Gjöld fyrir lækninga- og sérfræðileyfi
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi túlkaði svar mitt hér áðan svo að þar hefði ekki verið að finna nein rök. Ég vil aðeins, til nánari skýringar, vegna þess að ég tel þessa ályktun hafa verið nokkuð ranga, benda hv. fyrirspyrjanda á að kynna sér reglugerð sem gefin var út 28. des. 1987, þ.e. eldri reglugerðina, (Gripið fram í.) og ef þingmaðurinn virðulegur er með hana í höndum sér hún auðvitað að í þeirri eldri reglugerð er margvíslegt ósamræmi sem sést t.d. á því að leyfisbréf til heildsölu var í desember 1987, á verðlagi þess árs, ákveðið 70.200 kr. ( GA: Það hefur ekki verið hækkað.) Nei, nei, það er alveg rétt. Það hefur ekki verið hækkað vegna þess að það reis svo langt upp úr öllum öðrum leyfum á sama tíma og leyfi til að stunda tannlækningar var 4000 kr. Í gömlu reglugerðinni var leyfi til umboðssölu á 35.100 kr. á verðlagi í desember 1987, sem er auðvitað mun hærra ef menn reikna það til raungildis 1990, á sama tíma og leyfi til að stunda sérlækningar, en enginn mótmælir því að þeir sem stunda þær eru nú með tekjuhærri háskólamenntuðum mönnum hér í okkar þjóðfélagi, var á 14.300 kr. Leyfi til fasteignasölu á desemberverðlagi 1987 var á 31.200 kr.
    Þannig má auðvitað lengi telja dæmi úr gömlu reglugerðinni þar sem einstök leyfi til starfsgreina sem veita þó nokkuð mikla tekjumöguleika voru verðlögð á örfáar þúsundir króna þar sem aðrar, á desemberverðlagi 1987, voru verðlagðar á tugi þúsunda króna. Og það var þess vegna nauðsynlegt, sérstaklega í ljósi þess vilja Alþingis að aukatekjur ríkissjóðs væru auknar um 200 millj. kr., að samræma þessi gjöld. Aftur á móti voru leyfisveitingarnar til þeirra starfa þar sem menn þurfa oftar á ævinni að sækja um þessi leyfi hækkaðar mun minna eins og fram kom m.a. í einni ræðu sem hér var flutt áðan. Ég vísa því þess vegna til föðurhúsanna að ekki hafi verið að finna rök fyrir þessum breytingum eða þetta hafi verið gert af einhverju
handahófi. Þvert á móti var reynt að búa til eitthvert samræmi í því kerfi þar sem ekkert samræmi ríkti áður. Þau leyfi sem voru óheyrilega lág voru hækkuð. Þau sem voru hins vegar mjög há voru ekki hækkuð.