Óson-eyðandi efni
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegi forseti. Það hefur verið útbreiddur misskilningur að við Íslendingar þurfum ekki að hafa áhyggjur af loftmengun. Hér sé nóg af hreinu lofti, við séum fámenn þjóð og mengun af okkar völdum smávægileg í samanburði við erlendar iðnaðarþjóðir. Vindurinn er af mörgum talinn sjá um þær mengunarvarnir sem við þurfum á að halda að því er varðar loftmengun. Sem betur fer eru viðhorf nú að breytast að því er þetta varðar. Þær hættur sem steðja að andrúmslofti og jarðarbúum eru margvíslegar. Ein þeirra er eyðing ósonlagsins.
    Nú liggja fyrir vísindalegar sannanir fyrir eyðingarmætti svonefndra freóna og halóna á ósonlagið. Það er því mikilvægt að bregðast strax við og draga úr notkun ósoneyðandi efna.
    Eins og hv. þm. rekur eflaust minni til var staðfestur hér á Alþingi í maí sl. svokallaður Montreal-samningur um takmörkun á notkun og framleiðslu klórflúorefna og halóna. Og eftir því sem mér hefur skilist eru uppi áform um að nýr samningur verði gerður þar sem reynt verði að takmarka enn frekar notkun á ósoneyðandi efnum.
    Hér á landi er eðlilega mikil notkun á ósoneyðandi efnum vegna atvinnustarfseminnar en freón er notað í kælikerfi og þar sem við erum matvælaframleiðsluþjóð er mjög eðlilegt að mikið sé notað af slíkum efnum hér á landi. En það eru ýmsar lausnir til í þessu sambandi. Það er verið að gera
ýmsar tilraunir með önnur efni á kælikerfi. Einnig þarf að fara mjög varlega með þessi efni þegar verið er að skipta um kælikerfi og ýmsar sögur heyrast um það hve óvarlega farið er í sambandi við einmitt freón á kælikerfum. En það er hægt að fara ýmsar leiðir til þess að minnka notkun ósoneyðandi efna. Við höfum m.a. bannað innflutning og notkun á úðabrúsum en það er aðeins hluti af málinu. Ég tel mjög mikilvægt að við höldum áfram að reyna að koma í veg fyrir notkun á þessum efnum hér á landi, ekki bara hvað viðkemur úðabrúsum heldur miklu fleira.
    Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. forsrh. á þskj. 826 spurningar sem hljóðar svo:
    ,,Hvaða reglur gilda um innflutning og notkun ósoneyðandi efna hér á landi?
    Til hvaða ráðstafana hefur verið gripið til að draga úr notkun slíkra efna hérlendis?``
    Ég hef beint spurningu minni til forsrh. þó að ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég gæti hér spurt marga ráðherra um þennan málaflokk því að það eru fleiri sem þarna ættu að máli að koma og e.t.v. umhverfisráðherra en ég taldi rétt að spyrja forsrh. þessarar spurningar nú.