þ.e. kostnaðarmat. Nú er það svo að það er lagaskylda samkvæmt lögum sem Alþingi hefur samþykkt fyrir allmörgum árum að frv. sem þessu eigi að fylgja kostnaðarmat og það er að sjálfsögðu lágmarksatriði að hæstv. ráðherrar fylgi þeirri lagaskyldu og láti fylgja kostnaðarmat með frv. eins og þessu því óneitanlega hefur þetta frv. í för með sér allmikinn kostnað.
    Meginbreytingar á gildandi lögum eru tilgreindar í átta töluliðum á bls. 8--21 í grg. og ég mun ræða hverja þessa breytingu fyrir sig í tengslum við einstakar greinar frv. Ég vil þó segja um þá valddreifingu sem boðuð er í frv. að hún er meira í orði en á borði. Það eru stutt skref stigin og sú valddreifing sem fram kemur í frv. er meira að færa einstakar ákvarðanir innan ráðuneytisins en sú valddreifing sem maður hefði viljað sjá, þ.e. að færa meira vald út til sveitarfélaganna og út til skólanna sjálfra, hún er ekki svo mjög áberandi í frv.
    Ég vil frekar segja að það gæti tilhneigingar til aukinnar miðstýringar og vissrar forræðistilhneigingar gagnvart sveitarfélögunum. Í þessu sambandi vil ég rifja upp að við stöndum að nokkru leyti í öðrum sporum nú en við gerðum fyrir ári síðan þegar við ræddum um skólamál. Sú meginbreyting var gerð hér á Alþingi á sl. vori að grunnskólinn var að miklu meira leyti en áður færður yfir til sveitarfélaganna, þ.e. allur stofnkostnaður vegna grunnskólanna er nú á herðum sveitarfélaganna og þau sjá um rekstur grunnskólanna en ríkið greiðir hins vegar laun kennara og þeirra sem vinna skyld störf. Hérna er um mjög breyttar forsendur að ræða og mér finnst að í þessu frv. hafi ekki verið nægilega mikið tekið tillit til þess. Ég skil ummæli ýmissa sveitarstjórnarmanna þegar þeir segja: Ríkið er núna búið að færa grunnskólann

yfir á sveitarfélögin og þá ætlar ríkið sér að setja lög sem leggur miklar og auknar skyldur og meiri kostnað á sveitarfélögin en áður var.
    Þetta er atriði sem ég held að þurfi að athuga miklu nánar í tengslum við undirbúning og endanlega samþykkt þessa máls og reyndar eru sum atriði frv. þannig að þau verða ekki samþykkt nema í miklu nánari samvinnu við sveitarfélögin en gert hefur verið með undirbúningi frv.
    Ég skal líka viðurkenna að þau frv. sem ég hef t.d. staðið að á síðasta þingi og reyndar í upphafi þessa þings eru að vissu leyti þessu sama marki brennd. Þau eru byggð á þeirri forsendu sem var að ábyrgð á rekstri grunnskóla og byggingum sé fyrst og fremst á höndum ríkisins en sveitarfélögin greiði einungis ákveðinn kostnað þar af.
    Það er t.d. spurning hvort eigi að setja í lög ákvæði eins og skiptingu sveitarfélags í skólahverfi. Það er líka spurningin um hvort eigi að kveða jafnsterkt að orði eins og gert er, að stefnt skuli að heildstæðum og einsetnum skóla með ekki fleiri en 650 nemendur. Það er líka spurning hvort eigi að leggja þá skyldu á sveitarfélög að það eigi að leita eftir samþykki menntmrn. fyrir skólamannvirki sem ákveðið hefur verið að reisa og til framkvæmda kemur. Er það ekki eðlilegt verkefni byggingarnefnda á viðkomandi stöðum að fylgja því eftir að öllum lögum sé fylgt varðandi skólamannvirki? Það er enn fremur spurningin hvort það eigi að vera verkefni menntmrn. að ákveða í reglugerð hvaða búnaður og kennslutæki skuli vera í skóla. Þetta eru allt spurningar sem mér finnst nauðsynlegt að hugleiða betur eftir þessar breyttu forsendur.
