Virðisaukaskattur af snjómokstri
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Samkvæmt lögunum um virðisaukaskatt hefur fjmrh. ekki almenna heimild til að undanþiggja snjómokstur virðisaukaskatti. Hins vegar eru lögin á þann veg að fjmrh. hefur heimild í virðisaukaskattslögunum til þess að ákveða að sveitarfélög og ríkisstofnanir, sérstaklega Vegagerð ríkisins, þurfi ekki að greiða virðisaukaskatt af snjómokstri, enda ákveði fjmrh. jafnframt að endurgreiða þessum sömu aðilum virðisaukaskatt af snjómokstri ef þessi þjónusta er keypt af einkaaðilum. Það skilyrði er sett fram til að tryggja jafnræði á milli opinberra aðila og einkaaðila sem er eitt af grundvallaratriðum virðisaukaskattslöggjafarinnar.
    Í samræmi við þá heimild sem fjmrh. hefur í virðisaukaskattslögunum til þess að fella niður með þeim hætti sem ég hef hér lýst virðisaukaskatt af snjómokstri hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum hef ég ákveðið að beita þessum heimildum á þann veg að fella niður virðisaukaskatt af snjómokstri hjá sveitarfélögum og Vegagerð ríkisins í samræmi við heimildarákvæði virðisaukaskattslaganna. Reglugerð sem kveður á um þetta sérstaklega, endurgreiðsluna af virðisaukaskatti og snjómokstri hjá sveitarfélögunum, verður birt í næstu viku.
    Það er þess vegna ljóst að fjmrn. hefur tekið þá ákvörðun að beita þeim heimildum sem eru í virðisaukaskattslögunum til þess að sveitarfélög og Vegagerð ríkisins þurfi ekki að bera virðisaukaskatt af snjómokstri.