Óson-eyðandi efni
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég viðurkenni að það vakti nokkra undrun mína að fá þessa fsp. Ekkert hef ég á móti því að svara henni út af fyrir sig en ég hef orðið að fá upplýsingar frá þeim ráðuneytum sem þetta heyrir undir og get í raun ekki annað en flutt þær hér.
    Fyrri fsp. var: ,,Hvaða reglur gilda um innflutning og notkun ósoneyðandi efna hér landi?`` Eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Hollustuvernd ríkisins er svarið svona:
    1. Reglugerðarbann við innflutningi og sölu úðabrúsa sem innihalda tiltekin ósoneyðandi dreifiefni var gefin út á vegum heilbr.- og trmrn. 10. febr. 1989. Innflutningsbannið tók gildi 1. jan. sl. Sölubannið tekur hins vegar gildi 1. júní n.k. Fram til þess tíma er leyfilegt að selja úðabrúsa með ósoneyðandi dreifiefnum að því tilskildu að þeir séu merktir sérstaklega með áletruninni: Eyðir ósonlaginu. Lyf eru undanskilin frá þessu banni. Notkun klórflúorkolefna í úðabrúsum er u.þ.b. 25% heildarnotkunar þessara efna á Íslandi árið 1986.
    2. Ísland gerðist einnig aðili að Vínarsáttmálanum og Montreal-samningnum í maí 1989 og er því skuldbundið til að fara að ákvæðum hans að því er snertir notkun klórflúorkolefna og halóna. Samkvæmt ákvæðum Montreal-samningsins skal draga saman notkun klórflúorkolefna um 20% miðað við notkun árið 1986 fyrir árið 1993 og um 50% fyrir árið 1998. Halónnotkunin skal ekki vera meiri 1992 en hún var árið 1986.
    Síðari spurningin er: ,,Til hvaða ráðstafana hefur verið gripið til að draga úr notkun slíkra efna hérlendis?``
    Árið 1988, segir í svarinu frá Hollustuverndinni, skipaði iðnrh. nefnd, ósonnefndina svokölluðu, er var falið það hlutverk að kanna notkun ósoneyðandi efna á Íslandi svo og að koma fram með tillögur um það hvernig mætti draga úr notkun þessara efna. Nefndin skilaði skýrslu í lok ársins 1988. Að tillögu iðnrh. samþykkti ríkisstjórnin 20. des. 1988 tillögur nefndarinnar um aðgerðir til þess að draga úr notkun klórflúorkolefna og halóna. Má líta á þessa skýrslu sem framkvæmdaáætlun í ósonmálefnum fyrir næstu ár. Í tillögum ósonnefndarinnar voru sett fram eftirtalin meginmarkmið:
    1. Að Ísland fylgi þeim aðgerðum sem Norðurlöndin koma sér saman um á vettvangi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar.
    2. Að Ísland gerist aðili að Vínarsáttmálanum og Montreal-samningnum. Og eins og ég hef þegar rakið hefur Ísland þegar gerst aðili að þeim samningi. Sérstakri framkvæmdanefnd, sem skipuð var í febrúar 1989, skipaðri forstöðumönnum frá Iðntæknistofnun Íslands, Hollustuvernd ríkisins og Vinnueftirliti ríkisins, var síðan falið að fylgja eftir aðgerðum til að draga úr notkun ósoneyðandi efna. Norðurlandaþjóðirnar hafa samþykkt að draga hraðar úr notkun ósoneyðandi efna en ákvæði Montreal-samningsins ganga út á og ganga lengra í

sínum aðgerðum. Í norrænu umhverfismálaáætluninni sem undirrituð var í janúar 1989 var samþykkt að notkun á ósoneyðandi efnum yrði helminguð fyrir árið 1995. Ísland stefnir í samræmi við þetta að því að draga hraðar úr notkun klórflúorkolefna en ákvæði Montreal-samningsins kveða á um. Aðgerðir sem áðveðnar hafa verið til að draga úr notkun ósoneyðandi efna eru eftirfarandi:
    1. Bönnuð hefur verið notkun úðabrúsa sem innihalda ósoneyðandi efni, eins og áður er greint frá.
    2. Unnið er að því að endurskoða staðla og reglur um notkun klórflúorkolefna í kæli- og frystikerfum og um eftirlit með slíkum efnum. Unnið er að því að safna og endurnýta ósoneyðandi efni sem til falla úr slíkum kerfum. Notkun á þessu sviði er hlutfallslega mikil hér á landi þar sem fiskiðnaðurinn er svo viðamikill þáttur í atvinnulífinu. Með bættu eftirliti og nýjum reglum mun mögulegt að draga saman þessa notkun þar til ný efni eru komin á markaðinn sem leyst geta af hólmi þau klórflúorkolefni sem notuð eru í dag.
    3. Stefnt er að því að beina neyslu að efnum sem ekki innihalda klórflúorkolefni þar sem slíkt er mögulegt eða að efnum þar sem minna magn af klórflúorkolefnum hefur verið notað í framleiðslu en áður tíðkaðist.
    4. Notkun klórflúorkolefna sem hreinsimiðla í iðnaði hefur verið minnkuð verulega. Samanlagt er reiknað með því að notkun klórflúorkolefna í kæli- og frystikerfum í harðfroðu- og mjúkfroðuframleiðslu og sem hreinsimiðla muni minnka um u.þ.b. 15% fyrir árið 1991.
    5. Í undirbúningi er að setja reglur um notkun halóna í slökkvibúnaði sem miði að því að draga verulega úr almennri notkun.
    6. Loks áætlar Hollustuvernd ríkisins að gefa bráðlega út fræðslubækling um þynningu ósonlagsins og um loftslagsbreytingar. Um er að ræða þýðingu á sambærilegum norskum bæklingi.
    Að endingu er þess að geta að í skýrslu ósonnefndarinnar er gert ráð fyrir endurskoðun framkvæmdaáætlunarinnar fyrir árið 1991. Ég vil því segja það að mér sýnist við standa allsæmilega í stykkinu og við munum fylgja öllum alþjóðlegum samþykktum í þessu efni og vera þar einskis eftirbátur.