    Þegar rætt er um valddreifingu í athugasemdum við frv. er líklega fyrst og fremst átt við ákveðin verkefni sem eru færð úr ráðuneyti samkvæmt ákvæðum frv. Meinið er hins vegar það að verkefni þessi eru fyrst og fremst færð til fræðsluskrifstofanna en hvorki til sveitarstjórnarmanna, skólanefnda né skólanna sjálfra nema að sáralitlu leyti. Samkvæmt núgildandi lögum, þ.e. sveitarstjórnarlögunum sem breytt var á síðasta þingi, eru fræðsluskrifstofurnar alfarið ríkisstofnanir, eins konar útibú menntmrn. Því er hér miklu frekar um breytt verklag að ræða innan ráðuneytisins en valddreifingu innan grunnskólakerfisins. Það verður heldur ekki sagt að foreldrar fái aukinn íhlutunarrétt um málefni grunnskólans samkvæmt ákvæðum frv. Að vísu er kveðið á um það í 18. og 21. gr. að foreldrar skuli eiga áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt að skólanefndum og fræðsluráðum. En hér er eingöngu verið að staðfesta það sem þegar tíðkast. T.d. hafa foreldrar í Reykjavík, svo að ég nefni nú þann stað sem ég þekki hvað best, ávallt átt áheyrnarfulltrúa í skólamálaráði borgarinnar.
    Þá er þess getið í 9. gr. að foreldrar skuli eiga fulltrúa í svonefndu grunnskólaráði. Því er fyrst og fremst ætlað að hafa ráðgjafar- og umsagnarhlutverk svo naumast eiga foreldrar verulegan íhlutunarrétt í gegnum það ráð. Kennarahópur hvers skóla fær tvö ný

hlutverk samkvæmt frv. Samkvæmt 30. gr. þess er kennararáði ætlað að vera umsagnaraðili um umsóknir um stöðu skólastjóra og samkvæmt 38. gr. er skólastjóra gert að velja umsjónarkennara í samráði við kennararáð. Þessi ákvæði bæði eru umdeilanleg og geta auðveldlega snúist upp í andhverfu valddreifingar.
    Samkvæmt 32. gr. er skólastjóra falið að ráða kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði í samráði við skólanefnd sem ráðuneytið síðan staðfestir. Hér er e.t.v. stigið spor í átt til valddreifingar, þótt reikult sé, vegna þess að ráðuneytið á að staðfesta ráðningarnar. En í framkvæmd getur það aðeins orðið tilfærsla á ákveðnum verkþáttum frá ráðuneyti til skólanna. Sveitarfélögum hefur nú verið falinn rekstur grunnskóla eins og ég gat um áðan og því verður að teljast eðlilegt og rökrétt að sveitarfélögin fái einnig verkstjórnarvald
yfir því fólki, a.m.k. því sem sveitarfélögin ráða eða greiða laun. Þess vegna finnst mér að ekki sé nægilegt tillit tekið til þess í frv.
    Ég vildi láta þessi orð nægja í upphafi um valddreifinguna í frv. og ítreka að hún er ekki eins mikil og af er látið í greinargerð með frv.
    Í I. kafla frv. er fjallað um markmið og skólaskyldu. Þar er sú meginbreyting gerð að nú er kveðið á um fræðslu- og skólaskyldu 6 ára barna. Ég er samþykkur því ákvæði, enda er það í samræmi við þær hugmyndir og tillögur sem við sjálfstæðismenn höfum flutt. Í greinargerð með frv. kemur
fram að nú sækja 95% 6 ára barna forskóla. Kennslumagn fyrir 6 ára börn er miðað við fjölda þeirra í viðkomandi skóla. Það er ein stund á viku fyrir hvert barn. Þetta þýðir að nemendum er mismunað stórlega þar sem kennslustundir geta verið allt frá einni stund á viku í minnstu skólunum upp í 20 í þeim stærstu.
