Fiskvinnslustefna
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Jóhann A. Jónsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. á þskj. 834:
    ,,Hvað hefur sjútvrh. gert til að marka ,,sérstaka fiskvinnslustefnu`` eins og boðað er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 28. sept. 1988?``
    Í stjórnarmyndunarviðræðum í september 1988 varð samkomulag um að móta ,,sérstaka fiskvinnslustefnu``. Þörfin fyrir sérstaka fiskvinnslustefnu er mjög brýn við þær aðstæður sem við búum við í sjávarútvegi á Íslandi. Stærstur hluti af okkar lífskjörum byggist upp á tekjum úr sjávarútvegi. Því er það okkur Íslendingum nauðsyn að sjávarútvegurinn gefi okkur hámarksafrakstur svo standa megi undir sem bestum lífskjörum.
    Tekjurnar í greininni myndast nokkurn veginn jafnt til helminga af veiðum og vinnslu. Mótuð hefur verið sérstök ,,fiskveiðistefna`` til þess m.a. að koma í veg fyrir frekari offjárfestingar í fiskiskipum. Talin er þar mikil þörf á að hagræða í greininni, þ.e. fækka skipum og nýta fjárfestingar betur. Að mörgu leyti gilda sömu rök fyrir því að móta sérstaka fiskvinnslustefnu nú við þær aðstæður sem eru, þ.e. ekki er þörf á nýjum vinnslustöðvum. Fækka þarf frekar vinnslustöðvum sem þýddi um leið meiri vinnslu á vinnslustöð og þar af leiðandi betri nýtingu fjárfestingar.
    Um mótun sérstakrar fiskvinnslustefnu náðist samkomulag við myndun ríkisstjórnar í september 1988. Í stórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar segir, með leyfi forseta, á bls. 11: ,,Mörkuð verður sérstök fiskvinnslustefna.`` Því hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp. til hæstv. sjútvrh.