Fiskvinnslustefna
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Jóhann A. Jónsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið hér, en það verð ég að segja að mér fannst þau lítið koma nálægt þeirri fsp. sem ég bar hér fram. Hún hljóðaði, með leyfi forseta, svo:
    ,,Hvað hefur sjútvrh. gert til að marka ,,sérstaka fiskvinnslustefnu`` eins og boðað er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 28. sept. 1988?``
    Af því sem hæstv. ráðherra sagði má ráða að ekki er ætlun að marka um þetta sérstaka stefnu, heldur að lög um stjórnun fiskveiða, fiskveiðistefnan, skuli samræma fiskvinnslustefnu ásamt öðrum aðgerðum sem verið er að gera.
    Þrátt fyrir allt þetta var um það samkomulag við myndun ríkisstjórnar í september 1988, og eins er það nú í stjórnarsáttmála, að mörkuð skuli sérstök fiskvinnslustefna. Ég lít svo á að sé ekki ætlunin að fara eftir þessum hlutum skuli leita um það samkomulags við þá aðila sem standa að þessari ríkisstjórn, eigi ekki að framfylgja þeim sáttmála sem um hana gildir.
    Þær aðgerðir sem hæstv. ráðherra talaði hér um fullnægja ekki því sem hugmyndin var að fram næðist með mótun sérstakrar fiskvinnslustefnu. Það er mjög langt frá því. Dæmin víða um land sýna okkur og sanna að mikil þörf er á fiskvinnslustefnu. Við getum nefnt sem dæmi að nýlega misstu aðilar á Kópaskeri skip sem þeir gerðu þar út. Eftir situr byggðarlagið og verkunin án þess að hafa hráefni til vinnslu. Auðvitað hefur vinnslan rétt eins og veiðarnar. Auðvitað hefur fólkið úti um landið rétt til þessarar auðlindar. Um þetta þarf að marka sérstaka fiskvinnslustefnu eins og náðst hafði samkomulag um og ég lít svo á að ef á að gera eitthvað annað og ekki að framkvæma þann stjórnarsáttmála skuli um það leitað samkomulags við þá aðila sem að þessu hafa staðið.