    Í 2. mgr. 1. gr. er sambærilegt ákvæði og er í 74. gr. gildandi laga. Þar segir: ,,Sveitarfélögum eða einkaaðilum er óheimilt að reka skóla fyrir börn undir skólaskyldualdri nema með leyfi menntamálaráðuneytisins.`` Ég vek athygli á að strax í 1. gr. er ekki um valddreifingu að ræða, eins og hæstv. menntmrh. hefur haldið fram. Nú er þetta vald sem áður var í höndum fræðslustjóra, þ.e. að heimila sveitarfélögum eða einkaaðilum að reka forskóla, fært í hendur menntmrn. Vildi ég inna hæstv. menntmrh. eftir því hvernig á því stendur að nú þykir nauðsynlegt að menntmrn. fjalli um það sem fræðslustjórarnir fjölluðu um áður, þ.e. heimild til þess að reisa og reka forskóla. Það er ekki í samræmi við valddreifingarhugmyndir hæstv. ráðherra.
    Í 2. gr. frv. er talað um hlutverk grunnskólans. Það gleður mig auðvitað mjög að þarna skuli vera fjallað um að starfshættir skólans skuli mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Þetta er nefnilega gamalt deilumál hér á Alþingi. Þegar grunnskólalögin frá 1974, sem þáv. hæstv. menntmrh. Magnús Torfi Ólafsson flutti, voru rædd á þingi var flutt brtt. við það frv. um að kristilegt siðgæði væri eitt af þeim markmiðum sem

skólinn ætti að starfa eftir. Um það var tekist á hér á hv. Alþingi. Alþb. lagðist mjög hart gegn því en engu að síður var sú brtt. samþykkt. Ég er mjög ánægður yfir þessum breytta hugsunarhætti hæstv. menntmrh. og þeirra alþýðubandalagsmanna.
    Í 3. gr. er fjallað um að grunnskólinn sé tíu ára skóli. Það er auðvitað í fullu samræmi við 1. gr. frv. þar sem skólaskyldan og fræðsluskyldan fer niður í 6 ára aldur. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað sjá og talið nauðsynlegt að þessu fylgdi nánari skilgreining. Þó stór hluti 6 ára nemenda sé í grunnskóla í dag vitum við að það er ekki nema jafnvel örfáir klukkutímar, eins og ég gat um áðan. Við erum sem sagt að lengja skólatíma barna um eitt ár. Ég hefði talið að mikil nauðsyn væri á að endurskipuleggja grunnskólanámið með tilliti til þessa, að við erum að bæta einu ári við. Maður spyr auðvitað sjálfan sig: Hvernig stendur á því að við Íslendingar útskrifum okkar stúdenta miklu eldri en aðrar þjóðir? Ég hefði talið að í tengslum við þetta ættu að koma hugmyndir og leiðbeiningar um endurskipulagningu grunnskólans. Þegar ég var í menntmrn. skipaði ég nefnd sem ég veit ekki hvað varð af en núv. hæstv. menntmrh. tók við. ( Menntmrh.: Hún er að störfum ...) Það er gott að vita, en sú nefnd átti einmitt að fara yfir bæði grunnskóla- og framhaldsskólastigið með þátttöku fólks úr báðum þessum skólastigum og líka úr háskólastigi einmitt til þess að endurskipuleggja námið og leggja fram hugmyndir um það hvort ekki væri hægt að lækka okkar stúdentsprófsaldur í samræmi við það sem gerist í öðrum löndum.
    Mér finnst vafasamt, og þá með tilliti til þess sem ég hef sagt hér áður um nauðsynleg afskipti sveitarfélaganna af stefnumótun í grunnskólamálum, að setja ákvæði eins og það í 3. gr. að stefnt skuli að því að hver grunnskóli sé heildstæður og einsetinn og nemendur séu ekki fleiri en 650. Ég staldra við orðið heildstæður, en það þýðir t.d., ef þetta kemst í framkvæmd, að smábarnaskóla eins og skóla Ísaks Jónssonar, svo að ég nefni dæmi, mundi ekki vera heimilt að starfa eins og hann er í dag. Ekki heldur sérstökum unglingaskóla eins og t.d. Tjarnarskóla. Ég er ekki sammála þeim hugmyndum sem maður heyrir oft að það sé afar óæskilegt að taka börn úr skóla og flytja á milli skóla á miðjum skólaaldri. Ég held að slíkir skólar skapi vissa fjölbreytni í skólastarfi og gefi meiri möguleika. Ég held að það sé einmitt það sem við þurfum á að halda. Og þegar talað er um í frv. að ekki skuli vera fleiri nemendur en 650, þá eru ákvæði af þessu tagi auðvitað miðstýringarákvæði. Við eru búin að leggja rekstur og stofnkostnað grunnskóla að svo miklu leyti í hendur sveitarfélaganna sem raun ber vitni og þau eiga auðvitað að hafa meira um þetta að segja til þess að geta komið á þeim nauðsynlega sveigjanleika sem fari eftir gríðarlega mismunandi aðstæðum á hverjum stað fyrir sig.
    Í 6. gr. er fjallað um skólasókn. Mér sýnist að í þeirri grein sé nokkuð dregið úr valdi skólastjóra, hendur hans bundnar, honum lagðar skyldur á herðar að reyna að leysa mál sem snerta verulegan misbrest

á skólasókn í samvinnu við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu og skólanefnd. Ég tel að skólastjóri ætti að geta metið það sjálfur hvenær og í hve ríkum mæli hann vill hafa síka samvinnu. Mér finnst að þetta eigi alfarið að vera mál skólastjóra og eigi ekki að binda hendur hans eða draga úr valdi hans eins og gert er með þessari grein.
    II. kafli fjallar um stjórn grunnskóla. 9. gr. fjallar um grunnskólaráð sem á að vera samstarfsvettvangur menntmrn. og þeirra aðila er starfa að málefnum grunnskóla. Verkefni þess eru m.a. að hafa yfirlit yfir lög og reglur sem varða grunnskóla, gefa ráð um lagfæringar á þeim og samræmi á milli þeirra.
Grunnskólaráð á að fylgjast með framkvæmd grunnskólalaga og aðalnámsskrár, veita ráðgjöf og móta stefnu um samræmi í starfi þeirra sem vinna að skólamálum. Þetta á að vera níu manna ráð. Þetta er nú vafalaust gott og blessað. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um ráð af þessu tagi og maður spyr sjálfan sig: Ef þetta ráð á að geta annast þessi verkefni, sem eru gríðarlega mikil, þarf þá ekki að hafa eitthvert starfslið fyrir þetta grunnskólaráð til að vinna fyrir það? Og erum við þá ekki að stefna þarna að einhvers konar nýju bákni? Ég vona að svo sé ekki en ég vonast til að hæstv. ráðherra geti upplýst hvernig þetta er hugsað. Við höfum haft fjöldann allan af slíkum samstarfsráðum á ýmsum sviðum þjóðlífsins en ég held að reynslan hafi sýnt að þau hafa ekki dugað sem skyldi og ekki reynst sérstaklega vel.
    Í 11. gr. er fjallað um fræðsluráðin sem skulu skipuð fimm eða sjö mönnum kjörnum af sveitarstjórn. Nú eru fræðsluráðin orðin vettvangur sveitarfélaga, eins og ég gat um áðan og við samþykktum á síðasta þingi. Við höfum haft í Reykjavík bæði fræðsluráð og skólamálaráð. Það þarf auðvitað að hafa náið samráð við borgarstjórn um fyrirkomulag þessara mála hér í Reykjavík.
    Í 13. gr. er fjallað um ráðningu fræðslustjóra. Ég vek athygli á að bæði setning og skipun varðandi fræðslustjóra er felld niður. Nú er talað um ráðningu. Ég held að það þurfi að kanna dálítið betur hvaða réttaráhrif slíkt kann að hafa. Mér sýnist að hér sé stefnt að því að hætta að æviráða kennara, sem ég tel reyndar af hinu góða og er að því leyti sammála. En mér finnst að menn þurfi að átta sig fyllilega á því hvað það er sem meint er með ákvæði af þessu tagi.
    Í 15. gr. er fjallað um verkefni fræðsluskrifstofa. Þar er þess getið sérstaklega að heimild sé til að þær taki að sér verkefni fyrir sveitarfélög. Það getur verið til bóta að slíkt sé mögulegt en ég velti því fyrir mér af hverju þurfi sérstakt ákvæði um þetta í lögum og af hverju menntmrn. þurfi að heimila sérstakan samning að þessu leyti. Er ekki eðlilegt að það ráðist af hinum staðbundnu ástæðum á hverjum stað? Ég tel að þetta sé eitt af þeim atriðum sem heimamenn ættu að geta ákveðið sín í milli.
    Í 16. gr. er fjallað um skólahverfi. Mér er auðvitað fullljóst, eins og hæstv. ráðherra gat um, að frv. af þessu tagi var flutt af þingmönnum allra flokka í Ed. Það frv. byggðist auðvitað á aðstæðum sem voru fyrir

hendi þegar það var samið, þ.e. áður en sveitarfélögin tóku að sér það verkefni sem þau hafa nú varðandi skólarekstur. Þess vegna hefði ég talið að það þyrfti að hafa miklu nánara samráð um þetta við sveitarfélögin og mikið vafamál að festa í lög reglur af þessu tagi. Það hljóta að vera verkefni sveitarfélaganna á hverjum stað að skipuleggja sitt innra starf. Þau eiga ekki að þurfa að hlíta því að Alþingi komi með lög sem mæla svo fyrir í smáatriðum hvernig þeirra innra starfi skuli háttað. Mér sýnist auk þess að þessi regla eigi eingöngu við um Reykjavík því það er ekkert sveitarfélag með yfir 15 þús. íbúa. Þá er það náttúrlega enn einkennilegra að nú, eftir að sveitarfélögin hafa fengið þetta mikla vald í grunnskólamálum, skuli með lagaboði mælt fyrir um hvernig þau eigi að skipuleggja sitt starf í jafnmiklum smáatriðum og þarna er gert.
    Í 17. gr. er fjallað um skólanefndirnar í skólahverfum. Ég staldra við það að talað er um íbúa í viðkomandi skólahverfi. Við vitum að það er mjög mikil hreyfing t.d. hér í Reykjavík á fólki á milli hverfa. Það mun láta nærri að tíundi hver grunnskólanemandi í Reykjavík flytji milli skóla innan borgarinnar á hverju ári. Þetta getur skapað ákveðin vandkvæði. Auk þess vitum við að börn ganga á milli hverfa, fara í skóla utan við sitt hverfi, og reynt hefur verið að koma því þannig fyrir ef óskir eru um það hjá foreldrum að hliðra þannig til. Að svo miklu leyti sem slíkt ákvæði á heima í lögum er það þá spurning hvort ekki ætti frekar að velja úr hópi foreldra barna í viðkomandi skóla en að byggja á heimilisfangi eins og gert er í frv.
    Í 21. og 22. gr. er fjallað um samstarf skóla og heimila og nemendaráð og ég hef ekki nema gott að segja um þau ákvæði.
    Í 25. gr. er hert nokkuð á skilgreiningum um skólahúsnæði frá því sem verið hefur. Ég held að þetta þurfi að athuga betur í samráði við sveitarfélögin. Ég veit ekki hvort menn hafa hugsað þetta alveg til enda. Þetta eru ansi strangar kröfur sem gerðar eru um skólahúsnæði. Mér verður t.d. hugsað til ýmissa minni skóla í fámenni og spurning hvort ekki þurfi að hafa nánara samráð við sveitarfélög áður en þetta yrði fest jafnrækilega niður í lög og þarna er gert.
    Í 26. gr. er fjallað um nafn á skóla. Þetta er auðvitað smátriði en ég hefði talið að heimamenn ættu að hafa alveg um það að segja. Það þurfi ekki að vera lögbundið að fá umsögn örnefnanefndar. Ef þeir vilja þá gera þeir það en það á ekki að vera lögbundið að mínu mati.
    Í 30. gr. er fjallað um starfslið skóla og í 31. gr. er fjallað um aðstoðarskólastjóra. Ég stenst ekki þá freistingu að vitna í ummæli heimspekideildar Háskóla Íslands um þessa grein. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þegar grunnskólalögin voru í smíðum kom upp orðskrípið ,,aðstoðarskólastjóri`` sem var að vísu ekki það eina. Barnaskóli mátti ekki
lengur heita barnaskóli heldur varð að nefna hann upp

á sænsku grunnskóli. Um þetta segir í athugasemdum Sambands ísl. barnakennara frá 1973:
    ,,Samband ísl. barnakennara leggur til að starfsheitið yfirkennari verði notað í stað orðsins aðstoðarskólastjóri. Orðið aðstoðarskólastjóri er langt og óþjált í notkun og á engan hátt fegurri eða gleggri orðmyndun en orðið yfirkennari sem er orðið fast í sessi í íslensku máli og auðskilið tákn öllum þorra manna.``"
    Ég verð að viðurkenna að mér finnst að heimspekideild Háskóla Íslands hafi nokkuð til síns máls í þessu. Við erum alltaf að útbúa einhver nýyrði sem ekki láta vel í okkar máli og vörpum fyrir róða gömlum og góðum orðum. Ég held að orðið ,,yfirkennari`` hafi mjög ákveðna merkingu í íslensku máli og þurfi ekki orðið ,,aðstoðarskólastjóri``.
    Í 32. gr. er fjallað um ráðningu kennara. Þar segir að skólastjóri ráði kennara, námsráðgjafa og skólasafnvörð í samráði við skólanefnd og innan heimilda fjárlaga. Verði ágreiningur milli skólastjóra og skólanefndar o.s.frv., ég ætla ekki að lesa það en síðar segir: ,,Menntamálaráðuneytið staðfestir ráðningar kennara, námsráðgjafa og skólasafnvarða til starfa í skólahverfi samkvæmt lögum þessum.``
    Í rauninni er ekki hér um að ræða verulega mikla breytingu frá því sem verið hefur. Við vitum hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Skólarnir hafa ráðið sína kennara í raun, þ.e. tekið ákvörðun um það hvaða kennara þeir vilja fá. Síðan hafa þeir skrifað til menntmrn. sem hefur í 99,99% tilfella samþykkt tillögur skólastjóranna og kennaranna og skrifað undir skipunarbréf eða setningarbréf til kennara. Nú er þarna staðfest, sem mér finnst gott, að skólastjóri skuli ráða kennara. Mér finnst hins vegar óþarfi að menntmrn. þurfi að staðfesta þessar ráðningar. Ég held að það eigi að fylgja valddreifingunni sem hæstv. ráðherra fjallar um til enda þannig að skólastjórarnir og skólarnir fái þetta hlutverk. ( Forseti: Forseti heyrir að hv. 2. þm. Reykv. á talsvert eftir af ræðu sinni. Nú er komið að tíma venjulegra þingflokksfunda. Forseti vill spyrja hv. ræðumann hvort hann sé ekki tilbúinn að fresta ræðu sinni þar til málið verður tekið fyrir á nýjan leik, væntanlega nk. föstudag á deildarfundi, en fyrirhugað er að deildarfundir muni hefjast á föstudaginn kl. 1.) Það er sjálfsagt að gera það.